09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (2699)

60. mál, lækkun kosningaaldurs

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Í tilefni af þeirri þáltill., sem hér hefur verið mælt fyrir af hv. 1. flm., vil ég láta í ljós, að ég tel tímabært að taka þetta málefni til rannsóknar og meðferðar með það fyrir augum að veita mönnum fyrr kosningarrétt en nú er gert, og tel ég, að það ætti að vera verkefni þeirra, sem sú rannsókn er falin í mþn., að gera till. um, við hvaða aldur skynsamlegt sé að miða almennan kosningarrétt.

Hér er um mjög þýðingarmikið málefni að tefla og því í alla staði eðlilegt, að það sé vandlega athugað, og að mínu viti heppilegt að fela sérstakri n., einmitt mþn., þingkjörinni, forustu í þeirri athugun, sem eðlilega hlýtur að fara fram áður en ákvarðanir eru teknar, og raunar forustu varðandi undirbúning málsins að öðru leyti. Þetta vil ég að komi fram nú þegar við fyrri umr. málsins.