09.12.1965
Neðri deild: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þá hefur hæstv. ríkisstj. hætt við að leggja á hinn fyrirhugaða farmiðaskatt og fundið upp á enn öðrum skatti, og að þessu sinni er lagt til að taka upp sérstakan gjaldeyrisskatt. Það hlýtur að vekja athygli af mörgum ástæðum, að ríkisstj. skuli fara inn á þessa braut. Mikið hafði verið um það rætt, að það væri hlutverk þessarar ríkisstj. að sjá um rétta skráningu á íslenzku krónunni, og ekki minna en tvisvar sinnum þóttist ríkisstj. þurfa að skrá krónuna að nýju, fella gengið mjög verulega og skrá krónuna að nýju. Síðasta gengisskráningin fór fram í ágústmánuði 1961. Þá var verðlagsvísitala framfærslukostnaðar 106 stig, í ágústmánuði 1961. En nú í septembermánuði var vísitala framfærslukostnaðar orðin 174 stig, eða breytingin er í kringum 70%, en gengisskráningin stendur þar, sem hún var sett í ágústmánuði árið 1961. Auðvitað þarf enginn að verða hissa á því, þegar verðlagið breytist svona gífurlega innanlands, en gengisskráningin stendur kyrr, að ýmsir aðilar komist í nokkurn vanda, þeir sem byggja verða rekstur sinn á útflutningi. Þannig er auðvitað komið, að hæstv. ríkisstj. er komin í mikinn vanda fyrir löngu með tekjur ríkissjóðs. Tolltekjurnar og söluskattstekjur og aðrar tekjur ríkissjóðs duga ekki lengur, og þá er farið inn á þá braut að finna út alls konar nýja skattstofna, og einn af þeim er sá, sem nú er boðaður, að ríkissjóður vill taka sérstakar tekjur af öllum seldum gjaldeyri. Það liggur fyrir, að í ýmsum greinum útflutningsframleiðslunnar, sem auðvitað hafa verið leiknar hart í þessum leik öllum, er svo komið, að þær fá ekki nógu mikið fyrir sinn gjaldeyri til að geta haldið áfram, þær eru komnar í þrot, og þær leita til ríkisins og vilja fá ákveðnar greiðslur frá ríkinu. Á síðustu fjárl, var gert ráð fyrir í kringum 50 millj. kr. greiðslu sem sérstökum stuðningi til vissra greina sjávarútvegsins. Nú liggur fyrir, að það þarf að greiða þessum vissu greinum sjávarútvegsins miklu hærri fjárhæð. Það sjá því allir, að sú stefna, sem farin hefur verið, stefnir alveg beint á nýja gengisskráningu. Aðilar krefjast meira verðs fyrir sinn útflutning, og ríkið fer þegar í það að breyta í framkvæmdinni skráningu krónunnar. Það getur ekki verið nema stutt í það, að stigið verði skrefið til fulls, það verði ekki aðeins sölugengið á íslenzku krónunni, sem er orðið rangt, það er búið að breyta því með þessum skatti, heldur þarf einnig að víkja frá kaupgengi krónunnar hjá þeim, sem skila gjaldeyrinum í bankana, og það verður að fara að greiða þeim ákveðnar viðbótargreiðslur við hið skráða gengi. M. ö. o.: það er verið að sigla auðvitað beint inn í það mismunagengi, sem hér var ríkjandi áður og ríkisstj. taldi sig vera sérstaklega kosna til þess að breyta.

Ég veit, að sú afsökun er höfð uppi að þessu sinni, að hér sé um heldur lítið gjald að ræða, það sé aðeins ½% og því raski þetta ekki hlutföllunum mjög mikið. En það var líka svona, þegar hæstv. ríkisstj. lagði á sinn nýja söluskatt í smásölu með efnahagsráðstöfunum sínum árið 1960. Þá var þar aðeins um 3% gjald að ræða, og það var talið ósköp lítið og hóflegt gjald. Svo hækkuðu 3% upp í 5%, svo hækkuðu 5% upp í 7½%, var reyndar meiningin að hafa það 8%, en var þó snúið til baka. Þannig fer auðvitað fyrir þessu ½%. Það getur ekki öðruvísi farið, ef þetta á að vera sú leið, sem ríkisstj. ætlar að fara út úr þessum vanda, sem hún er komin í. Þá verður vitanlega þetta ½% gjald hækkað upp í 1–2% innan skamms og upp í enn fleiri prósent, þegar tímar líða.

Það gefur auðvitað auga leið, að slík gífurleg verðbreyting, sem átt hefur sér stað í landinu á undanförnum árum og er að eiga sér stað núna frá mánuði til mánaðar, fær ekki staðizt. Það, sem hefur bjargað, eins og hér hefur verið bent á áður, í þessum efnum, er aðeins það, að það hefur verið hægt að halda slíku við, að láta skráningu krónunnar, sem gerð var í ágústmánuði 1961, standast, en stöðva þó ekki svo að segja alla okkar útflutningsframleiðslu, — ástæðan er aðeins sú, að yfir hefur gengið alveg óvenjuleg aflagengd og mjög miklar og óvenjulegar verðhækkanir hafa verið á okkar útflutningsvörum á erlendum markaði. Um leið og dregur eitthvað úr þessari verðhækkun, er efnahagskerfið hrunið. Og ég trúi því ekki, að hæstv. forsrh. og aðrir þeir, sem um þessi mál hugsa, geri sér ekki grein fyrir því, að til þess arna hlýtur að koma innan skamms, því að það er verulega ólíklegt, að bæði aflinn og verðlagið á erlendu mörkuðunum haldi áfram með svipuðum hætti og verið hefur, t.d. s.l. 2 ár. Og hefur þó aflaaukningin og verðlagshækkunin á erlendum markaði varla haldið í við verðlagsþróunina innanlands. En allar horfur sýnast mér vera á því, að verðlagsþróunin innanlands haldi áfram með ekki minni hraða en verið hefur. Þá hlýtur þetta að steypast um koll, verði ekki fundin ný ráð. Þessi smáskammtalækningaraðferð, sem nú er tekin upp af hæstv. ríkisstj., að finna út nokkra smáskatta, fá að hækka aukatekjur ríkissjóðs, frv. um það var hér næst á undan á dagskránni, upp á 22 millj., það á að leggja á þennan litla gjaldeyrisskatt upp á 35 millj., það er hækkaður benzínskattur um 60 millj., og það á að leggja á sérstakt rafmagnssölugjald á alla rafmagnssölu í landinu upp á 40 millj., — slíkar leiðir sem þetta fá vitanlega engu bjargað. Það er aðeins hægt að sleppa í gegn í örfáa mánuði með ráðum sem þessum, en þau taka fljótt enda. Og þá er vitanlega ekki annað eftir en það, að það má fyrst byrja á því að hækka þetta um ½%, t.d. upp í 2–3%, og enn hækka bæturnar til vissra greina sjávarútvegsins, og síðan taka menn auðvitað kollhnísinn í einu lagi og breyta gengisskráningunni með tilheyrandi erfiðleikum á efnahagssviðinu.

Nei, hér er vitanlega ekki um neitt annað að ræða en það, að það þarf að takast á við vandamálið sjálft, sem er verðlagsþróunin innanlands. Ég veit, að þegar á þetta er minnzt, er gjarnan sagt, að það sé hægara að segja þetta heldur en að framkvæma það, og ég skal vissulega játa það. Hér er um mikið vandamál að ræða. En mér sýnist, að hæstv. ríkisstj. hafi enga tilburði uppi um að reyna að ná samkomulagi við þá. sem hún þarf að ná samkomulagi við, um að leggja einhverjar hömlur á verðhækkanirnar í landinu. Ég hef sagt það hér sem mína skoðun, að ég álít, að það fyrsta, sem þurfi að gera, ef eigi að reisa hér einhverjar hömlur gegn síhækkandi verðlagi í landinu, sé það, að ríkisstj. á að viðurkenna, að það verður ekki, eins og ástandið er í landinu, komizt hjá því að hafa fulla stjórn á verðlagningarmálunum, það þurfi að taka upp sterkt verðlagseftirlit, eins og málum er nú háttað hjá okkur. Það kerfi, sem nú er í gangi, að jafnmargir aðilar geti fengið að ráða verðlagningunni sjálfir eins og henni ráða nú, fær ekki staðizt. Hér ríkja ekki þau lögmál nú hjá okkur, að hið almenna framboð og eftirspurn geti haldið verðlagningunni í skefjum. Þeir eru allt of margir nú, sem geta ákveðið það í gróðaskyni að gerbreyta um verðlagningu svo að segja frá degi til dags. Þeir nota sitt frelsi á þann veg, og það er því alveg óhjákvæmilegt, að ríkisstj. taki þessi mál í sínar hendur og sjái um það, að verðlagið sé ekki spanað upp á þann hátt, sem verið hefur.

Auðvitað þarf ríkisstjórnin að brjóta þarna nokkuð odd af oflæti sínu og játa það, að stefna hennar í verðlagningarmálunum hafi verið röng, hún fái ekki staðizt, það sé ekki skilyrði fyrir hana, eins og sakir standa. En hún verður að gera það. Og í öðru lagi tel ég, að ríkisstj. verði að viðurkenna það einnig, að það verði að taka fjárfestingarmálin öll undir nokkuð sterka stjórn, það sé ekki hægt að komast hjá því, eins og framkvæmdum og atvinnulífi öllu er nú háttað í okkar landi, þá verði að hafa hér stjórn á fjárfestingunni, annars fari í rauninni allt úr böndunum. Þessi takmarkaða stjórn, sem ríkið hefur reynt að hafa áhrif á, þ.e.a.s. á beinar framkvæmdir ríkisins eða opinberra aðila, nær allt of skammt. En það skal ég svo játa, að ríkisstj. þarf þá miðað við það ástand, sem nú er í okkar landi, því að það þarf að taka tillit til þess, að það er ekki aðeins mikið um beinar framkvæmdir, þ.e.a.s. stofnframkvæmdir, heldur er, sem betur fer, vil ég segja, þannig háttað í okkar landi, að atvinnuvegirnir standa þannig, að þeir gefa svo mikið af sér, þeir leggja svo mikið með sér núna, að þar verður meiri atvinnuþensla en er á venjulegum tímum, það er vitanlega engin von til annars, það þurfa fleiri hendur að koma til, þegar aflinn vex um 20% eða þar yfir svo að segja á hverju ári. Og þar er um vissar greinar að ræða, sem gefa vel af sér, sem hafa þar af leiðandi fulla möguleika á því að ráðast í margháttaðar framkvæmdir, einnig í beinum tengslum við framleiðslulífið. En þetta ástand ásamt með fjárfestingarframkvæmdunum öllum, þetta er þannig, að það mun valda slíkri spennu í þjóðfélaginu, að það fær enginn við hana ráðið, nema höfð sé á þessum málum allsterk yfirstjórn. En ef ríkisstj. velur þá leiðina að ákveða, að hér skuli ráðizt í byggingu alúminíumverksmiðju á þeim grundvelli, sem markaður hefur verið, og byggingu hins mikla raforkuvers um leið að sjálfsögðu, er málið í rauninni sjálfgefið, þá þarf ekkert nýtt eftirlit í þessum efnum, þá leggja menn bara upp laupana og gefast gersamlega upp, því að þá fær enginn aðili ráðið við það ástand, sem hér kemur upp, hvorki í verðlagsmálum né í sambandi við framkvæmdir í landinu. Þá verður aðeins um það að ræða, hvaða atvinnugreinar eigi að deyja drottni sínum, hverjar eigi að leggjast út af, gefast algerlega upp og hvert vinnuaflið fer, hvað stendur eftir, og það getur enginn sagt fyrir um það, hvernig verðlagsmálum okkar verður þá háttað eftir 3, 4 eða 5 ár. En sé meining þeirra, sem ríkinu stjórna, að reyna að hafa hemil á verðlagsmálunum í landinu og ráða eitthvað við efnahagsmálin sem heild, er alveg óhjákvæmilegt, að skipt sé um stefnu í grundvallaratriðum frá því, sem nú er og verið hefur að undanförnu.

Ég skal ekki við 1. umr. um þetta mál lengja hér umr. mjög. Ég vil aðeins lýsa því yfir, að við Alþb.-menn erum andvígir þessu frv. Við teljum, að hér sé farið inn á mjög varhugaverða braut, og hér er um eina tekjuöflunarleið af mörgum að ræða, sem ríkisstj. hefur verið með, sem eins og ég hef sagt eru allar þess eðlis, að þær fá ekki ráðið við þann vanda, sem við er að glíma.