09.12.1965
Neðri deild: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem mig langaði til þess að koma á framfæri í sambandi við báðar ræður hv. þm. stjórnarandstöðuflokkanna.

Það er á algerum misskilningi byggt, að hér sé um að ræða nokkuð svipað því, sem tíðkaðist mjög fyrr á árum, þegar innheimt var mismunandi hátt gjald fyrir gjaldeyrissölu til mismunandi þarfa. Þar var ótvírætt um áhrif á gengið að ræða, og með slíkum ráðstöfunum var ótvírætt um að ræða ákvörðun um misjafnt gengi, tvöfalt, þrefalt eða margfalt gengi. Það mjög smávægilega gjald, sem hér er um að ræða, kemur hins vegar hlutfallslega jafnt á alla gjaldeyrissölu og getur því með engu móti talizt eiga neitt skylt við það, sem almennt er kallað á máli fjármálamanna misjafnt eða margfalt gengi.

Seinna atriðið, sem ég vildi benda á og undirstrika, er, að það er líka alger misskilningur að setja þetta litla gjald á gjaldeyrissölu, hvort heldur er vegna veittra leyfa eða vegna frílistavöru eða þjónustu yfirleitt, í samband við gengi krónunnar, af þeirri einföldu ástæðu, að samkv. reglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og það eru einu alþjóðlegu reglurnar, sem til eru um þetta atriði, hafa löndin heimild til þess að hafa allt að 1% mun á kaupgengi og sölugengi. Alþjóðlegar heimildir eru fyrir því, að það sé munur kaup- og sölugengis hjá seðlabönkunum, sem yfirleitt skrá gengi gjaldeyris hlutaðeigandi lands, og að hafa þennan mun á kaup- og sölugengi allt að 1%. Breyting, sem gerð er umfram þetta á kaup- og sölugengi, er talin jafngilda almennri gengisbreytingu. Munurinn, sem nú er á kaup- og sölugengi alls gjaldeyris, sem íslenzkir gjaldeyrisbankar verzla með, er um 1/4%, er um 0.25%, svo að jafnvel þó að þessu afgreiðslugjaldi sé bætt við þennan almenna mun á kaup- og sölugengi erlends gjaldeyris, sem hér er verzlað með, er samtalan af mun kaup- og sölugengis og þessu leyfis- og afgreiðslugjaldi ekki nema 0.75% eða enn verulega undir hinum algerlega leyfða mun á kaupog sölugengi í viðskiptum með erlendan gjaldeyri.

Þetta vildi ég benda á og undirstrika, að með engu móti er hægt að kalla þetta smávægilega afgreiðslugjald bankanna breytingu á gengi ísl. krónunnar.