16.02.1966
Sameinað þing: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (2745)

73. mál, raforkuþörf Vestur-Skaftfellinga austan Mýrdalssands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hér var sagt áðan, að Skaftfellingar voru brautryðjendur í því að raflýsa heimili sín. Á þessu svæði, sem hér er um að ræða, eru 70 einkarafstöðvar, vatnsaflsstöðvar, en 150 býli. Þessar vatnsaflsstöðvar eru misjafnlega góðar, enda margar orðnar nokkuð við aldur. Og það er ekki fyrr en nú á s.l. ári, sem ýmsir af þeim, sem þessar vatnsaflsstöðvar hafa, hafa minnzt á það, að þeir vildu gjarnan hætta við þær og fá rafmagn með öðrum hætti. Það er ekkert skrýtið, þótt ekki hafi allt fram undir þetta verið talið fært að láta þennan hluta Vestur-Skaftafellssýslu fá rafmagn frá samveitum, með tilliti til þess, að meira en helmingur þessara býla hefur haft rafmagn, sem allt fram undir þetta hefur verið talið fullnægjandi fyrir þessi býli.

Nú er það eins og hv. 1. flm. þessarar till. sagði hér áðan, að Vestur-Skaftfellingar á þessu svæði hafa nær allir, sem húsforráð hafa, skrifað undir áskorun um það, að þeir fái rafmagn með öðrum hætti, og tjáð sig fúsa til þess að leggja niður þessar einkarafstöðvar, sem þeir hafa notað til þessa. Og það er vitanlega alger forsenda fyrir því, að þeir geti fengið samveitu, að einkarafstöðvarnar verðilagðar niður og þeir gerist allir sameiginlegir notendur. Þetta undirskriftaskjal barst mér nú fyrir viku. Það var ekki vitað fyrr en nú fyrir viku, að þeir, sem hafa einkarafstöðvarnar, vildu leggja þær niður og leggja í kostnað við að fá rafmagn með öðrum hætti.

Ég tel, að sú till., sem hér er um að ræða, sé algerlega eðlileg, það sé nauðsynlegt, áður en ráðizt er í framkvæmdir á þessum stað, að gera sér fyllilega grein fyrir því, hvort það sé um aðra leið að ræða hentugri en þá að fá línu yfir sandinn. Hitt er svo jafnaugljóst, að þessi landshluti þarf að fá rafmagn eins og aðrir landshlutar, og að því verður vitanlega unnið nú, þegar það liggur fyrir, að grundvöllur er fyrir hendi, sem ekki var áður, meðan meira en helmingur býlanna hafði rafmagn og mestur hluti bændanna, sem hafði þetta rafmagn frá einkarafstöðvum, hafði allt fram að síðustu tímum talið það vera nægjanlegt.

Nú hafa þeir gert sér ljóst, að gömlu stöðvarnar nægja ekki vegna vatnsskorts, vegna aldurs, það þarf að endurnýja þær. Og þá er komið nýtt viðhorf. Það er rétt, sem hér var sagt áðan, að það var breytt um stefnu í virkjunarmálunum með því að virkja það, sem ódýrast er, og það, sem hentugast er til langframa, þ.e. að stefna að stórvirkjun og tengja síðan kerfin saman. Þetta er rétt. Hitt getur þó komið til álita, hvort þrátt fyrir þessa stefnu geti ekki verið heppilegt að virkja á stöku stöðum fyrir vissar sveitir. Og hér á dagskránni í dag er önnur þáltill. frá þm. Vestfjarða, sem gengur í sömu átt, og þeir telja, að það komi til greina að virkja þar fyrir viss svæði. Þetta gæti komið til greina á Vestfjörðum vegna þess, hversu dýrt er að leggja linur um þau svæði, sem þar eru, vegna landslags og vegalengdar, og ég segi ekkert um það á þessu stigi, hvort það gæti komið til greina í Vestur-Skaftafellssýslu. Ég tel, að það sé eðlilegt, að sérfræðingar segi síðasta orðið um það, og ég tel, að það þurfi ekki að eyða sérstaklega löngum tíma í að fá þá niðurstöðu, sem sjálfsagt er að hafa fyrir hendi, áður en til slíkra framkvæmda kemur sem þeirra að skapa Vestur-Skaftfellingum rafmagn, sem ekki hafa það nú.