25.03.1966
Sameinað þing: 33. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (2754)

159. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Nýlega hefur ríkisstj. tilkynnt, að hún hafi gert fullnaðarsamkomulag við svissneska auðhringinn Swiss Aluminium um byggingu og rekstur alúmínbræðslu í Straumsvík sunnan Hafnarfjarðar. Samningur um málið verður undirritaður af ríkisstj. og fulltrúum alúmínhringsins á mánudaginn kemur, en síðan lagður fyrir Alþ. til löggildingar. Þannig hefur ríkisstj. ákveðið að ljúka þessu stórmáli án samráðs við þjóðina og á þann veg, að Alþingi er stórlega misboðið.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, gaf hún mörg og mikil fyrirheit. Hún lofaði réttri skráningu á krónunni og stöðugu verðlagi. Í hennar tíð hefur dýrtíðin ætt yfir með meiri hraða en nokkru sinni áður. Þegar stjórnin tók við, var vísitala framfærslukostnaðar 100 stig. Nú er hún 182 stig eða hefur hækkað um 82%. Vísitalan fyrir vörur og þjónustu sýnir þó enn betur verðlagsþróunina í tíð stjórnarinnar. Hún var 100 stig í upphafi stjórnartímans, en í jan. s.l. var hún 211 stig. Þannig hefur ríkisstj. tekizt að hækka verðlag í landinu um meir en helming í stað þess að tryggja stöðugt verðlag.

Í upphafi stjórnartímans lofaði stjórnin að afnema með öllu styrki og uppbætur til atvinnuveganna. Það loforð hefur verið efnt þannig, að í dag er varið mörg hundruð millj. kr. í styrki og uppbætur til framleiðslunnar. Stjórnin lofaði alhliða uppbyggingu atvinnulífsins í landinu. Reyndin er hins vegar sú, að togaraútgerð landsmanna hefur dregizt saman um helming, og ekki er annað sýnna en hún hverfi úr sögunni með öllu, ef svo heldur áfram sem verið hefur. Iðnaðurinn hefur dregizt saman, og heilir landshlutar, sem átt hafa í atvinnulegum erfiðleikum, hafa enga teljandi aðstoð fengið frá stjórnarvöldunum.

Í tíð núv. ríkisstj. hefur eftirlit með verðlagningu svo að segja verið lagt niður, okurvextir hafa verið lögleiddir og brask með íbúðarhúsnæði hefur verið flokkað undir frelsi til athafna og viðskipta. Skattar, sem áttu að afnemast af almennum launatekjum, hafa stórhækkað og þó mest á þeim, sem sízt skyldi. Nauðsynlegustu umbætur í húsnæðismálum almennings hefur þurft að knýja fram með verkföllum, en verkföll hafa orðið tíðari og meiri á tímum núv. stjórnar en á valdatíma nokkurrar annarrar ríkisstj. Undirlægjuháttur stjórnarvalda við erlent vald hefur verið meiri en nokkru sinni. Samið hefur verið um hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði, hermannasjónvarp leyft á aðalþéttbýli landsins, og nú síðast er samið um að veita erlendum auðhring margvísleg sérréttindi til atvinnurekstrar í landinu. Ríkisstj. hefur því sannarlega unnið til vantrausts með stórkostlegum brigðmælum og með því, að sannazt hefur, að hún hefur hvorki vilja né getu til að ráða fram úr þeim vanda, sem við er að glíma, með hagsmuni þjóðarheildarinnar fyrir augum.

Með samningunum við svissneska alúmínauðhringinn bítur ríkisstj. þó höfuðið af skömminni. Með honum hlýtur að skipta sköpum, svo örlagaríkur sem hann mundi verða fyrir framtíð þjóðarinnar. Ríkisstj. á því að falla á þessari samningsgerð, og þjóðin á að fá að segja sitt orð í þjóðaratkvæðagreiðslu um jafnörlagaríkt mál. Þó að ríkisstj. hafi unnið að samningagerð við útlendinga í nærfellt 5 ár um svonefnda stóriðju, hefur hún harla lítið viljað ræða þau mál efnislega í áheyrn þjóðarinnar eða á Alþingi. Það var í samræmi við þau vinnubrögð, að ríkisstj. tilkynnti fyrir nokkrum dögum þá fyrirætlun sína að biðja um útvarpsumræður um 1. umr. alúmínmálsins, þegar hún legði það fyrir þingið í næstu viku. Slík málsmeðferð hefði þýtt það, að hver flokkur hefði aðeins mátt ræða þetta stórmál við fyrstu og aðalumræðuna í þinginu í 45 mín. Þar með hefði 1. umr. verið lokið að fullu um mál, sem lagt er fyrir þingið í formi fullgerðra samninga, sem jafngilda stórri og þykkri bók. Við Alþb.-menn vildum fá samkomulag um umræður í útvarp um alúmínmálið, án þess að þær drægju á nokkurn hátt úr umr. um málið á Alþingi. Því var neitað. Þá vildum við umr. um vantraust í 2 kvöld, eins og venjulega hefur verið, og yrði þá hægt að ræða álmálið ýtarlega, en ríkisstj. var því mótfallin líka. Það er því ríkisstj. ein, sem færzt hefur undan að ræða alúmínmálið efnislega frammi fyrir þjóðinni.

En hver eru þá meginatriði alúmínsamninganna við svissneska auðhringinn? Þau eru þessi: Ráðgert er, að Íslendingar ráðist ístórvirkjun íÞjórsá við Búrfell. Heildarafl raforkuversins yrði 210 þús. kw., en 2/3 hlutar þeirrar orku yrðu seldir alúmínhringnum á föstu verði til langs tíma. Verð á hverri kwst. er umsamið 10 3/4 úr eyri og yrði svo til óbreytt í 25 ár. Heildarstofnkostnaður virkjunarinnar var áætlaður árið 1964 1670 millj. kr., en þar að auki þarf að hyggja varaaflstöðvar, sem kosta 160 millj. og reknar yrðu með olíuafli. Þá er í samningunum ráðgert, að Swiss Alumíníumhringurinn byggi og reki alúmínbræðslu í Straumsvik sunnan Hafnarfjarðar. Stærð bræðslunnar er 60 þús. tonn af alúmínmálmi á ári. Stofnkostnaður er áætlaður 2500 millj. kr., og er þá við það miðað, að allir tollar og aðflutningsgjöld af efni, vélum og tækjum til verksmiðjunnar hafi verið gefin eftir, en sú eftirgjöf er talin nema 500 millj. kr. Hafnarfjarðarkaupstaður á að gera hafskipahöfn í Straumsvík, og mun hún kosta um 100 millj. kr., en síðan mun alúmínhringurinn greiða afnotagjöld af höfninni.

Þessi eru aðalatriði samninganna á ytra borðinu séð. En við skulum nú athuga nokkru nánar kjarna þessara samninga og þann tilgang, sem að baki þeim býr. Jafnhliða er rétt að athuga þær röksemdir, sem ríkisstj. farir fram til réttlætingar samningsgerðinni.

Það er einkum þrennt, sem ríkisstj. telur samningunum til gildis. Í fyrsta lagi er því haldið fram, að samningarnir skapi grundvöll að því, að Íslendingar geti ráðizt í stærri raforkuvirkjun en ella, og þar með muni landsmenn fá aðgang að ódýrari raforku. Í öðru lagi er sagt, að alúmínverksmiðjan muni breikka grundvöll atvinnulífsins og gera afkomu landsmanna öruggari. Í þriðja lagi er fullyrt, að meira muni fást fyrir það vinnuafl, sem leigt yrði til verksmiðjunnar, en íslenzkir atvinnuvegir geti gefið.

Athugum fyrstu röksemdirnar um stærri virkjun og ódýrari raforku fyrir landsmenn. Um það er ekki deilt, að ein hagstæðasta virkjunaraðstaða, sem Íslendingar eiga, er í Þjórsá við Búrfell. Þó að erfiðleikar geti orðið á því að tryggja nægilega mikla og jafna orku frá rennslisvirkjun við Búrfell vegna ísmyndunar og aurskriðs, breytir það ekki þeirri staðreynd, að virkjunarmöguleikar þar eru hagstæðir miðað við fullvirkjun og nauðsynlegar varúðarráðstafanir. Þessa raforkuaðstöðu ágirnist svissneski alúmínhringurinn. Samkv. samningunum tryggir alúmínhringurinn sér raforkuna á 10.75 aura hverja kwst. mörg ár fram í tímann. Miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlanir um virkjunina telja þeir, sem að þessum samningum standa, að beint framleiðslukostnaðarverð raforkunnar verði 10.40 aurar hver kwst. Miðað við kostnaðaráætlanir ætti því raforkuverðið til hringsins að vera 1/3 úr eyri ofan við beint framleiðslukostnaðarverð hver kwst. En hér er um áætlaðan stofnkostnað virkjunar að ræða, en ekki endanlegan byggingarkostnað. Fari verkið fram úr áætlun, er augljóst, hvað verður um raforkuverðið, og til viðbótar við óvissuna um endanlegan byggingarkostnað er svo sú staðreynd, að færustu virkjunarsérfræðingar Íslendinga telja algert óráð að semja um jafnmikla stöðuga orkusölu frá Búrfellsvirkjun og hér er ráðgert, án þess að gerðar verði kostnaðarsamar varúðarráðstafanir til þess að draga úr ísskriðshættu fyrir ofan virkjunarstaðinn. Heimskunnir erlendir sérfræðingar, sem hér hafa dvalizt, hafa varað sterklega við ísmyndunarvandanum í Þjórsá og bent á öryggisráðstafanir, sem gera þyrfti ofan virkjunar. Á aðvaranir þessara sérfræðinga er ekki hlustað, einvörðungu af þeim ástæðum, að ef tekið yrði tillit til ábendingar þeirra, færi ráðgerður stofnkostnaður virkjunarinnar óumdeilanlega yfir það mark, að hægt væri að réttlæta umsamið raforkuverð til alúmínhringsins. Allar líkur benda til þess, að raforkuverðið til hringsins sé undir beinu framleiðslukostnaðarverði. Til samanburðar við verðið til hringsins má benda á, að nýlega hefur sami auðhringur gert samning við Norðmenn um kaup á raforku til sams konar alúmínbræðslu hringsins þar í landi. Norðmenn sömdu um 20% hærra raforkuverð og þó einnig um vísitölubundna hækkun á því verði. Ljóst er einnig, að fulltrúar Alþjóðabankans, en hann lánar fé til raforkuversins, telja raforkuverðið of lágt. Þeir hafa gert kröfur um, að hluti af skattgreiðslum alúmínbræðslunnar verði fyrstu árin færður yfir og reiknaður inn í rafmagnsverðið og gangi til greiðslu á afborgunum og vöxtum af lánum virkjunarinnar.

Ekki er raforkusamningurinn hagstæðari, sé litið til framtíðarinnar. Í grg., sem fylgdi frv. ríkisstj. um Landsvirkjun á síðasta þingi, sagði orðrétt sem hér segir:

„Raforkunotkunin vex svo ört, að hún tvöfaldast á hverjum 10 árum. Áður en 10 ár eru liðin, verður því að vera lokið að virkja afl til viðbótar, er nemur öllu því rafafli, sem nú er fyrir hendi í orkuverum landsins, og þannig mun raforkunotkunin halda áfram að vaxa hér á landi næstu áratugi.“

Þetta sagði í grg. fyrir frv. ríkisstj. Nú er samanlagt afl í vatnsorkuverum landsins 125 þús. kw. Vegna raforkuþarfar landsmanna sjálfra þarf því að virkja 125 þús. kw. vegna næstu 10 ára og síðan þar til viðbótar 250 þús. kw. á næsta 10 ára tímabili þar á eftir, eða samtals á næstu 20 árum 375 þús. kw. Í hlut landsmanna eiga að koma 84 þús. kw. úr hinni nýju Búrfellsvirkjun. Á næstu 30 árum þurfa landsmenn því að ráðast í nýjar rafvirkjanir umfram Búrfell, sem nema um 300 þús. kw. Þær virkjanir verður að gera við dýrari skilyrði en eru við Búrfell. Með alúmínsamningunum er verið að selja ódýrustu virkjunaraðstöðu Íslendinga á leigu til 45 ára eða þann tíma, sem ráðgert er að alúmínbræðslan starfi. Það eru því engar líkur til þess, að raforkusalan til alúmínhringsins verði Íslendingum hagstæð eða leiði til lækkandi raforkuverðs fyrir landsmenn.

Útreikningar þeir, sem hæstv. iðnmrh. vitnaði í um rekstrarlegan hagnað af sölu raforku til alúmínbræðslunnar umfram það, sem yrði, ef virkjað væri fyrir landsmenn eina, eru algerlega út í hött og óraunhæfir. Í öðru tilfellinu er reiknað með, að öll orkan notist strax vegna sölunnar til verksmiðjunnar, en í hinu, að mikill hluti orkunnar, sem fyrir hendi er, seljist ekki, og þó er reiknað með stofnkostnaði, sem einnig heyrir til síðari virkjunarstiga. Auðvitað væri hægt að nýta umframorkuna fyrstu árin, t.d. með aukinni húsahitun og lækkun orkuverðsins í öðrum tilfellum og fleiri ráðstöfunum. En ráðh. hefði átt að reikna út, hvað Íslendingar tapa miklum fjármunum á því að geta ekki notfært sér rafmagnið frá Búrfellsvirkjun í næstu 45 ár.

Ekki standast aðrar röksemdir alúmínmanna betur en fullyrðingarnar um lækkun rafmagnsverðsins. Hver verður breikkun atvinnulífsins og hvað um afkomuöryggi landsmanna? Í alúmínbræðslunni er ráðgert að vinni um 500—600 manns, eftir að reksturinn hefst, þar af allmargir útlendingar. Laun Íslendinganna eiga að vera í samræmi við aðrar launagreiðslur í landinu. Alúmínbræðslan mun því hafa nákvæmlega sams konar gildi í atvinnulegum efnum og atvinnan á Keflavíkurflugvelli hefur haft. Þar verður aðeins um að ræða sölu á vinnuafli. Þjóðhagslega séð er sú ráðstöfun óhagstæð, þar sem um er að ræða aðila, sem á ekki að greiða í þjóðarbúið hliðstað gjöld og aðrir atvinnurekendur gera og hefur auk þess rétt til að flytja úr landi allan hagnað sinn og allar afskriftir fyrirtækisins og mun því ekkert af mörkum leggja til atvinnulegrar uppbyggingar fyrir framtíðina. Það, sem hér hefur verið sagt, er aðeins lítið brot af því, sem í þessari sérstæðu samningagerð felst og augljóslega er gegn hagsmunum Íslendinga.

Víkjum enn að nokkrum þýðingarmiklum atriðum þessara samninga. Ráðgert er, að hinn svissneski auðhringur fái hér margvísleg sérréttindi umfram landsmenn sjálfa og fyrirtæki þeirra. Þannig á í upphafi að gefa auðhringnum eftir tolla og aðflutningsgjöld af verksmiðjubyggingunni, sem nema 500 millj. kr. Sú eftirgjöf jafngildir því, að fyrirtækið verði með öllu skattfrjálst í 10—15 ár a.m.k. Slíka tolla eiga hins vegar fyrirtæki Íslendinga að greiða skilmálalaust. Þá þarf hringurinn ekki að greiða tolla af rekstrarvörum verksmiðjunnar og fær því fríhafnaraðstöðu í næstu 45 ár. Svissneski auðhringurinn fær leyfi til þess að stofnsetja hér dótturfélag, Íslenzka álfélagið h/f. Það á að heita íslenzkt félag og njóta hér allra réttinda sem slíkt og auk þess margvíslegra réttinda umfram önnur hlutafélög í landinu. Þetta dótturfélag alúmínhringsins má flytja inn bíla, olíur, vistir, vélar og tæki, efni í hús eða heil hús handa starfsmönnum sínum og yfirleitt flesta hluti, sem það þarf á að halda, án þess að greiða nokkra tolla eða aðflutningsgjöld. Augljóst er, að svæði alúmínverksmiðjunnar við Straumsvík verður að girða af eins og Keflavíkurflugvöll, og þar verður að setja á fót heila sveit tollgæzlumanna, sem jöfnum höndum þarf að gæta hafnarinnar og svæðisins í landi. Skatta á félagið að greiða samkv. sérstökum samningi, en þó aldrei hærri miðað við tekjur en íslenzk fyrirtæki greiða, Framtal þarf fyrirtækið ekki að leggja fyrir íslenzk skattayfirvöld, heldur skal erlend endurskoðunarskrifstofa annast slíkt, ef bókhald verksmiðjunnar er ekki samþ. athugasemdalaust. Íslenzka álfélagið svonefnda skal undanþegið íslenzkum gjaldeyrislögum og hafa heimild til að ráðstafa gjaldeyri sínum að vild. Þannig á atvinnurekstur útlendinga að búa við allt önnur kjör en atvinnurekstur landsmanna sjálfra. Hann á ekki að greiða toll af stofnframkæmdum, hann á ekki að greiða toll af rekstrarvörum, hann á að fá raforku fyrir 10 3/4 úr eyri kwst., þegar íslenzkur fiskiðnaður greiðir 1 kr. fyrir hverja kwst. Hann verður undanþeginn ýmsum almennum gjöldum og síðan, þegar hinn erlendi rekstur hefur notið allra þessara fríðinda, er sagt, að hann skuli greiða sömu prósentuupphæð í skatta af nettótekjum sínum og félög landsmanna eiga að gera. Augljóst er, að með slíkum reglum greiðir hann raunverulega miklu lægri gjöld en atvinnurekstur landsmanna. Og síðan á þessi erlendi aðili að keppa um vinnuaflið við innlendan atvinnurekstur. Rísi upp ágreiningur á milli aðila alúmínsamningsins, t.d. á milli Álfélagsins h/f og Landsvirkjunar eða Hafnarfjarðarkaupstaðar eða á milli þess og ríkisstj., skal þetta íslenzka félag, sem annars nýtur allra réttinda sem íslenzkt félag og ýmissa réttinda þó umfram það, ekki teljast íslenzkt lengur, heldur svissneskt félag, og þá skal erlendur gerðardómur úrskurða um ágreiningsmál þess. Þannig felur samningurinn í sér, að erlent auðfélag fær rétt til atvinnurekstrar í landinu með miklum sérréttindum, fær réttindi samkv. íslenzkum lögum, þegar það er hagstætt, en neitar að hlíta íslenzkri lögsögu og úrskurði íslenzkra dómstóla um málefni, sem hér gerast. Hér er um sérstaka lítilsvirðingu á íslenzku réttarfari að ræða og algert vantraust á hæstarétti landsins. Samningsákvæði sem þetta eru algerlega óþekkt á Norðurlöndum eða í nálægum löndum. Í Noregi verður svissneski alúmínhringurinn að starfa samkv. norskum lögum og nýtur þar engra sérréttinda umfram aðra.

Afleiðingar alúmínsamninganna hljóta að verða þær háskalegustu fyrir þróun efnahagsmálanna í landinu. Ráðgerðar framkvæmdir við virkjun og verksmiðju munu kosta um 4500 millj. kr. Vinnuafl, sem bundið verður við stofnframkvæmdir verksmiðjunnar og virkjunarinnar, getur orðið um 2000 manns, þegar mest er. Slíkar stórframkvæmdir hljóta að draga vinnuafl frá öðrum framkvæmdum í landinu. Eða hvaðan á vinnuaflið að koma? Er ætlunin, að mörg hundruð manna frá Vestfjörðum, úr Norðurlandi eða úr sveitum landsins setjist um skeið að við Straumsvík og Búrfell? Ríkisstj. viðurkennir að nokkru leyti vinnuaflsvandamálið. Hún talar því um, að gera verði ráðstafanir til þess að draga úr opinberum framkvæmdum, á meðan vinnuaflsþörf stórframkvæmdanna sé mest. Opinberar framkvæmdir eru skólabyggingar, íbúðabyggingar, hafnarframkvæmdir, hitaveituframkvæmdir, vatnsveituframkvæmdir, vegagerð og bygging sjúkrahúsa. Þessar framkvæmdir eiga að víkja fyrir stórframkvæmdum útlendinga á næstu árum. Og hverjar verða afleiðingar enn meiri þenslu á vinnumarkaðinum? Hvað um dýrtíðarvandamálið? Er það kannske leyst? Og hvað um stöðu íslenzkra atvinnugreina? Er ekki augljóst, að það, sem nú er erfitt viðfangs og hættulegt í efnahagsmálum þjóðarinnar, hlýtur að versna stórum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum?

En það, sem þó er hættulegast við alúmínsamningana, er það, að með þeim er verið að marka nýja stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar. Það er verið að ryðja braut þeirri stefnu, að útlendingar fái atvinnurekstrarréttindi í landinu. Það er verið að hverfa frá þeirri grundvallarstefnu, að landsmenn sjálfir skuli eiga atvinnutækin og nýta auðlindir landsins. Það, sem áður var grundvallaratriði í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, eins og að koma verzlun þjóðarinnar í hendur innlendra manna og að gera útgerð og fiskverkun eign landsmanna og ná óumdeilanlega rétti þjóðarinnar yfir fallvötnum landsins, það á nú að víkja fyrir nýrri stefnu, fyrir þeirri stefnu, að Íslendingar feli útlendingum forsjá sinna atvinnumála og ráðist sem vinnumenn í þjónustu þeirra.

Alúmínverksmiðjan er aðeins eitt dæmi um þessa nýju stefnu. Þeir alúmínmenn draga enga dul á það, að þeir ætla sér að halda áfram á sömu braut. Þeir hafa strax hafið áróður fyrir olíuhreinsunarstöð útlendinga í landinu, og þeir hafa opinberlega rætt um beina þátttöku erlends einkafjármagns í íslenzkum fiskiðnaði. Auðhringar Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna hafa mjög barizt fyrir því á undanförnum árum að fá sem mest olnbogarými til atvinnurekstrar, flutnings fjármagns og vinnuafls á milli landa. Í því skyni hafa þeir reynt að byggja upp samtök þjóða eins og Efnahagsbandalagið.

Samningur ríkisstj. við svissneska alúmínhringinn er eins og forleikur að því, að aðrir auðhringar brjótist inn í íslenzkt þjóðfélag með forréttindaaðstöðu sína og blind gróðasjónarmið. Þessi nýja stefna er ógnvaldur við efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Það þarf ekki mörg erlend stórfyrirtæki með atvinnurekstraraðstöðu á Íslandi til þess að ná undirtökunum í efnahagsmálum jafnfámennrar þjóðar og okkar þjóð er. Allar forsendur eru á móti alúmínsamningunum. Þeir eru fjárhagslega séð slæmir. Þeir eru hættulegir, eins og ástatt er í efnahagsmálunum. Þeir mundu auka á dreifbýlisvandamálið, og þeir mundu skapa herfilegt misrétti á milli atvinnurekstrar landsmanna og atvinnurekstrar útlendinga. Raforkumálin getum við auðveldlega leyst sjálfir og betur nú en nokkru sinni áður. Atvinna er næg í landinu, og möguleikar til aukinnar framleiðslu eru miklir. Það er því allt á móti þessari samningsgerð, en ekkert með, ef hagsmunir þjóðarinnar eru látnir ráða.

Góðir hlustendur. Núv. ríkisstj. hefur ekki reynzt fær um að leysa ýmis mikilvægustu málefni þjóðarinnar. Hún hefur magnað dýrtíðarvandamálið með rangri stefnu í efnahagsmálum. Hún nýtur ekki trausts vinnustéttanna í landinu. Hún lætur undan kröfum útlendinga í þeim málum, sem varða réttindi og sjálfstæði landsins. Hún hefur tapað trú á gæði landsins og getu landsmanna til að hagnýta þau. Hún hefur nú gert samning við erlendan auðhring um sérréttindi í landinu og um það, að málefni íslenzkra aðila skuli ekki háð íslenzkri lögsögu og íslenzkum dómsúrskurði, heldur rekast og dæmast fyrir erlendum gerðardómi. Slík ríkisstj. hefur sannarlega unnið til vantrausts. Slík ríkisstj. á að falla. Það er krafa okkar Alþb.manna, að samningurinn við svissneska alúmínauðhringinn verði lagður undir þjóðaratkv. Verði því neitað, krefjumst við þess, að þing verði rofið og efnt til nýrra kosninga, svo að þjóðin fái að lýsa yfir því vantrausti á ríkisstj. og stefnu hennar, sem hún á skilið.

Eftir tvo mánuði fara fram almennar kosningar í bæjum og þorpum landsins. Þær kosningar hlýtur þjóðin að notfæra sér, verði neitað um þjóðaratkvæði um alúmínmálið, og aðvara valdhafana á eftirminnilegan hátt.

Ég vil nota tækifærið og hvetja allt Alþb.-fólk til þess að styðja nú samtök sín og efla starfsemi sína. N.k. miðvikudag verður Alþb.-félag stofnað í Reykjavík, og fleiri munu á eftir koma annars staðar á landinu. Ég skora á Alþb.-fólk í Reykjavík að fjölmenna á stofnfundinn á miðvikudaginn og efla um leið sókn þeirra, sem öflugast berjast gegn stefnu ríkisstj. og þeim þjóðhættulega samningi við erlendan auðhring, sem hún nú ætlar sér að gera.