25.03.1966
Sameinað þing: 33. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2755)

159. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það er ekki oft, sem það vekur ánægju að sjá till. frá leiðtogum stjórnarandstöðunnar. Flutningur vantrauststill. af hálfu stjórnarandstöðunnar nú er hins vegar beinlínis ánægjulegur, þar eð hann veitir okkur í stjórnarflokkunum kærkomið tækifæri til þess að gera grein fyrir störfum okkar og stefnu. Við höfum mikinn áhuga á því, að þjóðin hafi sem bezta aðstöðu til þess að dæma störf okkar sem réttast. Þessi vantrauststill. er því sannarlega kærkomið tilefni fyrir okkur í ríkisstj. til þess að leggja spilin á borðið og spyrja þjóðina, hvort hún telji okkur hafa verið að gera rétt eða rangt á undanförnum árum.

Þann tíma, sem ég hef hér til umráða, ætla ég að nota til þess að gera grein fyrir meginþáttunum í stefnu okkar undanfarin 6 ár og þeim árangri, sem ég tel að hafi náðst. Rétt lýsing á staðreyndum varðandi þróunina undanfarið og ástandið í dag er bezta svarið við fullyrðing um stjórnarandstöðunnar um, að allt sé hér á afturfótum og allt hafi stefnt í öfuga átt, síðan þeir sjálfir hurfu úr ríkisstj. Ég ætla fyrst að ræða um efnahagsmál þjóðarinnar.

Bezti mælikvarðinn á það, hvort vel eða illa sé haldið á stjórn efnahagsmála, er vöxtur þjóðarframleiðslunnar. Að vísu getur gott árferði stuðlað að miklum vexti þjóðarframleiðslunnar og erfitt árferði getur dregið úr honum. á hinn bóginn getur röng stefna í efnahagsmálum dregið úr hagstæðum áhrifum góðs árferðis. Til þess að mikill vöxtur þjóðarframleiðslu náist um margra ára skeið, þarf því hvort tveggja að fara saman, gott árferði og þess konar stjórn í efnahagsmálum, sem veitir þjóðinni sem bezt tækifæri til að hagnýta góðar ytri aðstæður.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að núv. ríkisstj. beitti sér fyrir gagngerðri breytingu í efnahagsmálum á fyrsta starfsári sínu, 1960. Lagt var út á nýja braut. „Hin leiðin“, sem áður hafði verið farin, var yfirgefin. Það hlaut auðvitað að taka nokkurn tíma, að árangur stefnubreytingarinnar kæmi í ljós. En hann lét ekki lengi á sér standa. 1—2 árum eftir stefnubreytinguna hófst mikið gróskutímabil í íslenzku efnahagslífi. Reynslan hér á landi varð hin sama og hafði orðið ífjölmörgum öðrum löndum, að afnám innflutningshafta, leiðrétting gengisskráningar og aukið jafnvægi í peninga og fjármálum bætti ekki aðeins fjárhagsstöðu þjóðarinnar gagnvart öðrum löndum, heldur hafði einnig mjög örvandi áhrif á framleiðslu og framleiðni. Við þetta bættist svo hagstætt árferði. Hvort tveggja þetta hefur valdið því, að á undanförnum árum hefur þjóðarframleiðslan aukizt mjög mikið. Á s.l. 4 árum, eða á árunum 1962—1965, hefur þjóðarframleiðslan aukizt um 6—7% á ári að meðaltali og framleiðslan á mann um 4—5%.

Allt of sjaldan hefur verið vakin athygli á því, að þessi vöxtur þjóðarframleiðslunnar s.l. 4 ár er langmesta aukning þjóðarframleiðslu, sem nokkurn tíma hefur átt sér stað á Íslandi, síðan farið var að semja skýrslur um þessi efni. En hér er ekki aðeins um að ræða met í framleiðsluaukningu hér á landi. Athugun á alþjóðlegum hagskýrslum leiðir einnig í ljós, að þessi vöxtur þjóðarframleiðslunnar er meiri en dæmi eru til um í nálægum löndum á sama tíma. Auðvitað á mikil aflaaukning sinn þátt í þessu. En því fer þó víðs fjarri, að hún sé eina skýringin. Sést það bæði á því, að heildarframleiðsluaukningin er hlutfallslega miklu meiri en svarar til aflaaukningarinnar, og hinu, að batinn hófst augljóslega, áður en t.d. hin mikla síldveiði kom til skjalanna, eins og m.a. má sjá á því, að gjaldeyrisviðskipti þjóðarinnar við önnur lönd urðu hagstæð þegar á árunum 1960—1961.

Til þess að menn geri sér sem ljósast, hversu gífurleg breyting hefur orðið á árlegri aukningu þjóðarframleiðslunnar s.l. 4 ár, miðað við það, sem átti sér stað, meðan „hin leiðin“ var farin, má athuga árlegan vöxt þjóðarframleiðslunnar síðustu 4 árin, áður en hin nýja stefna var tekin upp, eða árin 1956—1959. Á þessum árum var vöxtur þjóðarframleiðslunnar aðeins 3% á ári að meðaltali eða um 1% á mann. Hann var m.ö.o. aðeins þriðjungur til helmingur þess, sem hann hefur verið undanfarin ár. Árlegur vöxtur þjóðarframleiðslunnar á 4 síðustu árunum, sem „hin leiðin“ var farin, var einn hinn minnsti, sem um getur í nálægum löndum. Ekki verður þó illu árferði um kennt. Eitt þessara ára, árið 1958, reyndist metár til þess tíma að því er aflabrögð snertir.

Sagan er þó ekki sögð öll með því að skýra frá árlegum vexti þjóðartekna eða þjóðarframleiðslunnar á undanförnum árum. Í þeim tölum er ekki tekið tillit til breytinga, sem orðið hafa á verðlagsþróuninni í viðskiptalöndum okkar. Hún hefur einnig reynzt hagstæð. Þegar tillit er tekið til hennar, kemur í ljós, að vöxtur þjóðartekna hefur reynzt enn þá örari en vöxtur þjóðarframleiðslunnar eða tæp 8% á undanförnum 4 árum og vöxtur þjóðartekna á mann tæp 6%.

Nú er eðlilegt, að menn spyrji: Hverjar breytingar hafa orðið á skiptingu þjóðarteknanna? Þótt ör vöxtur þjóðarframleiðslunnar og þjóðartekna sé auðvitað ávallt æskilegur, gæti sá galli verið á gjöf Njarðar, að tekjuskiptingin yrði jafnframt ójafnari en áður var, að hinir ríku yrðu ríkari, en hinir fátæku fátækari. Ef athuguð er hlutdeild atvinnutekna verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna í heildarþjóðartekjunum, kemur í ljós, að hlutdeild þessara launastétta í þjóðartekjunum hefur farið vaxandi undanfarin ár og var hærri á árunum 1964 og 1965 en á nokkru öðru ári síðan 1948, þegar skýrslur um þetta efni voru fyrst gerðar, að árinu 1959 einu undanskildu, en þá sköpuðust um skamman tíma sérstakar aðstæður, sem ekki gátu staðizt til frambúðar. Á öllum árunum, frá því að styrjöldinni lauk og fram til ársins 1960, var halli á greiðsluviðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd, ef árið 1954 eitt er undanskilið.

Þegar rætt er um þessi greiðsluviðskipti, er almennt samkomulag um, að rétt sé að taka ekki tillit til innflutnings skipa og flugvéla, vegna þess að hann er mjög breytilegur frá ári til árs og greiddur að mestu leyti með erlendu lánsfé til langs tíma. Á 5 ára tímabilinu 1955—1959 nam þessi greiðsluhalli um 200 millj. kr. að meðaltali á ári. Þegar í stað að afloknum efnahagsráðstöfunum ríkisstj. í ársbyrjun 1960 hvarf þessi halli og greiðsluafgangur myndaðist, er nam 200 millj. kr. 1960 og yfir 400 millj. kr. 1961. Þessi mikla breyting til batnaðar átti sér því stað, áður en áhrifa hins góða árferðis fór að gæta. Er þetta ein sönnun þess, að aflaaukningin er ekki aðalskýringin á hinni stórbættu gjaldeyrisstöðu og síðar á hinum mikla vexti í þjóðarframleiðslunni undanfarin 4 ár, þótt hún eigi auðvitað mikinn þátt í henni. Síld, sem var ekki farin að veiðast 1960, gat varla bætt gjaldeyrisstöðuna á því ári.

Síðan 1960 hefur greiðslujöfnuðurinn verið hagstæður á hverju einasta ári, að meðaltali um 400 millj. kr. á ári á 5 ára tímabilinu 1960–1964 og væntanlega um meira en 700 millj. kr. á árinu 1965. Í tölum þessum er eins og áður ekki tekið tillit til innfluttra skipa og flugvéla. Þessi góða gjaldeyrisafkoma hefur svo auðvitað haft í för með sér, að Íslendingar hafa safnað gildum gjaldeyrissjóði erlendis. Um s.l. mánaðamót fór erlend gjaldeyriseign Íslendinga yfir 2000 millj. kr. Gjaldeyrisforðinn svarar til meira en fjögurra mánaða innflutnings, og þykir það hvarvetna vera sterk gjaldeyrisstaða.

Á árunum fyrir 1960 höfðu erlendar skuldir þjóðarinnar til langs tíma vaxið ört og þá jafnframt greiðslubyrðin af þeim, en hún er yfirleitt mæld með því að bera greiðslu vaxta og afborgana af slíkum lánum saman við heildargjaldeyristekjur þjóðarinnar. Þessi vaxandi greiðslubyrði var auðvitað mjög ískyggileg, ekki hvað sízt vegna þess, að vöxtur þjóðartekna og gjaldeyristekna var þá hægur og gjaldeyrisstaðan afar slæm. Þetta hvort tveggja, ör skuldasöfnun og slæm gjaldeyrisstaða, hafði valdið því, að Íslendingar nutu ekki trausts á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum né hjá þeim alþjóðastofnunum, sem veita framkvæmdalán til langs tíma. Í þessu efni eins og á öðrum sviðum var gerbreytt um stefnu 1960. Tekið var upp strangt eftirlit með erlendum lántökum og að því stefnt, að greiðslubyrðin lækkaði að nýju. Erlendar skuldir til langs tíma lækkuðu á árunum 1961 og 1962, og greiðslubyrðin, sem komst upp í 11% af gjaldeyristekjunum á árinu 1961, lækkaði að nýju ofan í 8—9% á árunum 1962—65. Þetta ásamt mjög bættri gjaldeyrisstöðu og styrktum efnahag landsins yfirleitt hafði í för með sér, að lánstraust landsins erlendis var endurreist. Þess vegna hefur að nýju verið hægt að auka hagkvæmar erlendar lántökur til framkvæmda og þá ekki sízt lántökur til mjög langs tíma hjá alþjóðastofnunum og á erlendum fjármagnsmörkuðum, án þess að greiðslubyrðinni hafi verið íþyngt um of.

Þegar þessar óvefengjanlegu staðreyndir, sem ég hef nú rakið, eru hafðar íhuga, verður ekki annað sagt en annaðhvort mikla glámskyggni eða mikið virðingarleysi fyrir sannleikanum þurfi til þess að staðhæfa, að hér sé allt á afturfótum eða allt stefni hér í öfuga átt. Hitt er satt, að skugga ber á þessa hagstæðu þróun. Það er skuggi verðbólgunnar. Ég hef aldrei gert neina tilraun til þess að draga fjöður yfir það, að ekki hefur tekizt að stöðva verðbólguþróunina. Verðlag og kaupgjald hefur haldið áfram að vaxa, að hækka á víxl undanfarin ár, eins og átt hefur sér stað allar götur síðan í byrjun síðari heimsstyrjaldarinnar. Síðan 1960 hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um 10% að meðaltali á ári. Hækkunin hefur þó verið misjöfn. Hún var minnst frá því um haustið 1960 eða eftir að efnahagsráðstafanir ríkisstj. voru komnar til framkvæmda og fram á sumar 1961 og aftur fyrri hluta árs 1962. Hún var mest í lok árs 1963 og fyrri hluta árs 1964, er hún náði ískyggilegum hraða. Þá óheillaþróun tókst þó að stöðva með samkomulaginu á milli verkalýðshreyfingarinnar, vinnuveitenda og ríkisstj. í júní 1964.

Á undanförnum mánuðum hefur hraði verðhækkana aftur aukizt nokkuð, í kjölfar mikilla hækkana á afurðum erlendis, mikilla kauphækkana innanlands á s.l. ári og mikillar hækkunar á verði landbúnaðarafurða á s.l. hausti. Síðan júnísamkomulagið var gert 1964, hefur hækkun framfærsluvísitölunnar þó ekki verið meiri en sem svarar tæpum 7% á ári eða talsvert minni en meðalhækkunin síðan í stríðslok.

Auðvitað er það mjög miður farið, að ekki skuli hafa tekizt að stöðva verðbólguna. Það er enn eitt brýnasta verkefni íslenzkra efnahagsmála. Og ríkisstj. er enn sem fyrr reiðubúin til heils hugar samstarfs við launþegasamtök og vinnuveitendasamtök um ráðstafanir í því skyni. En á það ber að benda og leggja á það sérstaka áherzlu, að undanfarin ár hefur verðbólgan þó ekki verið meiri en svo, að vöxtur þjóðarframleiðslunnar hefur orðið meiri en nokkru sinni fyrr og gjaldeyrisstaðan er orðin sterkari en hún hefur verið síðan í stríðslok. Verðbólgan hefur því hvorki stefnt afkomu útflutningsatvinnuveganna né gengi krónunnar í hættu.

Auðvitað á hagstæð verðlagsþróun erlendis þátt í því, að þjóðarbúskapurinn hefur þolað verðbólguna, og hefur sú þróun raunar beinlínis kynt undir verðbólgunni. Við getum ekki treyst því, að sú bagstæða verðlagsþróun haldist. En staðreyndin er engu að síður sú, að þrátt fyrir þá verðbólgu, sem hér hefur verið og sem betur fer fer minnkandi allra síðustu ár, þá hefur okkur tekizt að auka þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur og stórbæta gjaldeyrisstöðu okkar út a við, samfara því að innflutningur hefur verið gerður svo að segja alfrjáls og gengi krónunnar hefur haldizt traust og stöðugt.

Nú skulum við líta á þróunina í helztu atvinnuvegunum undanfarin ár.

Aldrei hafa orðið aðrar eins framfarir í íslenzkum sjávarútvegi og undanfarin 6 ár. Fiskiskipaflotinn hefur síðan í ársbyrjun 1960 aukizt um 35%. Afkastageta frystihúsanna hefur aukizt um fjórðung. Bræðsluafköst síldarverksmiðjanna hafa aukizt um rúml. 60%. Heildarafli hefur meira en tvöfaldazt. Og nú er verið að ráðast í byggingu stærri orkuvera en þjóðin hefur átt fram að þessu og stofnun nýrrar stóriðju í sambandi við það. Iðnaðurinn, sem orðinn er aðalatvinnuvegur landsmanna við hlið sjávarútvegsins, hefur haldið áfram að auka framleiðslu sína, enda þótt nokkur hluti hans hafi átt í nokkrum erfiðleikum vegna þess, að aukið viðskiptafrelsi og lækkaðir tollar hafa valdið því, að hægt hefur verið að flytja inn frá útlöndum vissar iðnaðarvörur fyrir lægra verð en unnt hefur verið að framleiða þær fyrir hér innanlands. Hefur þá bæði aukningu viðskiptafrelsisins og tollalækkuninni verið hagað þannig, að iðnaðurinn fengi svigrúm til að laga sig að hinum breyttu aðstæðum. Enn frekari ráðstafanir þarf þó að gera í því skyni, og eru þær fyrirhugaðar m.a. á þann hátt að veita iðnaðinum kost á sérstökum hagræðingarlánum.

Í viðskiptamálum þjóðarinnar hefur beinlínis orðið bylting á undanförnum árum. Fyrir 1960 hafði í 30 ár þurft opinbert leyfi til þess að flytja inn flestar vörur til landsins og til þess að kaupa erlendan gjaldeyri, hvort sem var ísmáum stíl eða stórum. Í 30 ár hefur hér lengst af verið skortur á ýmsum algengum erlendum neyzluvörum. Jafnsjálfsögð fæðutegund og nýir ávextir sáust hér t.d. ekki árum saman, nema þá helzt um jólaleytið. Skortur var á algengasta fatnaði, svo sem sokkum. Menn urðu að standa í biðröðum til þess að kaupa sér skó. Og þannig mætti lengi telja. Allt þetta er nú gerbreytt, og hafa nú neytendur úr miklu og góðu vöruúrvali að velja. Sú kjarabót verður ekki reiknuð í peningum, sem í því felst að geta valið úr fjölbreyttum og góðum vörum við ráðstöfun tekna sinna í stað þess að verða að sætta sig við að taka það, sem að manni er rétt, hvort sem manni geðjast það vel eða illa. Auðvitað væri tekjuauki til lítils gagns, ef skilyrðin til að ráðstafa tekjum sér til hagsbóta og ánægjuauka bötnuðu ekki, en hér hefur einmitt hvort tveggja gerzt á undanförnum árum. Tekjur manna hafa aukizt, og skilyrðin til að ráðstafa tekjum til hagshóta og ánægjuauka hafa batnað.

Ánægjan yfir þeim miklu framförum, sem hér hafa orðið, og hinni miklu velmegun, sem hér er ríkjandi, má þó ekki leiða til þess, að við gerum of lítið úr þeim vandamálum, sem við er að glíma og sum eru meira að segja bein afleiðing framfaranna. Verðbólguna hef ég þegar gert að umtalsefni. Að öðru langar mig einnig til að víkja lítils háttar. Ég á hér við hið mikla og alvarlega vandamál, sem skapazt hefur vegna offramleiðslu landbúnaðarafurða. Mikil framleiðsluaukning hefur orðið í íslenzkum landbúnaði á undanförnum árum, eins og í öðrum atvinnugreinum og í þjóðarbúskapnum yfirleitt. Hin mikla framleiðsluaukning í sjávarútveginum hefur orðið þjóðarbúinu til mikilla hagsbóta, því að meginhluti framleiðslu sjávarútvegsins er fluttur út fyrir hærra verð en nemur framleiðslukostnaðinum innanlands og meira að segja fyrir mjög hækkandi verð á undanförnum árum. Fyrir aukna framleiðslu og aukna þjónustu iðnaðarins hefur reynzt markaður innanlands og vaxandi þjóðartekjur hafa kallað á stóraukin viðskipti. Sérstaða landbúnaðarins hefur hins vegar verið fólgin í því, að minni aukning hefur orðið á eftirspurn eftir afurðum hans en hinna höfuðatvinnuveganna. Þetta á sér eðlilega skýringu. Íslenzki landbúnaðurinn framleiðir algeng undirstöðumatvæli. Allir vita, að eftir að vissu neyzlumarki er náð, auka menn ekki neyzlu sína á t.d. kjöti, kartöflum og mjólk, þótt tekjur manna vaxi. Tekjuaukinn er notaður til ýmissa annarra hluta. Þess vegna er ekki við því að búast, að eftirspurn eftir landbúnaðarvörum aukist nema sem svarar fólksfjölguninni. Framleiðsla landbúnaðarins hefur aukizt mun meira en fólksfjölguninni nemur, einkum og sér í lagi hefur þó framleiðsla mjólkurafurða á undanförnum árum aukizt svo mikið, að um alvarlega offramleiðslu á því sviði er orðið að ræða.

Síðan 1960 hefur mjólkurframleiðslan aukizt um 7% á ári að meðaltali, en neyzla mjólkur og mjókurafurða ílandinu hefur hins vegar ekki aukizt nema um rúm 2% á ári. Þetta hefur haft það í för með sér, að sumpart hefur orðið að flytja sívaxandi hluta mjólkurframleiðslunnar úr landi fyrir lítið verð og sumpart hafa mjólkurafurðir hlaðizt upp sem lítt seljanlegar birgðir í landinu. 1960 nam mjólk til útflutningsframleiðslu innan við 3% af heildarmjólkurframleiðslunni, en í fyrra var hlutfallið komið upp í hvorki meira né minna en 22%. Hversu alvarlegt þetta er, sést bezt, þegar það er haft í huga, að fyrir útfluttar mjólkurafurðir fæst að meðaltali aðeins um 25% af framleiðslukostnaðinum innanlands. Að því er sauðfjárafurðirnar snertir, er ástandið ekki eins alvarlegt. Þó er þar einnig um offramleiðslu að ræða, sem flytja verður til útlanda fyrir miklu lægra verð en nemur framleiðslukostnaði innanlands.

Fyrir mörgum árum var augljóst, hvert stefndi í þessum efnum. Ég gerði þessi vandamál landbúnaðarins að umræðuefni á Alþingi og utan þings fyrir nokkrum árum. Var þá ráðizt harkalega á mig úr ýmsum áttum fyrir skilningsleysi á gildi landbúnaðarins og jafnvel fjandskap í garð bænda. Það er nú komið í ljós, að ég var þá síður en svo of svartsýnn á það, sem fram undan væri í íslenzkum landbúnaðarmálum. Þau mál eru nú komin í alvarlega sjálfheldu. Offramleiðsla landbúnaðarins er orðin svo mikil, að flytja þarf út meira en 10% af heildarframleiðslunni. Það veldur því, að skv. gildandi lögum má ríkissjóður ekki greiða útflutningsbætur á allt það vörumagn, sem flytja verður út. Út flutningsbæturnar eru komnar upp í 220 millj. kr. á ári og eru þar með orðnar óeðlilega þungur baggi á skattgreiðendum. Og safnazt hafa saman birgðir af smjöri í landinu, sem nema nú um 1200 smálestum. Framleiðslukostnaður þessara smjörbirgða er um 200 millj. kr. Útflutningsverð þeirra er hins vegar um 40 millj. kr., ef þær væru seljanlegar, en miklir örðugleikar munu vera á því að selja þessar birgðir, ef það þá yfirleitt reynist kleift.

Þegar ég ræddi fyrst vandamál landbúnaðarins fyrir nokkrum árum og varaði við þróuninni í þessum efnum, var vandamálið fyrst og fremst fólgið í því, að bilið milli framleiðslukostnaðarins innanlands og útflutningsverðsins var sífellt að aukast samfara vaxandi framleiðslu, og byrðarnar á skattgreiðendurna vegna hækkandi útflutningsbóta voru þess vegna sífellt að þyngjast. Það var augljóst, að landbúnaðurinn gat ekki risið undir hækkandi framleiðslukostnaði innanlands, eins og allir hinir aðalatvinnuvegir landsmanna reyndust geta gert. En nú er vandamál landbúnaðarins orðið enn þá alvarlegra. Nú er svo komið, að offramleiðsla landbúnaðarins er ekki aðeins orðin byrði fyrir skattgreiðendurna yfirleitt og þjóðarbúið í heild, heldur einnig fyrir bændastéttina sjálfa. Fyrir þær landbúnaðarvörur, sem selja verður á erlendum markaði án útflutningsbóta, fá bændur auðvitað aðeins erlenda markaðsverðið að frádregnum vinnslukostnaði, flutningskostnaði til útlanda og sölukostnaði. Þegar bezt lætur, er það verð, sem bændur þannig fá, minna en 1/5 hluti af því verði, sem þeim er tryggt á innanlandsmarkaði og þeir sjálfsagt telja sízt of hátt. Fyrir sumar þær mjólkurvörur, sem framleiddar eru til útflutnings, er markaðsverðið meira að segja ekki nógu hátt til að greiða vinnslu- og flutningskostnað. Slík framleiðsla er bóndanum sjálfum auðvitað til beins tjóns. Framleiðsla á slíkum vörum rýrir beinlínis heildartekjur bændastéttarinnar og þar með þjóðarinnar.

Til skamms tíma var það fyrst og fremst hagsmunamál skattgreiðenda og þjóðarheildarinnar, að offramleiðsla landbúnaðarins væri takmörkuð. Nú er það líka orðið brýnt hagsmunamál bændastéttarinnar sjálfrar, að gerðar verði gagngerðar ráðstafanir í því skyni að draga úr offramleiðslu landbúnaðarins. Auðvitað verður ekki í einni svipan ráðin bót á jafnumfangsmiklu og alvarlegu viðfangsefni og hér er um að ræða. Og fleiri þjóðir en við Íslendingar eiga við erfiðleika að etja á sviði landbúnaðarframleiðslunnar, þótt líklega séu þeir meiri hér en í nokkru öðru nálægu landi. En nauðsynlegt er að taka þetta mikla vandamál föstum tökum og gera vandaða áætlun um lausn þess á nokkrum árum.

Góðir áheyrendur. Ég sagði í upphafi, að flutningur þessarar vantrauststill. mætti vera okkur ístjórnarflokkunum kærkomið tilefni til þess að gera þjóðinni grein fyrir störfum okkar og stefnu. 28 þm. stjórnarandstöðuflokkanna munu að sjálfsögðu greiða atkv. með þeirri till., sem foringjar þeirra hafa flutt. Það skiptir okkur í stjórnarflokkunum litlu máli. Hitt er miklu mikilvægara, hvort þjóðinni finnst við eiga vantraust skilið fyrir það, sem við höfum gert. Á ríkisstj. vantraust skilið fyrir það, að vöxtur þjóðarframleiðslu og þjóðartekna hefur undanfarið verið miklu meiri en nokkru sinni fyrr? Á hún vantraust skilið fyrir það að hafa breytt gífurlegum árlegum greiðsluhalla í utanríkisviðskiptunum í mikinn greiðsluafgang? Á hún vantraust skilið fyrir að hafa stjórnað gjaldeyrismálum þjóðarinnar þannig, að hún á nú yfir 2 milljarða í gjaldeyrissjóði erlendis? Á hún vantraust skilið fyrir að hafa eflt sjávarútveginn meira en nokkurn tíma áður? Á hún vantraust skilið fyrir, að íslenzkur iðnaður er að verða æ fjölbreyttari, fyrirhuguð er bygging stærri raforkuvera en nokkru sinni fyrr og ný stóriðja í því sambandi? Á hún vantraust skilið fyrir að hafa gert innflutningsverzlunina og gjaldeyrisviðskiptin frjáls? Á hún vantraust skilið fyrir, að gengi krónunnar er nú stöðugt og hún er gjaldgeng, hvar sem er í heiminum? Á hún vantraust skilið fyrir meiri umbætur í almannatryggingum en áður hafa þekkzt? Á hún vantraust skilið fyrir meiri framkvæmdir í skólamálum og gagngerðari breytingar á skólakerfinu en nokkurn tíma áður hafa verið framkvæmdar?

Ég hef þá trú á dómgreind Íslendinga, ég hef meiri trú á dómgreind Íslendinga en svo, að þeir telji ríkisstj. og stuðningsflokka hennar eiga vantraust skilið fyrir verk sín undanfarin 6 ár. Hitt er svo annað mál, að enn er ótal verk að vinna á öllum sviðum íslenzks þjóðlífs og menningarlífs. Úr fjölmörgu þarf enn að bæta. Þróunin má aldrei nema staðar. Allar framfarir skapa ný markmið, nýja möguleika, alltaf þarf að setja markið hærra og hærra. En hvorum skyldi vera betur treystandi til þess að ná æ hærri markmiðum, þeim, sem sagzt hafa verið á réttri leið undanfarin ár og hafa reynzt vera það, eða hinum, sem alltaf hafa sagt, að allt væri rangt, sem verið væri að gera, og vilja ekki enn viðurkenna annað en að allt sé á afturfótunum og í öngþveiti. Sannleikurinn er sá, að afturhaldið og þröngsýnina, skilningsleysið og ný viðhorf og breytta tíma hefur á undanförnum árum fyrst og fremst verið að finna innan stjórnarandstöðunnar hér á Íslandi.

Tillögugerð og málflutningur stjórnarandstöðunnar hefur ekkí einkennzt af nýjum hugmyndum, skilningi á hinni öru þróun nútímans. bjartsýni eða trú á þjóðina og æsku hennar. Málflutningur stjórnarandstöðunnar hefur verið nöldur og neikvæðar úrtölur. Allt er rangt, sem verið er að gera. Og hafi stjórnarandstaðan gert till. um athafnir, framkvæmdir eða fjárveitingar, hafa þær yfirleitt ekki verið í neinum tengslum við neina raunhæfa framkvæmdamöguleika, heldur augljósar yfirboðstíll. Öll afstaða íslenzku stjórnarandstöðunnar hefur undanfarin 6 ár ýmist verið algerlega neikvæð eða langt utan við allan raunveruleika.

Ef nokkurt vantraust væri nú tímabært eftir 6—7 ára stjórnarandstöðu Framsfl. og Alþb. væri það vantraust á stjórnarandstöðuna fyrir neikvæða afstöðu hennar, fyrir skort hennar á skilningi á því, sem nauðsynlegt hefur verið til hess að efla framfarir, hagsæld og menningu á Íslandi, fyrir vöntun hennar á vilja til þess að taka þátt í mesta uppbyggingarstarfi, sem unnið hefur verið á Íslandi síðan land byggðist.