25.03.1966
Sameinað þing: 33. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (2756)

159. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hv. hlustendur. Eins og sakir standa, er eðlilegt, að Alþ. sé rofið og efnt sé til nýrra kosninga og málin lögð í dóm þjóðarinnar. Rétt er, að ríkisstj. segi áður af sér. Þess vegna flytjum við þáltill. um vantraust á stjórnina. Ástæðurnar til þeirrar vantrauststill. og þingrofskröfu eru margar, en meginástæðurnar eru þó fyrst og fremst tvær, þ.e. í fyrsta lagi hið alvarlega og ískyggilega ástand í efnahagsmálum og alger ósigur stjórnarinnar í baráttunni við verðbólguna og í annan stað fyrirhugaðir og yfirvofandi stóriðjusamningar. Ég mun að mestu takmarka mál mitt við þessi tvö meginatriði.

Það var eitt af meginmarkmiðum núverandi stjórnar að vinna bug á verðbólgunni, að vinna að stöðvun dýrtíðarinnar. Á sínum tíma var því meira að segja lýst yfir af fyrirsvarsmanni stjórnarinnar, að ef ekki tækist að stöðva verðbólguna, væri allt annað unnið fyrir gíg. En þrátt fyrir þau stóru orð og fögru fyrirheit, hefur verðbólgunni alls ekki verið haldið í skefjum. Hún hefur þvert á móti magnazt ár frá ári á valdatíma núverandi stjórnarflokka og verið hraðskreiðari en nokkru sinni fyrr. Og nú er verðbólguskriðan á fleygiferð. Þann sannleika þekkir allur landslýður, og það er margviðurkennt af ríkisstjórninni sjálfri, að ekki hafi tekizt að hafa hemil á verðbólguþróuninni, enda þýðir ekki að neita þeirri staðreynd, sem sönnuð verður með óyggjandi tölum. Það er t.d. fróðlegt að athuga vísitölu neyzluvöruverðlags. Samkv. upplýsingum Efnahagsstofnunarinnar var sú vísitala árið 1939 103.6 stig, miðað við ársmeðaltal. Á tuttugu ára skeiði, eða til 1959, hafði hún hækkað í 977 stig. En hverjum breytingum hefur hún svo tekið í tíð núverandi stjórnar? Árið 1960 var hún 1091.7 stig, 1961 1213.2 stig, 1962 1356.1 stig, 1963 1527.9 stig, 1964 1824.8 stig og 1965 1959 9 stig, eða hafði hækkað nær jafnmikið á þessu 6 ára tímabili og á 20 árum áður. Þessar tölur segja vissulega sína sögu um dýrtíðarvöxtinn í tíð núverandi stjórnar. Séu borin saman 2 sex ára tímabil, árin 1954—1959 annars vegar og árin 1960—1965 hins vegar, og athugað, hver hækkunin hefur orðið prósentvís, kemur í ljós, að á fyrra tímabilinu hefur hækkunin samtals numið 33%, en á síðara 6 ára tímabilinu, þ.e. á valdatíma núverandi stjórnar, hefur hækkunin samtals numið 96.5%. Sé litið á hækkunina frá einu árí til annars, var hún á fyrra tímabilinu mest árið 1956, eða 11.3%, á síðara tímabilinu var hún 4 árin yfir 11%, en mest árið 1964, eða 19.4%.

Samkvæmt Hagtíðindum var byggingarkostnaður á 370 m3 íbúð árið 1960 453500 kr., en í febrúarmánuði s.l. er hann talinn vera 967000 kr. og hafði þá hækkað frá því í febr. 1905 um 151000 kr. Eins og tölur þessar bera með sér, hefur byggingarkostnaður meira en tvöfaldazt á valdatímabili núv. stjórnar. Á síðustu 3 árum hefur byggingarkostnaður slíkrar íbúðar hækkað um 342000, en nú er hámarkslán húsnæðismálastjórnar 280000 kr. Hækkun byggingarkostnaðar síðustu 3 ár hefur ekki aðeins étið upp hækkun lánsins, heldur hefur hún meira en étið upp allt lánið. Það er ekki að furða, þó að þessir menn séu að glamra um stórátak í húsnæðismálum. Þeir ættu heldur að segja eins og satt er, að í tíð núv. stjórnar hafi verið gert stórfellt átak til að koma byggingarkostnaðinum upp úr öllu valdi.

Ég læt nú þessi tvö dæmi nægja, en þannig mætti lengi halda áfram og sýna fram á það með óhrekjandi tölum, hversu ríkisstj. hefur staðið gersamlega ráðþrota gagnvart dýrtíðarflóðinu. Sjálfsagt hefur hana þó ekki vantað viljann til þess að halda verðbólgunni í skefjum, ef marka má yfirlýsingar hennar bæði fyrr og síðar. Ekki hefur erfitt árferði, aflabrestur eða minnkandi þjóðartekjur orðið stjórninni þrándur í götu eða staðíð í vegi fyrir skynsamlegri stjórn á efnahagsmálum, þvert á móti. Lánið hefur leikið við stjórnina í þeim efnum. Hér hefur, sem kunnugt er, verið metafli ár eftir ár, hækkandi verðlag á útflutningsafurðum og vaxandi þjóðartekjur. Samt hefur ríkisstj. ekkert ráðið við verðbólguna. Ekki getur ástæðan verið sú, að umsamið kaupgjald hafi farið fram úr því, sem þjóðartekjur leyfðu, ef kaupmáttur tímakaups er hér minni en hann var fyrir nokkrum árum.

Hvað hefur ríkisstj. vantað í viðureigninni við verðbólguna? Ég held að hana hafi skort skilning á viðfangsefninu, þess vegna hafi hún farið vill vegar. Ég held, að hana hafi vantað getuna. Sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir mikið yfirlæti hefur ríkisstj. aldrei náð tökum á efnahagsmálunum í heild. Hún hefur verið haldin oftrú á aðgerðir ípeningamálunum einum saman. En þær aðgerðir hennar hafa ekki staðizt dóm reynslunnar. Þær hafa sumar reynzt gagnslausar til að hamla gegn verðþenslunni, en aðrar orðið til að auka fjármagns- og framleiðslukostnað og hafa þar með ýtt undir og magnað dýrtíð og verðbólgu, og má þar til nefna vaxtahækkanir og gengislækkanir.

Viðbrögð ríkisstj. við vandamálum efnahagslífsins hafa upp á síðkastið í vaxandi mæli einkennzt af bráðabirgðaráðstöfunum og handahófsúrræðum, sem vitaskuld eru þó engin úrræði, heldur gálgafrestur á gálgafrest ofan. Vafalaust hefur stjórnin viljað gera betur, viljað stjórna betur. En hvað sem því líður, er staðreyndin þessi, sem ekki verður umflúin, að stjórnin hefur ekkert ráðið við dýrtíðina, og það sem verra er, hinn gífurlegi verðbólguvöxtur síðustu ára á sumpart beinlínis rætur að rekja til aðgerða ríkisstj. sjálfrar, en að öðrum þræði verður hann rakinn til stjórnleysis og aðgerðaleysis valdhafanna.

Afleiðingar hinnar geigvænlegu verðbólguþróunar blasa svo við í öllum áttum. Þær bitna auðvitað á öllum almenningi, sem á í vök að verjast vegna vaxandi dýrtíðar og horfir fram á lífskjararýrnun af hennar völdum. Það er launamönnum sívaxandi áhyggjuefni, hvernig þeir eigi að sjá sér og sínum farborða, láta tekjurnar hrökkva fyrir nauðþurftum. Það er óreiknandi dæmi, hvernig þeir lægst launuðu komast af. Bilin á milli þjóðfélagsþegnanna breikka. Hinir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátæhári. En þó kemur e.t.v. síðar röðin að heim ríku, því að verðbólgan hefur sama eðli og byltingin, að hún étur sín eigin börn. Byggingarkostnaðurinn leggst á unga fólkið eins og ok. Fjárlögin margfaldast, skattabyrðin þyngist stöðugt, en allt er þó kórónað með því, að greiðsluhalli er hjá ríkissjóði 2 síðustu árin. Hvar finnast dæmi slíks? Afleiðingar verðbólgunnar þjaka og framleiðsluatvinnuvegina og eyðileggja rekstrargrundvöll hverrar atvinnugreinarinnar á fætur annarri. Það er alvarlegast, því að þeir eru sá grundvöllur, sem afkoma landsmanna byggist á.

Það liggja fyrir margir vitnisburðir um versnandi afkomu, hallarekstur og jafnvel yfirvofandi framleiðslustöðvun hjá helztu atvinnuvegunum. Þeir vitnisburðir eru ekki aðeins frá einstökum atvinnurekendum, heldur og frá fundum þeirra og fyrirsvarsmönnum stéttasamtakanna. Hér er eigi tími til að rekja slík ummæli nema að örlitlu leyti. Formaður Stéttarsambands bænda segir svo í janúarhefti Freys, þar sem hann ræðir um búreikninga og afkomuhorfur landbúnaðarins:

„Þýðingarmesta ályktunin, sem draga má af niðurstöðum þessara reikninga, er sú, að bændur, eins og allur almenningur, tapa sífellt á verðbólgunni, að framleiðslukostnaðarverð á afurðum fjarlægist það að geta orðið samkeppnisfært á erlendum mörkuðum, eftir því sem dýrtíð hér á landi eykst, og kjör bænda batna allt of lítið borið saman við aðrar stéttir, þó að verðlagið hækki sífellt. Höfuðnauðsyn er fyrir bændur sem þjóðfélagið í heild, að verðbólgan verði stöðvuð.“

Þetta sagði formaður Stéttarsambandsins. Um iðnaðinn er það vitað, að hann hefur átt í sívaxandi erfiðleikum, ekki aðeins af völdum síhækkandi framleiðslukostnaðar og verðbólgu, heldur og mörgum ástæðum öðrum. Má í því sambandi vitna til ummæla formanns Félags iðnrekenda, er hann ritaði grein í Morgunblaðið 14. janúar s.l. Hann segir þar m.a.:

„Á árinu 1964 tóku erfiðleikar að gera vart við og í ýmsum greinum verksmiðjuiðnaðarins. Stöfuðu þeir af stórauknu frjálsræði í innflutningi, lækkun tollverndar með nýjum tollalögum, sem sett voru á miðju ári 1963, og vegna örrar hækkunar framleiðslukostnaðar.“

En hvað er þá að segja um sjávarútveginn, þessa höfuðstoð íslenzks atvinnulífs? Hann ætti svo sannarlega að standa með blóma nú, ef allt væri með felldu. En það er nú eitthvað annað en svo sé. Staðreyndin er sú, að hann verður ekki lengur rekinn án aðstoðar, nema nokkur stærstu skipin, sem búið hafa við áður óþekkt aflabrögð á síldveiðum. Því til sönnunar nægir að nefna frv. um aðstoð við sjávarútveginn, sem fjallað hefur verið um hér á Alþ. að undanförnu. Frystihúsaeigendur komu saman á fund hér í Reykjavík í síðasta mánuði. Í ályktun frá þeim fundi segir m.a. á þessa leið:

„Fundur frystihúsaeigenda, haldinn í Reykjavík 25. febr. 1966, lýsir áhyggjum yfir vaxandi verðbólgu. Of mikil samkeppni um takmarkað vinnuafl þjóðarinnar hefur leitt til aukinna erfiðleika í hráefnisöflun og rekstri hraðfrystihúsanna. Áframhald slíkrar þróunar mun fyrirsjáanlega leiða til samdráttar í hraðfrystingu sjávarafurða, þrátt fyrir að markaðir hafa verið góðir fyrir framleiðsluvörurnar.“ Og enn segir: „Fundurinn lítur svo á, að verði frekari framleiðslukostnaðarhækkanir eða raskist samkeppnisaðstaða freðfiskiðnaðarins af öðrum ástæðum, hljóti til þess að koma, að gengi íslenzku krónunnar verði lækkað eða gripið verði til annarra ráðstafana, sem hafi hliðstæðar verkanir í för með sér útflutningsframleiðslunni í hag.“

Þetta segja nú þeir menn, sem öllum hnútum eru kunnugastir af eigin reynd. Það er ekki ég, sem hér er að gera gengisfellingu skóna. Nei, það eru frystihúsaeigendur, sem að sögn eru margir hverjir sérstakir vildarvinir forsrh.

Ég hef talið rétt að vitna hér til þessara ummæla framangreindra aðila, en þau verða ekki talin nein gífuryrði, sett fram vegna vantraustsumræðna. Það mætti einnig, ef tími væri til, tilgreina áþekk ummæli margra annarra aðila. Aðvörunarorð þeirra er ekki hægt að láta sem vind um eyrun þjóta. Allir þessir aðilar eru sammála um, að aðalbölvaldur íslenzks atvinnulífs sé verðbólgan, enda verður því ekki með nokkrum rökum á móti mælt. Allir leggja þeir höfuðáherzlu á nauðsyn þess, að verðbólgan sé stöðvuð, að ráðizt sé að rótum meinsins. Hvers vegna er þá ekki snúizt í alvöru að því að hefta þá óheillaþróun?

Það er vissulega mannlegt að skjátlast. Við því er e.t.v. ekki mikið að segja, ef menn læra af reynslunni að draga réttar ályktanir af mistökum sínum og bæta ráð sitt. En því er siður en svo að heilsa með núverandi valdhafa. Þeir fást ekki til að játa mistök sín. Þeir fást ekki til að skipta um stefnu. Þeir fást ekki til að prófa nýjar leiðir til lausnar vandans. Það er ljóst af viðbrögðum þeirra við vandamálum atvinnuveganna, en um nokkur slík mál hefur verið fjallað hér á Alþ. að undanförnu. Það er um það eitt hugsað að tjalda til einnar nætur. Þar er enn um að ræða bráðabirgðaúrræði og aðeins bráðabirgðaúrræði, sem sum hver eru vægast sagt heldur kynleg. Má þar til dæmis nefna 80 millj. kr. aðstoð við sjávarútveginn, sem ekki verður komizt hjá að veita, enda þótt ekki væri gert ráð fyrir því í fjárl. En stjórnin hefur hreinlega gefizt upp við að afla fjár á móti, segist ekki sjá sér fært að skera niður verklegar framkvæmdir sem því svarar, enda áður búin að höggva ótæpt í þann knérunn. Hún sér þann einn kost að fella niður niðurgreiðslur um tilsvarandi upphæð. En það hefur þær afleiðingar, að launagreiðslur ríkissjóðs hækka fljótlega a.m.k. um 20 millj. eða líklega meira, þegar öll kurl koma til grafar. Jafnframt hækka svo beinar launagreiðslur atvinnurekenda, þeirra sem aðstoðina eiga að fá, um 15 millj. kr. eða kannske meira, svo að aðstoðin verður raunverulega ekki nema 65 millj. Allar þessar hækkanir fara svo auðvitað óðum út í verðlagið. Úrræði ríkisstj. verður sem sagt til þess að auka spennuna og magna dýrtíðina. Þetta jafngildir raunverulega algerri uppgjöf gagnvart verðlagsþróuninni.

Allt er eftir þessu. Það er þrautreynt, að núverandi ríkisstj. fæst ekki til að taka upp önnur vinnubrögð. Hún fæst ekki með neinu móti til að horfast í augu við sjálft höfuðvandamálið, verðbólguna. Í stað þess ætlar ríkisstj. nú að bæta gráu ofan á svart og stofna til stórframkvæmda með atbeina erlends fjármagns á því svæði, þar sem þenslan er mest og vinnuaflsskorturinn tilfinnanlegastur. Er þó augljóst mál, að slíkt hlýtur að verka á verðbólguna líkt og þegar olíu er hellt á eld, hlýtur að ýta stórkostlega undir hana og magna hana margfaldlega. Hvernig halda menn, að sjávarútveginum með þeirri aðstöðu, sem hann hefur í dag, muni ganga að keppa um vinnuaflið við stóriðjufyrirtæki, sem styðst við erlent fjármagn? Og hvað þá um þá landshluta, sem eiga í vök að verjast vegna aflabrests og atvinnuleysis og fólkið leitar nú þegar frá á vinnumarkaðinn hér syðra? Nei, sannleikurinn er sá, að bygging hinnar fyrirhuguðu álverksmiðju við Hafnarfjörð er óskynsamleg, eins og á stendur. Hennar er vissulega engin þörf þar vegna atvinnuástandsins. Hún leysir engan vanda atvinnulífsins. Þvert á móti mun hún fyrirsjáanlega stórauka erfiðleika undirstöðuatvinnuveganna, a.m.k. í bili, og valda margvíslegri truflun.

Stjórnin hefur fengið aðvaranir frá ýmsum þeim aðilum, sem hér mega gerst til þekkja. Alþýðusambandið hefur mótmælt, búnaðarþing hefur mótmælt, fundur frystihúsaeigenda, sem ég áður hef vitnað til, hefur varað við. Í ályktun hans segir m.a.:

„Með tilliti til þeirrar aðstöðu, sem útflutningsiðnaður landsmanna hefur með samkeppni á erlendum markaði, lýsir fundurinn yfir sérstökum ótta við ráðagerðir um stórframkvæmdir útlendinga í landinu, á sama tíma sem landsmenn sjálfir ráðast í stærri og meiri raforkuframkvæmdir en nokkru sinni fyrr.“

En stjórnin ætlar bersýnilega að fara að eins og fyrri daginn. Hún ætlar að virða allar aðvaranir að vettugi. Hún hefur þó ekkert sérstakt umboð fengið til fyrirhugaðra stóriðjusamninga. Það mál var ekki á dagskrá við síðustu alþingiskosningar. Kjósendur hafa ekki átt þess kost að tjá sig um það mál. Það er þó lágmarkskrafa, að það sé borið undir kjósendur, áður en horfið er að þeirri nýbreytni að veita útlendingum leyfi til að byggja atvinnustöðvar hér á landi. En auk þess eru í fyrirhuguðum stóriðjusamningum ýmis atriði, sem óverjandi er að um sé samið að kjósendum fornspurðum. Þess vegna á að efna til nýrra kosninga, áður en þessu máli er til lykta ráðið. Það á ekki að láta stjórnina komast upp með að fara fram hjá kjósendum í þessu stórmáll. Þess vegna þarf Alþingi að lýsa vantrausti á stjórnina.

Hér er ekki hægt að ræða einstök ákvæði hinna flóknu og torskildu stóriðjusamninga. Það verður gert innan skamms, er þeir hafa verið formlega lagðir fyrir þingið og verða þar ræddir sérstaklega. Þó vil ég aðeins minnast á örfá atriði, sem hafa þegar komið fram í opinberum umr. eða hlöðum.

Þess er þá fyrst að geta, að samið er um fast raforkuverð, alveg án tillits til þess, hver raunverulegur stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar verður. Það virðist vægast sagt óskynsamlegt og gæti reynzt hreinasta glæfraspil. Þá virðist og óvefengjanlegt eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að umsamið raforkuverð sé lægra og óhagstæðara hér en í Noregi. Er óskiljanlegt, hvernig slíkt þarf að vera. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt, að við förum að gefa með því rafmagni, sem við seljum útlendingum, að við förum að selja þeim raforku undir kostnaðarverði. Álbræðslan á að búa við sérstakar fastákveðnar skattareglur, sem eru aðrar en íslenzk fyrirtæki lúta, og eiga ekki að breytast skv. skattalögum, en þó á bræðslan að skrásetjast sem íslenzkt hlutafélag. Það er og vitað, að gert er ráð fyrir sérstöku og alveg óvenjulegu réttarfari í ágreiningsmálum, sem rísa kunna út af stóriðjusamningunum eða í sambandi við þá. Í þeim málum eiga íslenzkir dómstólar ekki að hafa lögsögu, nema um það verði samkomulag á milli aðila. Þau ágreiningsmál eiga að fara fyrir eins konar alþjóðlegan gerðardóm, sem sitja skal í útlöndum og skipaður skal fulltrúum frá aðilum, en oddamaður tilnefndur af þeim í sameiningu, en ef samkomulag næst ekki, þá af forseta alþjóðadómstólsins. Segja má, að þetta væri ekki athugavert, ef um væri að ræða venjulegan milliríkjasamning. En hér er ekki um milliríkjasamning að ræða. Hér er ekki um samning milli tveggja ríkisstjórna að tefla. Hér er um að ræða samninga ríkisstj., Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar við einkafyrirtæki. Eftir öllum venjulegum reglum heyra ágreiningsmál út af slíkum samningum hér á landi undir venjulega dómstóla, alveg án tillits til þess, hvort samningsaðili er innlendur eða útlendur. Þetta er viðurkennd regla í öllum réttarríkjum. Ég efast um, að í nágrannalöndum okkar sé fordæmi fyrir því, að ríkisstjórnir semji hliðstæð mál undan eigin dómstólum. Krafa einkafyrirtækis erlends hlutafélags um að taka þessi ágreiningsmál undan lögsögu íslenzkra dómstóla hlýtur að byggjast á vantrausti á íslenzku réttarfari og tortryggni í garð íslenzkra dómstóla. Á bak við hlýtur í raun og veru að búa sú skoðun, að hér sé ekki fullkomið réttarríki. Víst er þetta óvenjulegt og óviðunandi, þegar um er að ræða ágreining hins svissneska hlutafélags við stjórnvöld hér á landi. En þó ofbýður manni þá fyrst, þegar gert er ráð fyrir, að sama regla gildi um ágreiningsmál út af samningum við hið íslenzka álfélag, sem svo er kallað, en það félag er látið heita íslenzkt félag, á að skrásetjast hér sem slíkt, á samkv. orðanna hljóðan að fara að íslenzkum lögum og hafa stjórn, sem að meiri hluta er skipuð íslenzkum ríkisborgurum. Hvernig á ríkið að semja svo um, að ágreiningsmál þess, Hafnarfjarðarkaupstaðar eða Landsvirkjunar við íslenzkt hlutafélag séu tekin undan íslenzkum dómstólum og fengin alþjóðlegum gerðardómi til úrlausnar? Fyrr má nú rota en dauðþrota. Og hvernig í ósköpunum er hægt að kalla það íslenzkt félag, sem lýtur ekki lögsögu íslenzkra dómstóla? Ég efast ekki um, að ráðh. hafi lagt sig alla fram við þessa samningsgerð, og ég efast ekki um, að hann hafi ýmsu fengið breytt til batnaðar í þessum samningum. Ég tel víst, að hann hafi reynt að fá breytingu á þessum ákvæðum, en það hefur ekki tekizt. Þá hefði hann að mínum dómi átt að setja hnefann í borðið og segja: Hingað og ekki lengra. — Undir svona nokkuð er ekki hægt að skrifa fyrir fullvalda ríki, sem vill telja sig í hópi réttarríkja. Það er niðurlægjandi, og í því felst frekleg móðgun, bæði gagnvart þjóðinni og íslenzkum dómstólum. Og ég verð að segja það eins og það er, að ég vorkenni dómsmrh. að verða að ganga undir það jarðarmen að undirrita slíkt. Finnst mönnum nú vanþörf á, að svona samningar séu bornir undir kjósendur, áður en þeir eru undirskrifaðir?

Ég hef hér drepið á þau mál, sem að mínum dómi eiga nú að ráða úrslitum um traust eða vantraust á ríkisstj. Hinu dettur mér ekkí í hug að neita, að sitt hvað hafi áunnizt í löggjöf og landsstjórn á ýmsum sviðum, og þrátt fyrir ranga stjórnarstefnu hafa auðvitað margvíslegar framkvæmdir átt sér stað. En það vegur ekki að mínu áliti upp á móti hinu, sem miður hefur farið, og þeim tækifærum, sem hafa verið látin ónotuð.

Ég held, að sú stjórn, sem haldið hefur þannig á málum í einu mesta góðæri, sem sögur herma, þegar á heildina er litið, að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar verða ekki reknir án aðstoðar eða styrkja, eigi vantraust skilið. Vandi efnahagsmálanna verður ekki leystur undir forustu þeirrar stjórnar. Ég hef aldrei gert lítið úr þeim vandamálum, sem verðbólgan skapar. Ég held, að þar sé við að fást mjög erfitt viðfangsefni. Ég hef haldið og held, að í viðureigninni við verðbólguna sé naumast árangurs að vænta, nema sem flestir landsmenn eða helzt allir snúi bökum saman. Það þarf nýja stefnu, það þarf ný vinnubrögð, og það þarf viðtæka samstöðu um nýja forustu. Það held ég, að æ fleiri landsmenn skilji.

Viðskmrh. var að segja það hér áðan, að stjórnin fagnaði þessari vantrauststill., af því að hún gæfi stjórninni tilefni til að ræða málin og spyrja þjóðina, hvernig stjórnin hefði tekizt. Allt væri komið undir því, hvernig þjóðin svaraði. En spurningin er bara sú, hvort þeir háu herrar vilja lofa þjóðinni að svara nú. Við förum ekki fram á annað. — Góða nótt.