25.03.1966
Sameinað þing: 33. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (2757)

159. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Vantraustið hefur vakið furðu manna, einnig meðal liðsmanna Framsfl. og Alþb. Vitað er, að stjórnarandstæðingar hafa ekkert að bjóða þjóðinni. Sundurlyndi og úrræðaleysi þessara flokka muna flestir, þó að liðin séu 8 ár, frá því að þeir gáfust upp við að stjórna landinu. Þegar núverandi ríkisstj. komst til valda, tók hún við þrotabúi vinstri stjórnarinnar. Allir sanngjarnir menn viðurkenna, að stjórnarflokkunum hefur tekizt að leysa ýmsa þætti efnahagsvandamálanna og vinna þjóðinni á ný traust og álit, sem áður var glatað vegna skulda og vanskila erlendis. Höfuðverkefni núverandi ríkisstj. hefur verið annars vegar að bjarga fjármálunum út á við og hins vegar að byggja upp atvinnulífið og bæta lífskjör almennings. Spurningin er þá sú, hvort þetta hafi tekizt.

Um fjárhaginn út á við þarf ekki að ræða, þar sem gjaldeyrisvarasjóður yfir 2000 millj. kr. talar sínu máli.

Atvinnuvegir landsmanna voru í strandi, þegar núv. ríkisstj. tók við. Framleiðsla landbúnaðarvara hafði dregizt saman, svo að flytja varð inn smjör á ársbyrjun 1960. Í þingtíðindum 1959–1960 má lesa þingræður framsóknarmanna þar sem því er haldið fram, að landbúnaður hljóti að dragast saman, að innflutningur á landbúnaðarvörum verði varanlegur, vegna þess að ríkisstj. muni búa illa að landbúnaðinum. Staðreyndirnar eru aðrar. Nú hafa margir áhyggjur af því, að landbúnaðarframleiðslan sé of mikil. Það er vitanlega ástæðulaust að hafa áhyggjur af því, þótt rétt megi telja að færa nokkuð til milli framleiðslugreina, eins og rætt hefur verið um af hálfu bændasamtakanna. Sú tilfærsla þarf að fara fram með nákvæmni og athugun, svo að ekki verði mjólkurskortur á aðalmarkaðssvæðunum. Ef lítil framleiðsla á landbúnaðarvörum stafar af því, að illa er búið að bændum, en tæplega þarf að efa, að sú hlyti ástæðan að vera, er augljóst, að mikil framleiðsla stafar af því, að sæmilega hefur verið búið að landbúnaðinum. Ræktunin mun hafa verið á s.l. ári nærri því helmingi meiri en hún var 1958. Vélakaup og ýmsar framkvæmdir í landbúnaðinum hafa aukizt að sama skapi. Þetta er lofsvert og kemur þjóðinni allri til góða nú þegar, en ekki sízt þegar fram líður. Það mun síðar sannast. Bændunum hefur fækkað nokkuð, vegna þess að lélegar jarðir og afskekktar hafa farið í eyði og smærri jarðir lagðar undir aðrar til þess að gera skilyrðin betri til búrekstrar. Verðlagsmál landbúnaðarins voru leyst á heppilegan hátt á s.l. hausti, eftir að verðlagslöggjöfin var gerð óvirk. Þingmenn Framsfl. reyndu að magna upp óánægju meðal bænda með búvöruverðið. Tilraunir í þá átt fengu ekki hljómgrunn hjá bændum. Ríkisstj. skipaði nefnd s.l. haust til þess að vinna að endurskoðun verðlagslöggjafarinnar með það fyrir augum að endurvekja samstarf framleiðenda og neytenda við verðlagningu búvöru. N. varð ekki sammála. Till. og álit meiri hluta og minni hl. n. eru nú í athugun hjá ríkisstj.

Oft er talað um samgöngumálin og lélega vegi hér á landi. Til vegamála var varið á s.l. ári um 400 millj. kr., en ekki nema 80 millj. 1958. Vegavísitalan 1965 hafði hækkað um 86% á þessum tíma. Þótt þetta sé miklu meiri hækkun en nemur aukinni umferð og hækkuðum vegagerðarkostnaði, má segja, að brýn nauðsyn sé á að auka tekjur vegasjóðs frá því, sem nú er. Vegagerð í okkar strjálbýla landi er mjög dýr. Reykjanesbrautin varð dýr, en vitnar um, hvað koma skal, hvernig vegir eiga að vera, þar sem umferðin er mest. Í okkar stóra og strjálbýla landi er erfiðara að leysa þessi mál með hraða en í hinum þéttbýlu löndum. Á Íslandi eru aðeins tæpir 2 menn á ferkm. En í þéttbýlli löndum eru 50—100 manns á hvern ferkm. í Danmörku um 80 manns. Það er ekki undarlegt, þó að vegirnir séu að jafnaði betri, þar sem margmennið er. Þótt stjórnarandstæðingar og þá helzt framsóknarmenn tali oft af vandlætingu um, hversu litlu fé sé varið til vegamála, verður það tæplega tekið alvarlega, þegar tillit er tekið til þess, hvernig búið var að þessum málum, þegar þeir höfðu völdin. Til flugvallagerðar verður varið árið 1966 56 millj. kr. Mun það vera 12 sinnum meira en veitt var til þessara mála 1958. Hefur mikið áunnizt í framkvæmd þessara mála, þó að mikið sé ógert til þess að fullnægja þörfinni til frambúðar.

Stjórnarandstæðingar hafa oft rætt um góðærið, sem verið hafi undanfarið, og þess vegna hafi ríkisstj. lifað. Góðæri hefur vissulega verið, og ber að þakka það og vona, að svo verði áfram. Aflabrögð síðari árin hafa verið ágæt, sérstaklega á síldveiðum. Reyndir sjómenn segja, að síldin hafi því aðeins veiðzt, að til voru stór fiskiskip með nýtízku tækjum. Síldin hefur oft verið langt frá landi og ekki mögulegt fyrir smærri skip að stunda veiðar á fjarlægum miðum. Fiskiskipastóllinn hefur verið stóraukinn. Bátar um og yfir 100 lestir brúttó voru aðeins 49 að tölu 1958, en hefur fjölgað um 116, en rúmlestatalan þó enn þá meira eða um nærri því 300%. Um verksmiðjur og iðjuver má það segja, að aukningin sé í samræmi við vöxt skipastólsins. Ef ekki hefði verið skipt um stefnu í fjárhags- og gjaldeyrismálum, var útilokað, að þjóðin gæti aukið skipastólinn og byggt verksmiðjur.

Fyrir hendi var hvorki gjaldeyrir né lánstraust til þess að ná tækjunum heim. Þjóðin hefði orðið að vera án síldarinnar, sem sótt var á djúpmið, og án þeirra tekna og gjaldeyris, sem fyrir þessi verðmæti hefur komið.

Í atvinnumálum þarf að vera raunsæi, hyggindi og framtak, til þess að vöxtur atvinnuveganna megi hverju sinni vera í samræmi við aukningu vinnuaflsins í landinu. Þjóðinni fjölgar árlega um nærri 4000 manns, og það verður að tryggja atvinnu fyrir alla. Það verður að efla þær atvinnugreinar, sem eru fyrir í landinu, eftir því sem unnt er. Vinnsla sjávarafurða og landbúnaðarvara getur tekið við auknu vinnuafli. Þótt að þessu sé unnið og hagræðing og hvers konar viðleitni til aukinnar tækni og nýtingar hráefna verði notuð, er nauðsynlegt eigi að síður að taka upp nýjar atvinnugreinar, ef þær reynast hagkvæmar. Virkjun stórfljótanna gefur þá raforku, sem þjóðin þarf til venjulegra nota og aukins iðnaðar. Nú stendur fyrir dyrum stórvirkjun í Þjórsá. Er það vissulega gleðiefni. Miðað við aðrar þjóðir nota Íslendingar mikið rafmagn. Rafknúin heimilistæki eru notuð hér á flestum heimilum, þar sem aðeins efnaðri heimili leyfa sér slíkt viðast erlendis. Rafvæðing landsins er vel á veg komin. Eftir að 10 ára áætluninni lauk, hefur veríð unníð að lagningu rafmagns til bæja með meðalfjarlægð 1—1.5 km. Síðan verður sennilega tekin fyrir vegalengdin 1.5—2 km. Þess verður ekki langt að bíða, að allir Íslendingar hafi rafmagn. Frá Þjórsárvirkjun fær stór hluti landsmanna raforku. Með því að virkja á hagkvæman hátt, verður raforkuverðið 62% lægra fyrstu árin heldur en ef virkjanirnar eru smærri og eingöngu miðað við venjulega notkun landsmanna. Með því að leyfa byggingu álverksmiðju er mögulegt að virkja á ódýrasta máta og tryggja almenningi hagkvæmara raforkuverð en annars var mögulegt. Verksmiðjan er einnig spor íþá átt að gera atvinnuvegina fjölbreyttari og skapa gjaldeyristekjur í þjóðarbúíð. Stjórnarandstæðingar segja, að ekki sé tímabært að byggja verksmiðjuna hérlendis. Norðmenn hefðu gjarnan tekið við henni. Þeir taka við erlendu fjármagni og selja erlendum aðilum raforku til stóriðju. Norska þjóðin hefur notið góðs af því. Stjórnarandstæðingar vilja með andstöðu sinni við hagkvæma virkjun í Þjórsá leggja þungar byrðar á almenning með 62% hærra raforkuverði en vera þarf.

Stefna ríkisstj. hefur verið sú að efla atvinnuvegina og tryggja öllum landsmönnum nægilega vinnu og bætt lífskjör. Til þess að fá svör við því, hvort þetta hefur tekizt, er auðveldast að spyrja menn úr öllum stéttum, hver reynslan er í þessum efnum. Ég hef rætt við marga um þessi mál. Verkamaður með 5 manna fjölskyldu segir m.a.:

„Það hefur aldrei verið mögulegt að komast af með 8 stunda vinnudag, ef menn vildu veita sér margt umfram brýnustu nauðsynjar. Áður var oft atvinnuleysi, en nú hafa allir vinnu. Ríkisstj. hefur unnið að því að efla atvinnuvegína og tryggja þannig nóga atvinnu fyrir alla. Sú stefna horfir til heilla og framfara fyrir þjóðina. Kjörin eru nú jafnari og betri en áður. Öryggi þeirra, sem minnst eiga, er stóraukið með atvinnuöryggi og eflingu almannatrygginga. Við treystum því, að ríkisstj. vinni áfram að framförum og bættum lífskjörum almenningi til handa.“

Þannig talaði verkamaðurinn. Þannig tala aðrir launþegar, sem skoða málin á hlutlausan hátt. Bændur gera sér á sama hátt grein fyrir því, að möguleikar þeirra eru aðrir og betri en var áður. Nú efast enginn, sem þekkir til landbúnaðar, um gildi hans fyrir þjóðfélagið og framtíðarmöguleika. Sjómenn og útgerðarmenn vita, hvers virði uppbygging sjávarútvegsins er og sú aukning á skipastóli og vinnslustöðvum, sem hvarvetna hefur orðið. Kaupsýslumenn þurfa nú ekki að eyða hálfum vinnutímanum á biðstofu nefndar til þess að fá innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, eins og áður var. Með auknu frelsi í verzlun og viðskiptum hefur komið vöruúrval og bætt aðstaða fyrir allan almenning að velja og hafna í stað þess að taka áður við því, sem a boðstólum var, eða fá ekkert að öðrum kosti. Hafta- og skömmtunarstefnu Framsfl. hefur verið kastað fyrir borð og verður vonandi aldrei aftur tekin upp. Það hefur þó komið greinilega fram, að „hin leiðin“, sem Framsókn vill fara, er leið hafta og skömmtunar.

Þjóðin hefur heilbrigða dómgreind og lætur ekki blekkjast. Þess vegna er almennt brosað að vantrauststill. uppgjafar- og kreppuflokkanna. Þjóðin vill ekki víkja af vegi framfara og uppbyggingar. Hún vill ekki kalla yfir sig ráðleysi Framsóknar og Alþb., sem virðast ekkert hafa lært á þeim 8 árum, sem þessir flokkar hafa búið við valdaleysi.

Það er skylda að vinna ávallt ákveðið að alhliða uppbyggingu atvinnulífsins, hvers konar framförum og bættum lífskjörum þjóðarinnar. Með því að efla almannatryggingar, eins og nú hefur verið gert, er hagur þeirra, sem verst eru settir, bættur. Ólafur Thors lýsti því sem stefnuatriði Sjálfstfl., að tryggja hæri alla Íslendinga gegn skorti. Sjálfstæðismenn hafa fylgt þeirri stefnu og munu ávallt fylgja henni. Það verður bezt gert með því að efla atvinnulífið og almannatryggingarnar. Þá munu þeir, sem þarfnast hjálpar, fá nægilega aðstoð og þjóðfélagsheildin eflast. — Góða nótt.