25.03.1966
Sameinað þing: 33. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2760)

159. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Sjútvmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Aldrei fyrr hef ég heyrt forustumann verkalýðssamtaka vara við of mikilli atvinnu í landinu, en þessu höfum við nú orðið áheyrendur að.

Það er nú þegar ljóst í þessum umr., hver ástæðan er til flutnings þeirrar vantrauststill., sem hv. stjórnarandstæðingar hafa nú flutt hér sameiginlega. Grunntónninn er sá, að flm. till. vilja með henni reyna að sýna almenningi í landinu, að í a.m.k. einu máli geti þeir verið sammála: að vera á móti tillögu- og frv.-flutningi ríkisstj. og þar af leiðandi öllu framkvæmdastarfi hennar í reynd. Þegar þeir hafa svo í umr. um þessi mál á hv. Alþ. verið að því spurðir, á hvern hátt annan þeir kysu að umrædd vandamál væru leyst, fást ýmist engin svör eða svarað er með því að segja: Það er ekki hlutverk stjórnarandstöðu að vísa stjórninni veginn til lausnar vandamála. — Að sjálfsögðu á þetta ekki undantekningalaust við alla hv. stjórnarandstæðinga. Heiðarlegar og ágætar undantekningar eru frá þessari reglu, sem vert er að minnast. Hvort tveggja er, að þessar undantekningar eru þó enn of fáar og hið neikvæða og ófrjóa virðist vera í meiri hl. Í báðum stjórnarandstöðuflokkunum, með þeim afleiðingum, að áhrif þeirra á gang mála verða ýmist engin eða vart merkjanleg til jákvæðra framfaramála. Þetta er mikið alvörumál, ekki aðeins fyrir kjósendur, er fólu þessum flokkum trúnað sinn í síðustu kosningum, heldur fyrst og fremst fyrir þjóðarheildina. Slík afstaða hlýtur að vekja allt hugsandi fólk til meðvitundar um mikilvægi kosningarréttarins og það, hverjum trúnaður með honum er veittur hverju sinni.

Allir landsmenn, sem hafa látið sig atvinnumál einhverju skipta, hafa í áratugi fundið að því andvaraleysi, er þeir hafa talið vera ríkjandi um varanlega tryggingu atvinnu í landinu. Til rökstuðnings þessum skoðunum hefur verið bent á þá hættu, sem þjóðinni allri og þá sér í lagi vinnandi fólki stafaði af því að eiga alla sína afkomu undir sveiflukenndu fiskimagni og síbreytilegri veðráttu frá ári til árs. Reynsla undanfarandi áratuga hefur verið talin næg sönnun þess, að tryggja verði jafnframt betur aðrar atvinnugreinar, sem ekki væru jafnháðar árstíðabundnum aflabrögðum og hvikulli veðráttu. Ríkisstj. hefur talið það skyldu sína að kanna til hlítar hugsanlega möguleika til varanlegri tryggingar atvinnu í landinu og þá fyrst og fremst með það í huga að hagnýta jafnframt þá möguleika, sem felast í óbeizluðum auðlindum landsins. Eftir langa og ýtarlega rannsókn hefur athyglin beinzt að stórvirkjun í Þjórsá, svo sem hæstv. iðnmrh. hefur þegar rækilega útskýrt. Til að fá þessa orku nægjanlega hagkvæma og ódýra þarf að virkja stærra en íslenzkur markaður hefur þörf fyrir næstu áratugi. Þess vegna þarf að tryggja sölu þessarar orku við því verði, sem staðið getur undir kostnaði við virkjunarframkvæmdir. Sá aðili, sem að fyrrgreindri rannsókn lokinni var talið þjóðhagslega hagkvæmast að taka upp samninga við, var svissneska alúminíumfyrirtækið Swiss Aluminium. Fyrirtækið þarf til sinna afnota þá raforku, sem við getum af hendi látið, um leið og við með sölu orkunnar tryggjum öruggan rekstur orkuversins. Þegar þessar staðreyndir liggja fyrir og stjórnarandstæðingar hafa haft opinn aðgang að því að fylgjast með aðdraganda þeirrar niðurstöðu, heitir viðurkenning staðreyndanna nú allt að því landráð eða afsal landsréttinda. Þá er allt í lagi, engin þörf á atvinnutryggingu og engin ástæða til að óttast aflabrest eða slæmt tíðarfar. Öll fyrri rök með erlendu fjármagni til tryggingar íslenzku atvinnulífi eru nú ekki lengur frambærileg og heita nú á þeirra máli undirlægjuháttur við erlenda auðhringa. Í andstöðuhitanum er jafnvel gengið svo langt að fullyrða, að undanfarin ár hafi ríkisstj. vísvitandi haldið að sér höndum um framkvæmdir og í stuðningi við framfarir í aðalatvinnuvegi landsmanna, sjávarútveginum, til að auðvelda stóriðju inngöngu í íslenzkt athafnalíf. Þannig fá hv. stjórnarandstæðingar út þá niðurstöðu, að umrædd stóriðja sé tilræði við íslenzkan sjávarútveg sérstaklega og yfir höfuð við innlent athafnalíf.

Það er því ekki að undra, þótt hinum almenna manni, er les slík skrif og hlustar á þann málflutning, komi til hugar hin óyfirvegaða afstaða mannanna, er á sínum tíma reyndu að mótmæla komu talsímans til Íslands með óvenjulegri fylkingu manna og hesta til Reykjavíkur. Nútíðarskoðanabræður talsímamótmælenda töldu fyrir fáum árum, þegar kjördæmaskipun landsins var breytt til að jafna kosningarrétt landsmanna, að af því mundi leiða grasleysi til sveita og aflaleysi til sjávar, m.ö.o. móðuharðindi af manna völdum. Kjördæmaskipun landsins var eigi að síður breytt, og hið gagnstæða birtist landsfólkinu í ljósi staðreyndanna. Afli hefur aldrei verið meiri en síðan og offramleiðsla í landbúnaði vegna aukinnar ræktunar er nú helzta vandamál þeirrar atvinnugreinar.

En þá er rétt að minnast þeirra ásakana, sem uppi hafa verið hafðar um aðgerðaleysi stjórnarvalda í sjávarútvegi á samstarfstíma núv. stjórnarflokka frá árinu 1959. Heildarfjárfesting þjóðarinnar til fiskveiða og fiskvinnslu hefur á þessu tímabili numið 3158 millj. kr. og þess vegna aldrei verið meiri. Fiskiskipaflotinn hefur í heild aukizt um 20 þús. lestir eða úr 57800 lestum í 77900 lestir. Vélbátum yfir 100 rúml. fjölgaði á þessu tímabili um 123, og enn eru að koma með skömmu millibili ný og stærri fiskiskip í veiðiflotann, sem smíðuð eru bæði innanlands og utan. Það eru þessi skip, sem hafa fært að landi meginhluta hins dýrmæta síldarafla síðari ára. Afkastageta frystihúsanna hefur aukizt á s.l. 4 árum, eða frá árinu 1961 til ársloka s.l. árs, miðað við 16 klst. vinnutíma, úr 1927 lestum í 2503 lestir eða um 25%. Bræðsluafköst síldarverksmiðjanna hafa aukizt frá árslokum 1958 til ársins 1965 úr 70840 málum á sólarhring í 120250 mál á sólarhring. Þróarrými síldarverksmiðjanna hefur á sama tíma aukizt úr 414 þús. málum í 700 þús. mál Útflutningur sjávarafurða jókst á því 4 ára tímabili, sem endanlegar tölur liggja nú fyrir um, frá árinu 1960—1964, úr 2650 millj. kr. í 4384 millj. kr. Heildaraflamagnið á þessum árum, sem fyrst og fremst er að þakka hinni öru endurnýjun á stærri gerðum fiskiskipaflotans og fullkomnari veiðitækni þeirra, sér í lagi á síldveiðum, jókst á árunum 1959—1965 úr 400 þús. smál. í 1 millj. 90 þús. smál. Þessar stórstígu framfarir síðustu ára í íslenzkum sjávarútvegi vitna glöggt gegn öllum ásökunum um, að núv. ríkisstj. hafi haldið að sér höndum um framfarir og endurbætur í þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.

Nú sem áður er erfiðleikumbundið að spá um framtíð íslenzks sjávarútvegs. Tvennt er þó ljóst, að þrátt fyrir tilkomu nýrra atvinnugreina og nýrra iðjuvera til tryggingar atvinnulífi landsmanna verður sjávarútvegurinn enn um ófyrirsjáanlega framtíð lífæð þjóðarinnar, og s.l. 7 ár hafa verið mesta framfaratímabil í sögu fiskveiða og fiskvinnslu hér á landi. Þessi undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar á þrátt fyrir fyrrgreindar og óvefengjanlegar framfarir nú sem fyrr við sína tímabundnu erfiðleika að stríða, sér í lagi í tveim greinum fiskiskipa, þ.e. á togurum og minnstu stærðum vélbátaflotans. Tvær stjórnskipaðar n. vinna nú að athugun á vandamálum þessara mikilvægu greina veiðiflotans. En jafnframt því sem hugað er að lausn þessa vanda, er nauðsynlegt að gera sér Ijóst, með hvaða hætti þjóðinni er hagkvæmast, að endurnýjun veiðiflotans eigi sér stað í framtíðinni.

Af hálfu hv. stjórnarandstæðinga hefur verið lögð áherzla á það, að alvarlegan vinnuaflsskort muni leiða af byggingu alúminíumverksmiðju, sérstaklega meðan á byggingartíma stendur. Persónulega vil ég ekki gera litið úr þeim vanda. Þrátt fyrir mjög sveiflukennda þörf okkar fyrir vinnuafi á undanförnum árum hefur í fullu samstarfi við verkalýðsfélögin tekizt að leysa þann vanda. Eftir sömu leiðum verður nú að leysa hinn tímabundna vanda sjálfs byggingartíma orkuversins og verksmiðjunnar.

Það hefur verið tiltölulega hljótt um hin félagslegu málefni hér á hv. alþ. síðustu árin, og segir það eitt út af fyrir sig sina sögu. Á stundum hafa þau mál þó verið eitt helzta deiluefnið. Höfuðástæða til þeirra kyrrðar, sem nú hefur ríkt um þessi mál, er, að ríkisstj. hefur tekizt að ná samkomulagi og jafnvel beinu samstarfi við verkalýðssamtökin um lausn margra þeirra vandamála.

Eitt allra viðkvæmasta og um leið viðtækasta vandamál almennings hafa verið húsnæðismálin og þá sér í lagi lánsfjárskorturinn. Allt fram til ársins 1960 höfðu hlaðizt upp hjá húsnæðismálastofnuninni óafgreiddar lánsumsóknir, sem í allt að 3—4 ár höfðu enga fyrirgreiðslu hlotið vegna fjárskorts. Þessi langi biðtími eftir lánum jók að sjálfsögðu byggingarkostnaðinn með lengdum byggingartíma og kom fram í æ fleiri hálfbyggðum íbúðum, sem enginn hafði not af. Síðan hefur tekizt hægt og hægt að þoka lánsfjármálunum í það horf, að á s.l. hausti var í fyrsta sinn í 10 ára sögu stofnunarinnar hægt að afgreiða allar lánshæfar umsóknir, en á því ári nam heildarupphæð lánanna á 4. hundrað millj. kr. Höfuðástæðan til, að þessu marki var náð, var það samstarf um lausn þessa vanda, sem tókst milli ríkisvalds og verkalýðssamtaka með kjarasamningunum í júní 1964 og aftur í júní 1965.

Enn þá hefur ekki verið sigrazt á hinni hlið húsnæðisvandamálsins, þ.e. hinum háa byggingarkostnaði. Ríkisstj. hefur með frv. því, sem nú hefur verið lagt fyrir Alþ. um breytingar á tollskrá, lagt til, að verulega yrðu lækkaðir tollar á ýmsum tegundum byggingarefnis og tilbúinna húshluta. Nauðsynlegt er, að þessar tollalækkanir komi raunverulega fram í lækkuðum byggingarkostnaði og að þrautreyndar verði allar færar leiðir til að lækka þennan víðtæka útgjaldalið almennings. Jafnframt þessari tollalækkun er samkv. fyrrgreindum kjarasamningum í undirbúningi hjá sérstakri n. byggingaráætlun um fjöldaframleiðslu íbúða. Full ástæða er til að ætla, að einnig um framkvæmd þessa mikilvæga máls takist nauðsynlegt samstarf og samvinna við verkalýðssamtökin og vonandi með sama árangri fyrir íbúðarbyggjendur og um lánsfjármálin. Án þess samstarfs verður vart raunhæfs árangurs að vænta. Öll lög og reglugerðir um opinber afskipti af húsnæðismálum eru nú í endurskoðun hjá húsnæðismálastjórn.

Af öðrum almennum félagsmálum, sem nú eru í undirbúningi á vegum ríkisstj., má nefna nefndarskipun til samningar frv. um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og endurskoðun 1. um uppsagnarrétt verkafólks, og hinn 27. okt. s.l. var skipuð þriggja manna n. til að endurskoða gildandi lög og reglur um orlof. Fyrir Alþ. liggur nú frv. um breytingu á l. um atvinnuleysistryggingar, sem m.a. gerir ráð fyrir rýmkun á lánsheimildum sjóðsins, skemmri biðtíma eftir bótarétti og hækkuðum atvinnuleysisbótum.

Af framangreindu er ljóst, að ríkisstj. vill með raunhæfum hætti koma til móts við óskir verkalýðssamtakanna og alls almennings í landinu, svo sem aðstæður frekast leyfa hverju sinni, og metur mikils það samstarf, sem við samtökin hefur tekizt um framkvæmd vandasamra mála, er varða heill alþjóðar. Alþfl. mun í þessu stjórnarsamstarfi eins og áður beita áhrifum sínum til, að þeirri stefnu verði áfram haldið í fullu samræmi við allt fyrra starf flokksins í íslenzkum þjóðmálum s.l. 50 ár.