09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (2768)

71. mál, skýrslugjafir fulltrúa Íslands á þjóðaráðstefnum

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 86, er lagt til, að ríkisstj. sé falið að gera till. um það, með hverjum hætti Alþ. verði gefnar skýrslur um þær fjölþjóðlegu ráðstefnur, sem fulltrúar af Íslands hálfu sækja eða Ísland á aðild að. Um það eru nú ekki neinar fastar reglur, svo að mér sé kunnugt um, hvorki í lögum né neinum öðrum fyrirmælum. En svo sem alkunna er og hér þarf ekki að rekja, hefur það farið mjög í vöxt á síðari árum, að Ísland taki þátt í ýmiss konar alþjóðlegu samstarfi og fulltrúar af þess hálfu sæki ýmsar fjölþjóðlegar ráðstefnur. Fulltrúar Íslands á slíkum samkomum gefa að sjálfsögðu ríkisstj. þar um skýrslu, og vafalaust eru þær skýrslur athugaðar í utanrrn., og sjálfsagt eru þær skýrslur skoðaðar af ríkisstj. og ræddar þar. Um það efast ég ekki. Hins vegar hefur það alls ekki tíðkazt hingað til, að slíkar skýrslur væru lagðar fyrir Alþingi. Á slíkum fundum er þó oftlega fjallað um málefni, sem Alþingi ætti að fylgjast sem bezt með og þarf reyndar oft síðar að taka afstöðu til, annaðhvort beint eða óbeinlínis. Alþ. á m.a. auðvitað að fá vitneskju um það, hvað hinir íslenzku fulltrúar hafi lagt til mála á þvílíkum fundum og hver hafi verið afstaða þeirra til framkominna till. þar. Þar er einmitt oft um að ræða mikilvæg utanríkismálefni og alþjóðaskipti, sem Alþingi á að fylgjast með og á að hafa sitt um að segja, að því leyti sem Ísland varðar. Það mun varla verða vefengt, að það sé Alþ., sem á að réttu lagi að ráða mestu um utanríkisstefnu landsins á hverjum tíma. Það er undirstrikað í 21. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem samþykki Alþ. er áskilið til þeirra mikilvægu milliríkjasamninga, sem þar greinir. Þess vegna hefur hér einnig einmitt og að vísu að erlendri fyrirmynd verið sett á fót sérstök þn., utanríkismálanefnd. Um verkefni þeirrar n. segir svo í þingskapalögum, 16. gr. þeirra:

„Til utanríkismálanefndar skal vísa utanríkismálum. Utanríkismálanefnd starfar einnig á milli þinga, og skal rn. ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga.“

Ljóst er af þessu og reyndar einnig öðru, sem hér skal þó eigi rakið, að utanrmn. hefur algera sérstöðu meðal þn. Henni er ætlað að starfa jafnt um þingtímann sem utan hans. Undir hana á ekki einungis að bera utanríkismál, sem eru til meðferðar í þinginu hverju sinni, heldur á rn. og að bera undir hana utanríkismál almennt, hvort heldur er um þingtímann eða utan hans. Með þeim hætti er Alþ, eða fulltrúum þess ætluð aðild að utanríkismálum.

Nú er það kunnara en svo, að hér þurfi að rekja með mörgum orðum, að á ýmsu hefur oltið um störf utanrmn. Það er áreiðanlega ekki ofmælt, að á því hafi orðið mikill misbrestur, bæði fyrr og síðar, að utanrmn. hafi fengið þau málefni til meðferðar, sem lög ætluðust þó til. Ég hygg, að hér sé ekki hægt að saka einn stjórnmálaflokk öðrum fremur. Þar munu allir eiga nokkra sök. En um hitt ættu allir að geta orðið sammála, að æskilegt væri, að utanrmn. yrði virkari í framtiðinni en verið hefur að undanförnu. En hvaða úrræði séu til þess, skal ég ekki fara út í hér. Það er önnur saga og liggur raunar nokkuð utan við þetta mál, sem hér er um að ræða, en sjálfsagt gæti þar ýmislegt komið til greina. T.d. mætti hugsa sér að fara þá leið, sem farin hefur verið í Danmörku, taka ákvæðin um utanrmn. út úr þingsköpum og setja sérstök lög um utanrmn. og undirstrika með þeim hætti þá algeru sérstöðu, sem hún hefur. Það hefur reyndar verið reynt hér á sínum tíma sérstakt undirnefndarfyrirkomulag í utanrmn., eins og menn sjálfsagt minnast. Það var upp tekið hér um skeið, en mun ekki hafa gefið góða raun, enda mjög óeðlilegt.

Eftir því sem ég veit bezt, hafa skýrslur frá fulltrúum Íslands á fjölþjóðlegum ráðstefnum eða fundum yfirleitt ekki verið lagðar fyrir utanrmn. Fyrir hana hafa t.d. ekki verið lagðar skýrslur frá fulltrúum á fundi Sameinuðu þjóðanna, frá fulltrúum á fundi Evrópuráðs eða fulltrúum í Norðurlandaráði, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Því síður hafa slíkar skýrslur verið lagðar beint fyrir Alþ. Hér er þó í fæstum tilfellum um nokkurt leyndarmál að tefla, því að í þessum tilfellum er um að ræða samkomur, sem almennt eru háðar í heyranda hljóði. Ég hygg, að þessu sé hagað nokkuð á annan veg hjá þingum annarra þjóða. Á mörgum þeirra fara fram almennar umr. um utanríkismál. Ég nefni í þessu sambandi Norðurlandaráð, af því að mér er það af skiljanlegum ástæðum efst í huga nú í svipinn. En í skýrslu, sem forsetar Norðurlandaráðs leggja fyrir fund ráðsins íupphafi og útbýtt er og prentuð er í ráðstíðindum, er á bls. 28 sagt frá því, með hverjum hætti sendinefndir á Norðurlandaráðsfundi gefi viðkomandi þingum skýrslu um það, sem þar fer fram og gerist. Og samkv. því, sem segir í þessari skýrslu forsetanna á bls. 28, lagði sendinefnd Danmerkur 12. jan. 1966 skýrslu fyrir þing Danmerkur um 13. fund Norðurlandaráðs 1965, og skýrslan hefur þar verið tekin til meðferðar af sérstakri nefnd. Sendinefnd Noregs gaf 16. okt. 1965 skýrslu viðvíkjandi 13. fundi ráðsins til Stórþingsins, og fjallaði utanríkismálanefnd þar um skýrsluna og hefur gefið út álit. Um Finnland segir, að umr. um skýrslur eða meðferð skýrslna frá sendinefnd Finnlands viðvíkjandi starfsemi ráðsins árin 1963 og 1964 hafi ekki enn verið til lykta leiddar á ríkisþingi Finna. Í Svíþjóð lagði sænska sendinefndin skýrslu, eða réttara sagt var það sænska stjórnin, sem lagði skýrslu fyrir sænska ríkisþingið um 13. fund Norðurlandaráðs með bréfi, dags. 9. apríl 1965, og þar er svo rakið miklu nánar um það, hvernig þetta fer fram í sænska ríkisþinginu, sem ég hirði ekki um að rekja hér. En það vekur athygli, að vísu ekki mína eða okkar, sem til þekkjum, að í þessari skýrslu forsetanna er Íslands í þessu sambandi að engu getið. Og það er út af fyrir sig skiljanlegt fyrir okkur, þar sem engin skýrsla varðandi starfsemi Norðurlandaráðs hefur verið lögð fyrir Alþ.

Sama máli gegnir um samtök eins og Sameinuðu þjóðirnar og Evrópuráðið, sem Ísland er aðili að og á fulltrúa á þingum þessara samtaka, fulltrúa, sem tilnefndir eru af ríkisstj. að vísu, en vissulega væri það út af fyrir sig tímabært að taka það til athugunar, hvort ekki ætti að kjósa þá fulltrúa af Alþingis hálfu. En það er önnur saga og annað mál, sem ég skal ekki fara út í í þessu sambandi.

Sama máli gegnir svo um ýmsar fjölþjóðlegar ráðstefnur, sem haldnar eru um tiltekin málefni og sóttar eru af Íslands hálfu. Vitaskuld getur þar stundum verið um lokaðar ráðstefnur að ræða og málefni, sem leynt eiga að fara, og ber þá vitaskuld að virða það. En ég held í stuttu máli, að öll rök hnígi að því, að við eigum að breyta okkar starfsháttum að þessu leyti. Alþ. á að fá aðstöðu til þess að kynna sér skýrslur þessar. Það á að fá tækifæri til þess að ræða þær, enda sé þar ekki um leyndarmál að tefla. þess vegna er þessi þáltill. flutt, en þar er lagt til, eins og áður segir, að ríkisstj. sé falið að setja reglur um þessar skýrslugjafir til Alþ. eða undirbúa löggjöf um það efni. Eins og vikið er að í grg., gæti sjálfsagt komið til álita að setja þessar reglur með forsetaúrskurði, en líklega yrði talið eðlilegra að taka þær upp ílög. Við flm. gerum ráð fyrir því, að ríkisstj. velji þann kostinn, sem eðlilegri þykir að athuguðu máli.

Það getur verið álitamál, hver háttur á framlagningu slíkra skýrslna sé heppilegastur, t.d. hvort það eigi að leggja þær beint fyrir Alþ. og þá í hvaða formi eða hvort leggja eigi þær fyrir utanrmn., sem síðar gæti e.t.v. lagt starfsskýrslu fyrir þingið, og gæti þá slík skýrsla orðið grundvöllur að almennum umr. um utanríkismál. Enn fremur mætti auðvitað hugsa sér, að utanrrh. innleiddi umr. á ári hverju eða á þingi hverju um utanríkismál og slíkar skýrslur fylgdu þá þeirri ræðu, sem eins konar fskj.

Ég hef jafnan lagt á það áherzlu, að víð Íslendingar þurfum að hafa og skapa sem mesta samstöðu um utanríkismál. Við þurfum um meðferð þeirra að skapa vissar tradisjónir. Við þurfum, eftir því sem kostur er, að halda þeim utan við venjulegt dægurmálapex. En víðtæk samstaða um utanríkismál og traust utanríkismálastefna verður að mínum dómi ekki bezt tryggð með því, að ríkisstj. og stjórnarflokkar á hverjum tíma einoki þessi mál og haldi yfir þeim óþörfum leyndarhjúpi, heldur með umr. fyrir opnum tjöldum og þá auðvitað fyrst og fremst á þeim vettvangi, sem þar til er eðlilegastur, þ.e. á Alþingi. Með þeim vinnubrögðum yrði tortryggni eytt og skilyrði gætu verið sköpuð fyrir skynsamlegri samvinnu stjórnar og stjórnarandstæðinga um utanríkismál.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari umr. sé frestað, svo að n. gefist tóm til að íhuga málið, og leyfi mér að leggja til, að till. sé vísað til utanrmn.