14.12.1965
Neðri deild: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. fjhn. gat hún ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Það hafði reyndar komið fram við 1. umr. málsins, að skiptar skoðanir mundu vera um þetta mál. Með frv. er lagt inn á þá braut að leggja sérstakan gjaldeyrisskatt á allan seldan gjaldeyri, og þó að þessi skattur sé ekki ýkjahár í fyrstu, er mjög hætt við því, að hann verði hækkaður fljótlega. Og þegar það er svo aftur haft í huga, að þegar er komið upp það ástand að það þykir orðið þurfa að greiða þeim einnig vissar bætur, sem afhenda gjaldeyrinn bönkunum, sýnist mér, að það styttist óðum í það, að gripið verði til beinnar gengislækkunar. Af þeim ástæðum vara ég fyrir mitt leyti við því að fara inn á þessa braut og tel, að einmitt till. um það að taka upp þennan skatt ættu að verða til þess, að menn íhuguðu betur ráð sitt og reyndu í fullri alvöru að finna leiðir til þess að sleppa út úr þeim vanda, sem komið er í varðandi verðlags- og dýrtíðarmálin í landinu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar en ég gerði við 1. umr. Málið er tiltölulega einfalt og glöggt og liggur ljóst fyrir öllum þm. Hér er um „prinsip“-ákvörðun að ræða, hvort á að fara inn á þessa braut eða ekki, og við Alþb.-menn tökum afstöðu gegn þessu frv. og leggjum til, að það verði fellt.