27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (2778)

15. mál, atvinnulýðræði

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 15 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um atvinnulýðræði. Með þeirri hugmynd er að því stefnt, að starfsmenn fyrirtækja, jafnt í einkarekstri sem íopinberri þjónustu, fái aukinn í hlutunarrétt um stjórn og allan rekstur þess fyrirtækis, sem þeir vinna hjá. Í till. er gert ráð fyrir, að 11 manna n. skipuð fulltrúum launþegasamtaka, vinnuveitenda og stjórnmálaflokka, taki málið til undirbúnings og athugunar, en í fyrstu lotu verði athyglinni einkum beint að fyrirtækjum í eigu ríkis og bæjarfélaga.

Með ýmsum hætti er hægt að hugsa sér slík afskipti starfsmanna af rekstri fyrirtækja, og vil ég nefna hér nokkur dæmi til skýringar. Hugsanlegt væri, að starfsmenn í stórri verksmiðju mynduðu sérstakt ráð, er væri ráðgefandi í öllum mikilvægum málum, er reksturinn varða, og hefði jafnvel úrslitavald í nokkrum sérstökum málaflokkum. Eins væri það ekki óeðlilegi, að starfsmenn t.d. sementsverksmiðjunnar ættu fleiri eða færri fulltrúa í stjórn verksmiðjunnar, sem kjörnir væru úr þeirra hópi. Slík tilhögun í einhverri mynd er auk þess ekki aðeins sjálfsögð hjá stærri einkafyrirtækjum og ríkisfyrirtækjum, sen rekin eru á viðskiptagrundvelli, heldur er einnig hugsanlegt að auka áhrif starfsmanna ýmissa ríkisstofnana á stjórn þeirra. Væri ekki í rauninni skynsamlegt, að kennarar ættu þátt í vali skólastjóra, og hvað mælir á móti því, að bankastarfsmenn fái íhlutunarrétt um val bankastjóra? Þannig má lengi telja. Vafalaust eru margir óvanir slíkum hugmyndum og svartsýnir á, að slíkt skipulag geti blessazt. Ég býst þó við, að fáir muni neita því, að mörgum árekstri yrði forðað, t.d. verkfalli eins og einn ríkisbankinn fékk á sig í fyrra, ef starfsmönnum væru veitt þau sjálfsögðu lýðræðisréttindi að mega taka þátt í vali yfirmanna sinna. Hins vegar munu margir vera efins um, að t.d. verkamenn í verksmiðjum geti átt hlut að framkvæmdastjórn fyrirtækis, svo að vel fari. Menn segja, að venjulegur starfsmaður hafi hreinlega ekki vit á slíkum málum og eigi því ekkert að skipta sér af þeim.

Þessu er til að svara, að atvinnulýðræði táknar alls ekki, að allir eigi að verða framkvæmdastjórar. Fulltrúar starfsmanna eiga einungis að setjast í nokkur þau sæti, fleiri eða færri, sem nú eru setin af fjármagnseigendum á hluthafafundum eða af pólitískum fulltrúum á stjórnarfundum ríkisfyrirtækja. Þótt starfsmennirnir hafi e.t.v. litla þekkingu á rekstri fyrirtækisins, vita þessir menn oft miklu minna um reksturinn. En þessir pólitísku fulltrúar taka eftir sem áður ákvarðanir, og þær eru auðvitað byggðar á niðurstöðum skipulagssérfræðinga og tæknimanna eða skýrslum viðskiptafræðinga eða öðrum gögnum. Árið 1949 var komið á viðtæku lýðræði í júgóslavnesku atvinnulífi. En flestir verkamennirnir, sem þá tóku á sig að bera ábyrgð á og stjórna verksmiðjum landsins, kunnu hvorki að lesa né skrifa. En þeir tóku ákvarðanir og það með góðum árangri. Þá má einnig benda á, að venjulegt íslenzkt sveitarfélag er ekki síður flókið fyrirbæri en stórt atvinnufyrirtæki. En það er hinn almenni maður, sem situr í sveitarstjórn og tekur ákvarðanir ísamræmi við heilbrigða skynsemi. Þó verður þess ekki vart, að nokkrum detti í hug að breyta skipulagi sveitarstjórnarmála í einræðisátt. Og eins er það með núverandi einræðisskipulag í atvinnurekstri. Það mun eftir nokkra áratugi þykja jafnfráleitt skipulag og einu ræði konungs eða keisara þykir nú, enda er það reyndar söguleg staðreynd, að þegar baráttan um pólitíska lýðræðið stóð sem hæst í Evrópu, var það jafnan viðkvæðið, að ekki væru nú allir hæfir til að verða konungar.

Enda þótt ég efist ekki um, að í hlutunarréttur starfsmanna muni hafa holl og góð áhrif á stjórn fyrirtækjanna og rekstur, skal ég þó fúslega viðurkenna, að atvinnulýðræði er misjafnlega auðvelt viðfangs í framkvæmd. Það mun ekki ná fram að ganga nema á löngum tíma og eftir margvislegar tilraunir. En þegar þarf að hefjast handa um undirbúning, koma af stað viðræðum milli launþega og vinnuveitenda, leita eftir reynslu annarra þjóða og síðast, en ekki sízt, rannsaka íslenzkar aðstæður. Atvinnuhættir á Íslandi eru að ýmsu leyti frumstæðari en í nágrannalöndunum og ójafnvægi á flestum sviðum: ringulreið og óðaverðbólga, ofsagróði og botnlaus taprekstur oft og tíðum. Rekstur sumra atvinnugreina minnir að sumu leyti á þjóðfélagsástandið í sumum nýfrjálsum löndum, þar sem fáfræðin og spillingin í hinu pólitíska lífi er svo ægileg, að þjóðirnar virðast dæmdar til að fá yfir sig harðhenta einræðisherra. Ég viðurkenni sem sagt fúslega, að eins og á stendur er það ekki alls staðar í íslenzku atvinnulífi til bóta að viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð. Sums staðar er sjálfsbjargarviðleitnin svo afgerandi þáttur rekstrarins, að lýðræðið á þar ekki heima. Nefna mætti til viðbótar ýmis vandamál, sem sérstaklega snerta íslenzkar aðstæður, t.d. smæð fyrirtækjanna og fámenni á vinnustað eða hin losaralegu tengsl margra verkamanna við vinnustaðina í sambandi við verstöðvarnar og aðra árstíðabundna vinnu. Ég sé þó ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þessi atriði hér, þar sem sérstaklega er um þetta rætt í allýtarlegri grg.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að framfarir í tækni og vísindum eru mjög örar á okkar tímum. Hin nýja iðnbylting, sem einkennist af sjálfvirkni og gífurlegri fjöldaframleiðslu, mun bæta lífskjör almennings stórkostlega á komandi árum. En þessi þróun er þó ekki með öllu hættulaus. Í fyrsta lagi má hún ekki hafa í för með sér, að valdið yfir atvinnurekstrinum safnist á hendur örfárra manna. Í öðru lagi er það staðreynd, að samfara vaxandi sjálfvirkni verða störf manna einhæfari, andlausari og tilbreytingarsnauðari. Þessi hlið málsins er mjög mikilvæg, og væri í rauninni eðlilegt að fjalla um hana í löngu máli. Ég mun þó ekki gera það hér, en vil aðeins minna á, að það er samfélagsleg nauðsyn, að hinn vinnandi maður verði virkur þátttakandi og stjórnandi á þeim stað, þar sem hann dvelur þriðjung ævi sinnar, en sé ekki aðeins tannhjól í hinni tröllvöxnu vélasamstæðu atvinnulífsins.

Ég var áðan, meðan umr. um vegaskattinn stóðu sem hæst, að blaða ítímaritinu Nordisk kontakt, sem okkur þm. er sent, og sá þar grein um landsþing danska sósíaldemókrataflokksins. Kemur þar fram strax í aðalfyrirsögn, að eitt helzta umræðuefnið á þinginu var einmitt atvinnulýðræði í Danmörku. Þetta kemur vissulega ekki á óvart. Fá mál eru ofar á baugi í pólitískum umr. á Norðurlöndum en einmitt spurningin um lýðræði íatvinnurekstri. Það var eitt seinasta verk Stórþingsins norska í vor sem leið að samþykkja ný lög um atvinnulýðræði, og þessi löggjöf var eitt helzta blómið íhnappagati norska Verkamannaflokksins ínýafstöðnum kosningum, þótt sumir teldu að vísu of langt gengið og aðrir of stutt. Svipaða sögu má segja viða að úr heiminum. Þetta er mál, sem stöðugt leitar ofar á dagskrána í almennum stjórnmálaumr. Hér á Íslandi hafa umr. um atvinnulýðræði verið mjög af skornum skammti. E.t.v. hefði verið eðlilegra, að mál eins og þetta hefði verið tekið til umr. í samtökum vinnuveitenda og launþega, áður en vakið var máls á því hér á Alþ. Enn hafa þó ekki sézt nein merki þess, að almennur áhugi hafi skapazt á þessu máli. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að löngu sé tímabært orðið að hefja athuganir og umr. um málið, og að því vil ég reyna að stuðla með flutningi málsins hér á þingi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að sinni, en vísa til grg. um frekari rökstuðning. Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni fyrri umr. vísað til hv. allshn.