10.11.1965
Sameinað þing: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (2787)

21. mál, samdráttur í iðnaði

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Þegar fundi var slitið hér í hv. Sþ. á miðvikudaginn var, hafði ég kvatt mér hljóðs til þess að gera að umtalsefni í stuttu máli nokkur atriði, sem fram komu í ræðu hæstv. iðnmrh. um þá till. um athugun á samdrætti í iðnaði, sem hér er til umr. Þó að nokkuð langt sé um liðið, ætla ég samt að víkja að málinu örfáum orðum.

Ég verð að segja það, að það urðu mér nokkur vonbrigði, hvernig hæstv. ráðh. tók þessu máli. Hér er um það að ræða, að samtökum iðnverkafólks og iðnrekenda verði gefinn kostur á að eiga aðild að allsherjarathugun á því, hvaða orsakir liggja til þess samdráttar í iðnaði, sem orðið hefur á undanförnum missirum, og hvaða ráðstafanir megi gera til þess að koma í veg fyrir hann. Ég lýsti því um daginn, hvaða undirtektir till. hefði fengið hjá þeim samtökum viðkomandi aðila, sem hv. allshn. sendi hana til umsagnar, en þessir aðilar voru: Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, Iðja, félag verksmiðjufólks á Akureyri, Félag ísl. iðnrekenda, Samband ísl. samvinnufélaga. Frá öllum þessum samtökum bárust umsagnir, sem eindregið hvöttu til samþykktar umræddrar þáltill., og þau fluttu öll fram gild rök máli sínu til stuðnings, eins og ég vitnaði til í fyrri ræðu og skal ekki endurtaka. Þrátt fyrir þetta lagðist hæstv. ráðh. algerlega gegn till., fór um hana háðulegum orðum, taldi hana lítilsverða og óþarfa, og mátti jafnvel skilja á máli hans, að flutningur hennar væri iðnaðinum til óþurftar.

Rökstuðningur hæstv. ráðh. var sá, að svo miklar ráðstafanir hefðu þegar verið gerðar iðnaðinum til hagsbóta í seinni tíð, að ekki væri þörf á því frekar. Ég lét þess getið í máli mínu á miðvikudaginn var, að hæstv. iðnmrh. hefði sýnt skilning á því, hversu ýmsar efnahagsaðgerðir að undanförnu hafa komið illa við iðnaðinn, og nokkrar ráðstafanir hafi ýmist verið gerðar eða undirbúnar til að mæta þeim vanda, sem hér er um fjallað, enda hafði meiri hl. allshn. Sþ. tínt af mikilli samvizkusemi allt það fram, sem þar um ræðir, eins og sjá má á þskj. 497 frá síðasta þingi. Hæstv. ráðh. sá samt ástæðu til að skýra frá þessu með eigin orðum og útskýringum, og er vitanlega ekki nema gott eitt um það að segja.

Okkur flm. þessarar till. var auðvitað vel kunnugt um þessar aðgerðir, sem ég skal ekkert gera lítið úr, en við töldum samt, að umrædd athugun ætti að fara fram, enda væri á henni og því, sem gert hefur verið, sá mikli munur, að hér er ætlazt til, að fulltrúar iðnverkafólks og iðnrekenda eigi aðild að athugun, auk þess sem ráðgerð er heildarathugun, en fram að þessu hafa verið skoðaðir einstakir þættir iðnaðarins, og síðast, en ekki sízt, að sú staðreynd blasir við, að þrátt fyrir það, sem gert hefur verið, heldur samdráttur áfram í mjög mörgum greinum iðnaðarins.

Um einstök atriði íræðu hæstv. ráðh. vil ég segja þetta: Hæstv. ráðh. keppast nú mjög við að telja fólki trú um, að þeir berjist hinni góðu baráttu gegn verðbólgunni og verði harla mikið ágengt. Ósköp er ég samt hræddur um, að illa gangi þeim að sannfæra almenning ílandinu um þetta, fólkið, sem þarf að láta tekjurnar hrökkva fyrir gjöldunum, þrátt fyrir mikla tilhurði og talsverða leikni þeirra sumra hverra a.m.k. í beitingu talna og útreikninga. Hæstv. iðnmrh. vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja á þessu efni hér á miðvikudaginn var. Hann taldi, að það væri hin mesta fjarstæða, sem framsóknarmenn héldu fram, að verðbólgan væri að drepa iðnaðinn, eins og hann komst að orði, og sagði það ekki rétt með farið, að það hefði verið eitt af höfuðstefnumarkmiðum hæstv. ríkisstj. að stöðva verðbólguna. Hann rökstuddi þetta með því, að í stefnuyfirlýsingunni frá 1959 hefði verið sagt, að stjórnin legði áherzlu á, að þannig sé haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar, að ekki leiði til verðbólgu. Hvort stefnumarkmið hæstv. ríkisstj. og það, sem hún leggur áherzlu á, er eitthvað tvennt ólíkt, skal ég ekki segja um eða hvernig á að skilja þessa yfirlýsingu. En hitt er vitað, að talsmenn stjórnarflokkanna hafa jafnan haldið því fram og halda því ávallt fram, að vinstri stjórnin hafi farið frá vegna yfirvofandi verðbólguaukningar og þeir hafi talið það eitt af hlutverkum sínum að koma í veg fyrir áframhaldandi verðbólguvöxt, og nú er því haldið fram, að þetta hafi tekizt.

Í framhaldi af þessum skýringum hæstv. ráðh. á stefnuyfirlýsingunni var komizt að þeirri niðurstöðu, að þessi barátta hefði gengið að óskum að undanförnu og að dýrtíðarvöxturinn væri hér hraðminnkandi. Þótt margir þm. og margir hæstv. ráðh. hafi hér að undanförnu farið með margar tölur um dýrtíðarvöxtinn fyrr og nú, langar mig í tilefni af þessu að gera örlítinn samanburð á t.d. vísitölu byggingarkostnaðar, vegna þess að hún á vel við, þegar rætt er um búsifjar iðnaðarins af verðbólgunni, til þess að sýna, hvernig barátta hæstv. ríkisstj. við að halda þannig á efnahagsmálum þjóðarinnar, að ekki leiði til verðbólgu, eins og segir í áðurnefndri yfirlýsingu hæstv. stjórnar, hafi gengið, hvort sem það var nú eitt af höfuðstefnumarkmiðunum eða ekki.

Í okt. 1959 var vísitala byggingarkostnaðar samkv. Hagtíðindum 132 stig. Eftir 3 ár, þ.e. hinn 1. okt. 1962, var þessi sama vísitala orðin 180 stig og hafði því hækkað um 48 stig á þremur árum eða 16 stig að meðaltali á ári 3 fyrstu ár hæstv. núv. ríkisstj. í valdastólunum. Var þetta ekki góður árangur? Hafði ekki tekizt bara vel að halda þannig á efnahagsmálum þjóðarinnar, að ekki leiddi til verðbólgu? Vel má vera, að hæstv. núv. ráðh. þyki það, og þeir eru raunar að sækja í sig kjark til þess að halda því fram. En hæstv. þáv. forsrh. þótti annað. Í áramótaræðu sinni á gamlársdag 1962 sagði hann þetta, með leyfi forseta:

„Ég skal strax kveða upp úr með það, að í vissum aðalefnum hefur viðreisnin tekizt betur en björtustu vonir stóðu til. Hins vegar játa ég hispurslaust, að enn hefur ekki tekizt að ráða niðurlögum verðbólgunnar, enda þótt rétt sé, að þjóðin standi í dag betur að vígi en fyrir þremur árum til að fást við hana. En takist ekki að sigrast á verðbólgunni, gleypir hún fyrr eða síðar ávexti þess, sem bezt hefur tekizt. Er þá unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir höndum.“

Þetta var úttektin eftir þriggja ára stjórnarsetu þeirra viðreisnarmanna. Verðbólgan ósigruð, og yfirvofandi, að hún gleypti ávexti þess, sem bezt hefur tekizt, og þá allt unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir höndum.

En einn vonarneisti leyndist í öskunni. Þjóðin stendur betur að vígi en fyrir þremur árum að fást við verðbólguna, var sagt. Þá er rétt að skoða, hvernig eftirkomendunum hefur tekizt að hagnýta aðstöðuna. Þeir stóðu þó allténd betur að vígi. Hinn 1. okt. s.l. var vísitala byggingarkostnaðar komin upp í 267 stig. Hækkunin frá 1. okt. 1962 var þar af leiðandi ekki 48 stig, eins og á fyrra 3 ára tímabilinu. Nei, hún var 87 stig á síðari þrem valdaárunum, — ekki 16 stig að meðaltali 5 ári, eins og 1959—1962, heldur 29 stig að meðaltali frá 1962—1965, nærri því tvöfalt meiri, ef stigin eru lögð til grundvallar. Og af því að hæstv. ráðh. hafa lagt mikið kapp á að halda því fram, að vísítölustigin væru þeim mun léttbærari, sem menn hefðu meira af þeim, og allur reikningur annar en prósentureikningur væri rangur og villandi, er kannske rétt að hæta því við hér til samanburðar, að frá 1. okt. 1961 til 1. okt. 1962 hækkaði vísitala byggingarkostnaðar úr 168 stigum í 180 stig, þ.e. um 13 stig eða 7.1%. Þetta var hækkunin árið sem ég minntist á áðan, þegar enn hafði ekki verið sigrazt á verðbólgunni. Frá 1. okt. 1964 til 1. okt. 1965, þ.e. síðasta vísitala, sem gefin hefur verið út og gildir fyrir það tímabil, sem við nú lífum í, á þessu ári, hækkar vísitala byggingarkostnaðar hins vegar úr 220 stigum í 267 stig eða um 47 stig, en það gerir 21.4%. Hér eru tekin sambærileg tímabil, eitt ár í báðum tilfellum, og hækkunin reiknast í prósentum frá árinu á undan, þannig að ég hygg, að þessi aðferð standist jafnvel kröfur hæstv. viðskmrh., nema þá rangt sé reiknað hjá mér, en það verður þá vafalaust leiðrétt.

Þegar þetta er haft í huga, er þá nokkur firra að segja það, sem ég gerði á miðvikudaginn var, að stóraukin dýrtíð hafi skapað iðnaðinum margvíslega rekstrarörðugleika? En þessi orð mín virðast hafa verið undirrót dýrtíðarkaflans í ræðu hæstv. iðnmrh. Ég held, að tæplega verði hægt að vefengja þau. Ég held, að það sé staðreynd, að dýrtíðin vaxi og hún valdi iðnaðinum, eins og raunar öllum öðrum atvinnugreinum og öllum rekstri, margvíslegum örðugleikum.

Þá sagði ég enn fremur, að iðnaðurinn byggi við lausfjárskort, sem rýrði afkomu hans. Einnig þessu var tekið með miklum fyrirvörum af hæstv. iðnmrh. Hann sagði, að þessu væri ekki til að dreifa umfram aðrar atvinnugreinar, og svo fór hann að telja upp það, sem gert hefði verið iðnaðinum til hjálpar í þessu tilliti. Ég hygg, að iðnaðurinn búi yfirleitt við mjög erfið skilyrði um útvegun lánsfjár til starfsemi sinnar, bæði hvað rekstrarlán og fjárfestingarlán snertir, þrátt fyrir þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, og ég get enn endurtekið, að ég er ekkert að lasta þær. En úr því að farið er að ræða þetta atriði, mætti eflaust gera sér grein fyrir því, hverjar þessar fjárútveganir eru. Hæstv. iðnmrh. nefndi þetta, ef ég man rétt:

Í fyrsta lagi, að iðnlánasjóði hefðu verið fengnar nýjar og stórauknar tekjur. Þetta er að nokkru leyti rétt. Með nýju lögunum frá 1963 var framlag ríkíssjóðs ákveðið 2 millj. kr. á ári, en afgangurinn af þeim 40—50 millj. kr., sem sjóðurinn hefur í árlegar tekjur, er fenginn með 0.4% gjaldi á svo til alla iðnaðarframleiðslu. Þarna er því nánast um tilfærslu að ræða úr einni grein iðnaðar í aðra, og enda þótt gjaldið fáist kannske reiknað í verðlagið, hækkar framleiðsluverðið að sama skapi og samkeppnisaðstaðan versnar. Þrátt fyrir þessa tilfærslu á tekjum og fjármunum er iðnlánasjóður samt fjárvana og getur ekki annað eftirspurn.

Í öðru lagi var nefnt, að samþ. hafa verið l. um breytingu á lausaskuldum iðnaðarins íföst lán. Hæstv. ráðh. sagði, að nokkuð hefði dregizt að setja reglugerð um þetta efni, en hún væri nú komin, og það er vissulega gott. Ég tel víst, að þetta fyrirkomulag verði iðnaðinum til mikils hagræðis, þegar það kemur til framkvæmda. En ekki verður þar þó um nýtt fjármagn iðnaðinum til handa að ræða, heldur aðeins breytingu eldri lausaskulda í föst lán. Það auðveldar auðvitað reksturinn talsvert, ekki sízt hjá þeim, sem duglegir hafa verið að fá bráðabirgðalánin í lánastofnunum.

Í þriðja lagi var nefnt, að samþ. hafi verið á Alþ. till. um endurkaup Seðlabankans á afurðavíxlum iðnaðarins. Mér er ekki kunnugt um, að sú till. hafi komið enn til framkvæmda á nokkurn hátt. En þar sem hér á fundinum er sams konar till. til umr., er rétt að fresta allri umr. um hana á þessu stigi, sérstaklega ef von er á nýjum upplýsingum um það efni frá hæstv. ráðherra, eins og mátti skilja af ræðu hans um daginn.

Í fjórða lagi var nefnt, að þær tollalækkanir, sem gerðar hafa verið, hafi komið iðnaðinum til góða í sambandi við vélakaupin. Þessu ber auðvitað ekki að neita. En hafa verður í huga, að umræddar tollaaðgerðir voru liður í heildartollalækkun, sem á ýmsum öðrum sviðum snerti iðnaðinn mjög illa, þannig að ég hygg, að láta muni nærri, að í bezta falli standist á, hvað vinnst og hvað tapast.

Í fimmta lagi voru nefnd lán úr Framkvæmdabankanum, sem iðnaðinum hafa verið veitt, og þar er um hreina fjármagnsviðbót fyrir iðnaðinn að ræða, sem þeim, er njóta, kemur auðvitað að fullu gagni.

Þá held ég, að þessi fyrirgreiðsluatriði séu upp talin, eða ég man ekki betur.

Ég hef ekki löngun til þess að gera lítið úr því, að þessi atriði hjálpi iðnaðinum eitthvað, eins og ég hef margoft tekið fram. En ég held því fram, og ég veit það, að þrátt fyrir þetta á þessi atvinnugrein við mikla fjárhagsörðugleika að etja. Vegna vaxandi dýrtíðar þurfa fyrirtækin langtum fleiri krónur en áður til að halda rekstrinum í horfinu. Af þeirri verðbólgusparifjármyndun, sem á sér stað í landinu, tekur hæstv. ríkisstj. til sinna þarfa í einni eða annarri mynd um 1/3 hluta og tók áður meira. Afleiðingin er sú, að um 1500 millj. kr. eru frystar í Seðlabankanum og hundruð millj. eru teknar úr bankakerfinu til framkvæmda á vegum ríkissjóðs, en viðskiptabankarnir verða að neita viðskiptavinum sínum um aukna fyrirgreiðslu, þótt þeir geti tölulega sannað, að þeim sé lífsnauðsyn á rekstrarfjárviðbót til að halda íhorfinu. Þetta ástand hlýtur að hitta iðnrekendur eins og aðra og þó í þeim mun ríkara mæli, sem vitað er, að aðrir atvinnuvegir hafa búið við einmuna góðæri og þá sjávarútvegurinn alveg sérstaklega en iðnaðurinn er hins vegar eins konar þolandi góðærisins, eins og hæstv. iðnmrh. benti einmitt sjálfur á í ræðu sinni um daginn. Þess vegna er það rétt, að iðnaðurinn er rekstrarfjárþurfi og það jafnvel meira en aðrir höfuðatvinnuvegir, og ætla ég þó alls ekki að bera á móti því hjá hæstv. ráðh., að almennur lánsfjárskortur eigi sér stað í okkar fámenna og fjármagnsrýra þjóðfélagi. Það er hverju orði sannara, að lánsfjárskortur er hér mikill, bæði af eðlilegum og tilbúnum ástæðum.

Í framsöguræðu minni lagði ég áherzlu á það, að við Íslendingar ættum að draga lærdóma af þeirri reynslu annarra þjóða, að þeim hafi mörgum hverjum skilað hraðast í átt til bættra lífskjara, þegar iðnaði þeirra óx fiskur um hrygg, og að alveg sérstaklega biðu mörg verkefni í vinnslu innlendra framleiðsluvara. Þetta vil ég enn undirstrika. Ég veit, að ýmsir erlendir sérfræðingar, sem hingað hafa komið eða um mál okkar hafa fjallað, hafa talsvert ríka tilhneigingu til þess að sjá okkur alla Íslendinga fyrst og fremst sem vinnuafl við fiskveiðar og fiskverkun í einni eða annarri mynd, og eflaust er það rétt út frá hagfræðilegri teóríu, að á þann hátt mundum við skila mestum afköstum og draga mesta björg í alheimsbúið. En ætli þá væri ekki jafnframt tímabært að hætta að hugsa um sjálfstætt þjóðfélag á Íslandi? Ég er hræddur um það.

Sem betur fer eru það ekki heldur allir erlendir sérfræðingar, sem þannig hugsa. Í skýrslu þeirri, sem Arne Haar deildarstjóri frá Noregi gerði á vegum Efnahagsstofnunarinnar um tollvernd íslenzks iðnaðar og vitnað hefur verið til ísambandi við meðferð þessa máls, segir hann um þetta atriði, að jafnvel þótt Ísland hafi um næstu framtíð verulegt tækifæri til frekari þróunar fiskveiða og fiskiðnaðar, þarfnast landið einnig, þegar til lengdar lætur, iðnvæðingar, sem stuðlað getur að meiri fjölbreytni í atvinnulífinu og að stöðugra jafnvægi í efnahagslífinu. Ég segði enn fremur um daginn, að iðnaðurinn þyrfti að halda áfram að veita mörgu fólki atvinnu, ekki aðeins þeim, sem ekkert annað geta gert, eins og mörgum konum og meira og minna fötluðu fólki t.d., heldur þarf hann jafnframt að búa sig undir að taka við hluta af þeirri fólksfjölgun, sem fyrirsjáanleg er. Um þetta segir í áðurnefndri skýrslu, að þótt nú sé skortur á vinnuafli, muni fjölgun fólks á starfsaldri yfir lengri tíma lítið gera tilkall til vaxtar efnahagsstarfseminnar jöfnum skrefum. Iðnaðarframleiðslan hljóti að eiga mikilvægan þátt í þessum vexti og þess vegna verði að kappkosta að varðveita þróunargrundvöll þeirra iðngreina, sem nú framleiða fyrir innlendan markað. Undir þetta vil ég taka og vonast til, að þessi skilningur verði ríkjandi, en ekki það sjónarmið, sem mér virðist koma fram af umsögn Efnahagsstofnunarinnar, að því sé slegið föstu, að íslenzkur iðnaður geti ekki framleitt það vöruúrval á heimsmarkaðsverði, sem neytendur óska eftir, og þess vegna eigi að leggja hann að miklu leyti niður.

Um það, hvað hafa beri í huga við undirbúning áætlunar um aðlögun iðnaðarins að breyttum staðháttum vegna efnahagsaðgerðanna, segir Arne Haar, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirvega verður alla þá þætti, sem haft geta þýðingu fyrir samkeppnisaðstöðu iðnaðarins og frekari þróun hans. Í raun réttri hefur þetta íför með sér, að stefnuna í iðnaðarmálum verður að taka til nýrrar yfirvegunar í allri sinni fjölbreytni. Við þessum vandamálum eru engar beinar lausnir. Þessi skýrsla er ekki heldur við það miðuð að leggja fram fullmótaða áætlun um aðgerðir. Hún er ætluð sem grundvöllur umr., sem frekara starf að þessum málum gæti byggzt á.“

Þetta segir hinn norski sérfræðingur, sem hæstv. ríkisstj. fékk hingað til að athuga aðlögunarvandamál iðnaðarins. Þess er að vænta, að farið verði eftir ráðum hans og frekara starf að þessum málum verði látið fara fram m.a. á grundvelli þessarar skýrslu. Væri það nú til of mikils mælzt, að fulltrúar frá samtökum iðnaðarfólks og iðnrekenda fengju að eiga aðila, sem tækju þátt í þessum framhaldsviðræðum og aðgerðum til aðstoðar við íslenzkan iðnað á þessum erfiðu tímamótum? Mér finnst, að þetta ætti að vera auðsótt mál, því að þrátt fyrir mikilvægi iðnaðarins fyrir þjóðarheildina eru það þó þessi fjölmennu samtök, sem mestra hagsmuna eiga að gæta, því að sá er eldurinn heitastur, er á sjálfum brennur. Þetta er það, sem þáltill. á þskj. 21 fer fram á, og mér sýnist því einsætt, að hana beri að samþykkja.