10.11.1965
Sameinað þing: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (2790)

21. mál, samdráttur í iðnaði

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. — Hv. 10. þm. Reykv. tók hér til máls áðan. Aðaláhyggjuefni hans í sambandi við þessa tillögugerð sýndist mér vera það, að flm. hefðu gleymt iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga, og get ég heitið honum fullum stuðningi við brtt. í átt, ef honum finnst þessi athugun ekki geta farið fram án þess, að iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga eigi þar aðild að. Ég veit hins vegar ekki, hvað þessi hv. þm. hefði sagt, ef við hefðum tekið iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga inn í till. En mér gæti dottið í hug, að þá hefði verið fundið að því, að alls staðar vildi Sambandið koma sinum áhrifum að. Það hefur maður a.m.k. oft heyrt. En hvað um það, hv. þm. talaði um þessa till. út frá sínu sjónarmiði, og hann talaði um ástandið í iðnaðinum frá sínum bæjardyrum, en hann er, eins og kunnugt er, einn af stærstu iðnrekendum landsins. Og hann er ánægður, og það er gott. En ég ætla bara að benda á það, að þannig talar hann ekki fyrir munn samfélagsmanna í Félagi ísl. iðnrekenda, því að það félag hefur sent umsögn um þessa till., og þar segir, með leyfi forseta:

„Vér höfum móttekið bréf yðar, dags. 23. þ.m., þar sem beiðzt er umsagnar um þáltill. um athugun á samdrætti í iðnaði. Það er rétt, sem um getur í till., að um samdrátt í vissum iðngreinum hefur verið að ræða að undanförnu. Álitum vér rétt, að rannsókn fari fram á því, hvað samdrætti þessum veldur, og mælum með því, að áður nefnd till. til þál. verði samþykkt.“

Þetta er umsögn heildarsamtakanna, Félags ísl. iðnrekenda, og þó að einstaka atvinnurekandi kunni að finnast, sem unir glaður við sinn hag, er það greinilega ekki heildarskoðun samtakanna og þau mæla með samþykkt till. Þetta vil ég undirstrika. Hv. þm. svarar fyrir sig. Hann er ánægður. En það eru fleiri og greinileg, meiri hl. í hans félagi, sem ekki er ánægður, og hann óskar eftir því, að þessi alhugun fari fram, sem hér er talað um. Þetta bréf er dags. 31. marz 1965. Ég hygg, að aðstæður iðnaðarins hafi ekki batnað það mikið síðan, að umsögn félagsins yrði með öðru móti.

Ég ætla ekki að gera að löngu umtalsefni það, sem hæstv. iðnmrh. sagði nú í siðari ræðu sinni. Ég vil aðeins benda honum á, út af tali hans um samanburð á verðhækkun, að það er misminni hjá honum, að ég hafi gert samanburð á verðhækkun í tíð núv. ríkisstj. og annarra ríkisstj. Sá samanburður, sem ég gerði hér, laut aðeins að því að athuga, hvernig núv. hæstv. ríkisstj. hefði tekizt að ráða niðurlögum verðbólgunnar eða haga þannig aðgerðum í efnahagslífi þjóðarinnar, að ekki yki verðbólguna. Og ég gerði samanburð á þremur fyrri árum þessarar hæstv. ríkisstj. og þremur síðari árum, svo að ég tek það ekki til mín, sem hann sagði um samanburð við aðrar ríkisstj. Ég hef ekki gert hann hér. Það eru aðrir, sem hafa gert það. En um verðbólguna, sem ég gerði að umtalsefni, samanburð milli þriggja fyrri áranna og þriggja síðari áranna, erum við alveg sammála. Hæstv. ráðh. sagði réttilega, að það hefði orðið mikill verðbólguvöxtur á árinu 1963, og það er einmitt sú tala, sem ég var að gera hér grein fyrir, svo að þar ber ekkert á milli.

Hæstv. ráðh. spurði, hvers vegna við hefðum ekki lagt til einhverjar ráðstafanir, sem yrðu gerðar iðnaðinum til hagsbóta, ístaðinn fyrir að vera að klifa á athugun á samdrætti íiðnaði. Ef till. er lesin öll, sést, að í henni er einmitt gert ráð fyrir því, að ráðstafanir verði gerðar til að bæta úr samdrætti í iðnaði. Það er meginefni till. En það er lagt til, að þær ráðstafanir séu gerðar á grundvelli athugunar, og ég hygg, að það sé fróðra manna skoðun, að þær aðgerðir, sem byggðar eru á heildarathugun, muni gefast bezt til að bæta úr þeim vandræðum, sem kunna að vera fyrir hendi.

Hæstv. ráðh. segir, að þessi till. sé lítilfjörleg. Hann má vel hafa um hana þau orð, sem honum sýnist. Það er hans mat. En ég held, að hann ætti ekki að byggja andstöðu sína við till. á því, að hún sé flutt iðnaðinum til óþurftar. Það held ég, að sé of langt gengið.