10.11.1965
Sameinað þing: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (2803)

22. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Þáltill. er á þskj. 22 um endurkaup Seðlabankans á iðnaðarvíxlum. Ég vil þakka aðalflm., hv. 5. þm. Reykv., fyrir að hafa endurvakið þetta nauðsynjamál, sem að vísu var samþ. hér á hv. Alþ. 3. júní 1958 samkv. till. minni og ætti því fyrir löngu að vera orðið að veruleika.

Á sínum tíma voru miklar vonir íslenzks iðnaðar bundnar við samþykkt þessarar þáltill., og þessar vonir hafa ekki alveg slokknað enn þá. Satt að segja er ég alveg undrandi yfir, hvað framkvæmdastjórn eða bankastjórn Seðlabankans hefur tekizt að svæfa þetta mál lengi eða á áttunda ár.

Það mun hafa verið árið 1962, þegar þrýstingur á framkvæmd þessa máls fór að verða óþægilega mikill, að hæstv. viðskmrh. skipaði n. sérfróðra manna til þess að endurskoða og gera till. um endurkaup Seðlabankans og framkvæmd till. Þessi n. gaf þann úrskurð, að endurkaupum Seðlabankans á hráefna- og framleiðsluvíxlum iðnaðarins skyldi komið á, svo framarlega sem slíkt lánakerfi ætti að halda áfram fyrir landbúnað og sjávarútveg.

Í lagafrv. um Seðlabanka Íslands, sem hæstv. ríkisstj. lagði fyrir Alþ. 1963 og samþ. var sem lög á því þingi, er kveðið svo á, að innistæðubinding Seðlabankans megi nema allt að 25% af aukningu hjá hverri lánastofnun. Í 1. gr. þessara l. segir, að megintilgangur innlánsbindingar sé að afla fjár, m.a. til kaupa Seðlabankans á afurðavíxlum. Í grg. fyrir þessu frv. er beinlínis tekið fram, að þessi aukning innlánsbindingar sé gerð til þess, að hafizt geti endurkaup útflutningsiðnaðarins og þess iðnaðar, sem engra tollfríðinda nýtur.

Því hefur verið haldið fram, að þáltill. slík sem samþ. var 1958 og sú, sem hér er til umr. nú á hv. Alþ., sé aðeins viljayfirlýsing, sem viðkomandi ríkisvaldi beri ekki endilega að hegða sér eftir. Ég er ekki lögfróður og skal ekki dæma um það. En heldur finnst mér slík rök hjákátleg. Hinu verður þó ekki á móti mælt, að lög frá hv. Alþ. og forsenda þeirra sé það vald, sem taka beri tillit til.

Lög um Seðlabanka Íslands, sem samþ. voru á 84. löggjafarþingi hv. Alþ., taka af öll tvímæli í þessu máli, þ.e. að Seðlabankanum beri að endurkaupa iðnaðarvíxla. Á meðan ekki var komið bundið fé í Seðlabankann samkv. þessum l., var lítið hægt að segja. En í árslok 1963 eða um það leyti sem l. voru samþ. var bundið fé í Seðlabankanum 796.9 millj., en í júnílok s.l. var þetta bundna fé orðið 1249 1/2 millj. kr. Samkv. þessum tölum er aukin binding Seðlabankans a þessu tímabili 450 millj. kr. og verður örugglega um næstu áramót 500 millj. Ég álit, að nú sé svo komið, að verði ekki hafin nú þegar endurkaup hráefna- og framleiðsluvíxla iðnaðarins, sé brostin forsenda fyrir þessari lagasetningu og bindingaraukningu hjá Seðlabankanum. Verði þá að nema þessi lög um Seðlabankann úr gildi og skila viðskiptabönkunum til baka þeirri fjárfúlgu, sem tekin hefur verið af þeim, m.a. í þessu yfirskini.

Til viðbótar við það, sem ég hér hef sagt, væri ástæða til þess að minna á orð hæstv. viðskmrh. og bankamálaráðh., sem hann viðhafði á hv. Alþ. síðasta dag janúar 1964. Þá sagði þessi hæstv. ráðh., að hann teldi eðlilegt, að iðnaðurinn fengi hjá Seðlabankanum hliðstæða fyrirgreiðslu og landbúnaður og sjávarútvegurinn hafa notið um árabil. Hæstv. ráðh. sagði einnig orðrétt hér á Alþ. þann dag, þegar seðlabankafrv. var til umr., með leyfi hæstv. forseta:

„Með aukinni bindingu er það yfirlýstur tilgangur, að þá skuli Seðlabankinn hefja endurkaup á hráefna- og framleiðsluvíxlum iðnaðarins, og Seðlabankinn hefur lýst því yfir í viðræðum, að aukið bindingarfé muni hann nota í þessu skyni.“

Ég sný mér sérstaklega að þessum hæstv. ráðh. vegna orða hans sjálfs, þótt ég hins vegar viti, að hæstv. ríkisstj. hefur öll bankamálin í sínum höndum. Og hæstv. viðskmrh. sagði enn fremur þennan sama dag, 31. jan. 1964, hér á Alþ., með leyfi hæstv. forseta:

„Sem viðskmrh. hef ég talið það í mínum verkahring að vinna að því, að iðnaðurinn fengi aðstöðu í Seðlabankanum til endursölu á sínum víxlum, og ég vil innilega vona, að Alþ. beri gæfu til þess að samþykkja seðlabankafrv., því að þá fyrst mun iðnaðurinn geta fengið þá sanngjörnu meðferð mála sinna, sem hann sannarlega á rétt á.“

Ég efast ekki um, að hér hefur hæstv. viðskmrh. talað af heilum hug. Ég hef ekki lesið ummæli hans hér til þess á nokkurn hátt að gera lítið úr hans velvilja þessum atvinnuvegi til handa. Ég hef hins vegar talið mér skylt að lenda á hið mikla vald, sem afhent virðist vera einum aðila, þ.e. Seðlabankanum, sem lætur undir höfuð leggjast að framkvæma vilja hv. Alþ. Að mínum dómi er það Seðlabankinn, sem stendur í vegi fyrir því, að endurkaup hráefna og framleiðsluvíxla iðnaðarins séu hafin. Ég vænti þess fastlega, að nú þegar eftir þessar umr. taki hæstv. ríkisstj. málið í sínar hendur, þannig að viðunandi lausn fáist á þessu mikla hagsmunamáli íslenzks iðnaðar.