24.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (2813)

23. mál, hlutverk Seðlabankans að tryggja atvinnuvegum lánsfé

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þessi till. fjallar um það að skora á ríkisstj. að sjá um, að Seðlabanki Íslands kappkosti að fullnægja því hlutverki, sem honum er ætlað í l. frá 24. marz 1961, að vinna að því, að framboð lánsfjár sé hæfilegt, miðuð við það, að framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.

Ég hygg, að það þurfi ekki að rekja það fyrir hv. alþm., að þó að nú sé góðæri í landinu af náttúrunnar völdum og hvað viðskiptaárferði snertir, eiga atvinnuvegirnir eigi að síður við mikla erfiðleika að etja. Það er tvennt, sem einkum veldur þessu: í fyrsta lagi verðbólgan, sem hefur farið sívaxandi og aldrei meira en seinustu árin, sem að sjálfsögðu þrengir að atvinnuvegunum með margvíslegum hætti, og svo í öðru lagi eru það lánsfjárhöftin, sem valda því, að atvinnufyrirtæki geta í mörgum tilfellunt ekki hagað rekstri sinum svo sem heppilegast væri né ráðizt í þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar væru til þess að auka hagræðingu í rekstri þeirra og mundu gera þeim kleift að taka nýja tækni íþjónustu sína. En það er ljóst, ef menn kynna sér tölur íþessu sambandi, að lánsfjárskorturinn hefur þrengt í vaxandi mæli að atvinnuvegunum á undanförnum árum. Að vísu kann sumum að virðast, þegar litið er á tölur fljótlega, að þetta geti ekki verið rétt, því að samkv. skýrslum Seðlabankans námu útlán banka og sparisjóða í árslok 1959 3.9 milljörðum kr., en nú í ágústlok 1965 námu þessi útlán orðið 7.5 milljörðum kr., svo að þau hafa næstum tvöfaldazt. En það, sem menn verða að gera sér grein fyrir í þessu sambandi, er það, að rekstrarkostnaður fyrirtækja hefur á þessu tímabili miklu meira en tvöfaldazt í flestum greinum. Ég hygg, að ef menn líta t.d. á reikninga bæjarfélaga og rekstrarreikninga ríkisins, þó að framlögum til yfirborgana og uppbóta sé sleppt, hafi rekstrarkostnaður þessara aðila á umræddu tímabili í mjög mörgum tilfellum þrefaldazt, en í öðrum tilfellum eitthvað mitt á milli þess að tvöfaldast og þrefaldast. Ég hygg, að það sama gildi um atvinnufyrirtækin einkafyrirtækin og samvinnufyrirtækin, í þessum efnum, að rekstrarkostnaður þeirra

hafi margfaldazt með svipuðum hætti og hinna opinberu fyrirtækja, því að þegar ég tala um rekstrarkostnað opinberra aðila, á ég að sjálfsögðu ekki við þau framlög þeirra, sem renna beint til sérstakra verklegra framkvæmda og heyra ekki beint undir rekstrarkostnaðinn.

Af þessu er það ljóst, að þó að útlánin hafi aukizt mikið í undanförnum árum, nægir það hvergi nærri til þess að fullnægja þeirri lánsfjárþörf, sem skapazt hefur vegna enn þá meira aukins rekstrarkostnaðar atvinnufyrirtækjanna. Ef vel hefði átt að vera, hefðu útlánin þurft að aukast stórlega miklu meira á undanförnum árum, ef þau hefðu átt að hrökkva til þess að vega gegn hinum aukna rekstrarkostnaði.

Nú mætti að sjálfsögðu segja, að ef þessi lánsfjárskortur stafaði af því, að sparifjáraukningunni í landinu hefði verið þannig háttað á þessu tímabili, að ekki hefði verið hægt að fullnægja meira en þetta lánsfjárþörfinni, væri kannske ekki svo mikið við þessu að gera. Nú er því hins vegur ekki til að dreifa, heldur stafar þetta af því, að núv. ríkisstj. hefur tekið upp mjög stórfelld lánsfjárhöft, sem eru fólgin í því, að Seðlabankinn er látinn frysta, eins og svo er kallað, verulegan hluta af aukningu sparifjárins, þannig að nú fyrir nokkru munu hafa verið frystar í Seðlabankanum með þessum hætti kringum 1300 millj. kr. Og þetta hefur átt sér stað, án þess að Seðlabankinn veiti atvinnufyrirtækjunum nokkuð meiri fyrirgreiðslu núna en hann áður gerði, eins og sést á því, að í árslok 1959 námu endurkeyptir víxlar, sem hann hafði keypt af bönkum og öðrum lánsstofnunum, 857 millj. kr., en í ágústlok s.l. nam þessi upphæð ekki nema 842 millj. kr., þannig að endurkeyptir víxlar hjá Seðlabankanum námu minni upphæð í ágústlok s.l. en í árslok 1959, þannig að þessi þjónusta, sem Seðlabankinn þannig veitir, hefur lækkað í krónutölu á þessu tímabili, þrátt fyrir það þó að krónan hafi stórkostlega minnkað að verðgildi og þörf atvinnuveganna fyrir þessa þjónustu hafi stórkostlega aukizt.

Ég tel, að með þessum athöfnum sé brotið stórkostlega íbága við þau lög, sem Seðlabankanum eru sett og hann á að sjálfsögðu fyrst og fremst að starfa eftir. Í 3. gr. 1. um Seðlabankann, frá 24. marz 1961, er starfssvið bankans ákveðið, og segir svo í þessari gr., þar er verkefni hans fært upp íeinum 7 liðum, en í 1. lið, sem að sjálfsögðu er lögð mest áherzla á, þar sem hann er fyrstur í upptalningunni, segir á þessa leið um verkefni Seðlabankans, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkefni hans er að annast seðlaútgáfu og vinna að því, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt, miðað við það, að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.“

Ég hygg, að það þurfi ekki að deila um það, að það vinnur algerlega gegn þessu markmiði bankans að sjá um það, að lánsfé sé hæfilegt og miðað við það, að framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt, að þau lánsfjárhöft, sem hafa verið tekin upp og bankinn hefur beitt á undanförnum árum, stríði algerlega gegn þessum ákvæðum í l. hans um það meginverkefni, sem honum er ætluð að rækja. Það má að vísu segja, að í þessari gr. komi það einnig fram, að það sé verkefni bankans að vinna að því, að verðlag haldist stöðugt, og einhverjir kunna að trúa því, að því takmarki megi ná með lánsfjárhöftum. En ég hygg, að reynslan, sem þjóðin hefur búið við a undanförnum árum, sýni, að því sé fjarri, að það sé hægt að tryggja stöðugt verðlag með slíkum lánsfjárhöftum sem Seðlabankinn hefur beitt, því að þrátt fyrir þessi höft hefur verðbólgan vaxið meira í landinu en nokkru sinni fyrr og því augljóst, að lánsfjárhöft Seðlabankans hafa engin áhrif haft í þessu sambandi, og af þeim ástæðum er óeðlilegt og óþarft, að þeim sé beitt. Hins vegar stríða þau algerlega gegn hinu aðalatriðinu, sem nefnt er í áður á minnztri lagagr., að bankinn eigi að sjá um, að lánsfé sé hæfilegt, miðað við það, að framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt, því að það geta að sjálfsögðu allir gert sér ljóst, þegar atvinnufyrirtæki skortir stórkostlega lánsfé, bæði til rekstrar og eins til þess að koma fram nauðsynlegum framkvæmdum, svo að þau geti hagnýtt sér nýja tækni, að því marki verður ekki náð með því að búa að þeim eins og gert er með umræddum lánsfjárhöftum.

Ég tel því samkvæmt þessu, sem ég nú hef sagt, að það liggi alveg ljóst fyrir, að með lánsfjárhöftunum og sérstaklega þó með frystingu sparifjárins, sem Seðlabankinn hefur tekið upp, sé algerlega brotið gegn einu því aðalmarkmiði, sem Seðlabankanum sé ætlað að hafa, og þess vegna sé nauðsynlegt fyrir Alþ. að skora á ríkisstj. að sjá um það, að Seðlabankinn fari í þessum efnum eftir þeim l., sem honum hafa verið sett. En það gerir Seðlabankinn sannarlega ekki, meðan sparifjárfrystingunni er haldið uppi með svipuðum hætti og nú á sér stað. Með því háttalagi brjóta þeir, sem stjórna Seðlabankanum, hverjir sem það eru, algerlega gegn l. um starfssvið bankans. Og Alþ. verður þess vegna að hlutast til um það, að þeim l. verði framfylgt, þegar þeir svíkjast um það, sem um þetta verkefni eiga að sjá, en það er stjórn Seðlabankans eða þeir, sem stjórna Seðlabankanum.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.