24.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (2823)

32. mál, löggjöf um þjóðaratkvæði

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef hér ásamt tveim hv. þm. leyft mér að flytja till. til þál. um undirbúning löggjafar um þjóðaratkv. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að kjósa 5 manna n. til að rannsaka, hvort ekki sé rétt að setja löggjöf um þjóðaratkv. í mikilvægum löggjafarmálefnum, svo og hvort ekki sé rétt að setja grundvallarreglur þar um í stjórnarskrána. Skal n., ef hún telur ástæðu til, semja lagafrv. um það efni. N. skal kynna sér sem rækilegast öll atriði varðandi þjóðaratkvgr., þar á meðal reynslu annarra þjóða í þeim efnum, en einkum ber n. að athuga eftirtalin atriði: a) Hvort í ákveðnum tilvikum eigi að vera skylda eða aðeins heimild til þjóðaratkvgr.; b) hvaða aðilar eigi að fá rétt til að krefjast þjóðaratkvgr., t.d. hvort þann rétt eigi að veita tiltekinn í tölu þm. eða ákveðnum fjölda kjósenda og e) hvort úrslit þjóðaratkvgr. eigi að vera bindandi eða aðeins til ráðgjafar.“

Eins og segir í grg. fyrir þessari till., „tíðkast það í ýmsum löndum, að þjóðaratkvæði fari fram um löggjafarmálefni. Þar sem það á sér stað, á það stundum stoð í stjórnarskrá, og getur það þá verið ýmist þannig, að það sé beinlínis boðið í stjórnarskrá, að þjóðaratkv. skuli fara fram um tiltekin löggjafarmálefni, og eins getur það líka átt sér stað, að í stjórnarskrá sé heimild til þjóðaratkvæðis, þannig að ákveðinn fjöldi þm. eða ákveðinn fjöldi kjósenda geti krafizt þess, að þjóðaratkv. fari fram. Það er svo mismunandi, þar sem slíkt þjóðaratkv. fer fram, hvort það er bindandi um það málefni, sem þjóðaratkv. er leitað um, eða aðeins ráðgefandi.

Hér á landi hefur kveðið lítið að þjóðaratkvæði. Í stjórnarskránni eru aðeins tvö ákvæði, sem varða það efni. Í öðru tilfellinu er um að ræða breytingar á kirkjuskipun ríkisins samkv. 62. gr. og í hinu tilfellinu er um það að ræða, að ef forseti synjar að staðfesta lög eða lagafrv., þá á þjóðaratkvæði að skera úr um frambúðargildi þeirra laga. Á hvorugt þessara tilvika hefur reynt í framkvæmdinni. Hins vegar hefur þó þjóðaratkvæði farið fram nokkrum sinnum hér, þ. á m. um sjálfa lýðveldisstjórnarskrána á sinni tíð samkv. ákvæði í stjórnskipunarlögum þar um. Enn fremur um sambandslögin, bæði um gildistöku þeirra og eins niðurfellingu. Jafnframt hefur það svo nokkrum sinnum átt sér stað, að Alþ. hafi samþykkt að kanna hugi kjósenda til tiltekinna löggjafarmálefna. Það hefur átt sér stað m.a. um bannlögin, bæði þegar þau voru sett og eins þegar þau voru afnumin, og einnig um þegnskylduvinnu á sínum tíma. Atkvgr. um bannlögin eða um það, hvort bann skyldi hér sett, fór fram á sínum tíma samkv. ályktun Nd. Alþ. 1948, og niður staðan af þeirri atkvgr. varð sú, að 3/5 kjósenda voru með banni, 2/5 á móti. Bannl. voru síðan sett, svo sem kunnugt er. 1916 fór fram atkvgr. um það, hvort þegnskylduvinna skyldi hér á landi lögleidd. Sú atkvgr. fór fram samkv. þál., sem samþ. var í báðum deildum þings. Niðurstaða þeirrar atkvgr. varð sú, að um 80% kjósenda greiddu atkv. gegn þegnskylduvinnu, og það kom ekki til neinnar lagasetningar um það efni. 1933 fór svo fram atkvgr. meðal þjóðarinnar um það, hvort bannl. skyldu afnumin eða það af þeim, sem þá var eftir. Sú þjóðaratkvgr. fór fram samkv. ályktun sameinaðs þings, og niðurstaða þeirrar þjóðaratkvgr. varð sú, að 57.7% kjósenda greiddu atkv. með afnámi bannl., en 42.3% með því að halda bannl. áfram í gildi. Eins og kunnugt er, afnam svo Alþ. bannl. eftir þessa atkvgr.

Af þessum dæmum, sem ég hér hef nefnt, er það augljóst, að Alþ. hefur í hvert eitt sinn, sem skoðanir kjósenda hafa verið kannaðar um þessi löggjafarmálefni, farið eftir þeim vilja, sem í þeim birtist.

Í okkar stjórnarskrá eru engin ákvæði um heimild til þjóðaratkv. Nú er það svo að margra dómi, að það er ástæða til þess að athuga, hvort ekki sé rétt að grípa til þjóðaratkv. hér á landi meir en átt hefur sér stað. Því verður ekki neitað, að þjóðaratkv. getur verið virkur þáttur í raunverulegu lýðræði. Flestir vilja nú játa lýðræði og telja það gott. En það er ekki nóg að játa lýðræði með vörunum. Menn verða líka að fylgja raunverulegu lýðræði í framkvæmd. Og það er svo, að sums staðar a.m.k. hefur að undanförnu vaknað nokkur áhugi á þjóðaratkv. á ný. Ég hygg, að það séu tiltölulega fá ár síðan það fór fram í Svíþjóð gaumgæfileg athugun á því, hvort ekki ætti að taka þar upp ákvæði um þjóðaratkvgr. Ég veit, að sú n., sem kannaði þetta, skilaði ýtarlegu áliti, en mér er ekki kunnugt um, að enn hafi samt verið sett löggjöf þar um í því landi. Ég hygg, að í stefnuskrám a.m.k. tveggja, ef ekki fleiri þeirra flokka í Noregi, sem náðu meiri hl. við síðustu kosningar og standa nú að þeirri stjórn, sem þar situr, hafi verið ákvæði, sem til þess benti, að þeir mundu vilja vinna að því að kanna, hvort ekki ætti að taka upp þjóðaratkv. í ríkara mæli en þar hefur átt sér stað.

Ég held, að það sé ástæða til að kanna þetta efni hér á landi. Það er að vísu svo, að þegar það á að athuga, koma mörg atriði til skoðunar. Á nokkur þeirra er bent í þessari þáltill., en vitaskuld er sú upptalning á engan hátt tæmandi. Það þarf að athuga þetta gaumgæfilega, og þess vegna er þessi þáltill. fram borin. Það er ekki ástæða til að hrapa að neinu í þessu efni, en það er mín skoðun, að það fari vel á því og gæti haft heppilegar afleiðingar fyrir skoðanamyndun hér í landinu, ef það væri hægt að koma við þjóðaratkv. oftar en átt hefur sér stað.

Ég tel eðlilegt, að sú athugun, sem hér er um að ræða, fari fram af þingkjörinni n. Þess vegna er lagt til í þessari till., að Alþ. kjósi 5 manna n. til að rannsaka þetta málefni með þeim hætti, sem þar nánar segir. Ég fyrir mitt leyti tel sjálfsagt og eðlilegt, að allir þingflokkar eigi þátt í þeirri athugun eða geti átt þátt í þeirri athugun. hess vegna má segja, að það hefði verið eðlilegra, að íþessari þáltill. hefði verið mælt svo fyrir, að n. skyldi skipuð 7 mönnum, og það má kannske segja, að það sé nánast fyrir vangá okkar tillögumannanna, að það hefur ekki verið gert. En ég vænti þess, að hv. n., sem fær þessa till. til meðferðar, athugi það, og það er síður en svo, að við flm. höfum nokkuð á móti því, að tölu nm. sé breytt á þá lund, að tryggt sé, að allir þingflokkar geti þar átt sinn fulltrúa.

Ég held svo, herra forseti, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þessa till., en vísa að öðru leyti til þeirrar grg., sem henni fylgir, en leyfi mér að leggja til, að henni verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn. til athugunar.