09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í D-deild Alþingistíðinda. (2833)

39. mál, lagning Vesturlandsvegar

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 40 hef ég leyft mér að flytja þáltill. um lagningu Vesturlandsvegar. Tillgr. sjálf er stutt og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að nota lántökuheimild í III. kafla vegáætlunar fyrir árin 1965—1968 vegna Vesturlandsvegar, til þess að endurbygging vegarins geti hafizt á næsta sumri.“

Í vegáætlun þeirri, sem vitnað er til í tillgr., er Vesturlandsvegur í Reykjaneskjördæmi talinn liggja frá Reykjavík við Elliðaár um Mosfellssveit og Kjalarnes, kringum Hvalfjörð og að sýslumörkum Borgarfjarðarsýslu í Hvalfjarðarbotni. Eins og öllum hv. alþm. mun kunnugt, liggja leiðir allra bifreiða, sem fara á milli Reykjavíkur og Vesturlands, Norðurlands og Austurlands, um þennan þjóðveg. Um hann eða hluta hans fer einnig fjöldi bifreiða, sem flytja sand og möl til bygginga og ýmissa annarra mannvirkja í Reykjavík, en slíkt efni hefur um mörg undanfarin ár verið sótt ínágrannasveitirnar norðan Reykjavíkur. Sömu sveitir eiga öll sin viðskipti við Reykjavík og þurfa allt þangað að sækja og flytja. Fyrir stuttu lét vegamálastjórnin framkvæma talningu 4 daga í röð á þeim hluta vegarins, sem liggur í gegnum Mosfellssveit, og reyndist meðalumferðin dag hvern vera 2617 bifreiðar og þar af um 28% stórir flutningavagnar, sem ætla má að flytji 3—4 þús. smál. á dag. Þessi mikla notkun vegarins og léleg gerð hans veldur því, að óframkvæmanlegt reynist að halda honum ökufærum mikinn hluta ársins, þótt allmiklu sé til þess kostað. Þá er slit þeirra ökutækja, sem um slíkar vegleysur þurfa að fara daglega, mjög stór útgjaldaliður.

Á Alþ. snemma í desember, að mig minnir, var lagt fram undirskriftaskjal frá um 200 íbúum Mosfellssveitarhrepps, þar sem skorað er á stjórnvöld og hv. Alþ. að vinna að endurbótum og endurbyggingu þessa vegar. Ég geri ráð fyrir því, að sumum hv. alþm. sé þetta erindi kunnugt, því að a.m.k. okkur þm. Reykn. mun öllum hafa verið sent það. Með erindi þessu fylgdi nokkuð ýtarleg grg., þótt ekki væri hún mjög löng, þar sem drepið er á þau vandkvæði, sem núverandi ástand vegarins skapar íbúum Mosfellshrepps og þeim, sem veginn þurfa að nota.

Ég held, að ekki sé sérstök ástæða til að hafa miklu lengri framsögu með þáltill. þessari. Ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. hafi allir af eigin reynd nokkur kynni af Vesturlandsveginum og menn séu út af fyrir sig ekki ósammála um, að mikið og knýjandi verkefni bíði þar í vegagerð landsmanna. Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um mál þetta verði frestað og því vísað til hv. fjvn.