24.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (2840)

40. mál, þjóðaratkvæðagreiðsla um samkomustað Alþingis

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Á árinu 1958, hinn 30. maí, var samþ. þál., þar sem skorað var á ríkisstj. að skipa n. til að endurskoða lagaákvæði og stjórnarákvarðanir um aðsetur ríkisstofnana og embættismanna, og átti ríkisstj. samkv. ályktuninni að leggja fyrir Alþ. till. til breytinga, eftir því sem ástæða þætti til að endurskoðuninni lokinni. Fulltrúar fjórðungsþinganna áttu að tilnefna menn í n., einn frá hverju þeirra. Samband ísl. sveitarfélaga átti að tilnefna einn mann. Sjötti maðurinn skyldi skipaður án tilnefningar og vera formaður n. Var Gísli Guðmundsson alþm. skipaður formaður n. Frá Sambandi ísl. sveitarfélaga var formaður þess, Jónas Guðmundsson, frá fjórðungsþingi Vestfirðinga Jóhann Gunnar Ólafsson bæjarfógeti á Ísafirði, frá fjórðungsþingi Norðlendinga Ásgrímur Hartmannsson bæjarstjóri í Ólafsfirði, frá fjórðungsþingi Austfirðinga Gunnlaugur Jónasson bankagjaldkeri á Seyðisfirði, og fyrir Sunnlendingafjórðung var ég skipaður.

Þessi n. vann að verkefni sínu og hélt marga fundi og aflaði ýmissa gagna. Hún skilaði áliti til ríkisstj. síðla árs 1962 og gerði till. í átta liðum, ýmist um ný aðsetur ríkisstofnana eða að komið yrði upp nýjum stofnunum úti um land til ýmissar þjónustu fyrir fólkið, sem þar býr. Sú till., sem n. setti efst, var það, að látin yrði fara fram þjóðaratkvgr. um það, hvort Alþ. skuli framvegis háð á Þingvöllum við Öxará, og ef í ljós kæmi við slíka atkvgr. vilji þjóðarinnar fyrir því að flytja Alþ. á Þingvöll, yrðu af hálfu stjórnarvaldanna gerðar ráðstafanir til þess að búa þinginu þar starfsskilyrði.

Nú er liðið nokkuð á fjórða ár, síðan n. skilaði till. sínum, en ekki hefur ríkisstj. sinnt þeim enn sem komið er. Okkur flm. þessarar þáltill. þótti því rétt að hreyfa þessu máli hér á hinn háa Alþ., þar sem svo langt er um liðið, síðan við áttum þátt í tillögugerð um þetta mál, en ekkert frá stjórnarvöldunum er komið um það ídagsins ljós, eins og ég sagði.

Öllum er kunnugt, sem á Alþ. sitja, að ekki verður lengi við unað úr þessu þau starfsskilyrði, sem Alþ. á við að búa hvað húsrými snertir, enda munu vera í athugun á vegum Alþ. einhvers konar úrbætur, þó að e.t.v. sé þar varla hugsað stærra enn sem komið er en til bráðabirgðaúrlausnar.

Alltaf mun sá andi hafa vakað í brjósti margra góðra Íslendinga, að Alþ. ætti hvergi annars staðar að vera en á Þingvöllum. Hefur sú hugsjón nokkrum sinnum verið rædd hér á hinu háa Alþ. sjálfu, og er það nokkuð rakið í grg. þeirri, sem fylgir þessu máli. Í þau skipti, sem þetta mál hefur verið gert að þingmáli, hafa flm. þess og fylgjendur verið úr röðum þeirra þm., sem ötulastir voru um sjálfstæðis- og þjóðernismál Íslendinga. Er líða tók að 1000 ára afmæli Alþingis árið 1930, kom í ljós, að áhugi á því að heyja þingið á Þingvöllum við Öxará var enn vakandi hér á landi. Ýmsir gerðust þá til að rita um málið í blöð eða tímarit. Einn af þáv. þm. höfuðstaðarins, Magnús Jónsson prófessor, skrifaði árið 1923: „Það er nokkurs konar prófsteinn á þjóðina, hvenær hún er orðin fullvaxin og veit, hver hún er, þá flytur hún Alþ. á Þingvöll við Öxará. Annars staðar getur það ekki átt heima.“ Þá minntust menn þess einnig, að þjóðin hafði aldrei átt þess kost að ráða sjálf þingstað sínum og að álits hennar hafði ekki verið leitað. Og á Alþ. 1926 fluttu þrír þm., það voru þeir Sveinn Ólafsson, Ásgeir Ásgeirsson og Benedikt Sveinsson, í Nd. svo hljóðandi till. til þál., með leyfi hæstv. forseta:

Nd. Alþingis ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram þjóðaratkvgr. á sumri komanda jafnhliða landskjörinu um það, hvort samkomustaður Alþingis skuli vera á Þingvöllum við Öxará frá 1930. Skal við atkvgr. farið eftir nýjustu kjörskrám til alþingiskosninga fyrir sérstök kjördæmi.“

Þessi till. var felld með litlum atkvæðamun. Með henni voru greidd í Nd. 12 atkv., en 14 á móti.

Árið 1929 var svipuð till. aftur flutt í Nd., þá af 10 þm., og enn árið 1930, þá af 9 þm. Í þessi tvö skipti varð hún ekki útrædd. En árið 1929 bárust þinginu áskoranir frá mörgum ungmennasamböndum um að láta þjóðaratkvgr. fara fram. Eftir Alþingishátíðina féll málið svo niður um sinn.

Á það var bent í umr. á Alþ. 1926—1930, að oft, þegar mikils hefði þótt við þurfa í sjálfstæðisbaráttunni, hefðu þeir, er þar voru á oddi, túlkað hug þjóðarinnar til Þingvalla með því að boða þar, en ekki í höfuðstaðnum, til fulltrúafunda, er sóttir voru hvaðanæva að af landinu. Nú eftir 35 ár mætti bæta því við, að árið 1944 þótti öllum það eitt hlýða, að yfirlýsingin um stofnun lýðveldisins væri birt á hinum forna þingstað. Ásgeir Ásgeirsson sagði í umr. á Alþ. árið 1926, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingvellir eru einstakur staður, og ég skil ekki þá þjóð, sem ekki vill nota sér þá fágætu eign til að halda erfikenningum í þingmálum og stjórnmálum betur vakandi en nú. Það er sagan, sem heimtar, að Alþ. verði háð á Þingvöllum.“

Ég tel víst, að enn séu allskiptar skoðanir um það meðal þjóðarinnar, hvað rétt sé að gera í þessu máli, og er slíkt að vonum, svo mjög sem við Íslendingar erum gjarnir til þess að vera ósammála um flest. Ég hygg hins vegar, að enginn muni þó sá vera, sem ekki vill telja Þingvelli við Öxará mestan og helgastan sögustað þjóðar vorrar og eitt hið mesta djásn af mörgum á landi hér vegna náttúrufegurðar og mikilfenglegra minja frá sköpunarsögu þessa mikla eldfjallalands. Sá maður væri harla tilfinningasnauður og tómlátur, sem ekki yrði fyrir sterkum áhrifum á huga sinn og hjarta yfir öllum þeim dásemdarverkum drottins, sem við augum blasa hvarvetna á Þingvöllum og í nágrenni þeirra.

Það er nú samt svo með okkur Íslendinga, eins og aðrar þjóðir sennilega, að þjóðartilfinning okkar er ekki eingöngu til orðin vegna skyldleika okkar við landið sjálft og hina sérstæðu náttúru þess, heldur einnig og ekki síður vegna sögu þjóðarinnar frá upphafi. Það er þessi saga með sigrum og ósigrum þjóðarinnar og kynslóðanna, skini og skúrum í lífi þeirra, sem veldur því, að við finnum til öll með svipuðum hætti, þegar eitthvað skeður, sem við öll annaðhvort þráum, eins og við t.d. þráðum fullt frelsi, óttumst, eins og t.d. þegar við óttumst hafís, eldgos eða jarðskjálfta, eða elskum, eins og t.d. frelsi og full mannréttindi. Saga okkar er auðug af alls konar atburðum, er mótuðu líf og starf kynslóðanna, trú þeirra, ást þeirra og hatur, viljann til að lifa í landinu, bæta það og fegra, auðga lífið af fögrum hugsunum, eins og skáld og aðrir andans menn hafa gert. Þessi saga vor í meginþáttum var ráðin á Þingvöllum í tæpar 9 aldir. Þar höfnuðu landsmenn tilmælum um að láta Grímsey af hendi, af því að þeir þóttust sjá, að þangað mætti halda langskipum frá Noregi og þar væri hægt að fæða her manns, eða m.ö.o., þar væri hægt að hafa setulið. Á Þingvöllum tók Alþ. við kristinni trú, sem síðan hefur verið þjóðinni líkn og traust í heljarnauðum og síðferðileg stoð í gæfu og meðlæti. Það er sagt um Múhameðstrúarmenn, að þeir snúi andliti sínu til Mekka, þar sem gröf spámannsins er, þegar þeir gera bæn sína. Mekka er þeirra sameiningartákn, staðurinn, þar sem örlagastafirnir vorn smíðaðir í hið andlega musteri trúar og siðgæðishugmyndir þær, sem standa ofar öðru í þeirra hug.

Við Íslendingar höfum fengið frá Þingvöllum allt það, sem mestum og beztum örlögum hefur valdið í lífi okkar sem þjóðar. Og það hefur gerzt á síðari tímum, eftir að Alþ. hefur flutt frá Þingvöllum, að þjóðin vildi helga þar og hvergi nema þar hinn langþráða atburð, þegar lýst var yfir lýðveldi á Íslandi árið 1944. Þannig eru Þingvellir okkar Mekka. Þangað fara valdsmenn þjóðarinnar með flesta gesti landsins til þess að sýna þeim þann stað, þar sem þetta litla ríki og örsmáa þjóð grundvallaði stjórnskipun, sem stóð um aldir og fræg er fyrir frelsisanda, sem óvíða þekktist annars staðar en hér á þeim tíma.

Þingstjórn er að vísu talin ævagömul og eldri en konungsstjórn meðal germanskra þjóða. Norsk lög og norskar réttarvenjur fluttust með landnámsmönnum til Íslands. Í bók sinni, Saga Íslendinga, segir Jón Jóhannesson prófessor, að í upphafi víkingaaldar hafi verið mörg þing í Noregi og ýmis lög og að svæðin, þar sem sömu lög giltu, hafi verið smá, en svo hafi verið æðri þing fyrir þessi svæði, sem kölluð voru allsherjarþing. Hér á landi voru fyrst stofnuð nokkur héraðsþing, svo sem Þórsnesþing á Snæfellsnesi og þing það, er Þorsteinn Ingólfsson stofnaði á Kjalarnesi og talið er að hafi verið aðeins dómþing til þess að framfylgja lögum þeim og réttarvenjum, er landnámsmenn höfðu vanizt í ættbyggðum sínum í Noregi. Á þeim öldum, er þjóðveldi stóð hér á landi og allir Íslendingar lutu einum og sömu lögum, er Alþingi á Þingvöllum setti, höfðu hvorki Norðmenn, Svíar né Danir ein lög hverjir fyrir sig í sínu landi, Íslendingar eru þannig fyrsta Norðurlandaþjóðin, sem stofnaði eitt allsherjarþing, er setti öllum íbúum landsins ein og sömu lög. Getum við verið stoltir af því framtaki forfeðra okkar, og á þeim forna grundvelli, sem þeir þannig byggðu, stendur enn í dag þjóðerni vort, saga og réttur.

Frá því Alþ. var stofnað árið 930, var það alla þjóðveldisöld háð á Þingvelli við Öxará og síðan allt til 1798. En árið 1799 var það flutt til Reykjavíkur og svo lagt niður árið 1800. Og þegar það var endurreist árið 1845, kom það saman hér í Reykjavik 1. júlí það ár, og hér hefur það verið haldið alltaf síðan.

Með þessum fáu orðum hef ég aðeins drepið á vissa þætti í sögu Alþ., er það hefur spunnið í örlagavef íslenzku þjóðarinnar. Svo rík er mörgum manni í huga, bæði okkur flm. þessarar þáltill. ásamt þeim, sem með okkur störfuðu í mþn. um aðsetur ríkisstofnana, sem ég gat um hér í upphafi máls míns, svo og fjölda annarra manna, hin forna frægð og söguhelgi Þingvalla, að við teljum sjálfsagt, að þjóðin fái að segja sitt orð um það í leynilegri atkvgr., hvort hún vill flytja Alþ. aftur á hinn sögufræga og fagra stað.

Allir vita, að ekki verður því lengi skotið á frest úr þessu að byggja ný húsakynni yfir starfsemi Alþ. Hið góða, gamla hús, alþingishúsið hér við Austurvöll í Reykjavík, er bæði allt of lítið og miðað við nútímaaðstæður óhentugt til að gegna sínu hlutverki. En ekki nóg með það, að húsið sjálft sé úrelt orðið, heldur er staðsetning þess einnig að mínum dómi háð verulegum ágöllum, og vil ég þar fyrst og fremst nefna, að önnur aðalleið flugvéla um Reykjavíkurflugvöll liggur hér yfir alþingishúsið og oft er hér hávaði af slíku svo mikill, að ég a.m.k. heyri illa það, sem fram fer hér í sölum Alþ., þegar þannig stendur á, að flugvélar fljúga hér yfir. Í öðru lagi má nefna, að hér liggja að þinghúsinu fjölfarnar götur af bifreiðaumferð á tvo vegu alveg upp að veggjum þinghússins, og verða þm. oftast að sæta lagi og hafa á því vakandi athygli, þegar þeir koma eða fara vegna starfa sinna hér í þinghúsinu, að verða ekki undir bifreiðunum, sem aka fram hjá dyrum þess með ofsahraða. Hið sama gildir einnig um alla aðra, sem starfa í þinghúsinu eða eiga þangað leið. Bifreiðum er lagt fyrir austurgafli hússins og hávaðinn gífurlegur af götuumferðinni og þegar menn eru að ræsa þar bifreiðar sínar í gang, eftir að þær hafa staðið þar utan við veggi þinghússins.

Ég verð að segja það, að ég hef oft furðað mig á því, síðan ég kom hér fyrst fyrir rúmum 9 árum, að ekki skuli hafa verið takmörkuð umferð bifreiða í kringum þinghúsið, meðan Alþ. er háð.

Ég þykist vita, að ein höfuðröksemdin gegn því, að Alþ. verði háð á Þingvöllum, verði sú, að þar verði þm. of einangraðir frá ýmsum höfuðstofnunum þjóðarinnar hér í Reykjavík, svo sem ráðuneytum, bönkum og öðrum ríkisstofnunum. Gera má einnig ráð fyrir því, að sumir telji, að þinghald á Þingvöllum mundi valda erfiðleikum fyrir ráðh. og ýmsa embættismenn vegna fjarlægðar. Þetta kunna að þykja góð rök nú í dag. En ég spái því, að eftir nokkur ár mundu slík rök þykja mjög fáfengileg, ef þróun í samgöngutækni verður á næstu áratugum slík sem hún hefur verið á liðnum árum, t.d. síðan 1940. Ég sá það nýlega einhvers staðar í bók eða blaði, að þar var verið að lýsa vörusýningu í Leipzig í Þýzkalandi, og þar var m.a. frá því sagt, að vegalengdin um sýningardeildirnar á þessari vörusýningu væri röskir 50 km, en það er sama vegalengd og er héðan af Lækjartorgi til Þingvalla. Ég hygg, að vegalengdir innan stórborga erlendis séu víða ekki minni og sums staðar allmiklu meiri. En eins og tækninni í samgöngumálum fleygir mjög ört fram nú á tímum og fjarlægðir milli staða hverfa smátt og smátt vegna hins aukna hraða og nýrra samgöngutækja, eru ekki síður örar framfarirnar í allri fjarskiptatækni, og er alls staðar að verða auðveldara að koma tali og boðum milli staða, jafnvel myndum af því, sem er að gerast, er jafnóðum auðvelt að koma fyrir augu manna í mikilli fjarlægð, svo sem kunnugt er. Og það mætti segja mér, að það yrði ekki langt þangað til ræður þm. gætu komið á pappír út úr einhverri vél jafnharðan og þær eru haldnar, og mundi þar engu skipta, hvort sú vél væri fjær eða nær ræðumanni.

Það kann að vera, að þetta þyki draumórar. En svo er ekki. Ég fullyrði það, að svo er ekki, því að flest af þessu er nú þegar orðinn veruleiki einhvers staðar. Ég tel þess vegna, að fjarlægð frá Reykjavík til Þingvalla geti ekki hrundið þeirri hugmynd, að Alþ. verði háð á Þingvöllum.

En þá vil ég með nokkrum orðum telja fram það, sem ég tel því til gildis fyrir störf Alþ., að það verði háð á Þingvöllum.

Hér í höfuðborginni er mjög ónæðissamt fyrir þm. og margt, sem truflar störf þeirra. Á Þingvöllum mundi verða miklu næðissamara og kyrrlátara og menn gætu átt þar hægara með að einbeita sér við athugun þingmála og yrðu þar talsvert óháðari alls konar áhrifum frá ys og þys borgarlífsins og þeirra, sem vilja hafa áhrif í einu eða öðru formi á afstöðu þm. Ég tel, að fulltrúar þjóðarinnar á Alþ, eigi fyrst og fremst að vinna að löggjafarstörfum. En eins og aðstöðu þm. er nú háttað, fer minnst af tíma þeirra í slíkt. Meginhlutinn af starfsorku þm. fer í að leysa og greiða úr ýmsum viðskipta- og fjármálum fyrir einstaklinga og félagssamtök og fyrirtæki í kjördæmum þeirra, ganga í banka til að selja víxla og útvega lán, ráða fólk til starfa fyrir ýmsa aðila, og svo mætti lengi telja. Ég vil ekki gera lítið úr þessari þjónustu. En ég held, að tími slíkrar þjónustu af hálfu þingmanna hljóti mjög fljótlega úr þessu að renna sitt skeið til enda, og ég vil segja það, að ég tel, að hann eigi að gera það. Ég tel, að framkvæmdavaldið hljóti að læra það fljótlega úr þessu, að það er og á að vera þjónustubundið í þágu allra landsmanna jafnt, og þess vegna verði ekki mjög lengi úr þessu sá háttur á hafður, að fulltrúar í æðstu stofnun þjóðarinnar, Alþingi, séu á eilífum erli og sífelldum biðilsbuxum frammi fyrir framkvæmdavaldinu til þess að flytja bænarskrár og sýna umboðsskjöl frá fólki og byggðarlögum. Framkvæmdavaldið á að koma til fólksins, hvar sem það er búsett, og segja: Hér er ég, skyldugt og reiðubúið til að þjóna þegnréttindum hvers manns og til þess að uppfylla sanngjarnar og löglegar kröfur. — Umboðsstöðvar framkvæmdavaldsins hljóta, áður en langt líður, að rísa upp úti um landið, og er ég þar algerlega á sama máli og hv. þm. Lúðvík Jósefsson talaði um hér í kvöld, að ég álit, að það eigi að koma upp sem víðast um landið umboðsstöðvum framkvæmdavaldsins, þar sem þær geti framkvæmt og þjónað þörfum íbúanna á hverjum stað. Ég er þess vegna viss um, að sá tími nálgast óðum, að þm. munu geta farið að einbeita kröftum sínum og notað tímann til þess að sinna löggjafarstarfinu, sem ég lit svo til að sé nú eins konar aukastarf, hitt taki miklu meiri tíma, að sinna alls konar umboðsstörfum fyrir ýmsa aðila.

Á Þingvöllum ætti að verða ólíkt næðissamara fyrir þm. að dvelja og starfa, og ég er viss um, að Alþingi fengi við það að flytjast til Þingvalla aukið traust og álit. En mér er ekki grunlaust um, að nokkuð skorti á, að þjóðin beri óskorað traust til Alþingis, eins og nú er háttað. Með auknum þroska þjóðarinnar, sem ég veit að allir alþm. vona að vaxi sem fyrst og sem bezt, er ég viss um, að þjóðin gerir kröfur um að tengja Alþingi sem traustustum böndum við þann söguhelga stað, Þingvöll, og mun þá rætast það, sem Magnús Jónsson prófessor skrifaði um þetta á árinu 1923 og ég áðan rifjaði upp.

Svo gnæfa Þingvellir yfir aðra staði í landinu sem sögustaður, að oft hafa þar verið haldnir ýmsir þjóðmálafundir, sem mikils hefur þótt varða, að vel tækjust og þjóðarathygli vektu. Ég álit, að nútímatækni geri flutning Alþingis til Þingvalla ekki aðeins mögulegan, heldur í raun og veru sjálfsagðan. Þær breytingar, sem orðið hafa hin síðustu ár í sambandi við Alþingi, eins og t.d. fjölgun þingmanna, stækkun kjördæma, síaukinn málafjöldi á Alþingi og hraðvaxandi ný viðfangsefni, sem eru afleiðing nýrrar þekkingar og nýrrar tækni, allt þetta og margt fleira gerir nauðsynlega þá breytingu, að húsakynni Alþingis verði stórbætt og þm. sköpuð aðstaða til að hafa næði við löggjafarstörfin og um leið verði þeir að mestu losaðir við daglegan eril og sendimannastörf, þar sem þeir þurfa oft að ganga fyrir margra manna kné til þess að fá leyst hin og þessi tiltölulega smávægileg málefni.

Fáar þjóðir munu eiga svo sérkennilegan helgistað, sem hefur helgazt af svo langri stjórnmála og þjóðarsögu eins og Þingvellir. En hvað hefur verið gert fyrir þennan helgistað þjóðarinnar? Það er, held ég, harla lítið. Hann hefur að sjálfsögðu verið friðlýstur, og þar heitir nú þjóðgarður, þar sem hið forna Alþingi var háð og næsta nágrenni þess. Sú friðlýsing er þó naumast miklu meiri en svo, að sauðkindum er varnað að kroppa gras á grónum götum og búðartóftum hinna fornu goða og þingreiðarmanna þeirra.

Um aldamótin 1800 var lögréttuhúsið á Þingvöllum rifið og selt á uppboði.

Á þessu ári eru liðin 125 ár síðan Kristján konungur VIII gaf út tilskipun til nefndar embættismanna um að athuga, hvort ekki væri vel til fallið að stofna til ráðgjafarþings á Íslandi og hvort ekki væri rétt að nefna það Alþing eins og hið forna þing og halda það á Þingvöllum. Þeir urðu í meiri hluta, sem ekki þótti fært að hafa Alþingi á Þingvöllum. Þær ástæður, sem þá voru færðar fram gegn því að halda Alþingi á Þingvöllum, eru ekki lengur fyrir hendi, þó að þá kunni þær að hafa verið veigamikil rök, eins og það t.d., að það tæki tvo daga að ferðast fram og aftur milli Reykjavík og Þingvalla og að þingmenn yrðu að lifa á skrínukosti þar eystra.

Embættismannanefndin var skipuð 10 æðstu embættismönnum landsins. Nefndin varð sammála um að mæla með endurreisn Alþingis, en hún klofnaði um þingstaðinn. Helmingur nefndarmanna mælti með Reykjavík, en hinn helmingur nefndarinnar vildi láta fyrsta þingið vera í Reykjavík og láta síðan þingið sjálft ákveða þingstaðinn. Þó voru tveir þessara manna, þeir Bjarni Thorarensen skáld og Jón Jónsson á Melum, sýslumaður Strandamanna, eindregið fylgjandi Þingvöllum, og sögðu þeir í greinargerð um málið, að þjóðin æskti þess, að Alþingi væri á Þingvöllum. Páll Eggert Ólason staðfesti þessa fullyrðingu þeirra og segist styðjast um það við mikinn fjölda sendibréfa frá þessum tíma, er geymzt hafa.

Með þeirri þáltill., sem hér er á dagskrá, er ekki gert ráð fyrir öðru en að leita eftir þjóðarvilja um það, hvort Alþingi skuli háð á Þingvöllum í framtíðinni. Ef sá þjóðarvilji er ekki fyrir hendi og ef það kemur í ljós við slíka atkvgr., að þjóðin vill heldur hafa Alþingi áfram hér í Reykjavík, þá er auðvitað nauðsynlegt að vinda að því bráðum bug, að varanlegum úrbótum á húsnæðismálum Alþingis verði komið í framkvæmd.

Komi hins vegar í ljós, að þjóðarviljinn kjósi Þingvöll við Öxará fyrir framtíðarstað Alþingis, eins og okkur flm. þessarar þáltill. þætti ekki ólíklegi, þá þyrfti að leysa aðkallandi þörf Alþingis fyrir ankið húsnæði til bráðabirgða hér í höfuðstaðnum, þar til búið væri að byggja og búa í haginn fyrir Alþingi á Þingvöllum, en eðlilega mundi það taka alllangan tíma.

Sú kynslóð, sem stofnaði lýðveldið hér á Íslandi fyrir rúmum 20 árum, var gæfusöm kynslóð að hafa fengið að lifa þann tíma og að hafa framkvæmt hina gömlu hugsjón og aldalöngu þrá kynslóðanna um að færa Íslendingum, öldum og óbornum, fullt frelsi aftur. Enn þá er kynslóðin að störfum, sem svo gæfusöm var. En brátt taka við af henni nýir menn, erfingjar lýðveldisins. Mér finnst, að sú kynslóð, sem einhuga stofnaði lýðveldið og þannig færði landinu hið forna frelsi aftur, hún eigi eftir, til að fullkomna verk sitt, að flytja Alþingi til Þingvalla að nýju. Það má að minnsta kosti ekki minna vera, að mínu áliti og okkar flm., en að álits þessa fólks sé leitað um slíkt þjóðræknismál.

Með þeirri þáltill., ef samþ. verður, sem hér liggur fyrir á þskj. 41, er ríkisstj. falið að láta samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum fara fram þjóðaratkvgr. um það, hvort stefnt skuli að því, að Alþingi verði háð á Þingvöllum.

Herra forseti. Ég legg svo til, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.