15.12.1965
Efri deild: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki á þessu stigi hafa langt mál um þetta frv.

Það er sakleysislegt og lætur lítið yfir sér, og þó held ég, að segja megi, að sú ræða, sem hæstv. menntmrh. var að ljúka hér við að flytja. hafi í raun og veru látið enn þá minna yfir sér en þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Mér fannst af ræðu hæstv. menntmrh., að hér væri um hálfgert feimnismál að ræða. Það er að sjálfsögðu svo, að það vekur strax athygli, að það skuli vera hæstv. viðskmrh., sem mælir fyrir þessu frv., en ekki hæstv. fjmrh., vegna þess að þegar málið er skoðað niður í kjölinn, og þarf ekki lengi að leita, þá er hér um hreint skattamál að tefla, fjáröflunarmál ríkissjóðs að ræða, því að það var ekkert annað en kattarþvottur, sem hæstv. viðskmrh. var með í sinni ræðu, að fara að rekja það, hvernig þeim málum hefði verið háttað hér áður, að það hefðu verið tekin leyfisgjöld af gjaldeyrisleyfum til þess að standa undir kostnaði við innflutningsskrifstofu. Það er rétt, að það voru tekin leyfisgjöld, en þau leyfisgjöld voru eingöngu til þess að standa undir kostnaði við innflutningsskrifstofu og verðlagseftirlit. Þau leyfisgjöld voru aldrei skoðuð og aldrei notuð almennt sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Sérstök gjöld af sérstökum vörum voru notuð í því skyni.

Það er líka síður en svo, að það sé þörf á þessu gjaldi nú, þessum gjaldaviðauka, til þess að standa undir kostnaði við gjaldeyrisúthlutun bankanna eða verðlagseftirlit, því að hæstv. ráðherra upplýsti það hér áðan, að gjald þetta, sem tekið hefur verið, næmi yfir 6 millj. kr., og því hefði verið skipt nokkurn veginn bróðurlega þannig að verðlagseftirlitið hefði fengið yfir 3 millj. og hitt hefði farið til gjaldeyrisúthlutunarinnar. Það er þess vegna síður en svo og í allan máta óviðeigandi, að það sé verið að blása það út og gefa því þann blæ, að það sé verið að hækka nú þetta gjald til þess að standa undir kostnaði við þessa úthlutun. Það er algerlega rangt. Það, sem hér er verið að gera, og það, sem allir hv. dm. vita og er alveg óþarfi að vera að fara nokkuð í kringum, það er, að hér er verið að leggja á nýjan skatt, nýjan gjaldeyrisskatt, sem kemur í staðinn fyrir þann farmiðaskatt, sem boðaður var af hæstv. fjmrh. í hans fjárlagaræðu og hann lýsti yfir hér í þessari hv. deild að gefnu tilefni ekki alls fyrir löngu, að alls ekki yrði frá horfið. Hann lýsti því yfir að gefnu tilefni frá hv. 9. þm. Reykv.

Nú er það svo, að það ber sízt að harma, að hæstv. fjmrh. hefur þó skipt um skoðun í því efni og horfið frá þessum skatti, sem ekki var vel tekið, farmiðaskattinum. En það hefur verið fundið upp annað í staðinn — þessi gjaldeyrisskattur. Skilst mér, að svo laglega hafi verið á haldið í leiðinni, að þessi nýi skattur gefi nokkru fleiri milljónir en hinn, sem fyrirhugaður var. Það þarf ekki að eyða að því orðum, að þessi skattur er svipaðs eðlis og aðrir skattar, eykur dýrtíð og þenur út verðlagið.

Við framsóknarmenn munum ekki fylgja þessum skatti, þó að hann komi nú fram í þessari breyttu mynd, að hann sé gjaldeyrisskattur í staðinn fyrir farmiðaskatt, og ég veit satt að segja ekki, hvort hægt er að gera upp á milli, hvor verri er. Sitt hvað má að hvorum finna.

En það er alveg auðsætt, að hér er um beint tekjuöflunarfrv. að ræða fyrir ríkissjóð, og þess vegna hefði hæstv. fjmrh. átt að gangast við þessu afkvæmi sínu og mæla frekar fyrir því en að leggja þann kross á hæstv. viðskmrh., sem væntanlega hefur nóg á sinni könnu. En sjálfsagt gerir hæstv. fjmrh. þá úrbót í því efni hér á eftir.

Þessi skattur á að gefa 33 millj., sagði hæstv. ráðh., þannig að það er vissulega stórkostlegt rangmæli hjá honum, þegar hann var að tala um þennan skatt og sagði, að það hefði verið ákveðið, að það ætti að innheimta lítilfjörlega afgreiðsluþóknun. Af slíku orðalagi gæti maður helzt haldið, að það ætti einungis að innheimta þóknun í sambandi við þetta til þess að standa undir þeim kostnaði, sem bankarnir hefðu af gjaldeyrisúthlutun. Hvað á svona orðalag að þýða? Þora menn ekki lengur að gangast við því, sem verið er að gera í þessum efnum, og segja hlutina hreint út? Hér er ekki um að ræða neina lítilfjörlega afgreiðsluþóknun. Hér er um skatt að tefla fyrir ríkissjóð, sem nemur þetta mörgum millj. kr., eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir. Með sama hugsunarhætti og virtist búa bak við þessi orð hæstv. viðskmrh. gæti maður látið sér detta í hug, að næst yrði komið til Alþ. og farið fram á það, að bankastofnanir mættu af útlánum taka lítilfjörlega aukaafgreiðsluþóknun, ½% eða svo af hverju láni, sem þeir veittu, en sú afgreiðsluþóknun ætti að renna í ríkissjóð. Ég vil síður en svo verða til þess að benda hæstv. ráðh. á nýjar tekjuöflunarleiðir, enda þarf þess ekki. En þarna er alveg bersýnilegt, að er um hliðstæðu að ræða.

Ég skal svo ekki vera að hafa þessi orð fleiri. Örlög þessa frv. eru sjálfsagt ráðin og búið að gera ráð fyrir þeim tekjum, sem það leyfir innheimtu á, í fjárlögum. En við höfum greitt atkv. gegn því ákvæði fjárlaga og munum að sjálfsögðu líka greiða atkv. gegn þeirri tekjuöflun, sem í þessu frv. felst.

Það var reyndar dálítið einkennilegt, að hæstv. ráðh. eyddi talsvert miklu af sínu máli í að lýsa því yfir, að ekki kæmi til mála að skoða þetta mál sem fyrsta spor í gengisfellingarátt. Það var sjálfsagt skynsamlegt af honum að taka þetta fram, því að einhverjum hefði getað dottið þetta í hug. Nú höfum við hans orð fyrir þessu, að þetta sé ekki fyrsta spor í gengisfellingarátt. Og þau orð verða þá geymd, en ekki gleymd, eins og fleiri orð hæstv. ráðh. Ég vona, að þetta þurfi ekki að verða fyrsta sporið í gengisfellingarátt. Ég vona það af heilum hug. En því miður getur maður ekki verið bjartsýnn í því efni, ef svo verður áfram haldið sem nú horfir.