09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (2880)

74. mál, verkefna- og tekjustofnaskipting milli ríkisins og sveitarfélaganna

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Rétt er að segja, að ríkið og sveitarfélögin séu þjóðfélagið, þótt skilgreina megi þetta vitanlega margvíslega. Enginn þjóðfélagsþegn getur staðið utan þessara stofnana. Frá þeim fær hver maður sinn þjóðfélagslega stuðning, og til þeirra innir hann, beint og óbeint, þegnskyldur sínar. Alþingi ákveður með löggjöf starfssvið sveitarfélaganna og rétt þeirra til gjaldheimtu. Sú löggjöf gildir auðvitað, eins og önnur löggjöf, milli þess að hún er endurskoðuð. Sveitarstjórnirnar eru bundnar af þessari löggjöf. Þær geta ekki breytt henni, hve mjög sem hún kann að vera þeim óhentug oft og einatt, einni eða fleirum.

Alþingi gegnir sams konar hlutverki fyrir ríkið og sveitarstjórn fyrir sveitarfélag að því er fjármálin snertir. Sá er þó hinn mikli munur þar á, að Alþ. hefur vald til að setja lög nm meiri gjaldheimtu handa ríkissjóði, hvenær sem að kallar, og einnig vald til að létta af ríkissjóði útgjöldum, ef svo horfir við.

Mörg eru þau tilkostnaðarverkefni þjóðfélagsins, sem með lögum hefur verið ákveðið, að skipt skuli vera til útgjalda milli ríkisins og sveitarfélaganna. Enn fremur fá sveitarfélögin seinustu árin dálitla hlutdeild í söluskatti, sem ríkið innheimtir. Þannig eru fjármál ríkisins og sveitarfélaganna samanfléttuð. En valdið um þau efni er hjá Alþingi.

Um skeið hafa verið svo miklir breytingartímar í þjóðfélaginu á flestum sviðum, að það er sárafátt þar, sem ekki hefur meira og minna raskazt. Þjóðfélagið gerir miklu meira fyrir þegna sína en áður var og á margvíslegri hátt en áður var. Um leið þarf auðvitað meira að gjalda til þjóðfélagsins. Hinum öru breytingum er samfara sú hætta, að hlutföll raskist og verði röng, þótt réttlát kunni að hafa verið, í þátttöku ríkis og sveitarfélaga í samfélagsmálunum: kostnaðarskiptingunni, tekjustofnaskiptingunni, jafnvel stjórnunarskiptingu við sameiginlegar framkvæmdir þessara aðila.

Það er skoðun mín, sem byggð er á nokkurri reynslu, er ég hef fengið af því að eiga sæti á Alþingi og einnig í sveitarstjórnum, að þess sé alls ekki gætt oft og einatt, eftir því sem þyrfti, við eina og aðra lagasetningu á Alþ., hvaða áhrif hún kann að hafa á hag sveitarfélaganna. Látið er sitja fyrir að sjá ríkissjóði farborða. Þetta er kannske eðlilegt eftir atvikum. Lögin eru stundum sett af skyndingu vegna þjóðfélagsframkvæmda, sem kalla snögglega að. En þetta hlýtur að leiða af sér, að Alþ. verður við og við að taka til sérstakrar athugunar, hvernig staða sveitarfélaganna er í heildinni.

Enginn vafi er á því, að þvílík athugun er nú bráðnauðsynleg eftir gjörbreytingar þær, sem átt hafa sér stað í skipun mála og tilkostnaði. Þess vegna er það, að tímanlega í nóv. s.l. lögðum við 5 þm. fram á Alþ. á þskj. 90 till. til þál. um endurskoðun á reglum um verkefna og tekjustofnaskiptingu milli ríkisins og sveitarfélaganna. Till. þessi, sem hér er nú til umr., hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa 6 manna n. til að endurskoða núgildandi reglur um verkefnaskiptingu milli ríkisins og sveitarfélaganna, svo og í því sambandi tekjustofnaskiptinguna, eins og hún nú er orðin milli þessara aðila. Þingflokkarnir tilnefni 4 nm., sinn manninn hver, Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni einn manninn í n., ríkisstj. skipi sjötta manninn án tilnefningar og verði hann formaður n. Nefndin skili áliti og till. svo fljótt sem hún telur sig geta. Kostnaður við störf n. greiðist úr ríkissjóði.“

Sönnun þess, að till. þessi var tímabær frá sjónarmiði sveitarstjórnarmanna í landinu, kom brátt í ljós. Dagana 22.—24. nóv. var haldin hér í Reykjavik ráðstefna um fjármál sveitarfélaganna. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga gekkst fyrir ráðstefnunni, en aðilar að henni voru líka félmrn., fjmrn., Hagstofa Íslands og Efnahagsstofnunin. Á ráðstefnunni mættu fulltrúar úr Reykjavík og öllum bæjarfélögum landsins, einnig fulltrúar frá milli 50 og 60 hreppum. Á fyrsta fundi ráðstefnunnar flutti hæstv. fjmrh., Magnús Jónsson, mjög fróðlegt erindi um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Í upphafi máls síns sagði hæstv. fjmrh. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi viðskipti eru svo fjölþætt og umfangsmikil, að nauðsynlegt er í senn að gera sér grein fyrir eðli þeirra, hversu sakir standa í þeim viðskiptum og hvort ástæða sé til að haga þeim með einhverjum öðrum hætti.“

Þetta fróðlega erindi fjmrh. hefur nú verið prentað og gefið út í tímariti Sambands ísl. sveitarfélaga, Sveitarstjórnarmálum. Í erindinu er yfirlit um þá málaflokka, sem ríki og sveitarfélög hafa fjárhagslega samvinnu í. Sú skýrsla er ekki alveg tæmandi, en þó ýtarleg, og hvergi nema þar mun slíkt yfirlit vera til um sameiginleg kostnaðarmálefni ríkisins og sveitarfélaganna. Af því að þessi skýrsla felur í sér sterkan rökstuðning fyrir þeirri till., sem ég er að gera grein fyrir, og sýnir, hve hér er um geysilega margþætt samband að ræða, fjárhagslegt samband milli sveitarfélaga og ríkisins, vil ég leyfa mér að lesa útdrátt úr skýrslunni, með leyfi hæstv. ráðherra. Útdrátturinn er mikil stytting skýrslunnar, en ég ætlast til, að tryggt sé, að hann sé efnislega réttur, því að hann var gerður fyrir mig á skrifstofu Sambands ísl. sveitarfélaga.

Fyrst eru það skólamál:

a) Byggingarkostnaður. Ríkissjóður greiðir 50% stofnkostnaðar við heimangönguskóla barnafræðslustigs og gagnfræðastigs og 50% stofnkostnaðar iðnskóla. Ríkissjóður greiðir 75% stofnkostnaðar við heimavistarskóla barnafræðslustigs og gagnfræðastigs, 75% stofnkostnaðar húsmæðraskóla og 75% stofnkostnaðar skólastjóra- og kennarabústaða. Með 1. frá 1962 yfirtók ríkissjóður alla héraðsskólana nema einn.

b) Rekstrarkostnaður: Ríkissjóður greiðir 25% rekstrarkostnaðar við skóla barnafræðslustigsins, 50% rekstrarkostnaðar gagnfræðaskóla, iðnskóla og húsmæðraskóla og rekstrarkostnað héraðsskólanna allra nema eins að öllu leyti.

Kennaralaunin: Ríkissjóður greiðir 92—93% af launum kennara við barnafræðslustigið, en laun við gagnfræðaskóla, iðnskóla og húsmæðraskóla að öllu leyti.

Tónlistarskólar: Ríkissjóður greiðir 1/3 hluta rekstrarkostnaðar, en þó ekki hærri fjárhæð en nemur framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags til skólans.

Almenningsbókasöfn: Ríkissjóður greiðir að jafnaði allt að því 50% rekstrarkostnaðar eftir nánari ákvæðum 1. frá 1963, framlag til stofnkostnaðar skv. fjárveitingu hverju sinni.

Leiklistarstarfsemi: Ríkissjóður styrkir leiklistarstarfsemi gegn jafnháum framlögum frá viðkomandi sveitarfélagi.

Félagsheimili: Félagsheimilasjóður greiðir 40% af stofnkostnaði félagsheimila, sem fá tekjur af skemmtanaskatti.

Íþróttamannvirki: Íþróttasjóður greiðir 40% af stofnkostnaði íþróttamannvirkja, íþróttahúsa, sundlauga og íþróttavalla.

Hafnarmál: Ríkissjóður greiðir 50% af stofnkostnaði við smáhafnir, sem kosta innan við 1.6 millj. kr., en 40% af stofnkostnaði við aðrar hafnargerðir. Auk ríkisframlags fá sveitarstjórnir fyrirgreiðslu í formi ríkisábyrgðar á þeirra hluta.

Vegagerð: Ráðstöfunarfé sýsluvegasjóða var stóraukið við breytingu á vegalögum árið 1963. Ríkisframlag til sýsluvegasjóða skal eigi vera lægra en tvöföld heildarupphæð innheimtra sýsluvegasjóðsgjalda um allt land næsta ár á undan. Til gatnagerðar í kaupstöðum og kauptúnum með meira en 300 íbúa er varið 12 1/2% af heildartekjum vegamála.

Heilbrigðismál: Með sjúkrahúsalögum frá 1964 var ákveðið, að ríkissjóður greiddi 60% af byggingarkostnaði sjúkrahúsa sveitarfélaga. Áður voru greiddir 2/5 hlutar eða 2/3 hlutar eftir stærð sveitarfélagsins. Með l. 1964 var ákveðið, að styrkurinn skyldi greiðast á 8 árum til stærri sjúkrahúsa og 5 árum til minni sjúkrahúsa. Ríkissjóður greiðir 1/3 hluta rekstrarkostnaðar heilsuverndarstöðva og að fullu laun fastra lækna slíkra stöðva, einnig 2/3 hluta af launum ljósmæðra í umdæmum utan kaupstaðar.

Löggæzlumál: Ríkissjóður greiðir skv.l. frá 1963 helming kostnaðar við lögreglu sveitar og sýslufélaga skv. nánari ákvæðum laga.

Vinnumiðlun: Ríkissjóður greiðir 1/3 hluta kostnaðar við vinnumiðlun.

Heimilishjálp: Ríkissjóður greiðir 1/3 hluta af halla, sem verður á heimilishjálp. Skipulagsmál: Ríkissjóður greiðir skv. skipulagslögum helming kostnaðar við gerð skipulagsuppdrátta.

Vatnsveitur: Ríkissjóður greiðir 50% af stofnkostnaði við stofnæðar, vatnsgeyma, dælur og jarðboranir.

Elliheimili: Ríkissjóður greiðir byggingarstyrki til elliheimila og veitir auk þess einnig aðstoð við rekstur barnadvalarheimila, dagheimila og vistheimila fyrir börn, gegn jafnháu framlagi annars staðar frá. Hluti af tekjum happdrættis DAS rennur til stuðnings íbúða fyrir aldrað fólk í sveitarfélögum.

Bjargráðasjóður: Ríkissjóður greiðir 5 kr. á íbúa móti sveitarfélögum til bjargráðasjóðs, en frv. liggur fyrir Alþ. um hækkun á framlaginu upp í 10 kr. á íbúa.

Verkamannabústaðir: Ríkissjóður greiðir jafnháa upphæð og sveitarfélög til byggingarsjóðs verkamanna, eftir ákvörðun sveitarstjórna 40–60 kr. á íbúa.

Heilsuspillandi húsnæði: Ríkissjóður lánar í þessu skyni jafnháa fjárhæð og sveitarfélag leggur fram.

Landakaup: Ríkissjóður leggur fram árlega 3 millj. kr. og lánar sveitarfélögum til kaupa á löndum allt að 60% kostnaðarverði.

Raforkumál: Landsvirkjun er vísir að samvinnu um þessi mál.

Jarðhitaleit: Jarðhitasjóður lánar helming af kostnaði við jarðboranir í leit að jarðhita. Enn fremur má nefna utan skýrslunnar, sem ég gat um áðan : lög um eyðingu refa og minka, lög um rottueyðingu, lög um eyðingu svartbaks og ýmiss konar löggjöf um landbúnaðarmálin í dreifbýlishreppum. Lög um almannavarnir mætti enn fremur nefna og svo almannatryggingar og atvinnuleysistryggingar, sem báðir aðilar, ríkið og sveitarfélögin, taka þátt í.

Ég vænti þess, að hv. þm. sjái, að um tímabært mál er að ræða. Það er tímabært að láta allsherjarathugun fara fram á hinni fjölþættu verkefnaskiptingu milli ríkisins og sveitarfélaganna og þá um leið einnig á því, hvort tekjustofnaskiptingin er við hæfi og í samræmi við útgjaldaskiptinguna. Athugunina á auðvitað að miða við það fyrst og fremst, hvort skiptingin í hverju tilfelli er réttlát og sanngjörn, en einnig við það, hvort skiptingin er hagkvæm þjóðfélagslega í framkvæmd, og loks, hvort sveitarfélögin hafi, þegar á allt er litið, eins og nú er komið, eðlilegt sjálfstæði í ráðstöfun þess fjár, sem þau leggja á og innheimta. Ýmsir efast um, að svo sé. Þetta álit eru mikilsverð grundvallaratriði fyrir þjóðfélagið og sízt of miklu til kostað, þótt nefnd geri sérstakar athuganir á þessu.

Ráðstefna sveitarfélaganna, sem ég vitnaði til áðan að haldin hefði verið hér í Reykjavík 22.–24. nóv. s.l., samþykkti að fela stjórn sveitarfélagasambandsins að beita sér fyrir því við ríkisstj., að komið verði á fót samvinnunefnd ríkis og sveitarfélaga, er endurskoði löggjöf varðandi greiðslur vegna sameiginlegra verkefna þessara aðila. Með þessari samþykkt tel ég, að ráðstefnan hafi tekið undir við okkur, sem höfðum þá þegar flutt þessa till. Ég tel eðlilegast, að Alþ. skipi þessa samvinnunefnd ríkisins og sveitarfélaganna, eins og þáltill. gerir ráð fyrir. Ég tel við eiga, að hver þingflokkur velji einn mann í n. Með þeirri skipan eru mestar líkur til, að þær till., sem samkomulag verður um í n., verði samþ. á Alþ. Samband sveitarfélaganna á að leggja til einn mann í n., og ríkisstj. skipar einn mann án tilnefningar og verði hann formaður n. Með slíku fyrirkomulagi á fulltrúavali í n. virðist mér eðlilega til samvinnu stofnað um athugun þessara fjölþættu málefna.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. vil ég leyfa mér að leggja til, að till. verði vísað til siðari umr. og til hv. fjvn., þar sem hér er um fjárhagsmálefni að ræða.