23.02.1966
Sameinað þing: 28. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (2891)

84. mál, embættisbústaðir

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 114 till. um embættisbústaði. Efni till. er það, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að láta undirbúa fyrir næsta reglulegt Alþ. löggjöf um embættisbústaði og sé sá undirbúningur miðaður við það að endurskoða og samræma gildandi lagafyrirmæli, reglur og venjur varðandi skyldur ríkisins til þess að sjá embættismönnum fyrir bústöðum, jafnframt því sem haft sé í huga að koma í veg fyrir óþörf útgjöld vegna bygginga, kaupa og viðhalds á embættisbústöðum, en leitazt hins vegar við að leysa með viðunandi hætti þau húsnæðismál ríkisstarfsmanna, sem nauðsynlegt verður talið að hið opinbera hafi með höndum.

Það verður að telja hafið yfir vafa, að það sé óhjákvæmilegt, að ríkið hafi nokkur afskipti af húsnæðismálum sumra starfsmanna sinna, sérstaklega þar sem svo háttar til, að störf hlutaðeigandi manna eru staðbundin í dreifbýli og útilokað af þeim sökum, að þess verði krafizt af viðkomandi embættismanni, að hann sjái sér sjálfur fyrir bústað, meðan hann gegnir starfi sinu. En álit öðru máli virðist gegna um þá, sem hafa embætti í fjölbýlinu, þar sem aðstaða opinberra starfsmanna og sýslunarmanna að þessu leyti er algerlega sambærileg við aðstöðu þeirra, sem vinna í þjónustu einkaaðila, og í raun og veru engar frambærilegar ástæður fyrir hendi til þess, að þeir njóti sérstakra forréttinda umfram aðra að þessu leyti. Í reyndinni virðist það hafa verið hendingu háð, hvort þessi mikli aðstöðumunur hefur verið metinn að nokkru leyti. Þannig virðist sem heilar starfsstéttir í fjölbýlinu og þ. á m. hér í höfuðstaðnum eigi sama rétt til þess, að þeim sé séð fyrir embættisbústöðum, eins og stéttarbræður þeirra í afskekktustu héruðum í landinu, þar sem þessi hlunnindi eru vafalaust nauðsyn og réttlætismál. Svo að dæmi sé tekið, er það svo t.d., að héraðsdómarar, sem flestir eru búsettir í fjölbýlinu, njóta á þessu sviði forréttinda, sem virðast ekki hafa við að styðjast mikla nauðsyn eða eðlilegar forsendur. Og í skjóli þeirra laga, sem um þessi forréttindi þeirra gilda, hefur verið eytt milljónum eða öllu heldur milljónatugum af almannafé að ástæðulausu og jafnvel gengið svo langt, að það hafa verið keyptir bústaðir fyrir slíkar fjárupphæðir, að það getur ekki flokkazt undir annað en hreint hneyksli. Er þar skemmst að minnast t.d. kaupanna á embættisbústað fyrir bæjarfógetann í Hafnarfirði og sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu á s.l. ári, en aðeins vextirnir af þeirri upphæð, sem sá bústaður var keyptur fyrir, munu nema verulega hærri upphæð en laun þess manns, sem embættið á að skipa.

Svo að fljótt sé yfir sögu farið og hér aðeins rakið eitt dæmi, má segja, að hvort tveggja sé það, að lagaákvæðin um bústaði embættismanna ríkisins eru sundurleit og án nokkurs rökrétts samræmis og framkvæmd þeirra oft og tíðum harla tilviljunarkennd, eins og mörg dæmi sanna, t.d. annars vegar um einstaka bústaði, sem varið hefur verið til millj. kr. fyrir einn og einn mann, og hins vegar um bústaði, sem vafalaust nauðsyn er á, en ekki svara til hóflegra nútímakrafna, sem til þeirra verður að gera. Í þessum efnum gætir augljóss öngþveitis, sem hvort tveggja hefur leitt til óþarfrar fjáreyðslu og einnig til stórfelldrar mismununar milli embættismanna innbyrðis. Á þessu þarf að ráða bót, og það er skoðun mín, að það verði naumast gert nema með allsherjarendurskoðun á þeim sundurleitu lögum, sem hér lúta að, og þessum málum öllum og endurmati á þeim reglum og venjum, sem í gildi hafa verið. Í því efni virðist eðlilegast, að hin sundurleitu lagafyrirmæli, sem um þessi efni gilda, væru öll numin úr gildi og sett ný heildarlög um þessi efni, eftir að nauðsynlegri athugun væri lokið. Við þá lagasetningu þyrfti að mínu viti að búa svo um hnútana, að sæmileg ráðdeild væri tryggð í framkvæmdum og tilkostnaði, en jafnframt gætt þess, að lögin stuðluðu að því að auðvelda rekstur embættismanna- og starfsmannakerfisins.

Ég verð að segja, að það verður að telja sennilegt samkv. fenginni reynslu, að bæði mætti losa verulegar fjárupphæðir, sem þegar hafa verið festar að nauðsynjalausu í embættisbústöðum í fjölbýlinu, og firra þannig ríkissjóð frekari byrðum af þeim, og einnig leysa betur en áður og án aukinna útgjalda, jafnvel með samhliða sparnaði, þau húsnæðismál ríkisstarfsmanna, sem er talið réttmætt og nauðsynlegt að sinnt sé af opinberri hálfu. Þá verður að telja, að það væri til verulegra bóta, að allt eftirlit með embættisbústöðum og rekstri þeirra væri á einni hendi ákveðinnar ríkisstofnunar, en ekki á fjölmörgum höndum, eins og nú er, þ.e.a.s. á höndum ýmissa embættismanna, sem annaðhvort annast þau mál sem aðalstarf eða sem aukastarf, en hafa hins vegar engin sameiginleg fyrirmæli eða reglur til að fara eftir og sennilegast ekkert samstarf sín á milli, sem geti tryggt samræmi og aukna hagkvæmni í framkvæmd. Það skal viðurkennt, að ég hef hér ekki á reiðum höndum tölulegar upplýsingar um það, hvað þessi þáttur ríkisútgjalda er stór í sniðum. En sú takmarkaða — ég vil segja takmarkaða — vitneskja, sem um þetta fæst af ríkisreikningum og fjárl., bendir þó til þess, að hér sé um að ræða svo miklar upphæðir, sem vafalaust teljast í tugum millj. kr. á ári, að það sé fyllsta ástæða til að athuga gaumgæfilega þau atriði, sem þessi þáltill. fjallar um og ég hef hér stuttlega drepið á.

Að svo komnu sé ég ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða frekar um málið, en legg hins vegar til, að umr. verði frestað og málinu vísað til, — ég ætla, að samkv. efni málsins væri eðlilegt, að það færi til hv. fjvn.