23.02.1966
Sameinað þing: 28. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (2893)

84. mál, embættisbústaðir

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni sérstakri yfir undirtektum hæstv. fjmrh. við þetta mál. Ég verð að viðurkenna, að ég hafði ekki veitt athygli svari hans í fjárlagaræðunni, og ég lýsi því yfir, að málið er ekki þannig vaxið frá minni hálfu, að ég hafi verið að gripa hans ágætu hugmynd, sem þar kom fram, heldur var till. mín algerlega sett fram án tillits til þess, enda hafði ég það ekki í huga og hafði ekki tekið eftir því, þegar hann hélt sína ræðu. En það er ekki það, sem skiptir máli. Hitt er ánægjuefni, að hæstv. ráðh. hefur komið auga á þetta og eftir því sem hann segir þegar gert nokkrar ráðstafanir til þess, að að málinu verði unnið á líkan hátt og hér er gert ráð fyrir.

Það er auðvitað matsatriði fyrir þá n., sem fær málið til umr., hvort hún telur þær ráðstafanir, sem hæstv. ráðh. hefur gert, nægja eða hvort hún telur betra, að málið hafi stuðning frá þinginu, sem mér sýndist alla vega vera sterkara fyrir hann og fyrir þá menn, sem að málinu vinna. Er sjálfsagt að athuga það. En hitt er auðvitað algert aðalatriði, hvernig að málinu verður unnið og það sé tekið raunhæfum tökum. Ég vil þó taka það fram og benda á það, að mín till. gerir ráð fyrir því, að sett verði heildarlöggjöf um þessi efni, og ég fæ ekki séð, hvernig sem að málinu verður unnið, ef veruleg breyting á að verða á skipun þessara mála, að það sé unnt að gera það öðruvísi heldur en lögum sé breytt og þau mörgu sundurleitu lagaákvæði, sem um þetta gilda, verði felld inn í einn lagabálk. En það er nægur tími til að ræða þetta frekar, þegar málið hefur fengið eðlilega afgreiðslu í n., og ég geymi mér það þangað til.