16.02.1966
Sameinað þing: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (2896)

85. mál, dvalarheimili fyrir aldrað fólk

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Till. til þál. um dvalarheimili fyrir aldrað fólk á þskj. 131 er flutt af mér og 4 öðrum hv. þm. Framsfl. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa till.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa 7 manna n. til að athuga og gera till. um, hvernig hagfelldast væri fyrir ríkið í félagi við Tryggingastofnun ríkisins, sveitarfélög og sýslufélög að koma upp á hentugum stöðum víðs vegar um land dvalarheimilum fyrir aldrað fólk. Skal n. þannig skipuð, að þingflokkarnir tilnefni sinn nm. hver, Tryggingastofnun ríkisins einn mann, Samband ísl. sveitarfélaga einn mann, 7. manninn skipi ríkisstj. án tilnefningar og verði hann formaður nefndarinnar. N. skal m.a. sérstaklega athuga möguleika á því, að hreppsfélög með aðstoð frá ríki og almannatryggingum geti látið byggja færanleg íbúðarhús, sem aldrað fólk, t.d. hjón í sveitum, geti fengið leigð til notkunar á þeim stað, er þau kjósa. Enn fremur skilyrði til, að sýslu- og bæjarfélög með aðstoð sömu aðila láti reisa dvalarheimilahverfi á jarðhitasvæðum til afnota fyrir aldrað fólk úr viðkomandi sýslu- eða bæjarfélögum. N. skili till. sínum til ríkisstj. Kostnaður við störf n. greiðist úr ríkissjóði.“

Í grg. með þessari þáltill. er rökstutt efni hennar, og þess vegna mun ég aðeins með örfáum orðum rifja upp það helzta af því.

Meðalaldur manna hefur lengst mjög mikið hina síðustu áratugi hér á landi, eins og kunnugt er. Íslenzka þjóðin er svo lánsöm, að nú er manndauðahlutfall lægra hér hjá okkur en í nokkru öðru Evrópulandi. Árið 1910 urðu 6.5% landsmanna 65 ára og eldri, en árið 1960 voru 8.1% 65 ára og eldri. Þannig hefur stækkað mjög sá hluti þjóðarinnar, sem nær háum aldri.

Með almannatryggingunum hefur verið stigið stórt og happasælt skref til þess að hjálpa aldraða fólkinu. Það er trú mín, að sú hjálp muni fara vaxandi á komandi tímum, og ég álít, að það þurfi hún líka að gera. En ellilífeyrisgreiðslur einar út af fyrir sig leysa ekki að fullu vandamál hinna öldruðu. Það verða alltaf einhverjir aldraðir og þeir margir, sem þurfa á víðtækari aðstoð að halda.

Við flm. að þessari till. litum þannig á, að einn þáttur ellitrygginga ætti að vera í því fólginn, að í hverju héraði eða byggðarlagi væri komið upp húsnæði og notalegum hælum fyrir hina öldruðu, sem þeir ættu aðgang að, þegar þörfin kallar. Oft getur gamalt fólk bjargað sér sjálfi lengi, ef það hefur þægilega aðstöðu hvað húsakynni snertir, og mikið getur munað um vinnuafl þess fyrir þjóðarbúið, ef það getur fengið aðstöðu til þess að búa þar, sem það fær störf, sem því henta. Ég var t.d. að lesa um það í einu dagblaðinu hér í morgun, að blaðamenn höfðu hitt að máli konu, 76 ára að aldri, sem var að vinna í frystihúsi, og hún vann frá 7—10 tíma á hverjum degi við þessi störf.

Ég hygg, að það sé mikils virði fyrir þjóðarbúið að nota vinnuafl aldraða fólksins og það sé hagur í því að búa þannig um, að sem mest not geti orðið af störfum þess, um leið og líðan þess er gerð eins góð og mögulegt getur verið. Víða er það þannig í sveitum og smærri þorpum til og frá um þetta land okkar, að gamla fólkið verður að flytja í burtu, um leið og það leggur niður atvinnureksturinn eða fastráðin störf, sem það hefur um langan tíma haft með höndum. Og þessir burtflutningar stafa aðallega vegna þess hjá fjölda þessa fólks, að það eru engin húsakynni til fyrir fólkið á þeim stað, þar sem það hefur búið um langa tíð og mundi helzt vilja dveljast. Ef hins vegar húsnæði væri fyrir hendi, gæti það verið áfram í sínum átthögum og séð um sig sjálft, meðan heilsan leyfir því, og í mörgum tilfellum, eins og ég sagði áðan, mundi notast af því vinnuafli, sem þetta fólk hefur yfir að ráða, sem annars mundi falla niður og þjóðfélaginu væri tapað. Ég þykist líka vita það, og mér finnst það a.m.k. sjálfum, að margur mundi vilja borga töluvert hærra tryggingagjald, ef þeir ættu það víst í ellinni að geta fengið húsnæði við sitt hæfi, þar sem þeir helzt vildu dveljast, eða ættu kost á auðfenginni dvöl á hæli, ef heilsan væri farin að bila.

Með þessari þáltill. er þeirri hugmynd hreyft, eins og ég hef hér lítillega drepið á, að það verði athugaðir þessir möguleikar, að sveitarfélögin og ríkið og almannatryggingarnar í sameiningu komi upp þægilegum íbúðarhúsum fyrir aldrað fólk, húsum, sem t.d. væri hægt að færa úr stað og aldrað fólk gæti fengið leigð, og þegar t.d. öldruð hjón hefðu notað slíkt hús og annaðhvort dæju eða yrðu að flytja úr því, gætu önnur fengið það flutt til sín eða flutt inn í það, þar sem það væri. Enn fremur á jarðhitasvæðum, sem víða eru um landið, yrði komið upp smáhverfum lítilla, notalegra íbúðarhúsa fyrir aldrað fólk. Og svo í þriðja lagi, að komið yrði upp hælum, þar sem þeir sjúku og hrumu gætu fengið að dveljast síðustu æviárin við notalega aðhlynningu, sem þeim ber og þeir þurfa að hafa.

Þetta verkefni er, eins og ég hef sagt, þríþætt, og ég vænti þess, að þessir þrír aðilar, sem ég hef nefnt: sveitarfélögin, ríkið og almannatryggingarnar, geti tekið höndum saman um þetta verkefni og smátt og smátt hrundið því í framkvæmd, eftir því sem þörfin krefði á hverjum tíma. Ég ætlast ekki til þess, að það sé hægt að gera stórvirki allt í einu í þessum efnum. Ég býst við, að það yrði að byrja á þessu í smáum stíl. En sennilega mundi slík starfsemi færast í aukana, eftir því sem þörfin krefði hverju sinni.

Sú löggjöf, sem við nú eigum og höfum, er tiltölulega ný um aðstoð í þessum efnum. Hún er ekki fullnægjandi, að mínum dómi, m.a. vegna þess, að það hefur ekki verið gert ráð fyrir auknum framlögum, ekki a.m.k. nægilega auknum, hvorki frá því opinbera né öðrum aðilum, til þess að standa undir slíkri starfsemi.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð en ég þegar hef haft. Till. skýrir sig sjálf. Þess vegna ætla ég ekki að nota lengri tíma. Í grg. eru helztu rökin dregin fram, eins og ég sagði, fyrir þessu málefni, og þess vegna ætla ég ekki að hafa um þetta fleiri orð.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að gera till. um það, að þessari till. verði nú að lokinni þessari fyrri umr. vísað til fjvn. til athugunar.