09.03.1966
Sameinað þing: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (2906)

87. mál, raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem sagt hefur verið, að það væri mjög æskilegt, að Alþ. gæti afgr. þessa till., þó að það hafi mistekizt áður að fá samþykktar till. svipaðs eðlis, eins og hefur verið bent á. En ég vil minna á, að það eru líka til staðir, þar sem ekki er aðkallandi þörf á sérstökum rannsóknum, heldur virðist aðeins standa á fé.

Hv. 4. þm. Vestf. drap á það hér áðan, að einstök byggðarlög hefðu alveg sérstaka þörf fyrir raforku vegna stofnana, sem þar eru, og bygginga, sem eru að rísa upp, og nefndi hann í því sambandi Rauðasandshrepp. Þetta er alveg rétt hjá honum. Það hefur orðið dýrt ríkinu að reka barnaheimilið í Breiðuvík í öll þessi ár án raforku frá samveitu. Þær eru búnar að kosta mikið, dísilstöðvarnar allar, sem búið er að nota þar, því að þær eru orðnar margar. Nú er að rísa upp barnaskóli, eins og bent var á, í Örlygshöfn, sem auðvitað þarf raforku, og flugvöllur er kominn í Sandodda. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um þörfina fyrir raforku. Það virðist ekki vera nein vandasöm rannsókn, sem þarna þarf að fara fram. Vegalengdirnar liggja fyrir, og það er sjálfsagt hægt að reikna á hverri venjulegri skrifstofu, hvað þetta muni kosta.

Ég vil jafnframt benda á Barðastrandarhrepp. Þar er allmikið þéttbýli og mjög myndarleg sveit, og vegalengd milli bæja þar er innan við þau takmörk, sem eru sett um dreifingu rafmagns. Það eina, sem er í vegi hvað snertir fjarlægðir þarna, er háspennulína yfir fjallgarð. En ég hef aldrei skilið, að það eigi að taka slíkar vegalengdir með í útreikningum um vegalengdir milli bæja, enda hefur það ekki verið gert í mörgum tilfellum. Ég vil minna á Þverárvirkjun, þegar raforka var lögð suður yfir Tröllatunguheiði, að auðvitað kom engum í hug að fara að reikna vegalengdina yfir heiðina inn í dæmið, þegar reiknað var út, hvaða bæir ættu að fá raforku í Geiradals- og Reykhólasveit. Og alveg eins er um Barðastrandarhrepp, að línan yfir fjallið kemur ekki að mínum dómi við vegalengdum milli bæja, en þær eru miklu minni en ákveðið er í núverandi reglum um dreifingu raforku. Og ég vil nefna þriðja dæmið. Það er Bæjarhreppur í Hrútafirði. Nú mun standa til að leggja línu yfir að Borðeyri, jafnvel á þessu ári, en Bæjarhreppurinn á allur svo að segja að vera raforkulaus eftir sem áður, að undantekinni Borðeyri einni, þeim fáu notendum, sem þar eru, og þó er vegalengd á milli bæjanna þarna í hreppnum alveg innan þeirra takmarka, sem á þarf að halda, eða a.m.k. svo að segja allra. Hér virðist það ekki vera skortur á rannsókn, sem stendur í vegi, heldur þá fjármagn, geri ég ráð fyrir. Þó dreg ég í efa, að það sé fjármagnið, sem stendur í veginum, því að það hefur alloft verið minnzt á svokallaðan Viðreisnarsjóð Vestfjarða, sem aðrir kalla nú reyndar flóttamannafé, og ég hef litið svo á, að þar séu ónotaðir fjármunir. Á síðasta ári hafa verið teknar 86 millj. kr. að láni til Vestfjarða. Hvar eru þeir peningar? Ekki hafa Vestfirðingar enn þá fengið nema lítinn hluta af þeirri upphæð. Er nokkuð í veginum að gera átök, þar sem mest er aðkallandi, t.d. í raforkumálum, fyrir þetta fé, eða geymir hæstv. ríkisstj. þetta fé í sparisjóði? Ég veit ekki til, að opinberlega hafi komið fram, að af þessu fé hafi annað verið notað en 7—8 millj. í vegi enn sem komið er. Opinberlega hefur ekki annað komið fram. Hins vegar hefur verið skýrt frá því utan þings, að varið hafi verið af þessu fé í flugvöll í Sandodda 5 1/2 millj. En að hvaða leyti það hefur verið notað að öðru leyti, hefur ekki komið fram opinberlega.

En ég trúi því varla, að búið sé að nota að fullu þessar 86 millj., sem teknar voru á s.l. sumri til uppbyggingar á Vestfjörðum. Hér held ég að sé því alveg í lófa lagið að gera átök, þar sem mest er aðkallandi í þessum efnum þar fyrir vestan.