09.03.1966
Sameinað þing: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (2907)

87. mál, raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér nú hljóðs í tilefni af síðustu orðum hv. síðasta ræðumanns, þar sem hann minntist á Viðreisnarsjóðinn og framkvæmdir á Vestfjörðum. Mér kom það mjög á óvart, því að það kom í ljós, að þessi þm., sem er þm. Vestf., virðist ekki hafa hugmynd um það, sem skeð hefur í þessum þýðingarmiklu málum fyrir Vestfirðinga nú að undanförnu. Hann sagði réttilega, að það hefði verið ákveðið að taka að láni 86 millj. kr., en hann spurði: Hvar eru peningarnir? Og hann sagði, að sér vitanlega hafi ekki verið skýrt frá þessu nema að nokkru leyti.

Þetta er fullkominn misskilningur. Það var ákveðið að taka 86 millj. kr. lán í Viðreisnarsjóðnum til tiltekinna framkvæmda í samgöngumálum, hafnarmálum, vegamálum og flugmálum, á næstu 4 árum. Á síðasta Alþ. var skýrt frá þessu af hálfu ríkisstj. og nákvæmlega tiltekið, hvað átti að fara í hina ýmsu þætti samgöngumálanna og hvað miklar upphæðir á hverju ári næstu 4 árin. Og s.l. sumar voru hafnar framkvæmdir og unnið í samgöngumálum Vestfjarða skv. þessari fjögurra ára áætlun. En það kemur nú í ljós, að þessum þm. Vestf. er ekki nákvæmlega kunnugt um þetta. Lán frá Viðreisnarsjóðnum á s.l. ári gekk til framkvæmda í flugvallarmálum, í hafnarmálum, í vegamálum, nákvæmlega eins og ráð var fyrir gert í áætluninni, nákvæmlega eins og lýst var hér á hv. Alþ. á s.l. ári.

Mér þykir leitt að þurfa að þreyta hv. þm. á því að vera að upplýsa hv. 3. þm. Vestf. um þessi alkunnu sannindi, en mér fannst, að ég kæmist ekki hjá því.