05.05.1966
Sameinað þing: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (2915)

87. mál, raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hv. allshn. hefur skilað áliti um till. um raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum. Þar kemur fram, að ég hef ekki undirritað þetta nál., því að eins og fram hefur komið í þremur ræðum undanfarnar mínútur, var ég ekki viðstaddur þennan fund. Stafar það ekki af áhugaleysi mínu um störf allshn. né heldur af því, að ég sé ósamþykkur þessum málum, sem þar voru afgreidd. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að ég vissi ekki um þennan fund og átti þess ekki kost að taka þátt í afgreiðslu málanna. Allshn. hélt fund rétt fyrir kvöldmatinn í gærkvöld. Eins og menn sjá, hefur hún verið ákaflega afkastamikil og skilað af sér þremur nál. Vissulega má segja, að það hafi tekizt á elleftu stund. Þegar fundur allshn. Sþ. var haldinn í gærkvöld, hafði ekki verið haldinn fundur í n. í 5 vikur. Í 5 vikur samfleytt hafði ekki fengizt fundur í þessari n. Það verður því ekki beinlínis sagt, að fundurinn í gærkvöld hafi verið ótímabær.

Fyrir tæpum þrem vikum var vísað til n. þáltill. um takmörkun sjónvarps frá Keflavíkurflugvelli. Strax og sú till. kom til n., sneri ég mér til formanns hennar, þáv. 1. landsk. þm., Sigurðar Ingimundarsonar. Hann kvaðst mundu halda fund mjög snarlega. En það varð ekkert úr því. Ég ítrekaði ósk mína nokkrum sinnum við formanninn, en það voru alltaf ýmis ljón á veginum. Og 25. apríl s.l. fór sá þm. af þinginu og við formannsstöðu tók núv. hv. 1. landsk., Unnar Stefánsson. Strax og hann kom í þingið, óskaði ég eftir, að fundur yrði haldinn í n. Ekki virtust vera nein vandkvæði á því, því að hann hélt kannske, að það mundi vera bægt að halda fund þann sama dag. En það reyndist ekki, og nefndarfundinum var frestað þangað til daginn eftir. Reyndar fór svo, að næstu 10 daga var fundum ævinlega frestað þangað til daginn eftir.

Fyrir tæpum þremur vikum, þegar ég óskaði fyrst fundar, var sjónvarpsmálið eina málið, sem fyrir n. lá og aldrei hafði verið tekið þar fyrir. En seinna var þremur málum vísað til n. Flm. þessara mála voru nokkrir stuðningsmenn ríkisstj., og þeir urðu brátt varir við það, að allshn. var stungin svefnþorni og mátti sig hvergi hræra.

Þeir gerðu sér auðvitað ljóst, að úr því að þeir voru svona óheppnir, að mál þeirra skyldu lenda með bannsettu sjónvarpsmálinu, helzta feimnismáli allshn., var heldur ólíklegt, að þeirra mál fengjust nokkurn tíma afgreidd í n. Ég þarf ekki að orðlengja það, að nú hófst hinn kynlegasti skollaleikur í kringum hv. formann n., þar sem annars vegar stóðu hin æðri máttarvöld, sem hönnuðu honum að halda fund í n., og hins vegar nokkrir hv. þm. úr stjórnarliðinu, sem voru alls ekkert ánægðir með það að fá ekki fund. Þeir heimtuðu fund í allshn. á hverjum degi, og auk þess hélt ég auðvitað áfram að heimta fund. Ég verð að segja, að hv. þm. Unnar Stefánsson var auðvitað ósköp óheppinn að lenda í þessu svona rétt um leið og hann slapp hér inn í þingið, lenda í þessu reiptogi, en ég ætla ekki að fara að ásaka hann, þó að hann væri dálítið tvístígandi í því, hvort ætti að halda fund eða ekki fund, hvort hann ætti að hrökkva eða stökkva í þessu máli.

Fyrir nokkrum dögum, ég held, að það hafi verið á föstudag í fyrri viku, var ég boðaður á fund í Þórshamri kl. 11. Ég mætti auðvitað kl. 11, en enginn annar mætti. Síðan liðu 15 mínútur. Þá var mér tilkynnt, að fundurinn hefði verið afboðaður örfáum mínútum áður en ég kom á fundinn. Ég held ég megi segja, að í fyrradag hafi formaðurinn boðað mig þrisvar sinnum á fund í n., en því miður var aldrei hægt að halda fundinn. Og í gær, held ég, að ég hafi verið boðaður tvisvar á fund. En það var alltaf eitthvað, sem gerðist á seinustu stundu og kom í veg fyrir fund. Ég vona, að hv. þm. hafi mig afsakaðan, en þegar kveðjuathöfn í Nd. var lokið og kvöldmatur rétt að hefjast hjá venjulegum mönnum, gekk ég heim á leið og datt ekki í hug, að neitt mundi gerast eftir það í þessari ágætu n. En ég var sem sagt nýgenginn heim til mín að borða, þegar allshn. glaðvaknaði allt í einu eftir 5 vikna svefn og snaraði frá sér þremur málum á fáeinum mínútum. Og eftir situr sjónvarpsmálið í n. Það hefur aldrei verið tekið fyrir og ekki einu sinni lesið. Það virðist ljóst, að allshn. er ekki ætlað að hafa skoðun á þessu máli. Hún viðurkennir ekki, að málið hafi borizt til nefndarinnar.

Með hliðsjón af þessum vinnubrögðum verð ég að segja, að auðvitað hefði verið ólíkt skemmtilegra, ef meiri hl. n. hefði fylgt fordæmi hv. þm. Björns Pálssonar og flutt svo hljóðandi till.: „Alþingi ályktar, að sjónvarpsmálið skuli sofa áfram.“ Það hefði verið miklu viðkunnanlegri afgreiðsla á málinu. En því miður hafa menn ekki kunnað að meta hin góðu ráð þessa ágæta hv. þm.

Ástæðan til þess, að æðri máttarvöld hafa lagt svo mikla áherzlu á að svæfa málið, mun vera sú, eins og öllum er kunnugt, að bæjarstjórnarkosningarnar nálgast og Alþ. má ekki hafa neina skoðun á þessu máli fyrir kosningar. Ég vona þó, að þessi vinnubrögð tákni ekki, að það sé útséð um, að málið verði afgreitt á viðunandi hátt, þegar íslenzkt sjónvarp tekur til starfa.

Áður en ég skil víð þetta mál, vil ég segja, að „á viðunandi hátt“ kalla ég það eitt, að íslenzk stjórnvöld taki afstöðu til málsins, taki aftur það leyfi, sem þau veittu fyrir 5 árum. „Á viðunandi hátt“ kalla ég það ekki, að hæstv. ríkisstj. fari að krjúpa frammi fyrir t.d. bandaríska sendiherranum eða bandarísku herstjórninni og biðji þá um að losa sig úr þeirri klípu, sem ríkisstj. hefur sjálf komið sér í. Ég ætla sem sagt að vona, að þessi áhugi á því að svæfa málið hér á Alþ. tákni ekki, að ríkisstj. ætli að fara þá leið, sem ég hef hér nefnt og ég tel algerlega vansæmandi fyrir hana.

Ég vil þá víkja að því máli, sem hér er á dagskránni. Eins og þar kemur fram, var ég ekki viðstaddur afgreiðslu málsins. Þær till., sem hér eru bornar fram, eru út af fyrir sig ágætar. Ég rak mig þó strax á það, að þessari till. er óeðlilega þröngur stakkur skorinn, þar sem aðeins eru teknir úr tveir landshlutar, en ekkert minnzt á ástand raforkumála í öðrum landshlutum. Ég þarf ekkí að taka það fram, að ég styð eindregið þá till., sem hv. þm. Skúli Guðmundsson hefur lagt hér fram og fjallar um það, að allsherjarrannsókn fari fram í raforkuþörf landsmanna utan Reykjavíkur.