16.03.1966
Sameinað þing: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (2936)

125. mál, reikningsskil hinna rændu þjóða við þær ríku

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs hér í lok ræðu hv. frsm., hv. 3. þm. Reykv., var það nánast til þess að biðja hann skýringar og beina til hans fsp. um sumt af því, sem kemur fram í þáltill. sjálfri og reyndar er endurtekið að nokkru í grg. till.

Ég skal taka það fram, að ég er fylgjandi þeirri skoðun hv. þm., sem hér hefur komið fram oft áður, um það, að Alþ. eigi að gera meira að því að ræða utanríkismál heldur en raun ber vitni um: En þar sem till. þessi er nokkuð sérstæð og ég minnist þess ekki, eftir að ég tók sæti á Alþ.,till. í þessu formi væri borin hér fram, að Alþ. ályktaði að fela sendinefnd Íslands að vinna ákveðið verkefni á þingi Sameinuðu þjóðanna, finnst mér full ástæða til, að hv. þm. ræði þessa till. nokkuð ýtarlegar en virtist liggja fyrir við framsögu málsins, að þm. ætluðu sér. Og vegna þess að hv. frsm. minnist bæði í till. og grg. á þjóðhetju okkar Íslendinga, Jón Sigurðsson, og við höfum í huga, að það gekk ekki vel fyrir Íslendinga eða Jón Sigurðsson að selja Dönum sínar hugmyndir, og ég efa að minnsta kosti, að það muni ganga vel hjá sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum að koma hinum nýju ríkjum, t.d. í Afríku, til þess að taka við hugmyndum Jóns Sigurðssonar og jafnvel kannske gera hann að þeirri þjóðhetju þar, sem hann er hjá okkur Íslendingum, a.m.k. á meðan sumir af landsbúum þeirra þjóða eru enn á því stigi, að þegar þeir vilja losna við sína ráðherra, éta þeir þá.

Þegar kemur að því, að sendinefnd okkar kemur á fund Sameinuðu þjóðanna og fer að hreyfa þessu máli, verður auðvitað hin íslenzka sendinefnd spurð um ýmis atriði úr þessari þáltill. og hún beðin skýringa á því, hvað Íslendingar meini með því, sem þeir halda fram í málflutningi, sem hlýtur að fylgja þessari till., og ég mundi halda, ef till. yrði samþ., að yrði að vera á þeim grundvelli, sem kemur fram í grg. till. Sannfærður er ég um, að það muni fljótt koma fram hjá sumum, eins og reyndar við Íslendingar höfum orðið varir við í okkar sjálfstæðisbaráttu, að viðbrögð sumra þjóða, sem teljast til eldri og jafnvel nýrri nýlenduþjóða, séu þau eða verði þau, að þeirra skerfur í sínum nýlendumálum hafi verið að sýna fórnfýsi og bræðralag í sambandi við vernd sina á þessum nýlendum og jafnvel að enginn ágóði, heldur kostnaður, hafi verið af þeim samskiptum á undanförnum árum.

En þegar við horfum á fyrirsögn till., hlýtur fyrst að verða sú spurning uppi hjá okkur, þegar hv. flm. vill láta Sameinuðu þjóðirnar beita sér fyrir þessu merkilega máli um reikningsskil hinna rændu þjóða við þær ríku: Geta Sameinuðu þjóðirnar framkvæmt þetta, þessi samtök, sem eru ekki sterkari en svo, að þau jafnvel riða til falls, þegar nokkrar aðildarþjóðir stefna hagsmunum samtakanna í voða eða a.m.k. í hættu með því að neita að greiða, að mörgum finnst, sjálfsagðan lögreglukostnað, sem samtökin þurfa að leggja í?

Í 1. mgr. till. sjálfrar ræðir flm. um hinar rændu þjóðir, og síðan segir hann orðrétt í 2. mgr., með leyfi forseta:

Till. þessar skulu fela það í sér, að reynt skuli að meta það tjón, sem yfirstéttir Evrópu og Bandaríkjanna hafa unnið þjóðum þeim, sem byggja Afríku, Asíu og Suður-Ameríku, með mannránum, árásarstyrjöldum, frelsissviptingu, arðráni og hvers konar kúgun og misrétti á undanförnum öldum og fram á þennan dag.“

Að vísu kemur nokkur skýring á þeirri spurningu, sem ég vildi leggja fyrir flm. í sambandi við þessa mgr. þáltill., — það kemur nokkur skýring á því síðar í grg. Mín spurning er sú: Væri ekki full ástæða til þess að hafa í þessari upptalningu, þegar talað er um Afríku, Asíu og Suður-Ameríku, að hafa jafnvel Evrópu líka? En flm. tekur það fram í grg. sinni, að hann undanskilji alveg þjóðir Evrópu, sem hann telur búa við þau kjör, að þess þurfi ekki. Er ekki full ástæða til þess að hafa þarna líka Evrópu með í þessari upptalningu, og hverra yfirstéttir eru það í Evrópu, sem hafa unnið það, sem hér er verið að ræða um? Eru það þeir, sem á síðustu árum hafa gefið 670 millj. manna, sem áður bjuggu við nýlendufyrirkomulagið, þeir, sem hafa gefið 670 millj. manna frelsi á síðustu árum? Eða gætu þeir ekki komið inn í það, sem hafa tapað frelsi sínu á síðustu árum í Evrópu og annars staðar vegna ágengni og yfirtroðslu kommúnismans í heiminum? Við getum tekið t.d. Austur-Pólland. Þar var um að ræða 10 millj. manna, Eystrasaltslöndin 6 millj. manna, Austur-Prússland fjórðungur millj. og hluti Finnlands á sínum tíma ½ millj. manna. Í Tíbet voru það 3 millj. manna og í Bessarabíu í Rúmeníu voru það 3 1/2 millj. manna, í hluta Tékkóslóvakíu 3/4 millj. og í öðrum hlutum Austur-Evrópu um það bil 90 millj. manna, eða samtals 114 millj. manna, sem hafa tapað frelsi sínu eða, eins og segir í till. flm., orðið fyrir frelsissviptingu, búið við mannrán jafnvel, misrétti og hvers konar kúgun á undanförnum, ekki öldum, heldur árum.

Það er vissulega ástæða til þess að fara út í nokkur atriði líka í grg., þegar maður horfir til þess, að sendinefnd Íslands verður auðvitað spurð út úr þeim rökum, sem hún mun hafa í málflutningi sínum fyrir samþykkt þessarar till. hjá Sameinuðu þjóðunum. Það er t.d. í sambandi við þrælaveiðarnar. Ætli þær yrðu ekki upp með sér, sumar af hinum svörtu þjóðum Afríku, sem búa í mjög náinni og góðri sambúð við Arabaþjóðirnar flestar, en ég held, að allir viðurkenni það, að engar þjóðir hafi frekar stundað þá iðju, þrælaveiðar, heldur en einmitt þær? Vera má, að svo verði. Hann minnist líka á verzlunareinokun. Við höfum mörg dæmi um það úr nútímanum og það jafnvel frá þeim þjóðum, sem ég var að tala um hér áðan að hefðu misst sinn sjálfsákvörðunarrétt, orðið fyrir frelsissviptingu. Því hefur verið haldið fram af þeim sjálfum eða mönnum frá þeim, og áþreifanleg dæmi um það komu fram á síðustu mánuðum, að þeir hafi búið við verzlunareinokun og nánast það, sem verður að teljast nýlendukúgun, a.m.k. arðrán. Eins kemur það fram í grg., að frsm. vill, ef til þess kæmi, að til slíks sjóðs yrði stofnað, að hann yrði undir stjórn Sameinuðu þjóðanna, og þótt þjóðirnar sjálfar hefðu ákvörðunarrétt um áætlanagerð, virðist mér á hugsun flm., að sjálfsákvörðunarréttur þessara þjóða sé tekinn úr höndum þeirra og settur í hendur nefndar eða sérstakrar stofnunar innan Sameinuðu þjóðanna, og mætti segja mér, að ekki yrðu allir fulltrúar hinna nýju þjóða innan Sameinuðu þjóðanna jafnánægðir með þetta eins og kemur fram hjá flm. eða kom fram í ræðu hans, að sjálfsagt væri að þeir yrðu.

Sjálfsagt er fleira, sem tína mætti til á þessu stigi. En það er þó á þessu stigi þessi spurning, sem ég mundi vilja leggja fyrir flm., sem ég hef þegar komið hér fram með: Er ekki ástæða til þess, að það sé fleira í þessari upptalningu heldur en kemur fram hjá honum? Eigum við ekki að láta koma fram jafnvel kannske ákveðin landaheiti í Asíu, hafa þá með t.d. Tíbet? Er ekki ástæða til þess líka, að Evrópa verði með í þessari upptalningu og þá kannske með nánari skilgreiningu í grg.?