16.03.1966
Sameinað þing: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (2937)

125. mál, reikningsskil hinna rændu þjóða við þær ríku

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Aðalástæðan til þess, að ég hef hér kvatt mér hljóðs, er sú, að hv. flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, nefndi í lok ræðu sinnar þáltill., sem ég flutti á síðasta þingi og samþ. var, en þar var skorað á ríkisstj. að framkvæma athugun á því, hversu Ísland gæti tekið virkari þátt en nú er í aðstoð við þróunarlöndin. Í þessari till. voru ekki ákvæði um það, hvernig þessi athugun skyldi framkvæmd. Ég held, að ég hafi getið þess í framsöguræðu, að mér fyndist tvennt koma til greina í því efni, í fyrsta lagi nefndarskipun, í öðru lagi, að einhverjum ákveðnum mönnum, t.d. starfsmönnum stjórnarráðsins, einum eða fleiri, yrði falið að framkvæma þessa athugun. N. sú, sem um málið fjallaði hér á hv. Alþ., en það var hv. utanrmn., gerði ekki breytingu í þessu efni frá því, sem till. mín fól í sér. Ég tel þess vegna rétt að upplýsa það, að í lok septembermánaðar s.l. ákvað utanrrn. að fela þremur mönnum að framkvæma þessa athugun, en þessir menn voru Sigurður Guðmundsson skrifstofustjóri húsnæðismálastofnunarinnar, Ólafur Stephensen frkvstj. Rauða kross Íslands, og svo var ég beðinn að taka sæti í þessari n. Tveir meðnm. mínir eru ungir menn og hafa báðir verið viðriðnir málefni, sem snerta mjög hjálp við vanþróuðu þjóðirnar. Annar þeirra, Sigurður Guðmundsson, var framkvæmdastjóri söfnunarinnar „Herferð gegn hungri“, eins og það var kallað, en Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, eins og ég áður nefndi. Nú er að vísu þannig með báðar þær stofnanir, sem hér eiga hlut að máli, annars vegar matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem hefur staðið fyrir Herferð gegn hungri, og hins vegar Rauða krossinn, að þær vinna báðar í alþjóðaþágu, ekki fremur þróunarlandanna heldur en annarra þjóða. En telja má þó, að þau verkefni, sem hér er um að ræða, liggi einna næst því að vera aðstoð við þróunarlöndin af því, sem um er að ræða hér á landi í því efni. Taldi ég þetta því ekki illa til fallið.

Nú verður að segja hverja sögu eins og hún gengur. Við héldum að vísu nokkra fundi fyrir jól, skiptum þá með okkur verkum o.s.frv., en þar sem n. var skipuð um það leyti, sem þing kom saman, skýrði ég meðnm. mínum frá því, að meðan þing sæti, væri það ekki nema takmarkað, sem ég byggist við að geta sinnt því, og sú hefur líka orðið raunin á. Hins vegar hef ég á því fullan hug, að á sumri komanda leitist n. við að ljúka því verkefni, sem henni hefur verið falið, þannig að niðurstöður hennar liggi fyrir næsta haust. En ég hef litið þannig á, að verkefni n. væri fyrst og fremst upplýsingasöfnun hér innanlands og erlendis, sem verið gæti umræðugrundvöllur fyrir frekari aðgerðum í þessum málum.

Þegar málið nálgast meira framkvæmdastig, verður auðvitað að taka það upp á breiðara grundvelli, því að ég er fyllilega sammála hv. flm. þessarar till., sem hér liggur fyrir, um það, að leita beri sem viðtækasts samstarfs um það mál, sem hér er um að ræða, og það megi ekki gera það að pólitísku máli.

Þetta taldi ég skylt að upplýsa hér, ekki sízt með tilliti til þess, að hæstv. utanrrh. er ekki viðstaddur, þannig að ábyrgðin á því, að málið hefur ekki gengið með meiri hraða, hvílir á okkur, þessum þremenningum, og sérstaklega mér, en ekki hæstv. ríkisstj. í bili. Tel ég rétt, að þetta sé upplýst, svo að enginn hengi bakara fyrir smið hvað þetta atriði snertir.

En úr því að ég er staðinn hér upp, vildi ég aðeins víkja örfáum orðum að þeirri till., sem hér liggur fyrir. Margt var fróðlegt og athyglisvert að mínu áliti í framsöguræðu hv. flm., og að mínu áliti ber mjög að virða þann mikla áhuga, sem hann hefur sýnt á því stóra málefni, sem hér er til umr., þá sjaldan það hefur borið hér á góma á hv. Alþ. Ég er honum sammála um, að hér er um að ræða mesta vandamál mannkynsins í dag, og með tilliti til þess, hvað við Íslendingar erum þó virkir þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi á mörgum sviðum, tel ég rétt, að við látum þetta mál verulega til okkar taka, eftir því sem aðstæður leyfa, þó að segja megi e.t.v., að það snerti hagsmuni okkar ekki beinlínis. Ég er einnig sammála hv. flm. um það, að smáþjóðirnar eigi mikilvægu hlutverki að gegna í þessu efni, því að ætla má, að till. frá þeim verði oft ekki mætt með jafnmikilli tortryggni og er stórveldin ættu í hlut, jafnvel þó að slíkar till. séu af góðum hug fluttar.

Hitt verð ég samt að segja, að ég tel, að sú till., sem hér liggur fyrir, sé ekki raunhæf leið til þess að leysa það vandamál, sem hér er um að ræða. Það er að vísu bæði eðlilegt og skiljanlegt, að einmitt í þessu efni sé vitnað til fordæmis í skiptum Dana og Íslendinga, því að það er rétt og raunar öllum hv. alþm. kunnugt, að Jón Sigurðsson og Skúli Magnússon báru fram kröfur á hendur Dönum, sem gengu nokkuð í svipaða átt og till, þessi gerir ráð fyrir. Og það var meira en þessar kröfur væru fram bornar, þær fengust að nokkru leyti viðurkenndar, því að ég hef a.m.k. staðið í þeirri trú — og vil ég þó ekki gera meira úr sögukunnáttu minni en efni standa til, — að það hafi einmitt að nokkru verið með tilliti til þess, sem Danir féllust á það á sínum tíma, þegar fjárhagur Íslands og Danmerkur væri aðskilinn 1874, að greiða fast framlag eða 60 þús. danskar kr. til landssjóðs Íslands. Þegar sambandslögin svo gengu í gildi 1918, var þessu breytt í fast framlag eða 2 millj. kr. Hins vegar hef ég litið þannig á, og skal ég þó viðurkenna, að ekki er þar um að ræða neinar sögulegar athuganir, sem ég hef gert, að það eina, sem Danir hafi viðurkennt af kröfum þeirra Jóns Sigurðssonar og Skúla Magnússonar, séu þau afgjöld af jarðeignum konungs, sem til hans runnu eftir siðaskiptin og eftir Stóradóm. Þar var um ákveðna fjárhæð að ræða, sem hægt var að fá upplýsingar um, hverju hafði numið, og rann beint í konungssjóðinn danska. Hins vegar hef ég litið svo á, og má vel vera, að sú skoðun sé röng, að Danir hafi aldrei viðurkennt endurgreiðslu að einhverju meira eða minna leyti á hagnaði, sem þeir hafi haft af einokunarverzluninni við Ísland. Það hygg ég, að þeir hafi aldrei viðurkennt. Ég dreg ekki í efa og er raunar kunnugt um, að það er rétt, að bæði þeir Skúli Magnússon og Jón Sigurðsson gerðu útreikninga á þessu og byggðu á því kröfur. En mér þykir mjög ólíklegt, að þær kröfur hafi nokkurn tíma verið viðurkenndar, og kemur hér tvennt til: Í fyrsta lagi það, að þegar um er að ræða hagnað af viðskiptum og greiða á bætur fyrir það, þá rennur sá hagnaður, bæði hvað snertir einokunarverzlun Dana hér á Íslandi og í enn ríkara mæli þegar um er að ræða viðskipti stórveldanna við vanþróuðu þjóðirnar, að jafnaði í vasa einkaaðila. En það mun fátítt, að nokkur ríki viðurkenni bótaskyldu vegna viðskipta, sem einstakir borgarar eða einstök félög þar í landi hafi átt við önnur lönd. Í öðru lagi kemur það til, að ákaflega erfitt er að gera sér reikningslega grein fyrir því, hver hagnaður verður í slíkum viðskiptum, og með allri virðingu fyrir þessum tveim mestu mikilmennum okkar sögu, þeim Jóni Sigurðssyni og Skúla Magnússyni, hygg ég, að þeirra útreikninga eins og aðra, sem gerðir hafa verið í þessu efni, megi vefengja, þannig að þar hljóti að verða um mikið álitamál að ræða. Auðvitað er það vitað, að um verulegan hagnað getur oft verið að ræða, t.d. í viðskiptum stórveldanna við nýlenduþjóðirnar, en að meta það tölulega, þannig að ekki verði vefengt, er samkv. eðli málsins mjög torleyst reikningsdæmi, svo að ekki sé tekið dýpra í árinni. Þetta ber að mínu áliti að hafa hugfast í sambandi við þá í sjálfu sér athyglisverðu hugmynd, sem hér er sett fram í till. hv. flm.

En það er líka annað, sem ég get ekki látið hjá líða að benda á, fyrst þetta mál hefur borið hér á góma, og það er þetta, að það er skoðun mjög margra, ef ekki flestra sérfræðinga, sem um þetta mál hafa fjallað, að vandamál þróunarlandanna sé ekki fyrst og fremst skortur á fjármagni til þess að veita þeim aðstoð, heldur miklu fremur hitt, að í þróunarlöndunum verður í þeim mæli að byggja svo allt upp frá grunni, að það er ekki nema mjög takmarkað fjármagn, sem þau geta hagnýtt til uppbyggingar, vegna þess að forsendur fyrir því, að fyrir liggi t.d. áætlanir um skynsamlegar framkvæmdir o.s.frv., eru ekki nema að takmörkuðu leyti fyrir hendi. Sú skoðun kom m.a. fram í skýrslu Alþjóðabankans, sem ég las fyrir ekki löngu, en er að vísu nokkurra ára gömul, að fjármagnsskorturinn væri að þeirra áliti ekki mikilvægasti flöskuhálsinn í þessu efni, ef svo mætti að orði komast. Sumir hagfræðingar hafa meira að segja haldið því fram, að bilið á milli þess fjármagns, sem þróunarlöndin skortir, og þess, sem þau gætu nýtt, væri ekki svo ákaflega stórt. Meginvandinn lægi einmitt í ríkara mæli í því, að það vantar áætlanir, sem gerðar eru fyrir þær framkvæmdir, sem líklegar væru til þess að leiða til framfara og aukningar þjóðartekna í þessum löndum. Þetta kom raunar líka fram í ræðu hv. flm., þar sem hann nefndi lýðháskólann, sem Danir hafa byggt fyrir Ghanabúa. Mér dettur í hug annað dæmi, sem ég hef rekið mig á í bók eftir mjög kunnan hagfræðing og sérfræðing í vandamálum þróunarlandanna. Hann nefnir það, að fyrir allmörgum árum var gerð áætlun um tiltekna framkvæmd í Indónesíu. Hvort það var bygging raforkuvers eða einhverrar verksmiðju, man ég ekki, en það skiptir ekki máli. Sérfræðingar höfðu komizt að þeirri niðurstöðu, að með tilliti til staðhátta væri mjög skynsamlegt að byggja þessa verksmiðju þarna. En þegar til kom að ráðast í þessa framkvæmd og flytja nauðsynleg tæki á þennan stað, voru í fyrsta lagi ekki til neinar hafnir, þar sem hægt væri að skipa þessum tækjum upp, og í öðru lagi vantaði vegi til þess að flytja tækin frá sjónum og til þess staðar, sem orkuverið eða hvað það nú var átti að standa.

Við verðum, Íslendingar, að gera okkur ljóst, að vandamál þessara þróunarlanda eru enn þá erfiðari og liggja, ef svo mætti segja, dýpra en okkar vandamál fyrir 60 árum, þegar við vorum fyrst að réttar okkur úr kútnum. Þá var hér um vel menntaða þjóð að ræða, sem hafði góð skilyrði til þess að tileinka sér verktækni o.s.frv. Það var fjármagnið fyrst og fremst, sem skorti hér. Nú skortir að vísu líka fjármagn til þess að vinna að framförum í þróunarlöndunum, en þó öllu meira að áliti margra sérfræðinga, eins og ég sagði, skilyrðin fyrir því, að fjármagnið verði nýtt. Og í því sambandi má nefna það sjónarmið, sem sumir hagfræðingar hafa haldið fram, þó að ég fullyrði engan veginn, að það sé rétt, að þeir telja, að það væri jafnvel í þágu þessara þróunarlanda sjálfra, að þeim væri veitt aðstoð fremur í mynd lána, að vísu með hagstæðum kjörum, heldur en í mynd gjafa. En þau rök, sem hafa verið færð fram þessu sjónarmiði til stuðnings, eru þau, að þegar um gjafafé sé að ræða, megi búast við því, að áhuginn hjá þeim verði takmarkaður fyrir að taka þátt í því að sköpuð séu skilyrði fyrir því, að fjármagnið verði hagnýtt á hinn hagkvæmasta hátt. Ef hins vegar er gert ráð fyrir endurgreiðslu, verði það meiri trygging fyrir því, að viðkomandi þjóðir taki virkan þátt í undirbúningi þeirra framkvæmda, sem fjármagnið er notað til, þannig að slíkt verði betri trygging einmitt fyrir því, sem er aðalatriðið, sem auðvitað er ekki það, að þessar þjóðir fái eitthvert fjármagn til ráðstöfunar, heldur að það verði hagnýtt á sem hagkvæmastan hátt til uppbyggingar í þágu þeirra.