23.03.1966
Sameinað þing: 32. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (2941)

125. mál, reikningsskil hinna rændu þjóða við þær ríku

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það væri lakast, ef agnúarnir færu að vaxa út aftur á hv. 7. þm. Reykv. Ég held, að hæstv. forsrh. ætti að reyna að taka hann ofurlítið í skóla og senda hann í einhvern diplómataskóla, til þess að kenna honum dálitla menntun, sérstaklega ef honum ætlar að fara að hraka hér á þinginu, þegar eitthvað er komið við hann.

Ég er ákaflega hræddur um, að þessar umræður, sem hér hafa orðið núna um þetta mál, muni verða teknar seinna meir sem dæmi um, á hvaða stigi Alþingi Íslendinga standi, þegar lögð sé fram till., þar sem gerð er tilraun til að láta Ísland marka sjálfstæða afstöðu og að mínu áliti viturlega í einhverju mesta vandamáli, sem heimurinn stendur núna frammi fyrir. Við vorum áðan að ljúka fyrri umr. um mál, þar sem við vorum að koma inn á Atlantshafsbandalagið og þar sem því var slegið föstu, ómótmælt, að í Evrópu liti tiltölulega friðsamlega út. Og ég vakti máls á því, að jafnvel eitt helzta stórveldi Atlantshafsbandalagsins mundi ef til vill á næstunni gera griðasamninga við Sovétríkin. En ég hafði hins vegar undirstrikað, að það væri alveg sérstök hætta á, að það, sem kynni að koma upp á næstunni, og sú ófriðarhætta, sem yrði, væri hættan á því, að nýlenduþjóðirnar gömlu lentu í sífellt harðvítugri átökum við þau gömlu stórveldi. Og við stöndum frammi fyrir einni slíkri harðvítugri styrjöld núna, þar sem styrjöldin í Víetnam er. Hér hefur ekki verið gert einu sinni svo mikið sem gert hefur verið í öllum þingum Norðurlanda að ræða mál eins og Víetnam-málið.

Manni finnst það hart, að þegar lögð er fram till. um, að Íslendingar marki afstöðu í þessu máli, sem væri mjög í samræmi við alla okkar sögu og sérstaklega í samræmi við það, sem Jón Sigurðsson forseti lagði til á sínum tíma, þá fáist raunverulega ekki raunhæfar umræður um slík mál, það komi fram einn þm. úr liði stjórnarinnar, sem skammist um heima og geima, bergmáli Morgunblaðið eða amerískan áróður, en komi ekki með eina einustu sjálfstæða hugsun um, hvað eigi að gera í þessu máli, sem er þó eitt það alvarlegasta, sem við veröldinni blasir. Og svo finnur þessi hv. þm. ástæðu hjá sér til þess að hyrja sina ræðu á því að vitna í reiðilestur Jóns Vídalíns, — út af hverju? — út af barnamorðunum í Betlehem. Ætlaðist hv. þm. til þess, að þeir í Washington heyrðu þetta, meðan barnamorðingjarnir þar drepa daglega börn í Víetnam, sem ekkert hafa gert á þeirra hluta, og auka í sífellu og voru síðast að samþ. í gær að auka framlögin, til þess að geta drepið meira og meira af varnarlausu fólki í þessu fátæka landi? Ætli hv. þm. ætti ekki, ef hann gæti fengið til þess einhvern verulega góðan enskumann, af því að hann er nú svo náinn þar, að þýða reiðilesturinn á ensku og senda höfðingjunum í Washington, til þess að láta þá vita, hvernig einn af beztu klerkum Íslendinga mundi hafa lesið yfir þeim, ef hann hefði verið uppi á þeirra tímum? Nú veit ég að vísu, að það eru til allrar hamingju til prestar í Bandaríkjunum, sem lesa yfir þeim, máske ekki með annarri eins mælskusnilld, en með sama anda, út af því glæpaverki, sem þeir eru að vinna í Víetnam. Ef til vill hefur líka hv. þm. farið að hugsa til Jóns Vídalíns og barnamorðanna í Betlehem út frá þeirri staðreynd, sem ég sagði honum frá, að það dæju 30 þús. börn á hverjum degi úr hungri og sjúkdómum. Og ég minnti á, að djúpið á milli hinna fátæku og hinna ríku í heiminum fer vaxandi með degi hverjum þrátt fyrir þá aðstoð, sem veitt er, þrátt fyrir þær safnanir, sem við m.a. tökum þátt í.

Þetta eru staðreyndir, sem mundu fá hvern mann, sem einhverja tilfinningu hefur fyrir því, hvað er að gerast í heiminum, til þess að hrökkva við. Ég vil bara minna menn á, hvað mönnum hættir við að vera blindir, þegar það er svo að segja ekki alveg hjá manni sjálfum, sem hlutirnir eru að gerast. Það vildi það hörmulega til fyrir nokkrum dögum suður í Kaupmannahöfn, að það var stolið barni, og öll Norðurlönd voru, eins og við getum ákaflega vel skilið, á öðrum endanum út af þessum atburði. Það var vart um annað hugsað eða talað. Til allrar hamingju leystist það mál vel, það fyrra. Það var síðara málið, sem kom fyrir, sem er ekki leyst enn. En hve margir af þeim, sem fundu til, töluðu og hugsuðu í sambandi við þetta, fundu til hluttekningar af því, sem blöðin sögðu þá hvað snertir þau 30 þús. börn, sem deyja í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku daglega? Verða menn uppnæmir hér á Norðurlöndum út af því? Finna menn ástæðu til að koma með till. hér á þingi til þess að reyna að hæta úr þessum hlutum? Það er nauðsynlegt fyrir okkur, sem lífum við tiltölulega góð efnahagsleg kjör, að hrista öðru hverju dálítið við okkur sjálfum, fá okkur til þess að hugsa um, hvað er að gerast í heiminum í kringum okkur. Og heimurinn er orðinn stærri en bara Norðurlönd eða Evrópa. Ef við áttum okkur ekki á slíku, getur farið illa. Þá getum við staðið einhvern daginn frammi fyrir því, að ægilegir hlutir séu að gerast. Þess vegna er ekki ástæða til þess, þegar lögð er fram till., sem styðst við mjög góðar fyrirmyndir í þessum efnum, að upphefja fyrst og fremst þær almennu deilur um allt milli himins og jarðar, sem aðeins geta haft þann tilgang að reyna að leiða athygli þm. frá því, sem við raunverulega þurfum að hugsa um.

Það virðist hafa komið eitthvað illa við hv. 7. þm. Reykv., að ég skyldi finna að slettu, sem hann notaði í upphafi síns máls. Ég skal segja, af hverju mér fannst hún svo táknræn. Hann fór meira að segja út í það að reyna að finna ýmis dæmi um, hvernig orðið „selja“ væri notað í íslenzku, eins og t.d. að selja af hendi eða annað slíkt. En það hefur aldrei verið notað á Íslandi í þeirri merkingu, sem hann notaði það hér, og ekki man ég eftir, að það hafi nokkurn tíma verið notað í þingsölunum, þegar hann sagði, að Jóni Sigurðssyni hefði gengið illa, eða ekki vel að selja Dönum þessar hugmyndir sínar. Við vitum, að þetta orð, „selja“, er notað af Bandaríkjamönnum í sambandi við að selja hugmyndir, sem þýðir þá hjá þeim að sannfæra menn um viðkomandi hugmyndir. Þeir eru orðnir það mikil kaupmennskuþjóð, að orð eins og að selja hefur fengið þessa merkingu hjá þeim, meira að segja þegar um það er rætt að reyna að sannfæra menn um einhverjar hugmyndir, jafnvel um kristindóminn, sé langheppilegast að nota sams konar orð og menn nota um að koma út einhverjum vörum. Hvort þetta sé út af því, að það sé svo náið þarna á milli kaupmennskunnar og hugmyndanna, sem þeir séu með, eða hvort þjóðlífið sé orðið svo gagnsýrt af slíkri sölumennsku, skal ég ekki um ræða, en nærri liggur að hugsa það. Og þegar hv. þm. hér á Alþingi Íslendinga fer að nota þetta orð í þessari algerlega amerísku merkingu, höfum við lifandi dæmi fyrir okkur um, hvaða áhrif sjónvarpið er farið að hafa, því að ég veit ekki, hvort hv. þm. les svo óskaplega mikið af enskum bókmenntum. En hins vegar gæti ég trúað, að hann hlustaði nokkuð mikið á og horfði á, hvað fram fer í Keflavíkursjónvarpinu, þannig að það er svo sem alveg í samræmi við, þegar verið var að upplýsa okkur um hérna um daginn, að krakkarnir á götunni væru farnir að segja „shut up“ í staðinn fyrir „haltu kjafti“, að þessi hv. þm. skuli vera farinn að beita samsvarandi orðatiltækjum úr Keflavíkurútvarpinu hér á Alþingi. Menn sjá af þessu, hversu nauðsynlegt sé að fara að loka fyrir það.

Hv. þm. er svo trúaður Morgunblaðsmaður, að Morgunblaðið má ekki segja neitt, nema hann jafnóðum bergmáli það. Þessi hv. þm. má aldrei einu sinni bíða eftir — (Gripið fram i.) Ég býst við, að hann sé læs á íslenzku. — En ef hann skyldi ekki lesa Morgunblaðið, þá býst ég við, að hæstv. forsrh., sem sjálfur var einu sinni ritstjóri Morgunblaðsins og stundum kom eitthvað við að skrifa í það, reyni þá að segja honum héðan af, að hann eigi að lesa það, því að ég býst við, að honum líki ekki, ef þm. Sjálfstfl. steinhætta að lesa Morgunblaðið, — eða hvernig mundi Sjálfstfl, líta þá út? (Gripið fram í.) Nei, nei, hann er vafalaust mjög vel læs á ensku, en hvað mikið hann gerir að því að nota þá hæfileika sína, það veit ég hins vegar ekki. Ég held þess vegna, að hæstv. forsrh. ætti að sjá um, að þm. Sjálfstfl. læsu Morgunblaðið, ef hann hefur grun um, að þeir séu að svíkjast undan merkjum og fari jafnvei að stelast til að lesa önnur blöð, því að hvað yrði þá úr þingflokki Sjálfstfl., ef hann hætti að lesa Moggann?

Þessi hv. þm. fór að minnast á það, sem Morgunblaðið var að minnast á í morgun, hvort ég hefði verið sérstök boðflenna í Osló nú nýlega með ýmsum höfðingjum þar. Ég skal benda honum á að lesa Morgunblaðið fyrir viku. Þá nefnilega stóð dálítið annað í Morgunblaðinu. Þeim í Morgunblaðinu hættir líklega við að gleyma þeim sannleika, sem þeir segja einu sinni, ef þeim ratast einu sinni satt á munn, ef þeir gætu hugsað sér að ljúga einhverju upp nokkru seinna. Ef hv. þm. á ákaflega bágt með að trúa því, að ég hafi verið boðinn alveg sérstaklega á fund, sem sósíalistar og kommúnistar halda í Osló, gæti ég meira að segja lofað honum að lesa boðsbréfið, ef hann er læs á norsku. (Gripið fram í.) Já, ég mundi meira að segja hjálpa honum við að stafa. Hann gæti meira að segja fengið einhvern til þess að þýða fyrir hann, ef hann skildi ekki norskuna. En ég skal segja þessum hv. þm. það, að mín afstaða hefur verið sú, þó að hann hafi ekki sérstaklega mikið álit á mínum hæfileikum, að ég hef bæði verið boðinn í slíkt og annað fleira þess háttar ásamt mönnum, sem hann mun vafalaust hafa mætur á. Mér var sem sé persónulega sérstaklega boðið að flytja þarna erindi um afstöðu Íslands í norrænni samvinnu og halda ræðu á fundi í Osló um það sama. Og það gerði ég. Ég tók því boði. Ef hv. þm. langar til þess að vita eitthvað fleira, hann fór að tala um SuðurAfríku, þá skal ég segja honum það líka, að mér var ásamt mönnum, sem hann kannast við frá Bandaríkjunum, frægum mönnum, boðið að vera sérstaklega í nefnd, sem hefur gengizt fyrir og tekið að sér þjóðaráðstefnu suður í London viðvíkjandi slíkum málum, tók meira að segja þátt í henni, um leið og þingmannasendinefnd fór suður. Og ég var að fá annað boð áðan, ef hann langar til þess að lita á það á eftir, og það meira að segja á ensku, sem er hálfgert föðurmál hans, svo að hann gæti kannske stafað sig fram úr því. Ef þennan hv. þm. langar til þess að fylgjast eitthvað með í alþjóðamálum og slíku, er ég reiðubúinn til þess að reyna að kenna honum. Ég er búinn að segja honum þetta áður. Og þegar hann kemur hingað til að sanna sína fávizku í þessum efnum, á hann ekki að vera eins og óþekkur skólakrakki, sem vill ekki taka við kennslu, þegar góðir menn bjóðast til þess að kenna honum.

Hv. þm. minntist á það, til þess að gera grín að, að ég hefði jafnvel talað um í minni ræðu, að það væri hætta á jafnvel blóðbaði á vissum stöðum. Hvað heldur hv. þm., að þeim mönnum gangi til, sem núna eru kvíðafullir út af ástandinu í Suður-Afríku og Rhodesíu? Heldur hann, að þetta sé einhver leikur? Heldur hv. þm., að það sé verið að gangast fyrir hverri ráðstefnunni á fætur annarri og það suður í London með aðstoð manna hvarvetna að úr heiminum og kalla menn þangað saman bara til þess að leika eitthvert pólitískt tafl? Nei, það stendur þannig á því, að menn eru hræddir um, að eitthvert ægilegasta blóðbað veraldarsögunnar kunni að fara fram í þessum löndum, ef ekki tekst í tíma að koma viti fyrir þá hvítu stjórnendur þeirra. Ef 200—300 þús. manna ætla að nota sem þræla 4—5 millj., þá er gefið mál, að nú á tímum una menn ekki slíku þrælahaldi. Þeir rísa upp gegn því. Ég veit, að hann mun ekki fá mikla vizku í Morgunblaðinu um, hvað þarna er að gerast, né heldur í íslenzka ríkisútvarpinu, vegna þess að það er eins og kerfisbundið þagað um það, sem er að gerast í þessum löndum, til þess að halda þjóðinni fávitandi um, hvaða skelfingar ganga þar fyrir sig. Þar eiga hver málaferlin sér stað núna á fætur öðrum, þar sem verið er að dæma forustumenn þessara þjóðernissamtaka blökkumanna í Suður-Afríku í ævilangt fangelsi. Og núna seinast í gær var sagt frá því, — það kom örstutt klausa um það í ríkisútvarpinu, ég hef ekki séð það í Morgunblaðinu, — að sá maður, sem þykir einn frægasti lögfræðingur SuðurAfríku, einn af menntuðustu Búum, sem nú eru uppi, Abraham Fischer, sem hefur orðið að fara huldu höfði alllengi í Suður-Afríku og var tekinn fyrir nokkru, að réttarhöldin yfir honum væru að byrja í dag. En það er þagað um þessa hluti hérna heima. Það er reynt að dylja menn, hvaða sorgarleikir það eru, sem eiga sér stað í þessum löndum, og hvílíkur voði er í undirbúningi í þeim, svo framarlega sem ekki er tekið í taumana í tíma.

Það, sem menn óttast, er, að ef tekst ekki að koma viti fyrir þessa hvítu, fámennu yfirstétt, sem hefur rænt þarna jörðinni og lagt undir sig námurnar og annað slíkt, muni fyrr eða seinna að því koma, að þeir svörtu risi þarna upp og það verði allsherjarblóðbað. Það er til þess að reyna að afstýra þessu, að verið er að gangast fyrir ráðstefnum hvað eftir annað um víða veröld. En þessi hv. þm. vill reyna að láta líta svo út sem orð, sem ég nota í þskj. hér, séu aðeins einhver reiðilestur, og þó er þetta það sama, sem meira að segja núv. ríkisstj. Bretlands segir og gerir það að verkum, að hún reynir að knýja fram breytingar með góðu gagnvart uppreisnarstjórninni í Rhodesíu. Við skulum ekki loka augunum fyrir því, sem þarna er að gerast. Það eru svo ægilegir hlutir, að manni ber ekki að vera óvitandi um slíkt, rétt eins og menn eiga ekki að líta á blóðbaðið, sem nú fer fram í Víetnam, og aðfarir Bandaríkjanna þar sem eitthvert tafl, þar sem kommúnistar og kapítalistar séu að slást. Það er hitt, að það er verið að taka fátæka, hrausta þjóð til þess að nota hana af hálfu Bandaríkjahervaldsins sem sýnishorn um, hvað allir þeir eigi í vændum, sem vilja innleiða hjá sér samvirka búskaparhætti. Það á að hræða aðrar þjóðir með þjóðarmorðinu, sem verið er að framkvæma í Víetnam, frá því, að reyna að fara þá leið, sem íbúarnir helzt kysu. Meira að segja Bandaríkjaforsetar viðurkenna alveg, hvernig fara mundi, ef frjálsar kosningar fengju að fara fram í SuðurVíetnam. Hvað var það, sem gerði, að ég flutti þessa till. hér? Ég flutti hana vegna þess, að ég hafði órækar sannanir fyrir því, sem hv. þm. vildi þó draga í efa. En ég skal benda honum á að kynna sér ræðu framkvæmdastjóra á ráðstefnunni í Genf 1964, þaðan eru þessar upplýsingar teknar. Ég benti á, að af 47 milljarða dollara aðstoð, sem þessar þjóðir hefðu fengið á 10 árum, færu 2/8 til baka til hinna ríku þjóða sem vextir og gróði eða í hækkuðu verði á iðnaðarafurðum eða í lækkuðu verði á hráefnum þessara nýlenduþjóða. Og hvað gerði þessi hv. þm., þegar hann heyrði þessar tölur? Jú, hann sagði: Fjórðungurinn verður þó a.m.k. eftir. Það er eins og það væri rétt nóg handa þeim. Ég held, að þeir gætu verið ánægðir, þeir sem deyja úr hungri þarna. Fjórðungurinn verður þó eftir af því, sem kallað er aðstoð handa þeim. — Það heyrðist ekkert orð frá þessum þm. um, að það væri ranglátt að vera að taka háa vexti eða græða á þessum þjóðum, að það væri ranglátt að fella verðið á afurðunum, sem þær flytja út, fella um helming verðið á kakó frá Ghana, fella um helming verðið á gúmmíi frá Indónesíu og koma öllum þessum þjóðum í efnahagskreppu, ekki eitt einasta orð um neitt slíkt.

Mér er sem ég sjái þennan hv. þm. og alla hans ríkisstj., ef verðið á fiski frá Íslandi hefði fallið um helming á undanförnum árum. Mér er sem ég sæi, hvernig ástandið mundi vera. Er nú ekki rétt, að menn, þegar þeir eru með annan eins gorgeir og þessi hv, þm., að reyna að stinga hendinni ofurlítið í eigin barm? Við höfum búið við einhver beztu efnahagskjör, sem við nokkru sinni höfum fengið, þessi undanfarin ár. Við höfum tvöfaldað fiskmagnið, sem við flytjum út, og verðið á þessum fiskafurðum hefur á sama tíma hækkað, líklega um ein 25% á þessum undanförnu árum. Við höfum staðið í alveg sérstaklega góðri aðstöðu, á meðan þessar þjóðir, sem eru þó fyrir þannig staddar, að þær svelta, upplifa það, að hráefni þeirra er fellt í verði og iðnaðarvörurnar, sem þær verða að kaupa, hækkaðar og þar að auki píndir út úr þeim háir vextir af lánum, sem þær fá til þess að reyna að bjarga sér út úr fátæktinni. Og þá hefur þessi hv. þm. ekkert orð til þessara þjóða annað en það: Nú, það verða eftir þarna handa ykkur líklega svona 13 milljarðar á 10 árum. — Ætli það sé ekki nóg handa ykkur? lá í hugsunarhættinum. Þetta er ábyrgðartilfinningin gagnvart þeim þjóðum, sem svelta, gagnvart þeim þjóðum, sem eiga hvað bágast í veröldinni: Ykkur er þetta nóg, ykkur er þetta fullgott. — Og svo fer hann að reyna að snúa út úr og tala um, að ég vilji reyna að stöðva þetta. Ég hef náttúrlega aldrei minnzt einu orði á það. Ég var að draga fram myndina af því, vei og rökstutt, hve gersamlega ófullnægjandi þessi aðstoð væri, og sýndi m.a. fram á, að það, sem væri raunverulega nauðsynlegt fyrir þessar þjóðir, væri 25 milljarða dollara aðstoð á ári, á þann máta, sem ég gerði grein fyrir, hvernig hún ætti að vera.

Það er alveg vitað mál, að hvaða till. sem við svo kynnum að samþykkja hér, Íslendingar, heldur áfram það, sem nú er gert. Það heldur áfram Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sem ég kom hér sérstaklega inn á. Það heldur áfram sú aðstoð, sem ýmis ríki í heiminum láta í té, og ég hafði bent á, að ýmislegt væri máske óheppilegt við þá aðstoð, sérstaklega pólitískt tafl í sambandi við það og annað slíkt, en engu að síður slíkt heldur auðvitað áfram. En það, sem ég var að leggja til, var, að það yrði gengizt fyrir aðstoð með alveg sérstöku móti, aðstoð með því móti, að Sameinuðu þjóðirnar sjálfar reyndu að fá í gegn aðstoð, sem þær stjórnuðu, sem engin ríki þess vegna tortryggðu eða héldu að ætti að misnota á einhvern hátt til þess að ná á þeim tökum. Og hv. þm. gat meira að segja ekki í öllum sínum æsingi sloppið við það að ganga inn á, að út af fyrir sig væri þetta góð hugmynd. Og þá var bara eftir að finna út, hvernig hægt væri að rökstyðja slíka hugmynd í augliti heimsins. Hvernig er hægt að rökstyðja það, að Sameinuðu þjóðirnar ættu að hafa með slíkt að gera? Það var einmitt sá rökstuðningur, sem ég kom með. Þær væru að bæta fyrir skaða, þær ríku þjóðir, sem þær hefðu valdið. Ég fór nákvæmlega út í það og skal ekki endurtaka það. Hvað snertir lögfræðilega spurninguna um það, hvort eitt ríki sé ábyrgt fyrir því, sem þess auðhringar gera, og annað slíkt, þá er það mál, sem ég kom greinilega inn á líka í sambandi við aðstöðu Englands og Bandaríkjanna í upphafi síðustu heimsstyrjaldar, að það er ekki verið að setja neitt slíkt fyrir sig, ef menn eru á annað borð að reyna að leysa úr miklum og erfiðum vandamálum.

Þær fátæku þjóðir áttu sem sé kröfu á hinar ríku þjóðir, og það lá alveg sérstaklega fyrir okkur Íslendingum og lá vel fyrir okkur að bera þessa kröfu fram, því að sjálfur Jón Sigurðsson hafði borið þessa kröfu fram á hendur Dönum. Það er þess vegna gefið mál og verður áreiðanlega gert af hálfu fjölmargra forustumanna í nýlenduþjóðunum að bera fram slíkar kröfur á hendur þeim ríku þjóðum. Hverju gætum við í öðru lagi stutt þessar till. með? Við gætum stutt þær með því, að það sé hætta á ferðum fyrir heimsfriðinn, ef ekkert yrði gert í þessum málum. Og við getum stutt þær með því, að um leið og þær ríku þjóðir væru að framkvæma það, sem væri siðferðilega séð rétt, væru þær að gera það, sem væri pólitískt séð hyggilegt. Við hefðum mjög sterk rök fyrir þessu. M.ö.o.: í staðinn fyrir að ræða um heima og geima og vilja fara að stofna til allsherjar málfundar í þinginu, hefði þessi hv. þm. átt að sýna dálítið meiri ábyrgðartilfinningu í þessum efnum.

Ég sannaði það, enda er því ekki mótmælt, að gjáin á milli þeirra ríku og fátæku þjóða færi sídýpkandi með hverju árinu sem liður. Ég sannaði enn fremur, og því er ekki mótmælt heldur, hvorki hér né annars staðar, hve mannfjölgunin væri gífurleg í þessum löndum og hvernig hlutfallið yrði orðið eftir nokkra áratugi, ef engri fyrirhyggju yrði beitt í þessum efnum. Hv. þm. vildi í sínum tilraunum til þess að bregða þessu öllu upp í glens fara að koma með þá hugmynd að flytja hæstv. ríkisstj. til Afríku. Það má vel vera, að einhverjir stjórnarandstæðingar taki mjög vel undir þessa hugmynd. Það hafa komið þær undarlegustu hugmyndir fram frá hálfu Sjálfstfl. í þessum efnum. Ég man ekki betur en fyrir síðustu kosningar hafi komið fram — eða kannske það hafi verið fyrir hinar kosningarnar — meira að segja hér alla leið inn á þing till. um að flytja togarana okkar til Afríku. Það er náttúrlega vel hugsanlegt, að einhver bæjartogarinn, sem verið er að selja úr landi núna, það ætti að skipa allri ríkisstj. fram í hann og láta hana sigla suður til Afríku. Það er svo sem vel hugsanlegt, að Pétur sjómaður vildi sjá hana sigla, — ekkert undarlegt, þó að hann vildi fá að prófa, hvernig þeir stæðu sig þar um borð, og það yrði þá kannske pláss í ráðherrastólunum fyrir einhverja, sem kynnu betur sjómennskuna. En ég er nú satt að segja ekkert á því, að við eigum að fara að senda ríkisstj. til Afríku. Ég held, að maður verði að hafa það eins og þar stendur, að Sjálfstfl. verði að annast sinn engil og við að draslast með okkar djöful, ef við eigum að nota það orð. Það verður hver sinn djöful að draga. Ég held, að við verðum að sitja með þá stjórn, sem við höfum kosið okkur, Íslendingar, og ekki fara að losa okkur við hana til Afríku. Mér er sem ég sjái, hvernig hún mundi reynast Afríkumönnum, þegar afurðirnar þeirra féllu um helming, þegar hún hækkar dýrtíðina um helming hérna hjá okkur, þegar aflinn tvöfaldast hjá okkur og allar vörur hækka í verði, sem við seljum út. Nei, ég vil ekki Afríkumönnum svo illt, að ég vilji senda ríkisstj. til þeirra. Ég er hræddur um, að við verðum að leita að ýmsu öðru, ef við eigum að fara að skýra, af hverju við Íslendingar höfum staðið okkur svo vel, heldur en okkur hafi verið stjórnað svo vel upp á síðkastið. Það hefur varla verið hægt að stjórna nokkurri þjóð af eins litilli fyrirhyggju og okkur hefur verið stjórnað. Það væri kannske gaman að sjá það og heyra, hvernig þessi ríkisstj. hefði farið að og hvað hún hefði gert, ef fiskurinn hefði fallið um helming á undanförnum árum og þar að auki verið aflaleysi. Ef hv. þm. Sjálfstfl. er ekki enn þá ljóst, að það sé þægilegra að stjórna þessu landi, þegar aflinn tvöfaldast, þegar hann er kominn upp úr 500 þús. tonnum, sem hann hefur verið almennt fyrir svona 8 árum á ári, upp yfir 1 millj. tonna, og þegar verðið um leið hefur hækkað, heldur en stjórna þegar bæði er aflaleysi og þar að auki kannske verðfall á vörum og svo þegar ofan á allt þetta bætist, að þörfin á vörunni er svo mikil í heiminum, að við getum ekki framleitt nærri því nóg handa þeim, sem vilja fá hana.

Nei, við verðum að reyna að sitja með okkar eigin ríkisstj. og reyna að laga hlutina hér hjá okkur heima. Menn sleppa ekki heldur svo létt upp í ráðherrastólana að senda þá bara úr landi burt, enda veit ég ekki, hvori nokkrir í Afríku vildu taka við þeim. Það gengur nógu erfiðlega hjá þeim ýmislegt, þó að það færi ekki að bætast ofan á, að menn, sem ekki einu sinni geta stjórnað hér í góðæri, ættu að fara að reyna að stjórna þar í hallæri. Þess vegna held ég, að við verðum meira að segja í stjórnarandstöðunni að afbiðja okkur þessa velhugsuðu till. hv. þm. og reyna sem sé að finna upp á einhverju betra til þess að senda Afríkubúum heldur en hæstv. ríkisstj.

Svo fór hv. þm. enn einu sinni að koma inn á það, að lýðræðisþjóðir Evrópu hefðu verið svo ákaflega gjafmildar á frelsi. Já, ég er hræddur um, að hann verði að koma í skóla hjá mér til að læra mankynssögu dálítið betur. Og við skulum gera okkur ljóst, að það eru ekki allar stjórnir jafnvitlausar og núv. ríkisstj. Bandaríkjanna. Brezka ríkisstj. sýndi þá skynsemd að hætta í tíma við sín pólitísku yfirráð yfir nýlendunum, þegar hún sá, að hún gat ekki haldið þeim undir sínum völdum lengur. Þá hætti hún, sleppti þeim pólitísku yfirráðum til þess að bjarga sínum efnahagslegu yfirráðum. Frakkar lærðu það á 7 ára styrjöld í Indó-Kína að sleppa að lokum sínum yfirráðum þar, og þeir lærðu það sama af 7 ára styrjöld í Alsír. En það er hart, að þjóðir eins og í Víetnam og Alsír, sem eiga kröfu á frelsi eins og aðrar, skuli þurfa að standa í slíkum ægilegum styrjöldum við ofureflið árum og áratugum saman, þangað til þeirra stjórnendur læra slíka stjórnvizku. Og það, sem er það hörmulega, er, að Bandaríkjastjórn skuli ekki vera farin að læra þessa stjórnvizku enn í dag og halda áfram að senda til Víetnam hvern tug þúsunda á fætur öðrum af sínum hermönnum til þess að reyna að halda þeirri þjóð undir harðstjórninni.

Hv. 7. þm. Reykv. talaði um, að þessar þjóðir væru frjálsari í dag. Ætli við þættumst mjög frjálsir, ef Danir ættu meiri hlutann af öllum jörðum á Íslandi? Ætli við þættumst mjög frjálsir, ef allir okkar fossar væru í eign erlendra manna? Ætli við þættumst mjög frjálsir, ef það væru útlendingar, sem ættu hérna togaraflotann og bátaflotann? Ætli við mundum ekki segja, að það væri ekki nóg að vera frjáls stjórnarfarslega, við yrðum líka að vera það efnahagslega til þess að vera frjálsir. Og það er það, sem menn eru að herjast um í Kongó, Víetnam og annars staðar. Það er það efnahagslega frelsi, án hvers það stjórnmálalega frelsi verður lítils virði nema sem tæki og vopn til þess að berjast með.

Ég heyrði ekki á hv. þm., hvort hann var eitthvað að kenna í brjósti um Unilever eða aðra hringa, ef það yrði eitthvað þjóðnýtt af því, sem þeir ættu. En ég held, að það sé engin ást:eða til þess, ef hann kennir eitthvað í brjósti um þá. Þessir hringar eru búnir að hafa sinn auð af þessum löndum, sem þeir starfa í, svo að þótt þau færu að þjóðnýta eignir þeirra, sem þau hafa stjórnarfarslega fullan rétt til, er það ekki nema siðferðilega réttlátt, rétt eins og það yrði fyrir okkur Íslendinga eftir nokkur ár, ef við vildum svo vera láta, að þjóðnýta þá alúminíumverksmiðju, sem hér á að koma upp nú, þegar okkur fyndist þeir vera búnir að hafa nógu lengi af okkur rafmagn með lágu verði, ef meiri hl. Alþ. skyldi asnast til þess að gera þann samning, sem nú er fyrirhugaður. Það væri sem sé fyrir þennan hv. þm. og fleiri bezt að fara að aðgæta það, að ef haldið yrði áfram á þann hátt, sem nú virðist eiga að byrja á, verður ekki langt þangað til við verðum sjálfir komnir í svipaða aðstöðu og sumar þessar nýlenduþjóðir. Hann mundi kannske ekki gera neitt grín að Unilever, ef sá hringur væri búinn að setja upp sín hraðfrystihús í Sandgerði, Rifi og á Vestfjörðum, eins og búið var að undirbúa, þegar mest var rætt um að ganga í Efnahagsbandalagið, meginhlutinn af íslenzkum smáhraðfrystihúsum farinn á hausinn og hraðfrysti fiskurinn, sem við flyttum út, væri allur í álíka pakkningum og reykta síldin frá Hafnarfjarðarverksmiðjunni hjá Bjelland.

Það er bezt fyrir þessa hv. þm., sem hér eru vanir að heyra og hlýða og rétta upp hendurnar án þess að hugsa, þegar þeim er skipað það, og munu gera það á næstu dögum, — það er bezt fyrir þá að átta sig ofurlítið á því, þegar verið er að byrja að gera svipaða nýlendusamninga við Ísland og brezka verzlunarfélagið gerði á 18. öld undir stjórn t.d. Hastings við indverska fursta eða brezka Suður-Afríkufélagið undir stjórn Rhodes við fursta í SuðurAfríku. Það er bezt fyrir þessa hv. þm. að fara ofurlítið að hugsa um, í hvaða aðstöðu þeir eru að koma okkar eigin landi, ef hér á að gera samninga, sem eru nýlenduþjóðum einum sambærilegir, og tala af dálítið meiri gætni um það, sem er að gerast hjá þeim þjóðum, sem eru að reyna að hrjótast undan nýlendukúguninni núna.

Ég skal ekkert segja, hvaða hugmynd hv. 7. þm. Reykv. hefur um frelsi og sérstaklega frelsi bænda. En ef bændur hvorki eiga jörð sína né ráða líkama sínum, mundi ég ekki kalla það frelsi, svo sem var um bændaánauðina í Tíbet. Það er þess vegna bezt fyrir þennan hv. þm. að láta ekki snakkið um hinar frjálsu þjóðir og allt saman þetta blinda sig svo, að hann tali eins og barn, — barn, sem þarf að ganga á skóla hjá almennilegum kennurum. Og ef hann er sem sé alveg í vandræðum með að fá að vita nokkurn veginn það, sem er satt og rétt í þessum málum, gæti ég meira að segja útvegað honum bækur eftir ameríska rithöfunda, því að þeir eru náttúrlega þeir einu, sem hann mundi kannske trúa, um þessi mál, svo að hann gæti reynt að kynna sér þetta ofurlítið.

Þessi hv. þm. fór svo að ræða um, hvílíkar fórnir Bandaríkin hefðu fært í stríðinu. Jú, vissulega, tár einnar ekkju eru jafnslæm, hvort þau eru felld í Víetnam, Bandaríkjunum eða Suður-Afríku. Það er ekki rétt fyrir hann að vera að reyna að gera neitt glens að þeim hlutum. Það eru margir, sem verða að gráta þessa dagana fyrir aðgerðir Bandaríkjamanna. Hitt skal ég segja honum, ef hann hefur einhverjar vitlausar hugmyndir um stríðsfórnir Bandaríkjanna, og ég skal ekki gera lítið úr þeim út af fyrir sig, Bandaríkjamenn misstu hlutfallslega jafnmarga menn í stríðinu og við Íslendingar, sem ekki vorum í stríðinu sem stríðsaðili, og þessi hv. þm. hlýtur að vera það kunnugur í Bandaríkjunum eftir sina ferð þar, að hann viti, að það láta fleiri menn lífið í Bandaríkjunum í samgönguslysum árlega heldur en þeir misstu árlega í síðustu styrjöld. Ég segi þetta bara vegna þess, að hann vildi reyna að fara að draga úr því, hve mikinn missi þær þjóðir hefðu haft, sem verst urðu úti í þessari styrjöld, þar sem svo að segja hver einasta fjölskylda átti um sárt að binda og hafði misst einhvern af sínum nánustu. Það er ekki rétt að vera að reyna að draga neitt yfir staðreyndirnar í þessum efnum. Þær eiga ekki að gleymast. Síðasta styrjöld var slíkur hörmulegur atburður, að menn ættu sannarlega ekki að reyna að ræða um það í neinu glensi eða þær ægilegu fórnir, sem færðar voru af þeim þjóðum, sem verst urðu úti í því stríði. (Forseti: Mætti ég spyrja hv. alþm., hvort hann ætti mikið eftir?) Nei, ég skal ljúka henni rétt strax. Hins vegar um gróða Bandaríkjanna í þeirri styrjöld, fjárhagslegan, efast enginn. Bandaríkin hafa einmitt með þessum tveim heimsstyrjöldum, sem háðar voru í Evrópu, sett fótinn undir þann gífurlega auð, sem þau búa við. Og skal ég minna þennan hv. þm. á það, sem einn mesti sagnaritari Breta segir um Bandaríkin, einmitt með tilliti til þess auðs, sem Bandaríkin hafa öðlazt á þessum áratugum. Hann segir, að það hörmulega hafi gerzt, að þegar sú mikla þjóð Bandaríkjanna hafi eignazt allan þennan auð og baráttan um hið daglega hrauð hafi ekki lengur verið hennar aðalviðfangsefni, hafi skapazt tóm í hennar huga, sem enn hafi ekki verið fyllt af neinum þeim verðmætum, sem gætu komið í staðinn fyrir baráttuna fyrir því daglega brauði. Hann segir, að að nokkru leyti hafi þetta tóm verið fyllt með óttanum við að missa þennan auð aftur og af því stafi sú móðursýki, sem hafi einkennt Bandaríkin á síðustu áratugum og komi fram í hræðslunni við kommúnismann og við það að sjá óvin sinn í hverju horni, í Rússlandi, Kína eða einhvers staðar og einhvers staðar, og vera þess vegna svona móðursjúk í öllum sínum tiltektum, eins og Bandaríkin nú eru. Það er hörmulegt, að sú mikla þjóð, sem áður hefur unnið svo mikið fyrir mannkynið, skuli einmitt ekki hafa borið gæfu til þess enn þá, eftir að hún varð þetta rík, að skapa sér andleg verðmæti, sem gætu fyllt hennar huga. En við skulum ekki álasa mjög mikið, Íslendingar. Við skulum bara gá að því, að hið sama verði ekki upp á teningnum hjá okkur. Toynbee sagði það í sambandi við þessa skilgreiningu, að það væri einkenni á mönnum, þegar þannig væri komið með þá, að þeir ætluðu að óskapast og af göflum að ganga út af smáhlutum hjá sjálfum sér, en sæju ekki það ógnþrungna, sem væri að gerast fjarri þeim, og það er einmitt það, sem hefur einkennt viðbrögð hv. 7. þm. Reykv. Síður en svo, að hann sé einn um það. Það eru því miður vafalaust fleiri. Hörmungarnar, sem meiri hluti mannkynsins á við að búa, eru léttvægar fyrir þessum mönnum, en kappið um smámálin hjá okkur hér heima er stórt. Og það er þessi hugsunarháttur, sem við þurfum að venja okkur af. Við þurfum að skapa okkur þá meðvitund sjálfir, að okkur beri að hugsa hnattrænt um heiminn, um fólkið, sem lífir annars staðar og deyr úr hungri daglega, að okkur heri að leggja fram, þótt það væru ekki nema góðar hugmyndir til þess að reyna að sýna fram á, að þessar þjóðir eigi að verða réttlætis aðnjótandi, og reyna að finna það form fyrir það réttlæti, sem aðgengilegast og eðlilegast og heppilegast væri. Ég gerði litla tilraun til þess að vekja menn til umhugsunar um það. Ég vona, að það takist að fá menn til þess að íhuga málið, jafnvel þótt einstaks þm. hafi orðið til þess að taka því svona, og þar vil ég aftur endurtaka, að einmitt það, sem hv. 8. þm. Reykv. sagði í þessu sambandi, gefur manni von um, að það sé til meiri réttlætistilfinning og meiri þekking á þessum málum heldur en birtist hjá hv. 7. þm. Reykv.