13.04.1966
Sameinað þing: 36. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (2950)

128. mál, embætti lögsögumanns

Ólafur Jóhannesson:

Út af þeim aths., sem hæstv. forsrh. gerði hér áðan, vildi ég aðeins koma á framfæri tveimur atriðum eða svo.

Hann benti á það, hæstv. forsrh., að stofnun slíks embættis sem þessa mundi hafa kostnað í för með sér og enn fremur væru aðstæður hér aðrar á ýmsan veg en á hinum Norðurlöndunum, og því kynni að vera, og að hans áliti var það svo, að hér væri minni þörf á slíku eftirliti en á Norðurlöndum. Að sjálfsögðu er það laukrétt, að aðstæður eru hér aðrar og fámennið gerir það að verkum, að menn fylgjast betur með ýmsum greinum hér en þar. En ég vil benda á tvö atriði, sem ég tel mæla með því mjög sterklega, að hér þurfi að vera eitthvert slíkt eftirlit af þingsins hálfu. Og það er f fyrsta lagi það, að þó að stjórnsýslan sé hér óbrotnari og einfaldari á margan hátt en á Norðurlöndum, skortir hana líka þar á móti mjög formfestu á við það, sem þar er. Hér er því miður stjórnsýslan á ýmsa grein mjög formlaus og langt frá því, að í því efni séu gerðar þvílíkar kröfur hér sem þar, en einmitt þetta formleysi og skortur á formfestu getur haft í för með sér vissar hættur og skapað visst svigrúm, sem ella er ekki fyrir hendi.

Í annan stað vil ég á það benda, að hæstv. forsrh. sagði, að hér væri nú ekki kunnugt um misbeitingu af hálfu embættismanna. Og það sé fjarri mér að staðhæfa, að slík misbeiting sé fyrir hendi. En ég kem þá aftur að fámenninu og því, að vegna fámennisins er hér fyrir hendi önnur hætta, sem ekki er fyrir hendi í jafnríkum mæli í öðrum fjölmennari löndum, og það er hættan á vinsemd kunningsskaparins. Ég held, að það séu ekki brögð að því, að embættismenn eða stjórnsýslumenn geri mönnum beinlínis rangt til í sínum embættisathöfnum. En ég er því miður ekki jafnviss um, að víðsýni þeirra og góðhugur til þess, sem þeir eiga skipti við í það og það skiptið, hafi ekkert að segja, og það er þessi hætta, sem ég held við verðum líka að hafa opin augu fyrir, því að í sjálfu sér er ekkert síður misbeiting í því fólgin að mismuna mönnum til hins betra en til hins verra. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að það sé þörf á aðhaldi, auknu aðhaldi hér með stjórnsýslunni í rýmstu merkingu, og ég held, að þau ráð, sem hæstv. forsrh. benti á, að tiltæk væru hverjum og einum, sem teldi sig órétti beittan, að snúa sér til þm. og fá þm. til þess að taka málið upp, sé hvorki fær leið í mörgum greinum og þaðan af síður æskileg. Ég held, að mörg þau erindi, og það hygg ég, að menn muni glögglega sjá, þegar þeir athuga skýrslur þær, sem umboðsmenn á Norðurlöndum hafa gefið til þinganna árlega, eigi ekkert erindi inn á þing og það væri mikil tímaeyðsla hér á Alþ, að fara að eyða tíma í að ræða þau mál hér. En þau geta samt sem áður verið mál, sem eru þýðingarmikil og mikilvæg í augum þess einstaklings, sem þau lúta að, og það getur verið full ástæða til þess að reyna að rétta hans hlut.

Ég held, að það sé nú því miður kannske komið svo, að þetta, sem sagt er, að hér sé þingræði og þingið geti haft eftirlit með stjórninni og gagnrýnt stjórnina, sé ekki alltaf fullnægjandi. Ég held, að í slíkri gagnrýni beri nú æ meira á pólitískum málum en einstökum stjórnarathöfnum. Það er yfirleitt ekki venja hér að taka til umr. á Alþ. einstakar stjórnarathafnir, og ég held, að þeir starfshættir væru ekki til bóta að fara að innleiða þá hér. Ég held þess vegna, að þingið hafi í raun og veru ekki svo ríkt eftirlit með ríkisstjórn hér, að því er varðar einstakar stjórnarathafnir hennar, eins og kannske að sumu leyti væri æskilegt. Það eru önnur atriði, sem þingið meir fylgist með og athugar í hennar störfum. Og ég held, að önnur þau úrræði, sem þingið hefur til eftirlits með stjórnsýslunni, séu ekki sérstaklega virk hér á landi. Það er t.d. búið að gera alveg óvirka þá helmild, sem er þó í stjórnarskránni, að skipa rannsóknarnefndir af þingsins hálfu. Það tíðkast hér ekki. Það eru að vísu kosnir yfirskoðunarmenn árlega til þess að endurskoða reikninga ríkissjóðs, og þeir gera það auðvitað samvizkusamlega. Þeir gera sínar athugasemdir, þær eru lagðar hér fyrir Alþingi, en ég hef ekki orðið þess var, að það væri mikið gert í tilefni af þeim aths., sem þeir gera. Ég held þess vegna. að það sé þörf á eftirliti í einhverri mynd. Þar með er ég ekki að segja, að það þurfi endilega að vera í þessari mynd, sem hér er stungið upp á. Það er hægt að hugsa sér ýmis önnur úrræði í þeim efnum og hægt að hugsa sér ýmis önnur form en gert hefur verið í þessu efni á Norðurlöndum.

Reyndar er það svo, eins og kom fram hjá hv. frsm. og hæstv. forsrh., að þessum málum er mjög misjafnlega fyrir komið á Norðurlöndum, þó að þar séu starfandi umboðsmenn. Og það er náttúrlega ekki alveg rétt, að Danir hafi uppgötvað þetta fyrst, eftir að Svíar höfðu haft þetta hjá sér langa tíð, því að þegar eftir að Finnland öðlaðist sjálfstæði, var 1919 settur þar á fót sérstakur „justitie-ombudsmann“ alveg eins og í Svíþjóð, og í Noregi hafði reyndar verið um alllangt skeið starfandi sérstakur umboðsmaður fyrir varnarmálasýsluna. Enn fremur er það, að þessum málum er mjög misjafnlega fyrir komið, á þann veg, að valdsvið þessara umboðsmanna er mjög mismunandi, eins og hér hefur líka nokkuð verið vikið að. Það má segja, að það sé á vissan hátt langvíðtækast í Svíþjóð. Það er líka nokkuð víðtækt í Danmörku nú orðið. Í fyrstu var það þó takmarkað í Danmörku, þannig að það tók ekki til sveitarstjórnarinnar. En seinna meir og að reynslu fenginni var þetta rýmkað þannig, að það var einnig látið taka til sveitarstjórnaryfirvalda. Í Danmörku tekur eftirlitið til ráðh., en það er, að ég hygg, eina landið, þar sem eftirlit umboðsmanna tekur beinlínis til ráðh. Í Svíþjóð eru þeir alveg undanskildir, og í Noregi eru þeir undanskildir að því leyti, sem athafnir þeirra fara fram í ríkisráði eða með atbeina þjóðhöfðingja. Í Noregi er sveitarstjórnin, að ég held, alveg undanskilin eftirliti umboðsmannsins, og ýmis fleiri afbrigði eru til í þessum efnum. Þetta er vitaskuld allt athugunarefni, og ég efa það ekki, að ef þessi mál eru athuguð, munu fást ýmsar gagnlegar upplýsingar um þetta.

En það, sem ég vildi leggja áherzlu á, er, að ég tel, að hér sé hreyft mjög merkilegu máli, það sé sjálfsagt að athuga það mjög gaumgæfilega. Ég tel nauðsyn á auknu eftirliti af þingsins hálfu með stjórnsýslunni. Ég tel þörf fyrir stjórnsýsluna að fá aukið aðhald. Hvort það á að vera í þessu formi, að setja upp sérstakt embætti, eða með einhverjum öðrum hætti, skal ég ekki segja um á þessu stigi. Það hafa komið hér fram á ýmsum tímum ýmsar hugmyndir í þessu efni. Einu sinni voru t.d. sett hér upp rekstrarráð, sem kölluð voru, til þess að hafa eftirlit með ríkisstofnunum. Það mætti ætla, að þau hefðu ekki gefizt vel, ef litið er til þess, að þau voru lögð niður nokkru síðar. En ýmislegt svona getur komið til álita. Það er alveg rétt, að allt, sem í þessu efni er gert, kostar fé, kostar nokkurt fé. En ég vil segja það, að ef með því er stefnt að auknu réttaröryggi í landinu, má ekki horfa í það, þó að það kosti nokkurt fé, því að svo mörgu er nú til kostað hér á ýmsum sviðum, að þó að það væru launaðir 2—3 menn í þessu skyni, væri ekki í það horfandi, ef það hefði í för með sér aukið réttaröryggi í þessu landi og hinn einstaki borgari yrði þess vegna sannfærðari um það, að sér væri ekki gert rangt til í neinu falli eða öðrum mismunað óhæfilega samanborið við hann. Ef sú sannfæring yrði útbreidd í landinu, væri nokkru til kostandi að mínum dómi. Auðvitað má búast við því, að þessi embætti færist kannske eitthvað í aukana, eins og er um önnur embætti. Ég held þó, að reynslan af Norðurlöndum sé sú, að þessum embættum þar hafi verið haldið innan hóflegra marka. Ég veit það t.d., að á fyrsta starfsári norska umboðsmannsins, 1963, en hann tók til starfa 1. janúar 1963, var starfslið hans það, að það voru þrír lögfræðingar þar á skrifstofunni og þrennt annað starfsfólk. Og sé litið til fólksfjölda í þessu sambandi, ætti að vera hægt að komast af hér með allmiklu færra starfslið en þetta.

En ástæðan sem sagt til þess, að ég stóð upp, var, að mér fannst það koma fram hjá hæstv. forsrh., að hann legði of mikla áherzlu á mínushliðina í þessu, ef svo mætti segja, en tæki ekki fullkomlega með í reikninginn öll þau atriði, sem gera að mínum dómi þinglegt eftirlit hér á landi mjög æskilegt einmitt nú á tímum.