13.04.1966
Sameinað þing: 36. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í D-deild Alþingistíðinda. (2980)

140. mál, takmörkun sjónvarps frá Keflavíkurflugvelli

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þessarar þáltill., en efni hennar er það, að þegar íslenzka sjónvarpið fer af stað, verði Keflavikursjónvarpið takmarkað við herstöðina eina í Keflavík.

Ég vona, að hv. alþm. séu sammála um, að sjónvarpsmálið er mikið vandamál, þ.e.a.s. þessi þáttur þess, sem er starfræksla á hersjónvarpi í landinu, og það vandamál verður að leysa, ástandið í þeim efnum sé óviðunandi. Mér finnst ég hljóti að verða að gera mér vonir um það, að hv. alþm. og hæstv. ríkisstj. geti sameinazt um að leysa það mál á þá lund, sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill.

Að vísu eru ekki flm. þáltill. nema úr tveimur flokkum Alþ., en ég veit, að fleiri hafa áhyggjur af þessu máli en þeir, sem eru í þingliði stjórnarandstöðuflokkanna, og enn fremur, að hæstv. ríkisstj. hefur málið til athugunar, og það er kunnugt, að hæstv. menntmrh. er sammála okkur flm. þessarar þáltill. um, hvernig skynsamlegast muni vera að leysa málið, eins og fram hefur komið hvað eftir annað af hans hendi, og hefur hann ekki farið dult með það. Og af því hlýtur það að leiða, að hann vinnur að því vafalaust að reyna að koma þeirri lausn í framkvæmd.

Ég vil lýsa því yfir, að ein af ástæðunum til þess, að ég er flm. að þessari þáltill., er sú, að ég vil, að það komi alveg skýrt fram, að ég vil styðja hæstv. menntmrh. og þá aðra, sem hafa nú betri aðstöðu til að leysa þetta mál en ég, — ég vil styðja þá í því. Þeir hafa stuðning minn alveg eindreginn með því að koma þeirri lausn í framkvæmd. M.a. af þessu er ég flm. að þessari þáltill., til þess að það liggi alveg ljóst fyrir. Ef það er komið þannig, að það eru einhver veruleg óþægindi við að leysa þetta mál á þann hátt, sem þarf að gera, vil ég taka á mig hluta af þeim óþægindum, og þess vegna flyt ég þáltill.

Ég álit þetta slíkt nauðsynjamál, að það megi enginn draga sig undan að eiga hlut að því að koma þessari lausn í framkvæmd, hér eigi ekki að koma til greina nein pólitísk hliðarsjónarmið af nokkru tagi og þeir, sem eru sammála um það, sem ég vona að verði sem flestir, hv. Alþ, og ríkisstj., að það þurfi að leysa það á þessa lund, taki höndum saman um það, hvað sem öðrum málum líður og hvað sem afstöðu manna líður til annarra málefna eða flokka. Ég tel, að þetta mál sé þannig vaxið, að það þurfi að taka það út úr öllum slíkum efnum, leysa það frá öllum flokkasjónarmiðum.

Af því, sem ég hef nú þegar sagt, leiðir að ég mun ekki ræða aðdraganda þessa máls. Ég mun alveg sleppa því að rekja það, hvernig það ástand hefur skapazt, sem nú er orðið. Ég segi eins og 1. flm., að það eina, sem máli skiptir, er að fá lausn á þessum vanda. Nú vil ég taka fram, þó að það sé kannske óþarfi, vegna þess að hv. þm. er það vel kunnugt, að ég er hinn mesti stuðningsmaður sjónvarps og hef alla tíð verið, frá því að það fyrst kom til orða að setja upp íslenzkt sjónvarp. Og síðan sjónvarpið kom hér frá Keflavíkurflugvelli, hef ég hert um allan helming á stuðningi mínum við íslenzkt sjónvarp. Ég álit, að íslenzka sjónvarpið eigi að vera sem myndarlegast, til þess að það geti komið alveg í staðinn fyrir hersjónvarpið frá varnarliðinu alveg í staðinn fyrir það, — og það sé engin ástæða til þess að skera við nögl sér það, sem til þess á að ganga af fjármunum, svo að það geti þjónað sínu hlutverki vel, og menn geti unað því, að sú breyting verði á að fá það í staðinn fyrir erlenda sjónvarpið.

Ég tel óviðeigandi, að Íslendingar búi við erlent hersjónvarp. En ég flyt ekki þessa till. af því, að ég hafi andúð á því, sem bandarískt er, né vegna þess að ég vilji draga úr vestrænni samvinnu eða samvinnu við Bandaríkjamenn, síður en svo. Þvert á móti er það ein af ástæðunum til þess, að ég vil ekki, að hersjónvarpið verði hér áfram, að ég tel, að það stefni í beina hættu nauðsynlegu samstarfi við Bandaríkjamenn, — í beina hættu nauðsynlegu samstarfi við þá. En ég kem að því ofurlítið síðar, hvernig ég hugsa þetta og hvaða áhyggjur ég hef í því sambandi.

En áður en ég kem að því, vil ég færa rök fyrir því, að sjónvarp frá herstöðinni getur alls ekki og á ekki að mínu viti að koma til mála sem heimilissjónvarp fyrir Íslendinga. En sjónvarp snertir daglegt líf manna í landinu meira en flest annað, því að segja má, að á hverju kvöldi, á flestum heimilum, horfi menn og hlusti á sjónvarp meira og minna, sumpart einstaklingar í fjölskyldunum og sumpart fjölskyldurnar allar. Það ætti ekki að þurfa að deila um, að það er ekki heppilegt, að hermálaráðuneyti erlendrar þjóðar ráði heimilissjónvarpi nokkurrar þjóðar, t.d. heimilissjónvarpi Íslendinga, og það er sannast að segja sárgrætilegt, að um það skuli vera deilur í landinu, að það skuli ekki talinn sjálfsagður hlutur, að slíkt geti ekki komið til mála. Hvaða þjóð ætli geti hugsað sér að hafa sem heimilissjónvarp hjá sér sjónvarpsstöð, sem rekin er af hermálaráðuneyti annarrar þjóðar og efnið búið út í hermálaráðuneyti þeirrar þjóðar og miðað við, að það skuli skemmta hermönnum, sem dveljast fjarri heimastöðvum sínum? En það er vitanlegt, að sjónvarp, sem er rekið á þennan hátt, er fyrst og fremst miðað við þarfir hermannanna, enda þarf ekki lengi að kynnast þessu varnarliðssjónvarpi til þess að sjá, að því fer fjarri, að það sé heppilegt heimilissjónvarp. Ætla ég ekki að fara að færa dæmi að því hér. Satt að segja álit ég, að hv. alþm. séu og hljóti að vera alveg færir um að gera sér grein fyrir því, að þetta sjónvarp verður fyrir hermennina og það er gert úr garði fyrir þá og rekið af hermálaráðuneyti hlutaðeigandi lands í því skyni. Þetta er alveg nægilegt út af fyrir sig til þess að sjá, að það er ekki heppilegt fyrir Íslendinga að hafa slíkt sem heimilissjónvarp. Ég álít, að það eigi ekki að koma til mála að tengja sjónvarp í landinu á einn eða annan hátt við dvöl varnarliðs í landinu og það sé mjög þýðingarmikið sjálfstæðis- og menningarmál fyrir Íslendinga að breyta til aftur frá því, sem nú hefur tíðkazt um skeið í þessu tilliti. Það er mjög óskynsamlegt á allan hátt að binda slíkan þátt í þjóðlífinu sem sjónvarp, jafnstórkostlegan hátt í heimilislífinu, við dvöl erlends varnarliðs í landinu. Það er mjög óhyggilegt, og satt að segja vona ég, að við verðum öll sammála um, að við þurfum að losa okkur út úr þessum vanda með því að slíta þetta tvennt alveg í sundur.

Ég kem aðeins aftur að þessu, hvort þetta sjónvarp henti fyrir íslenzk heimili og hvaða vandkvæði það hefur skapað í landinu, að þetta sjónvarp er rekið og Íslendingar hafa tekið að horfa á það.

Ég held, að það sé ekki ofsögum sagt, að þessi framkvæmd, að farið var að láta hersjónvarpið ná til Íslendinga, hafi skapað vandamál á flestum íslenzkum heimilum á því svæði, sem það getur náð til. Ég held, að það sé ekki of mikið sagt, að það hefur skapað vandamál á flestum íslenzkum heimilum á þessu svæði. Í fyrsta lagi hefur það vandamál komið upp á flestöllum heimilum, hvort ætti að fá sér sjónvarpstæki til þess að setja sig í samband við herstöðina á Keflavíkurflugvelli eða ekki. Og það eru ekki fá heimili á þessu svæði, þar sem þetta hefur orðið mikið vandamál og viðkvæmt vandamál og viðkvæmt á þann hátt, að það er hvorki heppilegt fyrir Íslendinga né Bandaríkjamenn, það er alveg víst, viðkvæmt á þann hátt, að það hefði verið bezt fyrir báða, að slíkt hefði ekki komið upp. Í annan stað ætla ég, að það séu ekki neinar ýkjur, að þar sem þetta sjónvarp er komið, verður það víða að stórfelldu vandamáli á heimilinu. Það kemur nefnilega upp það vandamál víðast hvar, að hve miklu leyti íslenzka útvarpið, og svo íslenzka sjónvarpið, þegar það kemur, skuli víkja fyrir hersjónvarpinu. Það verður ákvörðunarvandamál nálega daglega á öllum þessum heimilum og það oft ekki neitt smávægilegt vandamál og vandamál af því tagi, sem ég býst við að væri bezt fyrir báða aðila, sem hér eiga hlut að máli, að væri tekið á brott. Á flestum heimilum er þannig ástatt, að því er varðar húsakynni og alla aðstöðu, að það er ekki hægt að gera hvort tveggja í senn, að fylgjast með íslenzkri útvarpsdagskrá og sjónvarpinu frá Keflavík. Það verður því að gera upp við sig á þessum heimilum oft á dag, hvort skuli víkja. Og ef það verður nú t.d. ofan á, að íslenzka útvarpið skuli víkja, við skulum segja að staðaldri, hvað er þá skeð? Þá er það skeð, að sú fjölskylda, þar sem slíkt verður ofan á að staðaldri, er í raun og veru að verulegu leyti flutt úr íslenzku menningarumhverfi og yfir í bandarískt, og þetta getur gengið svo langt, góðir hálsar, og orðið svo alvarlegt mál, að það geta orðið hundruð heimila á Íslandi, jafnvel þúsundir, sem fylgjast ekki með íslenzku útvarpi og kannske ekki heldur íslenzku sjónvarpi, eftir að það verður komið, kannske varla með fréttum. Ég hygg, að við getum öll séð þetta, ef við viljum hugsa um þetta öfgalaust, og við þekkjum þennan vanda vafalaust meira og minna.

Nú vil ég segja það sem mína skoðun, að ég tel, að þessi vandi minnki fremur við íslenzka sjónvarpið, ef það verður myndarlegt, heldur en vaxi, vegna þess að ég tel, að það mundu verða fleiri, sem mundu þó horfa á íslenzkt sjónvarp heldur en bandarískt, en hinir, sem hlusta á íslenzkt útvarp fremur en bandarískt sjónvarp. En því fer alls fjarri, að vandamálið sé úr sögunni, þó að komi íslenzkt sjónvarp. Því fer alls fjarri, þó að það minnki eitthvað frá því ofboðslega ástandi, sem nú er í þessum efnum. Því tel ég, að við ættum öll að sameinast um að fara þá einu leið, sem til er í þessu sæmileg, og hún er sú, að um leið og við setjum upp myndarlegt sjónvarp, þá förum við að eins og aðrar þjóðir, þar sem erlent varnarlið er, að við skiljum þar á milli. Varnarliðið getur vitaskuld haft sjónvarp fyrir sig, meðan það er. Það kemur okkur ekki við, þar eigum við að skilja á milli, eins og aðrar þjóðir gera, þar sem erlent varnarlið er. Við eigum að hafa sama hátt á og leiðrétta það, sem gerzt hefur, og sannast að segja ættu ekki að þurfa að vera um þetta neinar deilur og íslenzkir sjónvarpsnotendur ættu ekki að þurfa að hafa af þessu neinar áhyggjur, vegna þess að við eigum að vera menn til þess að hafa okkar sjónvarp sæmilega myndarlegt. Við eigum að hafa í því íslenzkt efni, og við eigum líka að hafa í því mikið erlent efni. En það hættulegasta við Keflavíkursjónvarpið er auðvitað ekki það, að menn horfi á erlenda þætti í sjónvarpi, heldur hitt, að menn þurfa bókstaflega að velja, menn geta ekki gert hvort tveggja í senn að fylgjast með íslenzku ríkisútvarpi að neinu ráði og með bandaríska sjónvarpinu. Menn geta ekki heldur fylgzt með íslenzku sjónvarpi, þegar það kemur, að neinu ráði og fylgzt líka með bandaríska sjónvarpinu. Þennan vanda eigum við að sjálfsögðu að leysa á þennan einfalda hátt.

Ég geri fastlega ráð fyrir því, að ef menn hefðu álitið, að ástandið yrði eins og það hefur orðið, þá hefði engum dottið í hug að leyfa, að sjónvarpið á Keflavíkurflugvelli næði til landsmanna, — ef menn hefðu gert sér grein fyrir því, að ástandið yrði á þessa lund. Ég er alveg sannfærður um það og vil segja það hér, nota tækifærið til þess að segja það hér, að þessi látlausa viðureign, sem nú stendur á þúsundum íslenzkra heimila um þetta mál, og þessi sífelldi styr og barátta, sem hlýtur að standa um hersjónvarpið, á meðan það er, þetta hlýtur að magna óvild í garð Bandaríkjamanna hjá mörgum. Það er óhugsandi annað. Það er alveg óhugsandi annað en þetta magni óvild, og við megum allra sízt við því, að hún festi rætur. Þetta er alveg víst, að svona er þetta, því að það verða alltaf þúsundir og aftur þúsundir og tugir þúsunda í landinu, sem betur fer, sem sætta sig ekki við þetta. Og fjöldinn allur af því fólki, sem þannig hugsar, er í raun og veru meðal beztu stuðningsmanna vestrænnar samvinnu og mundi ekkert fremur vilja en sem allra bezta samvinnu við Bandaríkjamenn, sem nú um skeið hafa haft hér varnarlið í landinu. En það er alveg óhugsandi, að þetta fái staðið öðruvísi en að afleiðingarnar verði óvild, ef þetta verður látið halda áfram á þessa lund, og jafnvel þó að íslenzka sjónvarpið komi, þá skiptum við bara þjóðinni um sjónvörpin.

Það þýðir ekkert að láta sem svo, að sjónvarp sé ekki þýðingarmikill þáttur í lífi manna, eða líkja því við kvikmyndahús eða annað slíkt, sem er algerlega út í hött. Sjónvarpið kemur inn á hvert einasta heimili eftir örskamman tíma á hverjum einasta degi, en það gera bíóin ekki. Það er alger hugsanavilla að bera slíkt saman, og ég vona, að það eigi ekki eftir að heyrast hér í sölum Alþingis. En ef þessu heldur áfram á þessa lund, verður þetta þannig alveg vafalaust, að nokkur hluti þjóðarinnar telur sig ekki mega án þess vera að hafa bandarískt sjónvarp. Nokkur hluti þjóðarinnar verður þannig. Þeir, sem velja þann kostinn að slíta sig úr tengslum við íslenzkt útvarp og íslenzkt sjónvarp og halla sér að hinu, sem alltaf verður einhver talsverður hópur, mun sækja það með miklu kappi, kannske vaxandi kappi, að hafa þetta samband. En svo verður aftur á móti mikill hluti þjóðarinnar, sem heldur uppi harðri baráttu gegn þeim áhrifum, sem erlent herstöðvasjónvarp hefur í landinu, og þetta verður að óbreyttu ástandi eða a.m.k. þangað til varnarliðið þá færi og þar með sjónvarpið, eitt viðkvæmasta og erfiðasta deilumál í landinu og nátengt varnarmálunum. Auðvitað nær ekki nokkurri átt að halda þessu áfram, og það ætti að vera alveg sjálfsagður hlutur, að við sameinuðumst öll um það að breyta þarna til á þennan einfalda hátt, sem við höfum tækifæri til núna, þegar íslenzka sjónvarpið tekur til starfa.

Alls konar misskilningur hefur komið upp í sambandi við þetta mál, sem áreiðanlega leiðréttist, ef þetta er rætt skynsamlega og ekki af neinum ofsa, t.d. eins og það, sem hefur komið fram og maður hefur heyrt, að það væri einhver sérstök frelsisskerðing í því að gera þá ráðstöfun, að Keflavíkursjónvarpið verði bundið við varnarstöðina eina. En vitanlega er þetta byggt á algerum misskilningi, og ég vona, að það komi ekki fram hér á Alþ., að þessu verði blandað inn í málið. Við sjáum þetta bezt á því, að enginn mundi vilja halda því fram, að það sé ámælisverð frelsisskerðing í því fólgin, að Íslendingum er yfirleitt ekki leyft að flykkjast inn í varnarstöðina til að sækja skemmtanir á vegum varnarliðsins eða hafa þar samneyti við varnarliðið. Ég veit ekki betur en allir hafi verið nokkurn veginn sammála um, að það væri sjálfsagt að reyna af fremsta megni að halda herliðinu sér, ef við gætum orðað það þannig, þjóðlífinu sér og herlífinu sér, eins og frekast væri mögulegt. En vitanlega er ekki til stórfelldara brot á þeirri reglu en að láta hersjónvarpið koma inn á íslenzk heimili, enda er mér ekki kunnugt um, að það sé nokkurs staðar þannig, að hver sem er geti rekið sjónvarp.

Það er alls staðar ríkisvaldið, sem áskilur sér rétt til þess að ákveða það, hverjir reki sjónvarp, og þannig á það að sjálfsögðu einnig að vera hér. Við getum ekki tekið upp þá stefnu, að hver sem er geti rekið sjónvarp, og sættum okkur ekki við, að það sé kölluð frelsisskerðing, ef ekki er á slíkt fallizt. Það kemur heldur ekkert þessu máli við, þó að svo kynni að fara síðar, að sjónvarp nái meira á milli landa en nú er og þá til okkar erlendis frá, því að þá yrðum við alveg í sama báti og aðrar þjóðir í því tilliti, og þá yrði það sjónvarp frá venjulegum sjónvarpsstöðvum, en ekki sjónvarpsstöðvum, sem sérstaklega væru bundnar við að þjóna herliði, og slíkt sjónvarp mundi ekki á nokkurn hátt verða tengt við dvöl varnarliðs á Íslandi.

Mín ályktunarorð í þessu efni eru því þau, að ég tel, að erlent hersjónvarp í landinu verði sífellt ásteytingarsteinn og hörkulega umdeilt mál og því hinn versti skaðvaldur góðri sambúð og nauðsynlegri samvinnu Íslendinga og Bandaríkjamanna. Ég álít, að erlent sjónvarp, sem er miðað við þarfir hermanna, sem dveljast fjarri heimilum sínum, sé alls ekki þannig vaxið, að það eigi að koma til mála, að það sé heimilissjónvarp Íslendinga. Þess vegna finnst mér ekki vera nema um eina leið að ræða, og hún er sú að takmarka sjónvarpið við herstöðina eina, og tækifærið til þess að gera þetta sé einmitt nú, þegar íslenzka sjónvarpið tekur til starfa. Ég vil gera mér vonir um, að um þetta náist viðtækt samkomulag, bæði á Alþ. og við hæstv. ríkisstj., og að hún sjái sér fært að fallast á þessa stefnu, sem hæstv. menntmrh. hefur lýst sig fylgjandi. Þátttaka mín í flutningi þessarar þáltill. á m.a. að taka af allan vafa um, að ég vil vinna að þessu með öllum þeim, sem þessa stefnu vilja taka upp, og álit, að um það ættu að myndast víðtæk samtök, utan og ofan við allar deilur.