13.04.1966
Sameinað þing: 36. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (2983)

140. mál, takmörkun sjónvarps frá Keflavíkurflugvelli

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, því að ég hef lofað forseta að tefja ekki afgreiðslu málsins. Það er mín helzta ósk, að málið komist áfram sem allra fyrst, og ég vil því ekki segja hér nema aðeins fáar setningar.

Hv. seinasti ræðumaður lagði mikla áherzlu á, hve stór hópur hefði skorað á Alþ. og stæði hans megin í málinu, og gat þess, að þar hefðu verið á ferðinni yfir 14 þús. sjónvarpsnotendur. Ég vildi aðeins láta það koma fram, að í hans sporum mundi ég blygðast mín fyrir að nefna þessa lista máli mínu til stuðnings. Ég vil aðeins spyrja hv. þm., hvort hann hafi skoðað þessa lista. Ég efast um, að honum finnist það viðeigandi, að hv. alþm. taki mark á mönnum, sem segjast vera að safna undirskriftum meðal Íslendinga 18 ára og eldri, en þó þarf ekki annað en skoða þessa lista lítillega til að sjá, að þar úir og grúir af börnum og unglingum, — já, þar eru jafnvel 8 ára pottormar að skora á Alþ. Nei, þessir undirskriftalistar, sem félag sjónvarpsaðdáenda sendi Alþ., eru vissulega hreint hneyksli, og ég held, að það væri betra fyrir okkur báða að reyna að gleyma þeim sem fyrst.