10.12.1965
Neðri deild: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti.

Frv. það, sem hér er um að ræða, er um ráðstafanir til þess að bæta fjárhag rafmagnsveitna ríkisins. Fyrirsögn frv. felur það í sér, að fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins sé ekki eins góður og hann þyrfti að vera. Orsakir til þess þekkja hv. alþm., að ég ætla. Ástæðan til þess er sú, að það er kostnaðarsamt að leggja dreifiveitur um strjálbýlið. Það er 20 sinnum lengra til jafnaðar hjá rafmagnsveitum ríkisins heldur en í þéttbýlinu, t.d. hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Enda þótt raforkuverð hafi verið allmiklu hærra hjá rafmagnsveitum ríkisins heldur en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og á öðrum þéttbýlisstöðum, hefur myndazt halli hjá veitunum, og hefur þótt útilokað, að sá halli yrði jafnaður með því að hækka orkugjaldið hjá þeim, sem á því svæði búa.

Þetta frv. er í rauninni fjórþætt. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir algerri eftirgjöf lána, sem rafmagnsveitum ríkisins hafa verið veitt á undanförnum árum samkv. sérstakri heimild í fjárl., en það er 1. gr. frv., sem kveður á um það. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að frestað verði vaxta- og afborganagreiðslum af skuld við raforkusjóð. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að gefa eftir skuld við ríkisábyrgðasjóð, sem er 96 millj. kr. Og í fjórða lagi er þeim fyrirtækjum, sem vinna raforku og/eða selja hana í heildsölu, gert að greiða verðjöfnunargjald.

Eftirgjöf lána og afborgunarfrestur og vaxtafrestur af skuld við raforkusjóð gera rúml. 20 millj. kr. Eigi að síður væri halli rafmagnsveitna ríkisins á næsta ári 35 millj. kr., þótt þessar eftirgjafir kæmu til. Og til þess að jafna þennan halla er gert ráð fyrir að leggja á gjald í heildsölu, sem nemur 200 kr. á hvert kw. í aflstöð og 2 aurum á hverja kwst. Má gera ráð fyrir, að hækkun á raforkuverði í smásölu nemi 8—10% með þessu álagi.

Það má vera, að ýmsir telji, að það hafi ekki verið rétt að taka þær 40 millj. kr. út af fjárl., sem eru á fjárl. 1965, og taka svo til þess ráðs að jafna hallann að mestu leyti með verðjöfnunargjaldi. Þetta leiðir til þess að hækka raforkuverð í landinu. Það er ekki nema eðlilegt, að menn hafi skiptar skoðanir um þetta. En ég verð þó að segja, að með því að gefa eftir lán, eins og hér hefur verið talað um, og setja á verðjöfnun, eins og hér er um að ræða, er verið að viðurkenna, að þeir, sem betur eru settir og hafa ódýra raforku, vilji koma til aðstoðar þeim, sem verst eru settir. Oft hefur verið talað um, að það ætti að koma á allsherjarverðjöfnun á rafmagni, það væri ranglátt, að raforkuverðið væri svo misjafnlega hátt sem það nú hefur verið og það vitanlega verður þrátt fyrir það, þótt þetta frv. verði að lögum. En sjálfsagt er að viðurkenna það, að með því að ríkið veitir á fjári. árlega upphæð til þess að leggja rafveitur út um land og með því að það gefur eftir hundruð milljóna í lánum, er það út af fyrir sig stórkostlegt spor í áttina til verðjöfnunar, enda þótt það eitt hafi alls ekki nægt og enda þótt þessar ráðstafanir séu gerðar, hljóti að vera talsverður munur á rafmagnsverði í dreifbýlinu og í þéttbýlinu. Ég segi: Þetta er vitanlega stórt spor í verðjöfnunarátt, og þegar gert er ráð fyrir því að leggja raforkugjald á allar aflstöðvar, er það vitanlega annað spor í verðjöfnunarátt. Og það er viðurkenning á því, að það sé ekki unnt að jafna hallann með því að láta þá, sem búa í dreifbýlinu, bera kostnaðinn af rafveitunni.

Við höfum lög um Landsvirkjun, sem voru samþ. á síðasta þingi. Með þeim l. er að því stefnt að virkja þar, sem hagstæðast er, og gera stærri virkjanir en áður hefur verið fært að gera. Það er að því stefnt í framtíðinni að tengja orkuver saman og skapa stórar heildir. Og enginn vafi er á því, að með þessari stefnu skapast jarðvegur fyrir frekari verðjöfnun á rafmagni en verið hefur, og enginn vafi á því, að í framtíðinni kemur frekari verðjöfnun en hingað til hefur verið fært að hafa, og þessi leið hlýtur að hafa sinn tíma, þangað til eðlilegt er og fært þykir að framkvæma hana.

Gert er ráð fyrir því, að raforkusala til áburðarverksmiðjunnar verði ekki gjaldstofn til greiðslu verðjöfnunargjalds, og geri ég ráð fyrir því, að hv. alþm. telji það eðlilegt, vegna þess að það mundi leiða til þess, að áburðarverðið hlyti að hækka, en áburðarverðið gengur inn í verðlagið og snertir alla landsmenn. Þá er sérstakt ákvæði vegna aflgjalds umframálags að nóttu vegna orkuveitusvæðis Laxárvirkjunar. Að öðru leyti skýra greinar frv. sig sjálfar, og grg. skýrir tilgang frv., það markmið, sem ætlað er að ná með því, og þess vegna er, að ég tel, að svo stöddu óþarft að fjölyrða meira um málið.

Herra forseti. Ég vil leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.