27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (2998)

143. mál, verksmiðja á Skagaströnd, er framleiði sjólax

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þessari spurningu hv. ræðumanns svaraði ég þegar áðan. Það er upplýst, að þær verksmiðjur, sem nú eru þegar fyrir hendi, geta miklu meira en fullnægt þeim markaðsmöguleikum, sem nú eru fyrir hendi um þessa vöru. Fram hjá því komumst við ekki. Sjólax skal ég ekki um segja, en hv. þm. var að tala um niðurlagningarverksmiðjur, og það var sú spurning, sem hann var að spyrja mig um. Ég var að svara þeirri spurningu. Ég tala ekkert um sjólax, bezt að halda sig að því, sem ég var að spurður. Og ríkisstj. hefur ekki hugsað sér að reyna að hafa vit fyrir aðilum um það. Ef einhverjir vilja hætta fé sínu til þess að framleiða í þennan yfirfyllta mjög þrönga markað, sem að vísu opnaðist í Sovétríkjunum, þá þeir um það. En það væri að gefa Skagstrendingum steina fyrir brauð, ef ætti að fara að segja þeim að keppa á þeim markaði t.d. við Siglfirðinga og Akureyringa.