27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (2999)

143. mál, verksmiðja á Skagaströnd, er framleiði sjólax

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér eiginlega ekki að blanda mér mikið í þessar umr.

Ég tók þessa þáltill. frekar sem kosningaáróður heldur en alvarlega. Annars erum við ákaflega heppnir með það í Norðurlandskjördæmi vestra að fá svona áhugasama menn að í atvinnumálunum. En ég dreg það í efa, að Skagstrendingar sjálfir séu neitt sérstaklega hrifnir af þessum sífellda barlómi um atvinnuleysi og eymd, sem þar eigi að vera. Ég þekki fólk þar allvel, og ég held, að því þyki það heldur leitt, og það er ævinlega, ef út að fara að betla út einhverja peninga, þá kemur það í útvarpi og blöðum, að þetta sé við það hallærisástand. Ég hef spurzt fyrir um atvinnuleysi í þessum kauptúnum fyrir norðan, t.d. á Sauðárkróki og Siglufirði, menn, sem hafa komið hér suður. Þeir segja, að það hafi allir nóg að gera, og Skagstrendingar eru margir hér fyrir sunnan á bátum og aðrir eru að veiða grásleppu heima hjá sér. Ég held, að það séu eitthvað sextán úthöld til þess að veiða grásleppu, og ég efast um, að það séu aðrir menn á landinu, sem hafa meiri tekjur en þeir, sem eru á grásleppuveiðunum, þannig að ég held, að það liggi ekkert við hallæri eða hungursneyð þarna.

En hvað um það, það er ágætt að finna upp nýja hluti, og mjög mikils virði, að menn séu áhugasamir um það, ef það er vel upp byggt og skynsamlegt. En ég kynnti mér þetta viðvíkjandi þessari niðursuðu. Ég átti kost á að fljóta með á þessari þáltill. Ég talaði við Tryggva Ófeigsson, því að ég hef mikil skipti við hann í vetur, og við fórum yfir þessa reikninga. Hann lætur sjóða niður sjólax, og hann hefur fullkomin tæki, að hann sagði mér, og þetta er allt saman gamaluppbyggt, þannig að þetta stendur í litlu verði. Hann taldi, að það væri rúmlega krónu tap á einni smádós. Hann lætur gera þetta, þegar fólkið hefur ekkert annað að gera hjá honum, ef hann vantar fisk í húsið. Hann telur það betra en að borga fólkinu kaup fyrir að gera ekki neitt, því að frystihúsin hérna verða að borga fólkinu, hvort sem það vinnur eða ekki, því að annars tapa þau því? Það verður að borga því vissa tryggingu, og það er þannig hérna við Faxaflóa, þar sem mest er eftirspurn eftir vinnu, og það gerir sitt til að gera vinnsluna dýra á fiskafurðum, þegar þarf að borga kaup, þótt ekki sé unnið. Tryggvi lét vinna dálítið af sjólaxi eftir áramót, meðan hann hafði ekki fisk til þess að vinna í frystihúsinu, til þess að þurfa ekki að borga fólkinu fyrir að gera ekki neitt. Við vorum að athuga viðvíkjandi nýrri verksmiðju, að þá mundi tapið verða hátt á aðra krónu á hverja smádós. Tryggvi sagði, að það stæði ekkert á að selja, verðið væri bara þetta lágt og síðan 1961 hefði kaupið hækkað svona gífurlega, sem ekki er raunar óeðlilegt. Það, sem bar sig 1961 hjá honum með sjólaxinn, það ber sig ekki í dag. Verðbólgan segir til sín á því sviði eins og öðrum.

En það er ekkert nema gott um það að segja, ef við getum haft meira upp úr vinnunni við að sjóða niður vöruna heldur en annað, en það þýðir ekkert að vera að flana í það upp á annað. Það þýðir ekkert að vera að flana í það, ef það er ekkert nema skaðinn af því.

Ég talaði líka við verksmiðjustjórann á Siglufirði, og hann taldi, að þetta rússneska verð væri of lágt, til þess að það bæri sig.

Mér er sagt, að verksmiðjan í Hafnarfirði, sem við gerðum okkur miklar vonir um, vegna þess að það voru líkur til, að hún seldi vel, að það sé hagkvæmast, að hún sé ekki rekin, því að það sé 40 þús. kr. tap á dag, ef hún sé í fullum gangi. Það sé ódýrast að láta hana standa, vegna þess að vinnutæknin sé enn þá það miklu minni hérna, það séu svo miklu minni afköst en í Noregi. Ég get nú ekki skilið það, að Íslendingar geti ekki með tímanum lært vinnutækni á við aðra. Ég held, að það hljóti að koma smám saman. Og það er ekkert nema gott um þetta að segja, en menn verða að byggja þetta upp á heilbrigðum grundvelli.

Svo er allt vel um það, að ríkið greiði fyrir hlutunum, og ég er alveg á því. En við megum ekki vera að ala það upp fólkinu,að það eigi að heimta allt af ríkinu og byggja allt upp á þeim grundvelli, að ríkið eigi að sjá því farborða með alla hluti. Siglufjarðarbær hefur byggt allt of mikið á þessu. Það vantar einstaklingsframtakið þarna. Svo þegar þetta bregzt, eins og er með ríkisfyrirtækin, að þau séu starfrækt, eða hráefni vantar, eins og hefur komið fyrir á Siglufirði og jafnvel er þar enn í dag, þá er ekki neitt fyrir fólkið að gera. Ólafsfjörður hefur treyst á sjálfan sig. Hann er verr settur en Siglufjörður, en þar bara er enginn að kvarta. Húsavík hefur byggt sig upp sjálf, ekki með neinu betli eða væli. Þeir standa sig vel þar.

Ég get sagt ykkur, hvað þarf að gera á Húnaflóa, það er ósköp einfalt. Í fyrsta lagi, meðan grásleppuveiðin er þetta mikil, þá gefur hún góðar tekjur. Í öðru lagi á að hjálpa sjómönnunum til þess að kaupa hæfilega stór skip, og það á að leyfa þeim undanþágur til togveiða vissan tíma ársins á vissum svæðum í flóanum með því skilyrði. að þeir leggi upp í Hólmavík og Skagaströnd, og ef þetta er gert, þá er nóg vinna, og þetta gerir flóanum ekkert til. Það er alveg eins gott að leyfa þeim þessa undanþágu með t.d. þrjá báta eða eitthvað svoleiðis og aðstoða þá við að kaupa þá, — það er ekkert meira að aðstoða sjómennina á Skagaströnd og Hólmavík heldur en að lána einhverjum útgerðarmönnum. Og ef þeir eru aðstoðaðir til þess arna og þessi undanþága er leyfð, þá eru þeir á þurru og þorpið líka. Og svo er þarna rækjuveiði og fleiri möguleikar, þannig að það er enginn vandi að hafa þarna góða afkomu, ef fólkið hefur bara kjark og framtakssemi til þess, sem ég veit að það hefur, ef það er rétt á hlutunum haldið og það fær eðlilega aðstoð. Og ég geri mér vonir um, að þessi atvinnujöfnunarsjóður geti bætt úr þessu.

Það er alveg eins gott að leyfa kauptúnunum í kringum Húnaflóa undanþágu í þessu efni eins og að láta Vestmanneyingana toga á góðum hrygningarsvæðum allt árið um kring án þess að hafa leyfi. Þetta vita allir, að þeir gera það. Í sannleika sagt er þetta ekki rétt. Annaðhvort er að taka fyrir hlutina eða leyfa þá, og ég held, að skynsamlegasta lausnin fyrir Suðurlandinu sé að veita einhverjar vissar undanþágur á einhverjum vissum svæðum, a.m.k. einhverja vissa tíma ársins og framfylgja því, að þær reglur séu ekki brotnar, heldur en að líta alla vera að brjóta og sekta þá og gefa svo sektirnar eftir. Ég játa það, að það er ekki hægt að taka drjúga prósentu af skipstjórum Vestmanneyinga og stinga þeim í tugthúsið eða eitthvað því um líkt. En það þarf bara að hafa reglurnar það skynsamlegar, að það sé hægt að fara eftir þeim. Og ég held, að framtíðin þarna fyrir norðan sé þannig. Þeir hafa fengið undanþágu með dragnótina, og það veiddist vel, ekki s.l. sumar, heldur hitt, þá veiddu þeir vel, lakar í sumar. En hins vegar er nú það einkennilega víð það, að nú virtist ýsan veiðast bezt, þar sem þeir höfðu verið með dragnótina, þannig að það er alls ekki vísindalega sannað, að dragnótin sé á allan hátt til skaða. Það getur vel verið, að hún lagi botninn þannig, að hann batni sem hrygningarstöðvar og ýsan nái frekar í æti, þegar búið sé að ýfa upp botninn, og sæki meira á þau svæði. Þetta er alls ekki rannsakað mál. en þetta þarf auðvitað allt að rannsakast og allt að vera í hófi. En ég álít, að byggðarlögin fyrir norðan þurfi að fá leyfi til þess að hafa takmarkaða bátatölu, við getum sagt á vissum svæðum og kannske ekki nema vissa tíma ársins, og þá sé allt atvinnuleysi búið á þessum stöðum. Og það á að hjálpa einstaklingunum til að gera þetta án allrar hlutdrægni og ekkert að vera að fara í neinn pólitískan eltingaleik út af því. Fólkið þarf að lifa, í hvaða flokki sem það er, og aðstoða þarf efnilega menn við svona hluti.

Það er einn ungur og efnilegur maður á Skagaströnd, sem er að byrja á fiskherzlu. Það er mál út af fyrir sig. Sennilega er hægt að hafa miklu meira upp úr fiskinum á þann hátt að fá sér vélar til þess að þurrka fiskinn. Og það er fleira, sem kemur til greina. En það þýðir ekkert að vera alltaf heimtandi allt af ríkinu og alltaf að kvarta og væla. Við verðum að treysta á sjálfa okkur, og svo þarf ríkisvaldið að aðstoða með lánum og á heilbrigðan og skynsamlegan hátt þá einstaklinga, sem líklegt er að hafi vilja og getu til að framkvæma hlutina, aðstoða þá til að gera hlutina, og þannig eigum við að byggja okkar kauptún upp og okkar menningu.