27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (3000)

143. mál, verksmiðja á Skagaströnd, er framleiði sjólax

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Mér þykir leiðinlegt að þurfa að leiðrétta flokksbróður minn hér úr ræðustól þessarar hv. d., en ég held, að ég verði nú að gera það samt.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. fullyrti hér úr þessum ræðustól, að það hefði ekki verið neitt atvinnuleysi á Siglufirði og stöðum norðanlands, Sauðárkróki og Skagaströnd, í vetur. Ég tel mig hafa það vel fylgzt með málum þar í vetur, að því miður hefur verið þar atvinnuleysi.

Fjölmennasta byggðarlagið á þessu svæði er Siglufjörður. Þar eru aðalatvinnutækin yfir veturinn hraðfrystihús síldarverksmiðja ríkisins og niðurlagningarverksmiðja, sem var byggð og komið upp með aðstoð þess opinbera á myndarlegan hátt. Hraðfrystihúsið hefur ekki haft nægileg hráefni. Veldur því fyrst og fremst gæftaleysi, og þar er hvergi nærri nógur skipakostur. Fjöldi Siglfirðinga keyptu sér trillur á s.l. árum og reru haust og vor, en veðurfar og fiskigengd hefur veríð þannig, að það hefur verið sáralítill afli á trillurnar. Stærri bátar, sem eru tveir og þrír, fiska hvergi nærri nóg til þess að skapa varanlega vetraratvinnu í hraðfrystihúsi S.R. Það er útgerðarmaður á Siglufirði, sem hefur með myndarbrag á undanförnum árum rekið hraðfrystihús sitt, en ég veit ekki betur en hann hafi lokað því og það fyrir nokkru. Á Siglufirði er starfandi tunnuverksmiðja, sem að sjálfsögðu ætti að reka allan sólarhringinn, í staðinn fyrir að hún er rekin í aðeins 7—8 mánuði, 8 tíma á dag. Tunnurnar íslenzku þykja nokkuð dýrar, og meiri hlutinn af tunnum, sem notaðar eru hér, er fluttur að frá útlöndum. Því miður er staðreyndin sú, að það hefur verið atvinnuleysi á Siglufirði s.l. vetur, þrátt fyrir það að fjöldi verkafólks er fluttur þaðan, og margir búandi menn á Siglufirði eru við sjóróðra hér sunnanlands, en það er ekki æskilegt fyrirkomulag. Það er ekki æskilegt fyrirkomulag, að verkamenn og sjómenn þurfi að vera fjarri heimilum sínum í 7—8 mánuði. A.m.k. finnst mér ekki, að umbjóðendur þeirra hér á þingi ættu svo að koma og segja, að það sé allt í stakasta lagi hjá þessu fólki. Það held ég, að þeir ættu ekki að gera.

Á Sauðárkróki er einnig atvinnuleysi. Allar þær hendur, sem vilja vinna á Sauðárkróki, hafa ekki nægileg verkefni. Ég hef engan heyrt halda öðru fram. Vinnufærar hendur á Sauðárkróki, karla og kvenna, hafa ekki nægileg verkefni, og það hefur alltaf verið á Íslandi árstíðabundið atvinnuleysi á þessum stöðum. Og allar vinnufærar hendur á Skagaströnd — fyrst er verið að gera sérstaklega þessa staði að umræðuefni hér — hafa ekki heldur nóg að gera. Það er ekki hægt að segja, að allir Skagstrendingar séu ánægðir með sinn hag og að þeir geti lifað af grásleppuveiðum.

Í sambandi við þá till. til þál., sem hér liggur fyrir, er það að segja, að hún ber með sér ríka löngun fulltrúa þriggja flokka í þessu kjördæmi, Norðurl. v., til að brydda upp á einhverju nýju í atvinnumálum eins og sjólaxverksmiðju. Hitt er alveg rétt, eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh., að á Siglufirði er niðursuðuverksmiðja, og það er ekki hægt að selja allar hennar vörur, aðeins það, sem hún afkastar 3—4 mánuði eða 5 mánuði. Það virðist, að það þyrfti að athuga þetta mál eitthvað meira. En það er alveg óumdeilanlegt, að það þarf að koma upp iðnaði á þessum stöðum norðanlands, ef við viljum, að þar sé áframhaldandi byggð.

Þegar við frá bæjarstjórn Siglufjarðar vorum að ræða við hæstv. ríkisstj. á árunum 1949—1956 um vandamál Siglfirðinga, þá greiddu þeir fyrir því manna mest, hæstv. fjmrh., sem þá var, Eysteinn Jónsson, og hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, að Siglufjörður fékk margvíslega hjálp og aðstoð. Þeir sögðu báðir, þessir ráðherrar: Það er eðlilegt, að ríkisvaldið styðji að verulegri og varanlegri byggð á þessum stöðum. Þegar síldaraflinn kemur aftur að Norðurlandi, þarf fólk að vera fyrir hendi til að vinna við síldaraflann, sem berst að landi.

Ég hef gert grein fyrir því hér í ræðu, hve mikið er hægt að vinna að útflutningsverðmæti í milljónum kr. á sólarhring á þessum stöðum, þegar afli berst að landi, en það verður náttúrlega ekki gert, nema verkafólk sé fyrir hendi og tiltækilegt.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta miklu meira, en þó get ég bætt því við í sambandi við Skagaströnd, að á nýsköpunarárunum var byggður þar heill bær, Höfðakaupstaður, eftir skipulega gerðri áætlun, og fólk, verkafólk og sjómenn, var verulega hvatt til að flytja þangað. Þar byggðu þeir sín hús, margir hverjir rammbyggilega. Það er ósköp eðlilegt, að þetta sama fólk, sem var hvatt af því opinbera til að byggja upp Höfðakaupstað og trúði á framtíð staðarins, óski eftir aðstoð til endurreisnar atvinnulífinu. Það er ekkert niðurlægjandi.

Það, sem hér er verið að fara fram á fyrir Norðurland, er nákvæmlega það sama og gerzt hefur í Noregi. Það er fjöldi svæði í NorðurNoregi, sem eiga við sömu erfiðleika að stríða og Norðurland er hér í, og þá kannske sérstaklega Norðurl. v. Norður-Norðmenn ræða sín atvinnuvandamál oft við norsku ríkisstjórnina og fá jákvæð svör. Ég hef aldrei skammazt mín fyrir það að ræða við ríkisstj. um skipulagða aðstoð til að byggja upp atvinnulífið á Norðurlandi, og mun ekki gera það.