09.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (3039)

56. mál, húsaleigulög

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 61 till. til þál. um setningu húsaleigulaga. Í þessari till. felst áskorun til ríkisstj. að fela húsnæðismálastjórn að undirbúa frv. til húsaleigulaga og leggja slíkt frv. fyrir Alþingi það, er nú situr. Ég skal taka það skýrt fram í upphafi, að ég legg höfuðáherzluna í minni till. á síðari lið hennar, að slíkt frv. verði lagt fyrir þing nú í vetur.

Eins og kunnugt er, liggur nú fyrir í frv: formi till. um að afnema þau húsaleigulög, sem gilt hafa hér síðan 1952. Í sjálfu sér er ekki neitt á móti því að afnema þessi lög. Öllum kemur saman um, að þau séu fyrir löngu orðin úrelt, enda svo úrelt, að engum dettur í hug að framfylgja þeim, nema þá helzt nokkrum sveitarfélögum, sem eiga leiguíbúðir. Það má því segja, að ástandið sé þannig í dag, að hér séu ekki nein húsaleigulög til, ekki raunveruleg húsaleigulög, sem farið er eftir.

Á síðasta þingi var farið fram á það við hv. heilbr.- og félmn. þessarar deildar að flytja frv. til 1. um afnám húsaleigulaga frá 1952. Þá náðist ekki samkomulag í þessari hv. d. um slíkan frv.-flutning, og þess vegna varð ekki úr því, að slíkt frv. yrði flutt hér á síðasta þingi. Að því sinni stóð að ósk um slíkan frv.-flutning félag fasteignaeigenda í Reykjavík. Að þessu sinni stendur að sams konar frv.-flutningi hæstv. ríkisstj. Í frv. til l. um breyt. á l. um húsnæðismálastofnun er í 6. gr. ákvæði þess efnis, að húsaleigulögin frá 1952 skuli afnumin. Og það er mjög áberandi, að það á að afnema þessi lög, en það á ekki að koma neitt í staðinn. Nú má benda á það eða undirstrika það, að raunverulega eru engin húsaleigulög til, og ef litið er á þarfir heildarinnar, þarfir almennings, þá virðist ekki vera svo mikil þörf á að afnema þessi lög nú, nema eitthvað komi í staðinn. Ég endurtek það, að ef litið er á hagsmuni almennings í landinu, allra þeirra þúsunda sem neyðast til að leigja íbúðir, þá er hér ekki um neitt hagræði að ræða hvað þá snertir.

Ég legg svo mikla áherzlu á þörfina á nýjum húsaleigulögum, að ég hef heldur sett mig á móti afnámi þeirra gömlu, nema setning nýrra laga fylgi. Og þá er auðvitað það eðlilegasta, að flutt verði frv. til nýrra húsaleigulaga og að í kjölfar þeirrar lagasetningar sigli afnám gömlu laganna. Ég er ekki ósmeykur við það, að gömlu lögin séu afnumin, án þess að nokkuð nýtt komi í staðinn um sama leyti, vegna þess að ég hef grun um, að það séu allsterk öfl í þjóðfélaginu, sem óski þess einmitt, ekki aðeins að gömlu húsaleigulögin séu afnumin, heldur að engin lög verði sett í staðinn, að húsaleiga verði gefin frjáls, að hverjum húseiganda verði það í sjálfsvald sett, hversu dýrt hann leigir sitt húsnæði. Þetta er höfuðástæðan fyrir því, að ég flyt þessa þáltill. nú í sambandi við afgreiðslu frv. til l. um breyt. á l. um húsnæðismálastofnun.

Það hefur verið bent á tilefni til þess, að hæstv. ríkisstj. óskar eftir afnámi húsaleigulaganna nú. En það tilefni tel ég mjög lítið í sjálfu sér, a.m.k. mjög lítið, þegar litið er á þarfir þeirra þúsunda leigjenda, sem nú búa við og eiga að öllum líkindum að búa við algert réttleysi hvað húsaleiguokur snertir. Áður en ég fellst á það fyrir mitt leyti að samþykkja afnám húsaleigulaganna, vil ég a.m.k. sjá frv. til nýrra húsaleigulaga hér á hinu háa Alþingi.

Hæstv. félmrh. hefur gert grein fyrir ástæðunni til þess, að hæstv. ríkisstj. óskar eftir afnámi húsaleigulaganna, og eins og ég tók fram áðan, tel ég það tilefni ekki ýkjaþungvægt í sjálfu sér. Hæstv. félmrh. hefur einnig tilkynnt, að húsnæðismálastjórn hafi verið falið að undirbúa frv. til húsaleigulaga, eða ég hygg, að ég fari þar með rétt mál. Þetta er nú gott og blessað. En bezt væri þó af öllu, ef hæstv. félmrh. vildi nú í sambandi við þennan tillöguflutning lýsa yfir, að það frv., sem nú er væntanlega í undirbúningi, skuli lagt fyrir Alþ. það, sem nú situr.

Ef hæstv. ráðh. vildi gefa slíka yfirlýsingu hér í hv. d. í sambandi við umr. um þetta mál, þá skyldi ég ekki hafa neitt á móti því, að till. fengi að sofna í n., eða ég jafnvel drægi hana til baka, því að slíka yfirlýsingu hlyti ég að taka gilda.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa till. að sinni. Herra forseti. Ég legg til, að umr. um þessa till. verði frestað og till. vísað til hv. heilbr.- og félmn.