09.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (3040)

56. mál, húsaleigulög

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Svo sem þegar kom fram hjá hv. flm. og frsm. þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir til umr., hafa þegar verið gefnar skýringar og löngu áður en till. þessi var flutt á fyrri hluta þeirrar þáltill., sem hér um ræðir. Og má því nokkuð merkilegt heita, að það skuli vera haft að meginefni í þáltill., sem búið er að gera grein fyrir hér áður, því að í framsöguræðu minni fyrir flutningi frv. um húsnæðismálastofnun ríkisins, sem var fyrra dagskrármál þessa fundar, gaf ég þann 18. okt. mjög skilmerkilega, að ég tel, yfirlýsingu um það, að húsnæðismálastjórn hefði verið falið það verkefni, sem í þáltill. þessari ræðir, þ. e. að semja eða undirbúa frv. til nýrra húsaleigulaga, þar sem í frv. um húsnæðismálastofnunina er gert ráð fyrir afnámi hinna eldri laga. Og ég hygg, að það sé rétt hjá hv. flm., að um það séu nú ekki lengur neinar deildar meiningar, að þau lög séu úrelt — og meira en úrelt, þau standi bókstaflega í vegi fyrir því, að þessi nauðsynlegi liður húsnæðismálanna, þ.e. hæfilegt framboð leiguhúsnæðis, sé raunverulega til.

15. okt. fól félmrh. húsnæðismálastjórn meðal annarra verkefna að semja frv. til nýrra húsaleigulaga, ef hún teldi þörf á, en áður var upplýst, að hún teldi, að sé þörf á því. Ég hygg, að það sé ekki heldur meiningarmunur um það, að eðlilegt væri, að húsnæðismálastjórn ynni þetta verk. Það er ríkisstofnun, sem skipuð er fulltrúum allra flokka, og ætti því að vera tryggt, að öll sjónarmið kæmu þar fram.

Ég vil þess vegna í framhaldi af þessari skoðun minni upplýsa það, að ég tel í fyrsta lagi, að meginhluti þessarar þáltill. sé þegar óþarfur, hafi verið það, áður en þáltill. þessi var flutt, og vil líta svo á, að það sé á misskilningi byggt. En flm. talaði um, að hann legði megináherzlu á niðurlag þessarar þáltill., þ.e.a.s. að húsnæðismálastjórn verði sett það skilyrði í þessum störfum sínum, að hún legði slíkt frv. fyrir Alþingi það, er nú situr.

Það er alls ekki nein tilviljun, að þetta var ekki gert í erindisbréfi til húsnæðismálastjórnar, heldur fullkomlega vitandi vits. Hér var um mjög vandasamt og viðkvæmt mál að ræða, sem eðlilegt væri, að vel yrði grundað og kynni að taka nokkurn tíma. Það eru uppi skoðanir um það, að það eigi ekki að verðleggja húsnæði á sama hátt eða með sömu grundvallarsjónarmiðum og gert var í hinum eldri lögum, þ.e.a.s. alveg án tillits til þess, hve gamalt húsnæðið er, þá sé leigugjaldið á fermetra það sama, heldur hafa verið uppi mjög rökstuddar yfirlýsingar manna á undanförnum árum um, að það bæri að gera þarna verulegan mismun á, svo sem gert er á Norðurlöndum almennt um leiguhúsnæði, þ.e.a.s. upp á hver þægindi húsnæðið hefur að bjóða, og það skuli metið til hærri leigu en það eldra húsnæði, sem samtíðin telur að sé nú orðið úrelt. Hér er um ákaflega vandasamt mat að ræða, sem ég treysti mér ekki eða ráðuneytið — til að fyrirskipa húsnæðismálastjórn að gera ákveðnar till. um innan nokkurra mánaða eða fyrir lok þessa þings. Ég er af sömu ástæðu enn ekki reiðubúinn til að gefa yfirlýsingu um, að húsnæðismálastjórn sé þetta skylt. Það væri æskilegt, að húsnæðismálastjórn gæti látið frá sér fara slíkt frv. fyrir þinglok, þannig að þm. gæfist a.m.k. kostur á að kynna sér efni þess, og æskilegast væri, að hægt væri að afgreiða ný húsaleigulög samkv. þeim till., ef samkomulag næst um þær í þessari allra flokka stjórn, en ég vil ekki standa að því að skylda húsnæðismálastjórn til þessara hluta. Ég tel, að það sé svo veigamikið atriði, að rétt sé og vel að unnið, að það sé ekki hægt að tímasetja slíkar ályktanir eða niðurstöður húsnæðismálastjórnar um þau efni.

Það væri hins vegar ef til vill tími til þess fyrir þá n., sem þáltill. þessa fær til meðferðar, sem væntanlega verður heilbr.-og félmn., því að væntanlega verður umr. nú frestað og n. fær málið til athugunar, að kanna það, hvort húsnæðismálastjórn kynni að vilja sjálf gefa einhverjar yfirlýsingar í þessu efni. Ég tel sjálfur, að það sé ákaflega erfitt. Ég veit, að um þessar mundir er húsnæðismálastjórn upptekin af öðrum verkefnum, þ.e.a.s. lánveitingum, og getur því um þessar mundir a.m.k. ekki sinnt því verkefni, sem henni var falið með erindisbréfi dags. 15. okt.

Það er hins vegar persónuleg skoðun mín, hverjar sem efasemdir hv. flm. eru, að hér eigi að vera húsaleigulög, en þau eigi að vera í samræmi við samtíðina, ekki með þeim neikvæða árangri, sem þau hafa verið undanfarin ár, þannig að í dag fæst ekkert leiguhúsnæði, hvaða fjármunir sem í boði eru, og jafnvel þeir eru verst staddir, sem mest þurfa á því leiguhúsnæði að halda, þ.e.a.s. barnafjölskyldur, sem virðist vera bannorð meðal þessara aðila. En meginástæðan til þess, að afnám gömlu húsaleigulaganna er lagt til í frv. um húsnæðismálastofnun, sem flm. vildi gera lítið úr hér áðan, er einfaldlega sú, að það hefur sýnt sig á undanförnum árum, að einstaklingar byggja ekki, nema þá að svo sáralitlu leyti, að varla er umtalsvert, íbúðarhús til leigu. Þetta verkefni, sem í allt of litlum mæli hefur verið, hefur verið unnið af hálfu bæjar- og sveitarfélaganna.

Með lagabreytingu frá síðasta Alþingi var því hætt inn í 7. gr. laganna um húsnæðismálastofnun, að heimilt væri að lána til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga og Öryrkjabandalags Íslands. Þar var sá bakþanki, að þetta leiguhúsnæði yrði leigt á sannvirði, þ.e.a.s. að það stæði undir kostnaði, og nægir í því efni að benda til þess rökstuðnings, sem fyrir því var hafður bæði í grg. og ræðu fyrir þessu innskoti á sínum tíma. Þetta er talin ákaflega mikilvæg viðbót í lögin og það svo, að sveitarfélög hafa nú æðimörg sótt um aðstoð á grundvelli þessa lagaákvæðis frá húsnæðismálastjórn, um aðstoð í þessu efni. Þessari aðstoð hefur ekki verið hægt að svara jákvætt, vegna þess að reglugerðarákvæði hefur skort um þetta efni, og hún er í frumdrögum til, en hún kemur til með að ganga þvert á hin eldri húsaleigulög. Niðurstaðan verður því sú, að á meðan hin eldri húsaleigulög eru í gildi, má búast við því, að sveitarfélög kippi að sér hendinni og framkvæmi ekki þennan nauðsynlega lið húsnæðismálanna, þ.e.a.s. byggingu leiguhúsnæðis. Til þess að hægt sé að setja reglugerð um framkvæmd þessa nýja lagaákvæðis, er nauðsynlegt, að reglugerð verði sett, en hún verður ekki sett, þar sem hún stangast á við eldri lög, meðan húsaleigulögin eldri eru í gildi.

Ég sé ekki, að sérstök áhætta sé í því, þó að afnám þessara laga fari fram skv. frv. um húsnæðismálastofnun ríkisins, — sé ekki, að það eigi að vera mikil áhætta, því að þeir aðilar, sem hv. flm. helzt tortryggir, sem munu vera einstaklingar, — tortryggir um, að noti sér óhæfileg leigukjör og noti sér óeðlilega mikla eftirspurn eftir þessari tegund húsnæðis, munu ekki hyggja, þrátt fyrir afnám laganna, á verulegar byggingar. Því miður, vildi ég segja, mundu þeir ekki hyggja á byggingar leiguhúsnæðis, svo mjög sem það þó annars skortir, þrátt fyrir afnám laganna. Bygging þessa húsnæðis mun á næstu árum aðallega verða eins og undanfarin ár á vegum bæjar- og sveitarstjórnanna, og ég hygg, að þrátt fyrir þann ágóða, sem þessum aðilum er í dag talinn af leiguhúsnæði með því að fara á bak við lögin, eins og getgátur hafa verið um og reyndar allmiklar sannanir um einnig, þá muni það ekki örva þá til þess að snúa þessu blaði sínu við, svo að meira verði um óhóflegan leigukostnað en þegar er.

Ég sem sagt legg á það áherzlu, að sú n., sem þáltill. þessa fær til athugunar, kanni það hjá húsnæðismálastjórn, hvort hún telji sér fært að skila frv. til nýrra húsaleigulaga fyrir þinglok. Ég vil ekki taka að mér að fyrirskipa henni það, vegna þess að ég veit, hve vandasamt málið er.

Hitt atriðið, hvort bæjarfélögin fái aðstöðu til þess að fara af stað með allan sinn undirbúning að væntanlegum leiguíbúðabyggingum, er meginefni þessa máls og það svo mikilvægt, þegar höfð er hliðsjón af því, sem ég áður sagði, að aðrir munu þar ekki hlaupa í skarðið, að ég tel, að ekki megi dragast lengur, að bæjarfélögin fái fulla vitneskju um, hver framkvæmd þessa lagaákvæðis verður. Það verður hins vegar ekki framkvæmt, nema hin eldri lög verði numin úr gildi. Eftir því sem mér bezt skilst, er af lagalegum ástæðum ekki hægt að setja reglugerð um nýtt ákvæði, sem stangast á við lög, sem í gildi eru, og það torveldar hins vegar húsnæðismálastjórn og útilokar hana reyndar frá að gefa nokkur jákvæð svör um framkvæmd þess atriðis, fyrr en sett hefur verið um þetta skýr og skilmerkileg reglugerð. Reglugerðin verður hins vegar ekki sett, meðan gildandi lög stangast á við hið nýja ákvæði.

Það er mín persónulega skoðun, að hér sé ekki veruleg hætta á ferðum, jafnvel þótt svo fari, að húsnæðismálastjórn gæti ekki skilað endanlega þessu lagafrv. fyrir þinglok, og nægir í því efni að benda til þeirra raka, sem ég hef áður flutt í þessari ræðu minni.

Hitt er meginefni málsins, að bæjar- og sveitarfélögin fái aðstöðu til þess að undirbúa byggingar sínar fyrir næsta vor. Ég veit þegar um fjögur eða fimm bæjarfélög, sem sótt hafa um lán á grundvelli þessarar nýju lagasetningar og hafa þegar hafið allan undirbúning að því og jafnvel byrjað frumgröft húsanna, en þessar framkvæmdir munu eðlilega stöðvast, ef ekki er hægt að fullvissa þær um, hver framkvæmd þessa nýja lagaákvæðis verður.

Ég mun hins vegar, á sama hátt og ég hef áður greint, telja það æskilegast, að frv. gæti legið fyrir þessu þingi til nýrra húsaleigulaga, og að æskilegast væri, að hægt væri að afgreiða það einnig á þessu sama þingi, ef samkomulag næðist um það í húsnæðismálastjórn. Jafnframt vil ég undirstrika það, að af löngum og nánum kynnum mínum af starfsemi húsnæðismálastjórnar tel ég, að enginn aðili annar sé færari um að taka ákvörðun í þessum efnum, ekki einungis vegna þess, að þar eigi öll pólitísk sjónarmið að vera „representeruð“, heldur fyrst og fremst vegna þess, að þar sitja nú þeir menn, sem kunnugastir eru þessum hnútum, og ég hef enga ástæðu til þess að efast um það, að neinn þeirra, sem þar situr í dag, dragi úr ferðinni um setningu nýrra húsaleigulaga, svo mjög sem þeir menn hafa allir um langt árabil unnið að því að gera úrbætur á þessum vanda í þjóðfélaginu, sem eru húsnæðismálin, og hafa af því löng og náin kynni. Ég treysti því húsnæðismálastjórn fullkomlega til þess að hraða afgreiðslu þessa máls, svo sem frekast er unnt, og held, að ráðuneytisfyrirmæli um tímasetningu í þessum efnum gætu þar engu um breytt. Við höfum því miður svo iðulega séð í þáltill., að falið er ákveðnum n. að skila áliti fyrir tiltekin tímamót, og það hefur ekki staðizt. Málin hafa reynzt erfiðari og viðameiri en svo, þegar ofan í þau hefur verið farið, að þessum n. hafi verið það fært að skila áliti á tilteknum og umræddum tímum.

Ég ítreka það því, að ég veit, að húsnæðismálastjórn liggur ekki á liði sínu um að skila áliti sínu um þetta efni, svo fljótt sem kostur er, og hún hefur sem slík áreiðanlega engan áhuga á því, að málið dragist á langinn.