20.10.1965
Sameinað þing: 6. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í D-deild Alþingistíðinda. (3047)

16. mál, tannlæknadeild háskólans

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég held, að skýrust svör fáist við spurningum hv. þm. með því móti, að ég svari þeim öllum í einu með stuttri greinargerð um það mál, sem hér er um að ræða, og vona ég, að hv. þm. hafi ekki á móti því.

Lög um tannlæknakennslu við Háskóla Íslands voru sett 1947. Á árunum 1945—47 hafði verið starfrækt tveggja ára námskeið fyrir tannlækna til viðbótar miðhlutaprófi í læknisfræði. Því námi luku þrír piltar. Fyrsti tannlæknirinn, sem stundaði nám skv. hinni nýju skipan, tók próf 1949. Alls hefur háskólinn brautskráð 48 tannlækna. Áætlað er, að á næstu tveim árum brautskráist 19 tannlæknar og á næstu þrem árum þar á eftir 30, eða á næstu fimm árum brautskráist alli að 50 tannlæknar úr hópi þeirra stúdenta, sem nú eru við nám í tannlæknadeildinni.

Á fyrstu árunum innrituðust um 4 stúdentar á ári, en þeim fór siðan smáfjölgandi. 1960 voru innritaðir 10 stúdentar, 1961 12, 1962 18, 1963 11. Í fyrrahaust, eða haustið 1964, skrifaði háskólinn menntmrn. og benti á, að tannlæknadeildin hafi tekið 31 stúdent til náms undanfarin þrjú ár, og treysti tannlæknadeildin sér ekki til að taka nema 8 stúdenta í deildina það haust, nema fyrirheit fengist um það af ríkisvaldsins hálfu, að tannlæknakennslunni yrði séð fyrir auknu húsnæði, tækjakosti og mannafla til þess að sjá þeim stúdentafjölda, sem fyrir væri í deildinni, og meiri nýstúdentafjölda en 8 fyrir viðhlítandi kennslu. Óskaði háskólinn eftir því að geta innritað 15 stúdenta á s.l. hausti. Mál þetta var í fyrrahaust rætt í ríkisstjórninni og háskólanum heimilað að innrita 15 stúdenta til náms. Var nauðsynlegum fjárveitingum í því sambandi heitið. Í framhaldi af þessu var fjárveiting til tannlæknadeildar í fjárl. ársins 1965 aukin úr 799 þús., eins og hún hafði verið 1964, í 1 millj. 599 þús., eða meira en tvöfölduð. Við undirbúning fjárl. fyrir árið 1966 gerði háskólinn till. um 1 millj. 729 þús. kr. fjárveitingu til kennslunnar, og var sú upphæð tekin í fjárlfrv., sem nú liggur fyrir hinu háa alþingi.

Fyrst eftir að efnt var til tannlæknakennslunnar fór hún fram í háskólabyggingunni. Árið 1958 fluttist tannlæknadeildin úr háskólabyggingunni í nýtt húsnæði í landsspítalabyggingunni. Tannlæknastólum var þá um leið fjölgað úr 6 í 12. Áður hafði verið talið unnt að útskrifa 4 tannlækna á ári, en í hinu nýja húsnæði var talið unnt að brautskrá 6 á ári, jafnframt því sem námið var lengt úr 5 árum í 6 ár. Happdrætti Háskóla Íslands veitti 1/2 millj. kr. vaxtalaust lán til þessa húsnæðis.

Á s.l. vetri gerðist svo það, sem haft hefur mikla þýðingu fyrir framvindu þess máls, sem hér er um að ræða, að nokkrir stúdentar í tannlæknadeild kvörtuðu til borgarlæknis yfir þrengslum í deildinni. Varð þetta til þess, að borgarlæknir mælti svo fyrir, að stólum yrði fækkað um 2—3 og nemendum í verklegri kennslu fækkað verulega í því húsnæði, sem fyrir er. Að undangengnum ýtarlegum viðræðum milli háskólans og borgarlæknis féllst hann á, að stólum þyrfti ekki að fækka nema um einn, en hélt fast við fyrirmæli sín varðandi fækkun nemenda til verklegrar kennslu. Veldur þetta því, að færri stúdentar komast að verklega náminu í síðari hluta þess en áður í núverandi húsnæði. Auk þess stóðust fleiri stúdentar millipróf á s.l. ári en undanfarin ár, og hefur það enn aukið þrengsli í deildinni. En vegna þessara þrengsla hefur læknadeildin ekki talið unnt að taka viðbótarstúdenta til náms í tannlækningum á þessu hausti að óbreyttum aðstæðum.

Í bréfi, sem háskólarektor ritaði menntmrn. 26. júlí s.l. um vandamál tannlæknakennslunnar, segir m.a.: „Á þessari stundu er ekki fullljóst, hvernig úr þeim“ — þ.e. þessum vandræðum, –„verði bætt,“ — þ.e. í fyrsta lagi með sérstakri byggingu eða í öðru lagi með húsnæði, sem yrði hluti úr stærri byggingarheild í þágu læknakennslu, eða í þriðja lagi með bráðabirgðaúrræði. Jafnframt bendir rektor á í þessu bréfi, að hver leiðin sem farin yrði, þá yrðu framkvæmdir allar mjög kostnaðarsamar og þeim yrði ekki hrundið í framkvæmd, nema til komi mikill fjárstuðningur ríkisvaldsins.

Skv. lögum um Happdrætti Háskóla Íslands er tekjum af happdrættinu ætlað að ganga til nýbygginga fyrir háskólann og viðhalds á háskólabyggingunni, en tekjur háskólans af happdrættinu námu í fyrra tæpum 10 millj. kr. Í viðræðum, sem ég átti nú í haust við forráðamenn háskólans og tannlæknakennslunnar, hefur komið í ljós, að ef byggja ætti sérstakt hús fyrir tannlæknakennsluna, telur háskólinn það þurfa að nema 2600 fermetrum að stærð og kosta ekki minna en 23 millj. kr. Ekki hefur verið gerð nákvæm áætlun um kostnað við nauðsynlegan húsbúnað, en ýmsir hafa áætlað hann annað eins, þannig að sérstakt hús fyrir tannlæknakennsluna mundi kosta 45—50 millj. kr. Háskólinn telur sér eðlilega ofviða að ráðast í slíka framkvæmd fyrir tekjur happdrættisins. Það er og augljóst, að fyrirætlanir um svo stóra og dýra byggingu leysa ekki þann vanda, sem að tannlæknakennslunni steðjar nú, hver svo sem greiða mundi kostnaðinn við hana. Líklega yrði ódýrara að ætla tannlæknakennslunni húsnæði í fyrirhugaðri byggingu fyrir læknadeildina, sem háskólinn hefur nú í nokkur ár haft í undirbúningi. En fyrirsjáanlegt er, að nokkur tími muni líða, þangað til sú bygging er risin af grunni.

En vandamál tannlæknakennslunnar verður að leysa hið bráðasta. Þess vegna virðist sá kostur einn eftir, sem nefndur var í þriðja lagi í bréfi háskólans frá í sumar, sem ég vitnaði til áðan, að útvega tannlæknakennslunni aukið húsnæði til braðabirgða. Er nú verið að vinna að þessu. Háskólinn er að reyna að tryggja viðbótarhúsnæði fyrir alla teknológisku kennsluna nú þegar, jafnframt því sem verið er að athuga um möguleika á viðbótarhúsnæði fyrir klínísku kennsluna næsta haust. Jafnframt þessu hafa verið athugaðir og er enn verið að athuga möguleika á því að tryggja tannlæknastúdentum námsvist erlendis í síðari hluta námsins, en það er einkum hann, sem er verklegur og krefst mikils húsnæðis og mikilla og dýrra tækja. Í þessu sambandi hefur rektor danska tannlæknaháskólans verið boðið hingað til lands, og er hann einmitt nýkominn til borgarinnar. Munu nú forráðamenn háskólans og tannlæknakennslunnar ræða ýtarlega við hann um það, með hverjum hætti skynsamlegast sé að ráða bót á þeim þrengslum, sem nú eru orðin í deildinni, og jafnframt möguleika á því, að nokkur hluti íslenzkra tannlæknastúdenta stundi fyrri hluta námsins hér, en fyrri hlutinn er einkum fræðilegur, og síðari hlutann, sem einkum er verklegur, erlendis á grundvelli samstarfs milli háskólans hér og erlendra háskóla, líkt og nú á sér stað varðandi verkfræðinámið.

Ég get að sjálfsögðu ekki sagt um það á þessari stundu, hver verður niðurstaða þessara viðræðna og þeirra athugana, sem nú eru að fara fram. Ég vona, að það leiði til jákvæðrar og skynsamlegrar niðurstöðu. Hitt get ég sagt, að ég tel brýna nauðsyn á því, að breytt verði þeirri ákvörðun, að engir stúdentar verði teknir til tannlæknanáms nú á þessu hausti. Ég get að sjálfsögðu skilið þá afstöðu háskólans að vilja ekki taka stúdenta til náms, nema því aðeins að hægt sé að sjá þeim fyrir fullkominni og vandaðri kennslu. Ég hef þegar tjáð forráðamönnum háskólans og tannlæknakennslunnar, að ríkisstj. er reiðubúin til alls skynsamlegs stuðnings við öflun viðbótarhúsnæðis handa tannlæknakennslunni og til þess að greiða kostnað við þá auknu kennslu, sem það krefst, að nýir stúdentar séu teknir í deildina í haust.

Með hliðsjón af því, hversu tannlæknakennsla er geysilega dýr, þar er líklega um að ræða eina dýrustu kennslu, sem nú fer fram innan háskólans, er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að framkvæmdir allar séu vel yfirvegaðar og þeim sé sniðinn sá stakkur, sem íslenzkum aðstæðum hentar. Ég ber fullt traust til forráðamanna tannlæknakennslunnar og háskólans og vona, að lausn finnist á þeim vanda, sem nú steðjar að, þannig að framvegis verði hægt að brautskrá fleiri tannlækna frá Háskóla Íslands en undanfarin ár. Jafnframt tel ég sjálfsagt að athuga, hvort ekki sé hægt að efna til reglulegrar og samningsbundinnar samvinnu milli Háskóla Íslands annars vegar og viðurkenndra erlendra tannlæknaskóla hins vegar um að mennta tiltekinn fjölda íslenzkra tannlækna árlega að einhverju eða öllu leyti. En dæmi eru um slíka samvinnu milli landa, t.d. milli Norðurlanda annars vegar og Þýzkalands hins vegar.

Með þessu vona ég, að hv. flm. fyrirspurnanna telji spurningum sínum svarað.