20.10.1965
Sameinað þing: 6. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (3050)

16. mál, tannlæknadeild háskólans

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Á síðasta þingi urðu nokkrar umr. í sambandi við læknamálið, þar sem nokkuð var vikið að háskólanum. Þar voru gefnar nokkrar yfirlýsingar í sambandi við það, og kom fram nokkur gagnrýni, m.a. frá mér, og hún var tekin heldur óstinnt upp af sumum þeim, sem stjórna læknadeildinni. Nú kemur sem sé þetta fyrir í haust, að heilli deild er lokað fyrir nýjum stúdentum. Ætli hefði ekki verið nær að taka dálítið fastar á þessum málum á síðasta Alþingi? Það er alveg greinilegt, að það er óstjórn á þessum hlutum. Það er algert fyrirhyggjuleysi um að bæta úr þörfum þjóðarinnar í þessum efnum. Ég skil það ákaflega vel, að hæstv. menntmrh., sem er sjálfur fyrrv. prófessor, vill vera ákaflega hollur sínum kollegum og reynir að halda uppi málsvörn fyrir þá, eins og hann gerði í fyrra. En það er bara ekki hægt. Þessi mál eru þannig, að þetta verður að taka föstum tökum og ekki bara vera að verja þá menn, sem standa ekki í stöðu sinni. Háskólaprófessorarnir, sem eiga að hugsa um þessi mál, eiga að sjá eitthvað fram í tímann, og það er engin afsökun, að stúdentum fjölgi.

Hver einasti háskóli í Norður-Evrópu stendur frammi fyrir því, að það margfaldast stúdentar þar. Við ættum bara að líta til Oslóar hér næst okkur. Þetta þarf ekki að koma neinum manni á óvart, sem fylgist eitthvað með, hvað er að gerast í menntamálum nú sem stendur í heiminum. Það er sú algerasta bylting, sem hefur nokkurn tíma staðið yfir. Æskan streymir svo inn í háskólana. Og það er til þess ætlazt, að þeir menn, sem eru settir til að stjórna þessu, eins og prófessorarnir við háskóla og aðrir slíkir, fylgist eitthvað með í þessum málum.

Þetta er hneyksli, sem Alþingi verður að láta til sín taka, og það mjög alvarlega. Hvað snertir afsakanirnar, að það séu ekki til peningar til þess að halda uppi tannlæknadeildinni, þá voru nógir peningar til að byggja háskólabíó. Og það hefur ekki verið farið fram á að rannsaka það neitt verulega, ég hef minnzt á það stundum, en háskóli verður að vita, til hvers hann ver sínum fjármunum, og hann þarf að verja fjármununum fyrst og fremst til þess að sjá þjóðinni fyrir þeirri menntun, sem hún þarf. Braskhugsunarhátturinn, sem er að gagnsýra okkar þjóðfélag, á að haldast utan við Háskóla Íslands, og þeir menn, sem þar stjórna, eiga að gera sér það ljóst og hafa einhverja hugmynd um sína virðingu í slíku sambandi. Ég held annars, að það fari að verða mjög nauðsynlegt fyrir okkur að taka allan háskólann sem slíkan til rannsóknar hér á Alþingi og sjá til, hvort við getum ekki, þó að við séum ekki sérfræðingar í þessum efnum, lagt einhvern betri grundvöll en ef þetta á að ganga svona áfram.