27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í D-deild Alþingistíðinda. (3054)

28. mál, vegaskattur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er þó gott, að hv. fyrirspyrjandi er nokkurn veginn ánægður með svörin við tveimur fyrstu liðum fsp. (Gripið fram í: Þau eru nógu skýr.) Nægilega skýr. Hvort það tekst að svara eins skýrt 3. og 4. lið fsp., vil ég ekki fullyrða, en ég vil gera mitt bezta í því.

3. liður fsp. er: „Hefur verið gerð áætlun um árlegar tekjur af slíkum skatti og kostnað við innheimtu hans?“ Það hefur verið gert. Það hefur verið gerð áætlun um tekjur, og þá hefur verið stuðzt við umferðartalningu, sem fram hefur farið á Reykjanesbrautinni. Og miðað við það umferðargjald, sem nú er innheimt, er gert ráð fyrir, að tekjurnar verði 14.6 millj. 1966, 15.9 millj. 1967 og 17.2 millj. 1968. Þá er reiknað með talsverðri umferðaraukningu.

Hv. fyrirspyrjandi spyr, hve kostnaður verði mikill við innheimtuna. Kostnaðurinn verður náttúrlega nokkur. Ég held, að það sé búið að ráða 4 eða 5 menn, ég er ekki alveg viss um, hvort er, en það hefur verið gert ráð fyrir, að kostnaðurinn yrði alltaf yfir 1 millj. kr. Það er ekki gott að fullyrða nákvæmlega um það, en það gæti verið, skulum við segja, 1—1 1/2 millj. kr. Þetta er það, sem næst verður komizt. Í rauninni held ég, að það sé þá komið svar við 3. lið, eins og hann er hér fram borinn.

Þá er það 4. liður: Er fyrirhugað að taka upp þá reglu að innheimta vegaskatt af umferð um aðra þjóðvegi, sem kunna að verða steinsteyptir eða malbikaðir á næstu árum?“ Það er vitanlega á valdi Alþ. hverju sinni, hvort umferðargjald verður innheimt af hinum ýmsu vegnum. Ég geri t.d. ekki ráð fyrir því, að það verði innheimt umferðargjald af jarðgöngunum gegnum Stráka, þegar þau verða tekin í notkun, einfaldlega vegna þess, að það borgar sig ekki. Umferðin verður ekki það mikil, að það geti svarað kostnaði. En í 95. gr. vegal., sem samþ. var hér á hv. Alþ. fyrir tæplega 2 árum, samþ. einróma af öllum alþm., var gefin heimild til þess að taka umferðargjald af ýmsum vegum eða brúm, og er enginn vafi á því, að þegar hv. alþm. samþykktu þessa heimild einróma, var Reykjanesbrautin höfð í huga. Þá var verið að byrja á því að steypa þennan veg. Allir hv. alþm. vissu, að beita var dýr framkvæmd, og hv. alþm. vissu, að vegurinn var að mestu byggður fyrir lánsfé, eins og raun ber vitni. eða um 90% lánsfé. Það verður því að líta svo á, að hv. Alþ. sé því samþykkt, að þessi heimild sé notuð, tæpum 2 árum eftir að hún er gefin. Og það er vitanlega á valdi Alþ. hverju sinni að breyta þessu, afnema þessa heimild úr vegal., og það verður vitanlega á valdi Alþ., hvort umferðargjald verður tekið af öðrum vegum sambærilegum Reykjanesbrautinni. En með tilliti til þess, að varanleg vegagerð er fjárfrek, mjög fjárfrek, gæti ég vel trúað því, að hv. Alþ. teldi eðlilegt að taka umferðargjald af vegum, sem kynnu að verða byggðir og eru sambærilegir Reykjanesbraut. Ég vænti þess, að ég hafi þá svarað 4. lið þessarar fsp. það skýrt, að það megi teljast nokkurn veginn fullkomið svar.

Það er oft talað um það, að vegamálin hjá okkur Íslendingum séu ekki í góðu lagi, að vegirnir séu ekki góðir og þoli ekki umferðarþungann. Það er rétt. Við erum fámennir í þessu stóra landi, aðeins 1.9 manns á hvern ferkm. Í Danmörku eru 80 menn á hvern ferkm, og það geta þá allir borið saman, hversu það hlýtur að vera erfiðara fyrir okkur hér að gera góða vegi heldur en það er í hinum þéttbýlu löndum. En ég held, að það verði ekki um það deilt, að við höfum látið talsvert til okkar taka í vegagerð, þótt vitanlega sé margt óunnið. Og það er ekki nema eðlilegt, að það sé kallað fast eftir því, að vegirnir séu bættir, og þá ekki sízt þeir vegir, sem fjölfarnastir eru. Við getum nefnt Vesturlandsveginn upp í Hvalfjörð og Austurveginn. Og það er rétt, sem oft hefur verið sagt, það er í rauninni ekki hægt að halda þessum vegum við í bleytutíð með þessari miklu og þungu umferð.

Það er þegar komin í gang könnun á því, hvernig megi flýta framkvæmdum og afla vegasjóði fjár til þess að halda vegaframkvæmdum áfram hér á landi með svipuðum hraða og verið hefur síðustu árin. Það verður athugað rækilega, hvort ekki er unnt að endurskoða vegáætlunina haustið 1966, eins og heimild er til, með það fyrir augum að afla aukins fjár til vegagerðar.

Ég vil minna hv. þm. á, sem tala mest um það, að það sé litlu fé varið til vegamála, að það er betra, áður en sú fullyrðing er fram borin, að gera sér grein fyrir því, hvað það er mikið fjármagn, sem til veganna hefur farið nú allra síðustu árin. Og við getum borið það gjarnan saman við það fjármagn, sem varið var til vegagerða 1958, þegar þeir sömu menn, sem tala hæst nú um lítið fé til vegamála, höfðu völd í landinu. En 1958 var varið 80 millj. kr. til vegamála. Ég er ekkert að segja, að þetta hafi verið sérstaklega litið, en þú þótti ekki fært að láta meira til vegamála en 80 millj. kr., og vissulega var þörf fyrir að nota meira fé þá, þótt segja megi, að þörfin fari vaxandi ár frá ári vegna aukinnar umferðar. En 1964 er varið til vegamála 282.7 millj. kr. Og 1965 er gert ráð fyrir að verja til vegamála 393.3 millj. kr. Ég tel rétt, að þetta komi fram hér, þótt ég sé því alveg samþykkur, að það sé þörf á því að vinna meira á ýmsum stöðum á landinu heldur en gert hefur verið og að margir vegir eru í því ástandi, að það þolir í rauninni ekki bið, að að þeim sé unnið. En ég held, að það sé fróðlegt fyrir hv. þm. að hafa þessar tölur í huga, þrátt fyrir það þó að við viðurkennum, að það mætti vera gjarnan meira á hinum ýmsu stöðum, sem til vegamálanna fer.

Hv. fyrirspyrjandi talaði hér um, að vegal., þegar þau voru sett, hafi verið vissulega spor í rétta átt, og það held ég að enginn efist um, því að þá var bætt við það fjármagn, sem til veganna fór, rúml. 100 millj. kr. samkv. vegal. Nú segir hv. þm., að dýrtíðin hafi nagað utan af þessu og síðan hafi verið ákveðið að taka 47 millj. út úr fjárl., sem til vegamálanna voru veittar, og þetta sé spor aftur á bak. Ég mundi nú segja það, að þetta væri spor aftur á bak, ef ekkert kæmi í staðinn, ef 47 millj. væru teknar og það ætti að minnka vegaframkvæmdirnar og ekkert ætti að koma í staðinn. Ég held, að það hafi allir hv. þm. reiknað með því, að benzínið yrði hækkað fyrr eða seinna nálægt því í það, sem er í nágrannalöndunum. Ég held, að hv. alþm. hljóti að vera sammála um það, að við höfum tæplega efni á því að selja ódýrara benzín en nágrannar okkar, sem hafa góða vegi. Og það er meiningin að hækka benzínið nokkuð núna og þá þungaskattinn tilsvarandi til þess að ná upp þessari upphæð, sem var í fjárl., en er ekki nú á því fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram til fjárl. fyrir næsta ár, þannig að við vegáætlunina verður vitanlega staðið. Spurningin er svo, hvort það tekst að afla fjár til viðbótar fyrir árið 1967, um leið og vegáætlunin væri endurskoðuð, ef að því ráði yrði horfið, eins og heimilt er að gera haustið 1966. Og ég teldi það ekki horfa vel, ef ekki væri unnt að auka eitthvað tekjur vegasjóðs, þegar að því kemur. En benzínverð hér er lægra en víðast hvar í nágrannalöndum okkar, og síðustu fregnir frá Danmörku eru þær, að þeir ætli að hækka benzínið nú um 10—15 aura danska og eru þeir þá komnir talsvert upp fyrir Ísland, en benzínverð þar nú er 6.66 kr. breytt í íslenzkan gjaldeyri, í Belgíu 6.49, í Frakklandi 8.26, Þýzkalandi 6.12 kr. og Finnlandi 6.83, en eins og kunnugt er, er það hér 5.90. Það má segja, að þetta út af fyrir sig komi ekki þessari fsp. beinlínis við, en vegna þess að hv. fyrirspyrjandi gaf tilefni til þess, gat ég ekki látið hjá líða að minnast að nokkru á það, hvað til vegamálanna er veitt, og einnig taka það fram, að það er alls ekki meiningin að draga úr framkvæmdum til vegamála, heldur miklu fremur gera ráðstafanir til, að það verði unnt að halda áfram að vinna að vegamálunum með miklu fjármagni, eins og gert hefur verið síðustu árin.