27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (3056)

28. mál, vegaskattur

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Í fsp.-tíma með mjög takmörkuðum ræðutíma er þess ekki kostur að ræða til nokkurrar hlítar það umferðargjald, sem ákveðið hefur verið að taka af ökutækjum á Reykjanesbraut. En á nokkur atriði vildi ég aðeins drepa.

Á það hefur verið mjög minnt í skrifum um þetta mál að undanförnu, að heimild til innheimtu gjaldsins hafi verið samþ. shlj. á hv. Alþ. árið 1963. Það er vissulega rétt með farið og ég er þeirrar skoðunar, að hóflegt umferðargjald af tilteknum vegum geti átt rétt á sér, sé vissum skilyrðum fullnægt og íbúum hinna ýmsu sveitarfélaga ekki mismunað. En heimildin til álagningar umferðargjalds var fyrst og fremst hluti af heildarlögum um vegamál, sem samkomulag var um afgreiðslu á í árslok 1963. Í þeim lögum voru önnur ákvæði, sem einnig voru samþ. shlj., ákvæði, sem áttu sinn þátt í því, að heimild til álagningar umferðargjalds á ökutæki var samþ. samtímis. Í heimild til álagningar umferðargjalds, og í ákvæðum um álagningu benzíngjalds, þungaskatts og gúmmígjalds var ákveðinn sá hluti, sem til vegagerðar skyldi renna frá eigendum ökutækja. En í 89. gr. var ákveðið, að auk þeirra gjalda, sem ég nú nefndi, skuli veita á fjárl. árlega sérstakt framlag ríkissjóðs til vegamála. Þetta framlag ríkissjóðs hefur numið tæpum 50 millj. kr. á ári þau ár, sem vegal. hafa verið í gildi. Nú hafa hins vegar þeir atburðir gerzt, að samtímis því sem heimild til álagningar umferðargjalds er beitt í fyrsta skipti og þannig seilzt til tugmillj. kr. árlegra tekna frá bifreiðaeigendum ofan á fyrri skatta, boðar ríkisstj. og staðfestir með fjárlagafrv., að hún muni fella úr gildi þá gr. vegal., sem fjallar um framlag ríkissjóðs og samþ. var einróma af hv. Alþ. engu síður en heimildin um álagningu umferðargjaldsins. Jafnframt boða stjórnarflokkarnir, að þeir muni bæta þeirri upphæð, sem ríkissjóði var ætlað að greiða, um 50 millj. kr., ofan á benzínverðið og þungaskattinn. Þegar ákvæðið um framlag ríkissjóðs á fjárl. til vegamála í landinu var lögfest, var ekki aðeins fullt samkomulag um, að ríkissjóður legði þannig fram fé, heldur margítrekaði hæstv. vegamálaráðh., að engin hætta væri á því, að úr því framlagi yrði dregið í framtíðinni, heldur væru allar líkur á því, að það yrði aukið. Það er því miður ekki tími til að rifja upp allt það, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta atriði vegal., en m.a. sagði hann orðrétt:

„Ég er sannfærður um, að við höldum uppi kröfum um það, að ríkissjóður auki framlög sín úr þessum 47.1 millj. kr. til mikilla muna, vegna þess að við verðum sammála um þessar miklu þarfir, sem bíða hvarvetna.“

Og einnig sagði hæstv. vegamálaráðh.:

„Og einmitt þess vegna er engin hætta á því og alveg útilokað, að ríkissjóðsframlagið verði lækkað. Það er alveg útilokað. Og þörfin fyrir aukið vegafé frá ríkissjóði verður fyrir hendi, þótt vegamálunum hafi verið tryggt fé með benzíngjaldi, gúmmígjaldi og þungaskatti.“

Umferðargjaldið nefndi hæstv. ráðh. ekki í það skiptið. En nú er boðskapurinn hins vegar sá eftir tæp 2 ár, að ríkisframlagið eigi að falla niður, benzíngjaldið og þungaskatturinn frá bifreiðaeigendum að hækka að sama skapi og umferðargjald að bætast við hjá ákveðnum hópi bifreiðaeigenda. Þegar þessi brigðmæli liggja nú fyrir, er gersamlega út í hött og ótilhlýðilegt að bera það fyrir sig, að umferðargjaldið sé sett vegna þess, að samkomulag hafi verið meðal þm. um álagningarheimildina. Það er mín skoðun, að samkomulagsgrundvöllur sá, sem fyrir hendi var um heimildarákvæði til álagningar umferðargjalds á bifreiðir, sem fara um tiltekna vegi eða brýr, sé úr sögunni, þegar nú er upplýst, að ætlunin er að brjóta það samkomulag niður í veigamiklum atriðum, sem varða framlag ríkissjóðs sjálfs til vegamála. Þess vegna álit ég, að umferðargjald á Reykjanesbraut eigi ekki rétt á sér, eins og allt er nú í pottinn búið, ríkisstj. hafi með fyrirætlunum sínum um niðurfellingu ríkissjóðsframlagsins fyrirgert þeim rétti, sem hún annars kynni að hafa átt til þess að leggja það á.

Þá má á það benda, að í frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku til vegaframkvæmda, sem samþ. var s.l. vor, var gerð grein fyrir fjáröflun til Reykjanesbrautar árið 1965. Hún var sundurliðuð þannig: Fjárveiting á vegáætlun 6.8 millj. kr., framlag frá herliðinu 0.3 millj. kr. og lánsfé 115.2 millj. í þessum tölum er því ekkí gert ráð fyrir tekjum af umferðargjaldi á þessu ári, enda er, hvað sem öðru líður, óeðlilegt að hefja innheimtu umferðargjalds af vegi, áður en framkvæmdum er lokið. Viðhald þess hluta Reykjanesbrautar, sem enn hefur ekki verið lagt varanlegt slitlag á, er lakara en var á veginunt, þegar hann var allur malarvegur, og ekki betra en svo, að á þeim kafla einum geta farartæki orðið fyrir meiri skemmdum en nemur hagnaði af því að aka hinn hlutann. Ég verð að segja, að ég varð mjög undrandi, þegar ég heyrði um upphæð gjaldsins. Það var tvöfalt hærra en ég hafði ímyndað mér, að hæstv. vegamálaráðh. mundi ákveða, og mjög tilfinnanlegur skattur hjá þeim, sem daglega fara um veginn, og afslátturinn er að mínum dómi of lágur.