27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (3058)

28. mál, vegaskattur

Ingi R. Helgason:

Herra forseti. Hv. þdm. Ég vænti þess, að mér verði ekki virt það til óþarfa framhleypni að leggja hér nokkur orð í belg, verandi ekki fyrirspyrjandi. Ég þakka upplýsingar og svör hæstv. samgmrh., að svo miklu leyti sem þau voru tæmandi við þær fsp., sem hér liggja fyrir. Mig langar til þess að drepa á fáein atriði þessum fsp. viðvíkjandi, enda þótt tíminn til þess sé skammur.

Inn í þetta mál, vegatollinn á Reykjanesbraut, hefur komið brot af þeirri deilu, sem uppi hefur verið um það, hvort sé dýrara að gera varanlega vegi úr malbiki eða steinsteypu. Um þetta atriði hefur ekki farið fram, þótt nauðsynlegt hefði verið, nein vísindaleg athugun, og menn hafa látið sér nægja að hafa uppi hér staðhæfingu gegn staðhæfingu, en ég mun síðar á þessu hv. þingi leyfa mér að flytja þáltill. um, að efnt verði til vísindalegrar athugunar á þessu efni. Erlend reynsla liggur talsvert fyrir, og vil ég geta þess, að ég hef í höndum upplýsingar um vísindalega rannsókn, sem gerð var í Minneapolis í Bandaríkjunum um samanburð á malbiki og steinsteypu, og kostnaðurinn skiptist þannig á milli þessara tveggja aðferða, að fyrstu 3 árin var ódýrara að byggja varanlegan veg úr malbiki, en á 4. ári var það jafnt, og þegar frá leið varð samanburðurinn þeim mun hagstæðari sem lengra frá leið fyrir steinsteypuna.

Í Reykjanesbraut er steinsteypulagið 22 cm járnbentir. Ef þeir eru rétt og vel lagðir, og ekki er ástæða til að ætla annað, mun þessi vegur getað staðið í 20 ár án nokkurs viðhalds. Um reynsluna af malbikinu vitum við, að malbik þarf viðhaldskostnað strax á 2. ári og eftir um 7 ár þarf gagngera endurlagningu slitlags á malbiksvegi. Um malarvegi þarf ég ekki að fjölyrða.

Þegar rætt er um Reykjanesbraut og slíka mannvirkjagerð, vil ég láta koma fram mín sjónarmið varðandi það hagræði, bæði fyrir umferðina, þ.e.a.s. eigendur ökutækja, og ríkið, samfélagið sem heild, að það er það ódýrasta og bezta, sem við getum gert við okkar vegi, að gera þá úr steinsteypu.

Um vegatollinn sjálfan sem tekjulind fyrir slíka mannvirkjagerð vil ég leyfa mér að halda þeirri skoðun fram, að hann eigi ekki rétt á sér. Hann er í fyrsta lagi ranglátur fyrir þá, sem búa í því héraði, sem vegurinn er lagður um, sakir þess, hversu þeir geta verið bundnir honum við atvinnu eða störf og við heimili sín. Og ef hann ætti að notast sem tekjulind fyrir varanlega vegagerð í landinu, held ég, að strjálbýlið í þessu landi yrði lengi útundan í varanlegri vegagerð. Ég álit, að varanleg vegagerð sé sú tegund af mannvirkjagerð, sem ekki sé einkamál þeirra héraða, sem vegurinn liggur um.

Það er kannske ekki ástæða til þess að fara frekar út í þessi mál hér, enda tíminn naumur til þess. Ég vildi rétt aðeins segja það sem mína skoðun, að ég tel, að varanlega vegagerð eigi að gera með skattaálagningu aðallega, þar sem umferðin sjálf, eigendur ökutækja og notendur þeirra séu skattgjaldsstofninn, en það, sem vantar upp á, að hægt sé að standa undir viðhlítandi mannvirkjagerð, miðað við þann gjaldstofn, þurfi að taka lán með hagkvæmum vöxtum í því skyni að brúa bilið milli kynslóðanna í landinu við þessa mannvirkjagerð. Ég vildi leyfa mér líka í þessu sambandi að spyrja hæstv. samgmrh. að því, hve mikill liður í kostnaðarútgjöldum Reykjanesbrautar vaxtaliðurinn er, því að við gætum haft það á margan hátt í hendi okkar, hve vaxtabyrðin á að vera þung á mannvirkjagerð sem þessari.

Vegatollurinn sýnir, að hæstv. ríkisstj. er fundvís á hluti, sem vekja óánægju og eru óvinsælir. En ég held, að sjálf upphæð vegatollsins séu hrein mistök, — mistök, sem ríkisstj. þurfi að leiðrétta, endurskoða útreikninga sína eða sinna sérfræðinga og lækka vegatollinn hið skjótasta. Ef við lítum á einstakling, sem þarf sakir vinnu sinnar að fara um þennan veg einu sinni á dag, þýðir það 15 þús. kr. skatt á hann á ári. Ég veit til þess, að Landssamband vörubifreiðastjóra hefur sent nefnd manna á fund hæstv. samgmrh. og mótmælt þessum skatti, þ.e.a.s. upphæðinni, og það er forvitnilegt að sjá þær tölur, sem Landssambandið hefur látið reikna í sambandi við sparnaðinn af rekstri vörubifreiða við það að hafa kost á því að aka um steinsteyptan veg. Vörubifreiðastjórar eru bundnir af kjarasamningum um útgjaldaliði sína við aksturinn og eru bundnir af samningi um verð fyrir aksturinn. Ef maður tekur 5 tonna bifreið, sem á að greiða í vegatoll 200 kr. fyrir ferðina fram og til baka, á lágmarksgjaldi, þ.e.a.s. hún flytji um 2.5 tonna hlass, á bifreiðastjórinn rétt á samkv. kjarasamningi að fá 596.25 kr. fyrir ferðina. Um þetta lágmarksgjald vil ég taka það fram, að mikill hluti flutninga á vörubifreiðum fer fram einmitt með þessu lágmarksgjaldi sakir fyrirferðar vörunnar miðað við þunga hennar. T.d. af 118 ferðum upp úr einu skipi hér við Reykjavíkurhöfn voru um 60 ferðir á lágmarksgjaldi. Ef frá þessum 596 kr. á nú að draga 200 kr. í vegatoll, fær ökumaðurinn og eigandi ökutækisins 396 kr. fyrir ferðina, og sjá allir, að við það getur hann ekki unað að óbreyttum samningum. Að halda því hins vegar fram, að þessar 200 kr. séu um það bil helmingurinn af sparnaði ökutækisins við þessa elnu ferð, er þó enn þá fráleitara. Ef tollurinn fæli í sér fullan sparnað miðað við útreikninga sérfræðinga ríkisstj., ætti maður að draga 400 kr. frá því gjaldi, sem bifreiðastjórinn fær fyrir ferðina, og þá eru 196 kr. eftir í gjald fyrir ferðina. Miðað við þær tölur, sem sérfræðingar ríkisstj. hafa byggt sína útreikninga á, þ.e.a.s. tölur frá Noregi um samanburð á kostnaði við að aka á malarvogi og steinsteyptum vegi, kemur í ljós, að Norðmennirnir byggja á því, að 33% ódýrara sé að aka á steinsteyptum vegi heldur en á malarvegi. Miðað við samningsbundna kostnaðarliði hjá íslenzkum vörubifreiðastjórum kemur út, að raunverulegur sparnaður með sama hlutfalli og Norðmenn nota, þ.e.a.s. 33% á þeim liðum, sem breytast, er sparnaðurinn á þessari ferð, 75 km eftir steinsteyptum vegi fram og til baka á Reykjanesbraut, 37.50 kr., en ekki 400 kr., eins og sérfræðingarnir hafa reiknað út.

Tími minn er nú búinn, en ég vil að lokum aðeins vara hæstv. ríkisstj. við að hafa þennan vegatoll óbreyttan, heldur endurskoða þessar tölur og lækka hann og helzt að nota sér ekki þá heimild í vegal. að hafa vegatollinn, heldur reyna að afla teknanna með öðrum hætti.