15.12.1965
Neðri deild: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og hér hefur fram komið, hefur fjhn. ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Ég hef í því nál., sem ég hef gefið út, gert grein fyrir afstöðu minni, en niðurstaðan er sú. að ég er mótfallinn frv. eins og það liggur fyrir. Kjarni þessa máls, sem hér liggur fyrir. er sá, að rafmagnsveitur ríkisins hafa um nokkurt árabil verið reknar með talsverðum greiðsluhalla. Þessi greiðsluhalli, sem við stöndum frammi fyrir nú, er því ekkert nýtt fyrirhæri. Hann hefur verið til staðar nú um margra ára skeið, og ég ætla, að engum hv. alþm. hafi komið þessi greiðsluhalli neitt á óvart. Það vissu allir, að þegar ákvarðanir voru teknar um það, að rafmagnsveitur ríkisins skyldu standa undir framkvæmdum í þá átt að rafvæða dreifbýli landsins og taka að sér rafmagnsrekstur á þeim stöðum á landinu, þar sem aðstæður eru tiltölulega erfiðastar til þess að reka slíkan rekstur, mundi þetta þýða, að ríkið yrði að leggja nokkurt fé með þessum rekstri. Og þetta hefur líka verið gert nú um langan tíma og aldrei verið imprað á öðru en ríkið þyrfti að standa undir þessum greiðslum fyrr en nú, að nú er brugðið þannig við, að því er haldið fram. að ríkissjóður geti ekki lengur innt af hendi þær greiðslur, sem hann hefur greitt til rafmagnsveitna ríkisins nú um nokkuð langan tíma, nú þurfi ríkissjóður að draga að sér höndina og þá sé ekki um annað að ræða en afla teknanna á annan hátt, og þá hefur niðurstaðan orðið þessi, að ákveða að leggja á nýjan rafmagnssöluskatt á alla raforkusölu í landinu svo að segja og afla á þann hátt tekna til þess að standa undir greiðsluhalla rafmagnsveitna ríkisins.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hvernig stendur á því, að þessi greiðsluhalli hefur verið. Það gefur alveg auga leið, að það að leggja rafmagnslínur um sveitir landsins. eins og gert hefur verið, kostar fjármagn. Í mörgum tilfellum hefur þurft að taka lán í þessu skyni og stundum óhagstæð lán, og rafmagnsveitur ríkisins verða að standa undir þessum lánum að talsverðum hluta. Það er heldur ekkert um að villast, að rafvirkjanir, sem ráðizt var í á sínum tíma, bæði á Vestfjörðum og eins á Austfjörðum, voru þannig með þeim löngu dreifilínum, sem þar hlutu að fylgja með, að þessar rafveitur hlutu a.m.k. um nokkurt árabil að verða nokkuð óhagstæðar. Til viðbótar við þetta kemur svo það, að rafmagnsveitur ríkisins hafa orðið að taka á sig mikil töp vegna gengisbreytinga. Nú er upplýst, að þær hafa tekið á sig um 130 millj. kr. fjárhæð, sem þær verða að standa undir í formi gengistapa vegna erlendra lána, sem rafmagnsveiturnar stóðu undir. Þá er einnig upplýst, að allmikið af lánum þeim, sem rafmagnsveitur ríkisins nú hafa, eru mjög óhagstæð lán, lán með 7—9% vaxtakjörum, og sum hver eru vísitölutryggð, og þarf því að borga miklum mun meira af þeim lánum en almennt hefur gerzt um lán í þessu landi. Allt ber því að sama brunni, að það er ofureðlilegt, að hér sé um nokkurn greiðsluhalla að ræða. Hvernig svo er háttað rekstrinum að öðru leyti, hvort hann er eins hagkvæmur í öllum greinum og mögulegt er, skal ég ekkert um segja. Við höfum ekki haft neina aðstöðu til þess að kynna okkur það í einstökum greinum, hvernig reksturinn fer fram og hvort er hægt að spara í einhverjum greinum eða ekki. En þrátt fyrir þennan hallarekstur, sem hefur verið hjá rafmagnsveitum ríkisins, er það þó staðreynd, að sú raforka, sem þær hafa selt, hefur allajafna verið dýrasta raforka, sem seld hefur verið í landinu. Þegar svo gripið er til þess ráðs að leggja sérstakan skatt á rafmagnssöluna í landinu til þess að standa undir hallarekstri rafmagnsveitna ríkisins, hefur hæstv. ríkisstj. þótt viðkunnanlegt að kalla þetta gjald verðjöfnunargjald, því að það liggur alveg óumdeilanlega fyrir, að sá verðmismunur, sem er nú á rafmagni í landinu, á að haldast áfram. Þar verður enginn munur gerður á. Það er því ekki verið að afla hér fjár til þess að jafna rafmagnverðið frá því, sem veríð hefur. Hér er verið að afla fjár til þess að standa undir ákveðnum útgjöldum, sem ríkissjóður hafði raunverulega tekið að sér að standa undir og hefur staðið undir af eðlilegum ástæðum.

Það er ekki auðvelt fyrir okkur alþm. að gera okkur fyllilega ljósa grein fyrir því, hvernig þetta gjald kemur niður. En þó er alveg augljóst, að gjaldið hlýtur að koma nokkuð misjafnlega þungt niður á þá aðila, sem eiga að borga þetta gjald. Það er upplýst, að rafmagnsverðið í landinu á hinum ýmsu stöðum er mjög breytilegt. Og þeim, sem nú verða að borga tiltölulega hátt rafmagnsverð, er ætlað að borga jafnmikið af gjaldinu, miðað við selda orku, eins og hinum er ætlað að standa undir, sem búa við langsamlega ódýrasta raforku. Það er því eðlilegt, að það komi fram nokkrar kvartanir frá þeim, sem eiga að greiða þetta gjald.

Þá vitum við það einnig, að rafmagn er selt með mjög misjöfnu verði frá hinum einstöku rafveitum eftir því, til hvers raforkan er notuð. Þannig er raforka, sem seld er til hitunar, yfirleitt miklu ódýrari en raforka, sem seld er t.d. til vélarekstrar eða margs annars. Og raforka, sem seld er til næturhitunar á ýmsum stöðum er seld á sérstaklega lágu verði. Það gefur því alveg auga leið, að það að leggja jafnþungt gjald miðað við selt afl í þeim tilfellum, þar sem raforkan er seld frá veitunni á mjög lágu verði, eins og í hinum tilfellunum, þar sem raforkan er seld á miklum mun hærra verði, þetta hlýtur að valda misrétti og koma mjög misjafnlega við. Enda eru begar fram komnar upplýsingar um það, að einstakar rafveitur benda á, að ef eigi að halda uppi þessu gjaldi, eins og hér er lagt til, verði þær annaðhvort að hækka rafmagnssölu til hitunar svo mikið, að hætta sé á, að menn verði að hætta að nota þá upphitunaraðferð og hverfa þá að annarri hitaorku, eða þá að enn önnur rafmagnssala á þessum stöðum verður að taka á sig ákveðna meðgjöf með sölunni á raforku til upphitunar.

Mér sýnist því, að þetta gjald sé lagt á samkv. þessu frv. á mjög ónákvæman hátt, að ekki sé meira sagt. Því hefur verið haldið fram, að af þessum ástæðum muni rafmagnsverð í útsölu yfirleitt verða hækkað um 8—10%, og ég hygg, að það sé ekki fjarri sanni. Þó getur það orðið nokkur misjafnlega mikið hjá hinum einstöku veitum. En nú er einnig upplýst, að það standa til hér frekari hækkanir en þessi hækkun, sem ráðgerð er í þessu frv. Upplýst er, að stjórn Landsvirkjunarinnar hefur tilkynnt sínum viðskiptaaðilum, að hún hafi ákveðið allverulega hækkun á rafmagni nú um næstu áramót, og mun sú hækkun ekki vera minni en sú, sem hér um ræðir í þessu frv. Það eru því allar horfur á, að nú um áramótin eða fast upp úr áramótunum hækki allt rafmagnsverð í landinu til almennra nota í kringum 20% eða yfir 20%. Hér er um mikla hækkun að ræða, sem hlýtur vitanlega að draga dilk á eftir sér.

Ég hef fengið aðstöðu til þess að lita yfir greinargerð frá einum rafveitustjóra varðandi þessi mál, og mér þykir ástæða til þess að lofa hv. þdm. að heyra hér niðurlagsorð þessa rafveitustjóra varðandi þessi mál. en fyrr í þessari grg. hefur hann gert mjög ýtarlega grein, að mínum dómi, fyrir því, hvað muni gerast í þessum verðlagsmálum, ef þetta frv. verður samþ. og eins ef sú hækkun verður framkvæmd, sem landsvirkjunarstjórn hefur boðað. En þessi rafveitustjóri segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í júlí 1966,“ — en þá er gert ráð fyrir ákveðinni viðbótarhækkun á rafmagni frá Landsvirkjun, og því er þessi viðmiðun, — „í júlí 1966 verða væntanlegar hækkanir á heildsöluverði raforku hjá Rafveitu Hafnarfjarðar orðnar 71.2%, eða 53.8% hækkun á heildsöluverði plús greiðsla í verðjöfnunarsjóð. 2) Áætlaður raforkuskattur Rafveitu Hafnarfjarðar 1966 er 1 millj. 840 þús. kr. eða 8.60% af áætluðum nettótekjum. Og ofan á þessar 1 millj. 840 þús. kr. þurfa svo rafmagnsnotendur á orkuveitusvæðinu að greiða í aukinn söluskátt til ríkisins um 138 þús. kr. 3) Til þess að mæta væntanlegum hækkunum á heildsöluverði þarf Rafveita Hafnarfjarðar að hækka útsöluverð sitt um 20.5%. 4) Miðað við óbreytt verð á raforku til hitunar, mun Rafveita Hafnarfjarðar koma til með að greiða með raforkusölu til næturhitunar á árinu 1966 116 800 kr., auk alls kostnaðar vegna mælaálesturs, reikningsútskriftar, innheimtu og hlutdeildar í hinum almenna rekstri og viðhaldi. Ef verð á raforku til næturhitunar yrði hins vegar hækkað um 20%, mundi rafveitan hafa aðeins um 106 þús. kr. upp í annan kostnað en vegna raforkukaupa, álagsstýringarkerfis og mæla, en það mundi alls ekki nægja.“

Þessi niðurstaða í grg. rafveitustjórans í Hafnarfirði segir sína sögu. Hér stöndum við frammi fyrir því, að þessi skattur, sem frv. felur í sér, mundi hækka útsöluverð á rafmagni í Hafnarfirði um 8.60%. En þegar einnig er tekið tillit til þeirrar hækkunar, sem boðuð hefur verið af landsvirkjunarstjórn og ganga mun í gildi nú upp úr áramótum og hækka svo enn á miðju næsta ári, mundi útsöluverð á rafmagni í Hafnarfirði hækka um 20.5%, og þó yrðu málin þannig, að það er sýnilegt, að annaðhvort yrði horfið að því ráði á þessum stað að hækka almenna raforkusölu meir en hér er nefnt, til þess raunverulega að standa undir orkusölunni til upphitunar, eða þá hætta er á, að þeir, sem útbúið hafa sig til þess að nota raforku til upphitunar, yrðu að hverfa frá því og snúa inn á aðra upphitunaraðferð.

Ég tel því, að það leiki enginn vafi á, að með þessum nýja skatti, sem ríkisstj. hugsar sér að leggja hér á, sé ekki mikill vandi leystur. Hér er ríkisstj. á nákvæmlega sömu leiðinni í þessum efnum og hér hefur verið rædd á undanförnum dögum, að ríkisstj. er á í öðrum tilfellum. Ríkisstj. fer þá leið að fella niður útgjöld ríkissjóðs til framkvæmda, sem þó er ekki hægt að skjóta sér undan, og þá er ákveðið að leggja á nýja skatta, til þess að hægt sé að halda áfram þessum framkvæmdum. Þessir skattar munu allir hafa þær afleiðingar, að þeir ýta undir vöxt dýrtíðarinnar í landinu, og sami vandinn kemur til ríkisstj. innan skamms aftur. Ástæðurnar til þess, að ríkissjóður getur ekki lengur staðið undir þeim útgjöldum, sem honum hefur verið ætlað að standa undir, eru vitanlega afleiðingar dýrtíðarstefnunnar, sem farin hefur verið að undanförnu. Og það er engin leið út úr þeim vanda önnur en sú að takast á við dýrtíðarvandamálið sem slíkt, því að það að leggja, á einn skatt nú og annan eftir viku o.s.frv. er vitanlega engin lausn á vandamálinu.

Ég lít á þennan skatt, sem hér um ræðir, sem skatt fyrir ríkissjóð. Hér er ekki um neitt verðjöfnunargjald að ræða. Hér er um það að ræða að afla ríkissjóði ákveðinna tekna, og af þeim ástæðum er ég andvígur þessu frv. Ég tel, að fella beri frv. í því formi, sem það er. Hitt er svo annað mál, að það er eflaust orðin þörf á því að taka raforkumál okkar í heild til rækilegrar endurskoðunar. Það þarf að taka til athugunar, hvernig á að koma fyrir t.d. verðlagningu á rafmagni. Það er mikið vandamál, en það verður ekki gert með slíku skattgjaldi sem þessu. Og ég held einnig, að það þyrfti að taka á þeim málum á annan hátt en gert er ráð fyrir í þeirri brtt., sem tveir framsóknarmenn flytja hér, þó að ég efist ekki um, að yrði hún samþ., mundi hagur ýmissa raforkukaupenda í landinu leiðréttast talsvert. En ég held þó, að það þyrfti að taka á þeim málum á allt annan veg en þar er lagt til.