27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3061)

28. mál, vegaskattur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Umr. hafa nú orðíð þó nokkrar um þetta mál, og er það í sjálfu sér ekki nema eðlilegt. Hv. landsk. þm. Geir Gunnarsson talaði hér áðan og taldi, að allar forsendur væru raunverulega brostnar fyrir því að taka umferðargjald af Reykjanesbraut, og vildi eiginlega fría sig alveg frá því að bera ábyrgð á því, þótt hann hafi greitt atkv. á sínum tíma með því hér á Alþ. að gefa þessa heimild, með það fyrir augum þá að taka umferðargjald af þessum vegi. Og forsendurnar voru brostnar að hans áliti, vegna þess að nú væri búið að taka út úr fjárl. eða ætti að taka út úr fjárl. 47 millj. kr., sem þar hafa staðið. Hv. þm. talaði um brigðmæli í þessu sambandi. Ég held, að það væri ráðlegt fyrir hv. þm. að endurskoða þetta orðalag, áður en hann talar aftur í þessu máli, því að um brigðmæli eða vanefndir getur ekki verið að ræða í þessu, nema þá ef ekki yrði staðið við þá vegáætlun, sem gerð hefur verið, og það að afla þá fjár með öðrum hætti til vegamálanna, til þess að vegagerðin biði ekki tjón af því. Ég held, að hv, þm. hafi komið hér í ræðustólinn og orðað þetta eins og hann gerði að frekar lítt athuguðu máli, og tel ég því ekki ástæðu til að orðlengja meira um þetta við hann í þetta sinn.

Hv. 4. þm. Reykn. kom hér með langan spurningalista. Það hefði verið eðlilegra, að þessi hv. þm. hefði a.m.k. í morgun afhent mér þennan lista, úr því að það var svona þröngt um tímann, að ekki var hægt að koma fsp. í prentun og fá þeim svarað með eðlilegum hætti. En það er sjálfsagt að athuga, hvort unnt er að svara þessum fsp. á stundinni, a.m.k. að mestu leyti.

1. fsp. er þannig:

Á hve mörgum árum greiðir umferðargjaldið á Reykjanesbraut upp lán þau, sem tekin hafa verið vegna endurbyggingar hennar?

Ég upplýsti áðan, að fyrsta árið yrðu brúttótekjur 14.6 millj., fyrsta árið 1966. En það er gert ráð fyrir, að halli verði 10.6 millj. 1967 og rúml. 9 millj. 1968, þannig að það er fjarri lagi, að umferðargjaldið, eins og það nú hefur verið ákveðið, standi að öllu leyti undir kostnaðinum. Þá er gert ráð fyrir í sambandi við þetta, að Reykjanesbrautin fái áfram þá upphæð úr vegasjóði, sem hefur verið ákveðin, það eru 6.8 millj. kr., og að lausu lánunum, sem ekki hafa enn verið sett í föst lán, verði breytt í 15 ára lán með 8% vöxtum. Hins vegar ef umferðargjaldið væri látið standa til ársins 1978 eða 1979, þá mundi lánið greiðast upp með því, þó að Reykjanesbrautin fengi úr vegasjóði árlega 7.1 millj. kr. En ég geri ekki ráð fyrir því, að það sé endilega ákveðið nú á stundinni um það, hvernig þessu verður varið um alla framtíð. En eins og umferðargjaldið er nú, sem þykir hátt, þá vantar 10.6 millj. kr. á árinu 1967, til þess að það standi undir lánunum, eftir að búið er að breyta stuttu lánunum í 15 ára lán með 8% vöxtum.

Það hefur verið talað um, að þetta gjald sé óhæfilega hátt. Ég skal viðurkenna, að það er vitanlega matsatriði, hversu hátt þetta gjald á að vera. En þegar gjaldið var ákveðið, var á það horft, hverja reynslu útlendingar hafa af steinsteyptum vegum, hvernig samanburðurinn er hjá þeim í sliti og eyðslu á malarvegum miðað við það að nota steypta vegi. Og ég þarf ekkert að vera að rifja upp, hvernig þetta mál er til komið, það hefur komið grg. í öllum dagblöðunum um það og fullyrt, að vegagjaldið væri í rauninni ekki nema helmingurinn af því, sem sparast við það að komast á góðan veg. Ég býst nú við, að það megi deila um það, hvort þetta sé nákvæmlega helmingur, kannske mætti segja, að það væru 2/3, sem menn borga af því, sem sparist, og þeir hagnist ekki um nema 1/3, ég vil ekkert fullyrða um það. En víst er það, að enginn í ráðuneytinu og enginn á vegamálaskrifstofunni hefur búið til þessar tölur, sem eru birtar. Þær eru byggðar á reynslu þeirra, sem hafa mörg ár að baki í þessu sambandi.

Það eru nú ekki allir sammála um, að það sé okur í sambandi við þetta gjald. Hér hefur verið talað um vörubílana, að það komi þyngst niður á þeim, ef þeir fara með lítið hlass milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Það má vel vera. En ég hef hér fyrir framan mig Tímann í dag, og þar eru viðtöl við nokkra menn um vegtollinn, þar á meðal menn, sem gera út vörubifreiðar, og hér er einn, sem heitir Ingvar, hann segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef ekki myndað mér neina ákveðna skoðun um það, hvort tollurinn sé of hár eða ekki. Ég hef ekki reiknað það út upp á krónu, hvaða sparnaður er að því að aka hann. Við flytjum nokkuð af fiski sunnan að og mest á okkar eigin bílum, og ég er í engum vafa um, að við spörum mikið með því að aka nýja veginn, miðað við þann gamla. Það verður miklu minna slit á bilunum. Við getum sett meira á þá án þess að eiga á hættu að brjóta þá, og við getum farið fleiri ferðir á dag. Og ég veit það, að ég vil borga talsvert fyrir það að geta látið mína bíla aka slíka vegi.“

Í augum þessa manns er gjaldið ekki það hátt, að hann vilji fullyrða, að það borgi sig ekki að vera á góðum vegi þrátt fyrir þetta. Ég held nú, að þegar þessi bílaútgerðarmaður talar svona, þá sé hann inn á sér sannfærður um það, að það sé góð forretning að aka góða veginn.

Og hér er annar maður, sem í blaðinu vitnar í það sama og fullyrðir, að það sé áreiðanlega mjög mikill sparnaður. Enda þarf náttúrlega ekki um það að deila, að sparnaðurinn hlýtur að vera mjög mikill að því að losna við að fara þennan vonda veg.

2. spurning hv. 4. þm. Reykn. er:

Er fyrirhugað að halda áfram innheimtu þessa gjalds, eftir að stofnlánin eru greidd?

Þessu get ég ekki svarað hv. 4. þm. Reykn., og mér finnst satt að segja alls ekki eðlilegt að leggja þessa fsp. fyrir mig, því að eins og ég sagði áðan, þá væri unnt að greiða lánið upp, það yrði sennilega greitt upp á árinu 1979 eða 1980, og ég held, að enginn af þeim, sem nú eiga setu á hv. Alþ., vildi taka að sér að fullyrða um það, hvort vegtollurinn á Reykjanesbraut yrði innheimtur eftir það, og ekki heldur um það, hvort hann yrði innheimtur svo lengi.

3. spurning: Er fyrirhugað, að sérstakt umferðargjald verði lagt á umferðina á Austurvegi, þegar sá vegur hefur verið endurbyggður?

Það hlýtur að verða matsatriði, þegar að því kemur, m.a. það, hversu umferðin er mikil, hvernig þessi vegur er byggður. Og þótt sumum hafi fundizt svar mitt áðan við 4. liðnum ekki skýrt, þá get ég endurtekið það, sem ég þá sagði, að ég tel líklegt, vegna þess að hverjir sem verða í ríkisstjórn og þótt nokkur ár liði, þá verður það svo, að fjárþörfin til nýrra vegaframkvæmda kallar alltaf á, og ég tel þess vegna líklegt um sambærilega vegi Reykjanesbrautinni að gerð og umferð, að á þeim vegum verði látið greiða umferðargjald.

Þá er það 4. spurning: Er fyrirhugað að taka tillit til sérstöðu íbúa Vatnsleysustrandar við greiðslu umferðargjaldsins?

Þeir hafa komið til mín, íbúar Vatnsleysustrandarhrepps, og una ekkert illa sínum hlut. Þeir hafa ekki fengið loforð fyrir því að fá endurgreiðslu af gjaldinu. En þeir hafa fengið loforð fyrir því, að það verði athugað, hvort það þyki eðlilegt. Og sannleikurinn er nú sá, að Vatnsleysustrandarbúar aka ekki nema ca. hálfa leiðina á steyptum vegi, og þess vegna er það áreiðanlega þess virði að íhuga, hvort það væri rétt, að þeir fengju endurgreiðslu á hluta gjaldsins. Það yrði að vera í því formi.

5. spurning: Hækkar umferðargjaldið árlegt fastagjald varnarliðsins vegna nota af veginum? Varnarliðið hefur greitt að undanförnu 300 þús.kr. á ári til viðhalds Reykjanesbrautinni, 300 þús. kr. Ég sá það í Þjóðviljanum í morgun haft eftir deildarstjóra varnarmáladeildar, að þetta gjald væri 340 þús., það er þá nýlega hækkað. Ég efast ekkert um það, að hæstv. utanrrh. mundi vilja beita sér fyrir því að láta varnarliðið borga meira en það hefur gert. En til upplýsingar um það, hvað þessir varnarliðsbilar munu nota veginn mikið, er rétt að taka það fram, að mér er sagt, að það séu samtals 28 varnarliðsbílar, sem fara þarna um veginn, það hefðu farið 9 bílar um veginn í gær, en það er talið óeðlilega mikið, af einhverjum ástæðum, og það hefur verið gerð áætlun um það, að það fari 25 bílar vikulega frá varnarliðinu um veginn. Þá eru það 1250 kr. á viku, sem þeir ættu að borga, og þá eru það ca. 60—65 þús. kr. á ári. Þetta verður gert upp eftir á. Ég segi það, að mér þykir það mjög líklegt, mér þykir hað mjög sennilegt, að þetta gjald hækki sem því nemur. Hins vegar gæti vel verið, að varnarliðið teldi, að úr því að vegurinn þarf ekki viðhald næstu 20 árin, eins og hér var fullyrt, þá ætti þessi gjaldstofn að falla í burtu, en það hef ég ekki heyrt talað um. Við skulum segja, að það séu 310 þús. og kannske hækkar það, það er ekki fullákveðið enn. En af þessum gjaldstofni munu þeir greiða umferðargjald af þessum 28 bílum, sem nota veginn. Og umferðargjaldið ætti þá að vera eftir þessum útreikningum og áætlunum 65 þús. kr., ef áætlunin er rétt.

Spurt er: Við hvaða aðila á Suðurnesjum var fyrirhugað umferðargjald sérstaklega rætt, áður en það var endanlega ákveðið, og hver var afstaða þeirra til þess?

Það komu ýmsir frá Suðurnesjum og ræddu þetta við mig, og það er nú kannske ósanngjarnt að hafa ekki gefið þeim ákvörðunarrétt í því, hvert gjaldið ætti að vera, og eins og ég sagði, má alitaf deila um það, hve gjaldið á að vera hátt, það er matsatriði. En þegar það var ákveðið, var það gert að vel athuguðu máli og með það fyrir augum, að þeir, sem greiða gjaldið, hagnist einnig á því, þannig að hagnaðurinn verði talsvert meiri en það, sem þeir borga. Og samkv. útreikningum, sem lagðir hafa verið fram af sérfróðum mönnum með reynslu á bak við sig, ætti það að vera allt að því helmingur, sem þeir þéna. En segjum, að það sé varhugavert að halda því fram. Það gæti verið hagnaður, þó að það væri eitthvað minna. Ég vil ekkert fullyrða um það. En eins og ég sagði áðan þá hafa þessar tölur ekki verið búnar til í ráðuneytinu eða á vegamálaskrifstofunni.

Ég veit nú ekki, hvort hv. 4. þm. Reykn. er alveg ánægður með þessi svör. Hygg ég þó, að hann hafi tæplegast búizt við að fá þau nákvæmari, þar sem hann kom nú með fsp. skrifaðar og ég því alls óundirbúinn að svara þeim.

Hv. 1. þm. Austf. taldi óeðlilegt að fara út fyrir efnið, eins og hann orðaði það, og hann hefði oft tekið það fram áður. En ég býst við, að þessi hv. þm. virði mér til vorkunnar, þó að ég sé ekki ágætur nemandi í þeim skóla, sem hann vill nú setja í vinnubrögðum hér á hv. Alþ., og hann virði það nú, þó að ég hafi kannske aðrar hugmyndir um þetta en hann.

Hv. þm. sagðist álíta, að það samkomulag, sem gert var, þegar vegalögin voru samþ., hafi verið rofið. Það þykir mér leitt, ef hann lítur þannig á, því að það var samkomulag um þessi mál. En ég hygg nú, að þegar hv. þm. athugar það nánar, þá sannfærist hann um, að það þurfi ekki þannig að vera.