27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (3070)

28. mál, vegaskattur

Ingi R. Helgason:

Herra forseti. Mér fannst hæstv. samgmrh. tala af nokkru ábyrgðarleysi eða alvöruleysi um þær tölur, er ég ræddi hér um áðan varðandi vörubifreiðastjóra. Hann lét sér nægja að vitna í þeim efnum í umsögn Ingvars Vilhjálmssonar í Tímanum um, að þeim ágæta manni litist vel á skattinn og fagnaði góðum vegi. En þær tölur, sem ég nefndi hér áðan, eru rauntölur, sem hæstv. ráðh. verður að leyfa sér að taka tillit til. Hann sagði, að þessar tölur, þ.e.a.s. skattupphæðin, þær tölur hafi ekki verið búnar til í samgmrn. eða á vegamálaskrifstofunni. Auðvitað hafa þær verið búnar til þar. En það er sagt, að þær byggist á rannsókn og niðurstöðum erlendra sérfræðinga. Það, sem forustumenn Landssambands ísl. vörubifreiðastjóra hafa gert í þessum efnum og skýrt ráðh. frá í morgun, er, að þeir hafa einmitt notað þennan grundvöll og þessar niðurstöður hinna norsku sérfræðinga, en þær eru, að miðað við 6.67 kr. kostnað á km á malarvegi sé kostnaðurinn á steinsteyptum vegi 4.43 kr., eða 33% ódýrara að aka á steinsteyptum vegi. Ef þetta hlutfall, 33% sparnaður, er notað á þá útgjaldaliði við akstur, sem eru samningsbundnir í kjarasamningum vörubifreiðastjóra, þ.e.a.s. gúmmí, smurningu, bræðsluolíur, varahluti, verkstæðisvinnu, þ.e.a.s. þá kostnaðarliði, sem hreyfast, sem eru 46% af heildarkostnaðinum, þá kemur út, ef notað er þetta norska hlutfall, að sparnaðurinn á akstri 5 tonna bifreiðar með 2 1/2 tonn er 37.50, en ekki 400 kr. Ef bíllinn fer ekki með lágmarksflutning, heldur með 5 tonn, eins og hann er gefinn upp fyrir, gefur þetta hlutfall, 33%, 103 kr. í sparnað. Það þýðir, að fyrir 5 tonna hlass fær ökumaðurinn fyrir þessa 75 km fram og til baka 1042.50 kr. samkv, kjarasamningi, en á að greiða í tollinn 200 kr., þ.e.a.s. hafa 842.50 kr. nettó út úr þessu.

Ég vil leyfa mér enn að ítreka þá beiðni mína til hæstv. ráðh., að hann endurskoði þennan skatt varðandi vörubílstjórana og sjái sér fært að gefa hv. Sþ. eitthvert vilyrði fyrir slíkri endurskoðun nú í þessum umr. Ég gat þess áðan, að ég er líklega eini ræðumaðurinn í þessum umr., sem er prinsipíelt á móti þessum skatti sem tekjustofni til varanlegrar vegagerðar í landinu. Ég sló hér upp að gamni mínu nokkrum tölum. Ég álit, að þessar tekjur ættu að takast með öðrum hætti, sem væri bæði ekki eins hvimleiður og væri í rauninni réttlátari. Það eru 30 þús. bifreiðar í landinu. Ef þær væru skattlagðar, þ.e.a.s. eigendur þeirra, til slíkrar mannvirkjagerðar og ætlazt til, að sömu tekjur kæmu út úr slíkri skattlagningu og kemur út úr þessum vegatolli, þyrfti hver bifreiðareigandi í landinu að greiða um 450 kr. á ári, til þess að sama tala fengist út. Ég segi það fyrir mitt leyti, að ég teldi það miklu réttlátara. Ég, sem er bifreiðareigandi og er ekki oft að flækjast um þennan veg, en á hann þó vísan og á kost á að aka um hann, ég vil miklu heldur af sanngirnisástæðum borga 450 kr. einu sinni á ári fyrir slíka vegagerð heldur en láta menn, sem atvinnu sinnar vegna verða að fara um þennan veg einu sinni á dag 300 daga á ári, greiða 15 þús. kr. til þess að standa undir þessari tekjuöflun. 30 þús. bílar eru á öllu landinu. Ef við tækjum aðeins þá 20 þús. bíla, sem eru á þessu svæði, Reykjavik, Kópavogi, Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu, yrði slíkt gjald 700 kr. á ári, og teldi ég það miklu sanngjarnari og eðlilegri og ekki eins hvimleiða lausn og vegatollurinn er.