27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (3071)

28. mál, vegaskattur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. 3. landsk. (IRH) var hér með tölur áðan, harmaði það, að ég hefði farið léttúðlega með tölur í sambandi við útreikninga hjá vörubílum, sem greiða þennan skatt. En ég held nú, að menn hljóti að sannfærast um það, að þessi hv. þm. hefur farið eitthvað fljótfærnislega með það, þegar hann fullyrðir, að sparnaður hjá vörubílum sé aðeins 37.60 kr. við það að aka þennan steypta veg, eftir þó að leggja til grundvallar norsku tölurnar, 6.67, kr. á malarvegi hvern km, en 4.43 kr. á steyptum vegi, mismunur 2.24, vegalengdin 75 km. Og hvað fáum við út úr því? Ekki 37.50, það þarf ekki að taka upp blað og blýant, það eru 168 kr. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta.

Það er rétt, að forustumenn vörubílstjóra voru hjá mér í morgun að ræða þessi mál, og ég vil komast að þeirri niðurstöðu, sem er rétt, hafi það ekki verið gert strax. En ég þarf meiri rök en komið hafa fram hér í dag til þess að sannfærast um, að það sé nauðsynlegt að endurskoða það, sem gert hefur verið, og meiri tíma. En það er vitanlega sjálfsagt að reikna dæmin upp aftur, ef skekkjur eru, og það getur vitanlega öllum yfirsézt. En það dugir ekki kennslustund í þessu formi, sem hv. 3. landsk. var með hér áðan, til þess að fá útkomunni breytt.

Hv. þm. Þórarinn Þórarinsson talaði hér áðan og var að gera mér upp orð, að samkv. því sem ég hafi sagt, hafi vegaféð stórminnkað undanfarin ár. Hvernig í ósköpunum getur hv. þm. komið með svona fjarstæðu og svona ályktun? Hlutfallslega við fjárl., segir hv. þm. Þó upplýsti ég það áðan, að á árinu 1965 mundi verða unnið að vegamálum fyrir 393.3 millj. kr., en á árinu 1958 fyrir aðeins 80 millj. kr. Hækkun frá 1958 er 392%. En hv. þm. segir, vegna þess að framlag til tryggingamála hefur hækkað um 350% og fjárl. hafa hækkað þess vegna á 7. hundrað millj., þá þykir hv. þm. alveg eðlilegt, að framlag til vegamála hækki hlutfallslega jafnt og til tryggingamálanna. Það væri alveg fyrirtak, ef það gæti verið svo. En af hverju skyldi framlag til vegamála 1958 ekki hafa verið nema 80 millj.? Það dugir ekki að snúa svona við því, sem sagt hefur verið. Við erum sammála um aðalatriðið í þessu máli, og það er það, að það er nauðsynlegt að vinna áfram að framkvæmd vegamálanna með svipuðum hætti og gert hefur verið síðustu árin, að hækka framlögin og vegaféð til muna, og það er von mín, að það megi verða þannig áfram eins og síðustu árin. Og væri unnt að hafa vegafé á næstu árum í samræmi við það, sem er á árinu 1965, þá skil ég það svo, að þessi hv. þm. uni því vel, því að hann var að tala um 400 millj., en ég talaði um 393.3 millj. á árinu 1965.