03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (3075)

44. mál, bygging menntaskóla á Ísafirði

Fyrirspyrjandi (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh., svo hljóðandi:

„Hefur ríkisstj. ákveðið að fresta fyrst um sinn að hefja byggingu menntaskóla á Ísafirði?“ Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa Vestfirðingar lagt á það mikla áherzlu á undanförnum árum að fá menntaskóla á Ísafirði. Í samræmi við þessar óskir þeirra hafa þm. Vestf. flutt frv. þing eftir þing um menntaskóla á Vestfjörðum og einnig á síðasta þingi. Öll hafa þessi frv. verið svæfð í nefnd. Skömmu eftir síðustu áramót voru Vestfjarðaþm. boðaðir til fundar á Ísafirði. Voru það áhugamenn um menntaskólamál þar heima fyrir, sem efndu til fundarins. Þeir afhentu þm. áskorun til Alþ. og ríkisstj. um að samþykkja menntaskólafrv., og þeir fylgdu þessari áskorun úr hlaði með allskorinorðum ræðum á þessum fundi. Undir þessa áskorun höfðu skrifað um 2000 Vestfirðingar úr öllum stjórnmálaflokkum og víðs vegar að á Vestfjörðum.

Árangurinn af þessari órofa samstöðu Vestfirðinga var sá, að undir lok síðasta þings flutti hæstv. ríkisstj. sjálf frv. um þrjá nýja menntaskóla í landinu og skyldi einn þeirra vera á Ísafirði. En orðalag í þessu frv. var m.a. á þá leið, að menntaskólana á Vestfjörðum og Austurlandi skyldi stofna, þegar fé yrði veitt til þess í fjárl. Þetta orðalag vakti nokkurn ugg um það, að því kynni að verða frestað að veita fé til þessara skóla og þeir þar af leiðandi ekki stofnaðir. En þá lýsti hæstv. menntmrh. því yfir, að það væri með öllu ástæðulaust að óttast slíkt og ríkisstj. mundi leggja til, að fjárveitingar kæmu til þessara skóla á næstu ári. Engu að síður var þetta orðalag numið úr frv. í hv. Nd., en með fullu samþykki hæstv. menntmrh. Síðan var þetta frv. samþykkt einróma í báðum d. þingsins.

Það virtist því vera útilokað með breytingunni á frv. og yfirlýsingu hæstv. menntmrh., að nokkur smuga væri til þess að fresta byrjunarframkvæmdum við þessa skóla lengur en til næsta árs. Nú liggur fjárlagafrv. fyrir Alþ., og eru þar m.a. till. um fjárveitingar um menntaskóla á Ísafirði og Austurlandi í samræmi við yfirlýsingu hæstv. menntmrh. Hæstv. fjmrh. gerði þessar fjárveitingar að umtalsefni í fjárlagaræðu sinni, eins og mönnum er kunnugt, og í þeirri ræðu segir hæstv. fjmrh. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta :

„Á síðasta þingi var samþ., að reistir skyldu menntaskólar á Austurlandi og Vestfjörðum. Að sjálfsögðu kemur ekkí til mála að hefja byggingu þeirra skóla, fyrr en viðunandi ástand er fengið í sambandi við starfsemi hinna menntaskólanna. Engu að síður hefur þótt rétt að taka upp nú í fjárlög næsta árs byrjunarfjárveitingar til þessara væntanlegu skóla auk nokkurrar hækkunar á fjárveitingu til framkvæmda við hina menntaskólana, og er þá gengið út frá, að fyrst um sinn verði þessum fjárveitingum varið til að hraða þeim framkvæmdum, sem eru í gangi, en síðan endurgreiddar, þegar hafizt verður handa um byggingu nýrra menntaskóla.“

Hér virðist mér, að ekki sé talað neinni tæpitungu, heldur sagt fullum fetum, að það komi ekki til mála að hefja fyrst um sinn byggingu þessara skóla. Það virðist því í fljótu bragði vera óþarfi að spyrja, hvort þetta sé ákvörðun ríkisstj. En þess her þó að gæta, að hæstv. menntmrh., sem mál þetta heyrir undir, hefur ekki mér vitanlega látið heyra eitt einasta orð frá sér um það, að honum hafi snúizt hugur í þessu máli, að hann ætli að ganga gegn lögunum frá í vor og þeirri yfirlýsingu, sem hann gaf þá. Hann hefur ekkert gefið í skyn mér vitanlega um það, að það komi ekki til mála að hefja byggingu þessara skóla.

Til þess nú að taka af öll tvímæli í þessu máli hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp. Þótt fsp. og væntanleg svör við henni gildi að sjálfsögðu jöfnum höndum fyrir menntaskóla á Austurlandi og menntaskóla á Ísafirði, hef ég látið mér nægja að spyrja um væntanlegan menntaskóla á Ísafirði með þessari fsp.