03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (3076)

44. mál, bygging menntaskóla á Ísafirði

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur enga ákvörðun tekið um að fresta fyrst um sinn að hefja byggingu menntaskóla á Ísafirði. Hins vegar gefur auga leið, að framkvæmdir við undirbúning og byggingu menntaskóla samkv. gildandi l. um menntaskóla fara eftir þeim fjárveitingum, sem veittar eru til þessara byggingaframkvæmda hverju sinni á fjárl. Byggingarmál menntaskólanna í heild munu koma til umr., athugunar og afgreiðslu í sambandi við afgreiðslu þessa hv. þings á fjári, fyrir árið 1967. Í þessu sambandi þykir mér rétt að skýra hv. þm. frá nokkrum atriðum í samlandi við aðstöðu til menntaskólanáms og menntaskólabyggingar á undanförnum árum og þeim framkvæmdum, sem á döfinni eru eða fyrirhugaðar eru í þessum efnum. Ég hygg, að það geti orðið öllum hv. þm. til glöggvunar og aðstoðar við það að mynda sér skynsamlega skoðun á því heildarmáli, sem hér er um að ræða.

Í vetur eru nemendur í menntaskólunum í Reykjavík, á Akureyri og Laugarvatni samtals 1658, auk þess eru nemendur í lærdómsdeild Verzlunarskóla Íslands 60, þannig að við hreint menntaskólanám eru 1718 nemendur í vetur. Ég kem síðar að kennaraskólanum og náminu þar. Í vetur eru 1718 nemendur, sem beinlínis búa sig undir stúdentspróf í þeim fjórum skólum, að kennaraskólanum frátöldum, sem hreinan rétt hafa til þess að brautskrá stúdenta. Fyrir 10 árum var tala nemenda í menntaskólunum í Reykjavík, á Akureyri og Laugarvatni 726. Þá voru 43 nemendur í lærdómsdeild verzlunarskólans, svo að heildartala nemenda við menntaskólanám var fyrir 10 árum 769, en hefur nú aukizt upp í 1718, þ.e. mun meira en tvöfaldazt. Í þessu sambandi er þó rétt að leggja sérstaka áherzlu á, að þrátt fyrir þessa gífurlegu fjölgun nemenda við menntaskólanám, hafa allir nemendur, sem staðizt hafa inntökupróf í menntaskóla, átt kost á skólavist í menntaskóla og þar með kost á því að ljúka stúdentsprófi.

Ástæðan til þess, að hægt hefur verið að taka við þessum gífurlega aukna nemendafjölda á menntaskólastiginu, er sú fyrst og fremst, að miklar byggingarframkvæmdir hafa staðið yfir og verið lokið á menntaskólastiginu. Við menntaskólann í Reykjavík er nú nýlokið að byggja kennsluhúsnæði, sem að rúmmetratali er mun stærra en hið gamla hús skólans, og hefur þessi bygging þegar verið tekin í notkun. Menntaskólinn í Reykjavík hefur því nýlega verið meira en tvöfaldaður að stærð og þó miklu meira en tvöfaldaður að gæðum skólahúsnæðisins. Í hinni nýju byggingu menntaskólans í Reykjavík eru á efri hæð 4 kennslustofur auk fyrirlestrasalar, sem rúmar a.m.k. 50 nemendur, enn fremur kennaraherbergi, bókaherbergi og geymslur. Á neðri hæðinni eru 3 stórar kennslustofur, kennarastofa og vinnu- og geymsluherbergi, en í kjallaranum er aðstaða til matarneyzlu og til félagsstarfsemi. En þessar stofur í hinni nýju og stóru menntaskólabyggingu eru fyrst og fremst sérkennslustofur, sem búnar eru fullkomnustu tækjum til þeirrar sérkennslu, sem um er að ræða, sem völ hefur verið á. Stærð nýbyggingarinnar er um 5000 rúmmetrar, en gamla húsið er 4450 rúmmetrar. Gert er ráð fyrir, að þetta nýja skólahús kosti 27 milljónir króna.

Þá hefur verið hafin bygging nýs menntaskóla í Reykjavík, Hamrahlíðarskóla svokallaðs, og á fyrsti áfangi þess skóla að vera nothæfur haustið 1966 eða næsta haust. Er þar um að ræða 6 kennslustofur auk kennarastofu og skrifstofu. Heildarkostnaður við þennan fyrsta áfanga, bæði byggingarkostnaður, húsgögn og kennslutæki, er áætlaður rúmar 12 millj. kr. Annar áfangi Hamrahlíðarskólans, sem gert er ráð fyrir að hefja byggingu á árið 1966, er áætlað að kosti 25 millj. kr., bæði byggingarkostnaður, kostnaður við húsgögn og kennslutæki. Unnið verður að því, að 2. áfanga verði lokið haustið 1967. Í 2. áfanga eru 10 kennslustofur, og eru það einkum sérkennslustofur, sem verða mun dýrari í byggingu en 1. áfangi. Er þannig ætlunin að halda áfram byggingu Hamrahlíðarskóla, unz honum er að fullu lokið, en stefnt er að því að byggja skólann í áföngum, þannig að húsnæðið yrði tekið í notkun, jafnóðum og byggingunni þokar áfram.

Að því er varðar menntaskólann að Laugarvatni er þetta að segja: Þegar hefur verið ákveðið að stækka menntaskólann að Laugarvatni um helming, þannig að hann verði skóli fyrir 200 nemendur. Í því skyni er ráðgert að byggja þar á næstu 5 árum nemendaíbúðir, sem geta gert þessa stækkun skólans mögulega. Verður menntaskólinn að Laugarvatni því heimavistarskóli fyrir 200 nemendur. Upphaflega hafði hús menntaskólans að Laugarvatni verið reist handa héraðsskólanum, en menntaskólinn fékk það til sinna nota, þegar skil voru gerð milli þessara skóla og menntaskólinn að Laugarvatni formlega stofnaður.

Að því er varðar menntaskólann á Akureyri hefur á undanförnum árum verið reist þar heimavistarhús. En sjálft kennsluhúsnæðið er orðið gamalt og of lítið og þarf bráðnauðsynlega að endurnýja það alveg á næstunni og byggja sérkennsluhúsnæði í þágu menntaskólans á Akureyri, eins og gert hefur verið við menntaskólann hér í Reykjavík. Er í ráði að byggja sams konar sérkennsluhúsnæði við menntaskólann á Akureyri og er í nýbyggingunni hér í Reykjavík og jafnvel að nota sömu teikningu og þar hefur verið byggt eftir.

Þá er rétt að geta þess, að tiltölulega nýlokið er byggingu nýs húss fyrir kennaraskólann. Eru í því húsi 13 almennar kennslustofur og 6 sérkennslustofur, og er þá talið með það kennsluhúsnæði, sem heyrir til Æfinga- og tilraunaskólanum. Þessi bygging er 9940 rúmmetrar, og kostnaður við hana er nú orðinn samtals um 44 millj. kr. Á þessum vetri eru í kennaraskólanum 397 kennaranemar, en auk þess eru í byggingunni að staðaldri 26 nemendur úr öðrum sérskólum, húsmæðrakennaraskólanum og kennaradeild tónlistarskólans og að auki 24 siglingafræðingar. Í Æfinga- og tilraunaskólanum er nú 181 barn við nám. Skólinn flutti í þetta nýja húsnæði haustið 1962, en veturinn áður höfðu verið í kennaraskólanum 144 kennaranemendur og 40 börn við nám á vegum skólans. Á þessum þrem vetrum hefur því kennaranemum í kennaraskólanum fjölgað úr 144 í 397, eða fjölgað um 253, og börnum í Æfinga og tilraunaskólanum hefur fjölgað úr 40 í 181, eða um 141 barn. Í þessu sambandi er þess að geta, að í hinum nýju l. um kennaraskólann er hann jafnframt gerður að menntaskóla, þ.e. hefur rétt til að brautskrá stúdenta með fullum stúdentsréttindum, þ.e. ótakmörkuðum, venjulegum aðgangi í háskóla, að loknu eins vetrar námi til viðbótar almennu kennaranámi.

Þá er og að geta um tækniskólann, sem að verulegu leyti er á menntaskólastigi, þ.e. veitir hliðstæða kennslu og veitt er í menntaskólum, þótt auðvitað á sérsviði sé, þ.e. tæknimenntunarsviðinu. Nemendur í hinum nýja tækniskóla eru nú 83, þar af 36 í fyrri hluta, 47 í undirbúningsdeild, og auk þess eru 9 nemendur í undirbúningsdeild á Akureyri. Tækniskólinn hefur til umráða 6 kennslustofur, að mestu leyti í nýbyggingu, sem byggð hefur verið fyrir hann í tengslum við vélskólann, og hefur 3.8 millj. kr. verið varið til stofnkostnaðar tækniskólans, en auk þess greiðir skólinn nokkra húsaleigu, bæði í Reykjavik og á Akureyri.

Þessar miklu framkvæmdir, sem á döfinni hafa verið undanfarin ár, fyrst og fremst í þágu menntaskólans í Reykjavík, kennaraskólans og tækniskólans, hafa gert kleift að veita viðtöku þeirri gífurlegu fjölgun nemenda á menntaskólaaldri. sem ég gat um áðan og á s.l. 10 árum hefur numið úr 769 upp í 1718, að stúdentsefnum í kennaraskólanum og tækniskólanemendum þó frátöldum.

En þótt hægt hafi verið að sjá öllum nemendum, sem staðizt hafa inntökupróf í menntaskóla, fyrir skólavist og svo verði að sjálfsögðu að vera áfram og ávallt, ber þó brýna nauðsyn til þess að auka heimavistarhúsnæði við menntaskóla. Einmitt þess vegna var ákveðið að stækka menntaskólann að Laugarvatni um helming og halda honum að sjálfsögðu sem heimavistarskóla, og jafnframt var ákveðið, að hinir nýju menntaskólar á Vestfjörðum og Austfjörðum skyldu vera heimavistarskólar. Hversu fljótt verður hafin bygging þeirra skóla og hversu hratt þeir skólar verða byggðir, fer, eins og ég sagði í upphafi, að sjálfsögðu eftir fjárveitingum til þessara þarfa, en áherzla mun verða á það lögð, að þær framkvæmdir geti hafizt sem fyrst og gengið sem bezt.